luxatio hugans

awakening

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Út að hjóla með Hjálmari

Það koma þær stundir í lífi sérhvers manns sem geta misskilist ef inni á heimili hans er filippeysk húshjálp.
Eins og um daginn þegar ég var nýkomin úr baði og kem fram með handklæði utan um mig og á hausnum. Kemur þá ekki hann Baldur sem vantaði eitthvað. Við spjöllum casually á meðan hann reddar sér því sem hann kom til að ná í og svo kjassar hann Ester og Ingvar og fer svo. Þegar hann er farinn þá lítur Lydia á mig og spyr: “Who was that man?” Og þá átta ég mig á því að sjálfsagt lítur þetta ekki neitt voðalega eðlilega út.
Annað dæmi, er frá því í morgun. Þá hafði Ingvar komið upp í til mín í nótt og lá ég afar aðþrengd, í grunnum svefni á milli þeirra feðga. Það kom svo að því að ég fékk nóg af skönkunum hans Ingvars og fór frammúr og skreið upp í hans rúm. Ég var bara einfaldlega of syfjuð til að drösla sofandi, þungum krakka þangað. Nú svo í morgun þá kom Lydia inn í Ingvars herbergi eins og hún er vön, kveikti ljósið, stóð í dyragættinni og horfði á mig í rúminu hans Ingvars í smástund. Svo slökkti hún ljósið aftur, fór fram og lokaði hurðinni. Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að ímynda sér hvað hún hefur hugsað.