luxatio hugans

awakening

sunnudagur, mars 12, 2006

Ónefni banka

Voðalega finnst mér þetta nýja nafn, Glitnir, eitthvað asnalegt. Kallið mig gamaldags, en mér finnst að nafn banka eigi að enda á banki.
Á mbl.is stendur eftirfarandi: Við vorum í þeirri einstöku stöðu að eiga gott íslenskt nafn sem er jafnframt þekkt vörumerki, Glitnir, sem uppfyllir öll þau skilyrði sem prýða gott nafn; Það hefur jákvæða merkingu í hugum Íslendinga, á sér sögulega skírskotun, er bæði íslenskt og norrænt í senn, er auðvelt í framburði á helstu tungumálum og inniheldur eingöngu alþjóðlega stafi.” Hið nýja nafn á rætur að rekja til Norrænnar goðafræði en í Gylfaginningu segir frá Glitni sem var heimili Forseta, sonar Baldurs og Nönnu. Sagan segir að þaðan hafi allir gengið sáttir.
Já, hver þekkir ekki hina gömlu góðu dæmisögu um heimili Forseta gamla?? Þó verð ég að viðurkenna að ég tengi bara við fjárfestingafyrirtækið, sem gerði fólki sem ekki átti bót fyrir boruna á sér, kleift að keyra um á dýrum jeppum. Og það er ekkert sérstaklega jákvæð merking, ekki í mínum huga allavega. En það er eflaust fullt af fólki sem finnst það jákvætt. Mér finnst þetta bara svo sérkennileg þróun hjá íslenskum fyrirtækjum þessi síðustu misseri að breyta nöfnum og einkennismerkjum, sbr. gamla KEA merkið. Það er eins og það þyki ekkert töff að eiga sér langa sögu. Í mörgum öðrum löndum þykir það einmitt mjög töff, að fyrirtæki eigi sér langa sögu. Það er til tákns um stöðugleika fyrirtækisins. En ekki á Íslandi. Enda erum við alltaf svo voðalega á tánum þegar kemur að tísku og nýjungum. Nú þurfum við bara að hafa okkur öll við að muna hvaða fyrirtæki heita hvaða nýju nöfnum og þá getum við öll verið töff saman í nýju álheilgöllunum sem verða brátt einkennisbúningar þessarar þjóðar.