luxatio hugans

awakening

laugardagur, nóvember 04, 2006

Fríða og Dýrið

"Hvernig segi ég hálfviti á sænsku?" spurði ég Þórodd eiginmann minn, við matarborðið í kvöld. Spurningin spratt upp frá þrætum sem eru tíðar á þessu heimili þessi misserin. Doddi vill fara að læra í Sverige. Það vil ég ekki. Hvers vegna mér þótti mikilvægast að læra að hrópa ókvæðisorð að Svíum er aukaatriði í sögu þessari. Aðalatriðið er að Doddi vissi ekki hvernig maður segir hálfviti á sænsku. Maðurinn bjó í landinu í 5 ár og á þeim tíma kallaði hann engan hálfvita, fífl eða asna, sem voru varaorðin sem ég greip til. Humm. Hvernig stóð á því að þessi fágaði maður fór að búa með þessari brútal gellu? Beauty and the Beast. Doddi er Beauty. Ég er Beast. Á meðan ég sönglaði: "Tale as old as time...." smíðaði ég hina fullkomnu konu fyrir Þórodd í huganum. Hún er þessi týpa sem er rosalega grönn eftir alla hreyfinguna sem hún hefur stundað allt sitt líf, en er samt átakanlega illa vaxin. Hún myndi aldrei lita á sér hárið og aldrei raka sig að neðan. Hún er úber hress og jákvæð, ALLTAF. Hún er með einhverja Bs. gráðu og er aðaldrifkrafturinn í Laugarvegsgöngu vinnustaðarins ár hvert. Hún klæðir sig ávallt eftir veðri og nælonsokkabuxur eru afþurrkunarklútar í hennar orðabók. Hennar uppáhalds og eina skótau eru uppreimaðir fjallgönguskór og hún sér engan tilgang í því að ganga á hælum, það er jú óþægilegt. Hún væri pottþétt að æfa sig fyrir VASA með honum því það væri áskorun henni að skapi. Hún horfir ekki á sjónvarp, það er tímasóun. Hún heldur ekki úti bloggsíðu því hún hefur ekkert að segja. Hún flytur til Svíþjóðar glöð í bragði því þar er alltaf hægt að komast á gönguskíði. Hún spyr ekki hvernig hún eigi að segja hálfviti á sænsku.
Mikið er ég glöð fyrir Þóroddar hönd að ég náði honum áður en hann hitti þessa sjúklega boring gellu.