Nú verð ég að skrifa eitthvað sjúklega fyndið svo að þið haldið ekki að ég sé dauð, eða að beita ykkur þagnarmeðferðinni. Ég er hvorugt. Ég get bloggað núna því það vill enginn bóka sér tíma hjá mér í dag. Hvaða rugl?! Svakalegur diagnostiker hér í boði fyrir bæjarbúa! Líklega labba ég bara í bakaríið og angra bókhaldarann hérna hinum megin við götuna, en það er einmitt sjálfur Dómari Dauðans, ofurhnakkinn og brúðkaupssöngvarinn sjálfur, Kristín Harpa Hálfdánardóttir sem telur fram hérna í götunni. Það er ágætt svosem að hafa hana í nágrenninu. Þá þarf ég ekki að sitja alein í hádegismat og þykjast vera niðursokkinn í DV svo hinir sjái ekki tárin í augunum á mér sem spretta sjálfkrafa fram vegna einmanaleikans og ónytjungskenndarinnar.
Við fórum með Gaggsa á Shellmót í Eyjum um síðustu helgi en óhætt er að segja að allt síðasta ár hafi snúist um þetta blessaða mót. Endalausar fjáraflanir og fundahöld og nú er þetta afstaðið.... í bili. Hann er nefnilega á yngra ári í 6. flokki svo það má búast við að næsta ár fari í þetta líka. Enda setti Ingvar sér markmið fyrir Shellmót að ári. Hann kom heim af lokahófinu þar sem tilkynnt var Shellmótsliðið, skotfastasti leikmaðurinn, hver hélt lengst á lofti, markahæstir o.s.frv. Já, hann var með glampa í augunum þegar hann tilkynnti mér að hann ætlaði að vinna hamborgarakappátið á Shellmótinu á næsta ári. Og hann mun ábyggilega standa við það. Ég elska drenginn minn ekkert minna en mæður drengjanna í Shellmótsliðinu, en þvílík djöfulsins stemning sem það hlýtur að vera að að hvetja með hjartanu í stað skyldurækni á úrslitaleik Shellmótsins. En ég verð við kappátsborðið ef þið þurfið að ná tali af mér.
Svo fékk drengurinn að halda síðbúna afmælisveislu í Keiluhöllinni á þriðjudaginn. Ekki var hægt að halda hana fyrr vegna vanrækslu foreldranna. Ég mæli 100% með þessu. Afslappaðasta barnaafmæli sem ég hef nokkurn tíma haldið. SNILLD! Og ekkert svo dýrt þannig séð.
Jæja verð að hætta. Kannski hringir nefnilega einhver í mig í símatímanum. Annars segi ég upp!