Af börnum
Ingvar samdi lag í gær. Hann sat við píanóið með nótnablöð, spilaði nokkra takta í einu og páraði svo á nótnablaðið. Hann merkti g-lykil og f-lykil, setti inn taktmerki og skrifaði þagnir á viðeigandi stöðum. Lagið inniheldur að sjálfsögðu tví-, þrí-, fer-, og fimmundir og er spilaði með báðum höndum. Þegar tónsmíðunum var lokið spilaði barnið lagið sem var á nótnablaðinu. Lagið heitir "Fuglinn gargar". Nú ætla ég að vera alveg hógvær þegar ég segi ykkur hvað það er gaman og gefandi að hafa alið af sér snilling inn í þennan heim. Svona svipað og mömmu hlýtur að líða. En hún er jafn hógvær og ég svo hún talar lítið um það.
Hitt dýrið, sem svarar kallinu Ester Helga, byrjaði í aðlögun á leikskólanum í dag. Hún varð frekar æst af spenningi yfir öllu sem þar var að sjá og móðir hennar var óðara gleymd. Þegar þessi lögboðni aðlögunarklukkutími var liðin og ég sagði við Ester að nú færum við heim, þá braust út í henni villidýrið sem sagði NEI. Hátt og frekjulega. Það sem er jákvætt við þetta er að stúlkan upplifir ekki höfnun við það að vera komið fyrir á stofnun á daginn. Enginn aðskilnaðarkvíði eða PTSD þar á ferð. Verígúd.
Hins vegar er Lydia hálf verkefnalaus hálfan daginn núna svo ef einhver vill láta þrífa fyrir sig hús, þá hafið samband.
<< Home