luxatio hugans

awakening

mánudagur, maí 29, 2006

Kosningar

Við Doddi fórum að kjósa í Hlíðaskjóla á laugardaginn. Ég var í gallabuxum og lopunni minni á leið á Baró að læra. Ég átti hreinlega ekki von á því að það kæmi til þess, að ég færi að skammast mín fyrir útganginn á mér. Menn voru alveg glerfínir að kjósa. Sérstaklega eldra fólk. Þegar ég beið í röðinni þá staulast gleiðspora, glerfínn, aldraður maður framhjá mér sem leiddi konuna sína. Ég klökknaði næstum yfir því hvað þau voru krúttleg, en var fljót að kyngja þeim kekki, þegar gaurinn fer að skammast í einum eftirlitsmanni kosninganna. Kornungri stelpu með ekkert augljóst hlutverk en barmmerki eftirlitsmanns engu að síður. Gamli fer að krefja stelpuna svara við því, hvernig sé hægt að ætlast til þess að sjóndapurt fólk sjái á þessa kosningaseðla. Þegar stelpan svara litlu þá æpir kall: "Þetta eru mannréttindabrot!!"
Kallinn byrjar svo að staulast út með kellu sinni og ég fer inn í klefann og kýs. Þegar ég kem út á planið fyrir framan Hlíðaskóla, þá er kallinn að setjast undir stýrið á glænýjum Subaru Forrester. Það er flott. Of blindur til að kjósa en sér prýðilega frá sér í umferðinni.