luxatio hugans

awakening

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Umferðaröryggi

Að mínu mati er það gáleysislegur framúrakstur sem er það hættulegasta við akstur á þjóðvegum landsins. Því veldur tvennt. Fáránlegir vegir í fyrsta lagi og fólk sem keyrir of hægt í öðru lagi. Það er ekki fólk sem keyrir á 100-110 sem er að valda hættum á þjóðvegunum. Það er liðið sem dólar sér í 70-80 sem veldur því að fólk gefst upp á endanum og reynir framúrakstur við ótryggar aðstæður. Mér finnst það bara nokkuð skiljanlegt. Sjálf tek ég aldrei frammúr nema ég sjái engan bíl svo langt sem augað eygir, en stundum er ég orðin æf af road rage, sérstaklega á milli Hveragerðis og Selfoss þar sem er ekki séns að taka frammúr og fólk virðist hafa sérstaka unun af því að keyra á 70.
Það er sannfæring mín að tvöföldun þjóðvega og hækkun leyfilegs hámarkshraða í 100 amk. muni draga úr banaslysum í umferðinni.
Og þá ætti umsvifalaust að sekta slóða á vinstri akrein og sömuleiðis bíla með tengivagna.
Ohh hve lífið væri dásamlegt ef allir færu að tilmælum mínum.

Álagningaseðlar

Það má vel vera að Hreiðar Már sé með viðurstyggilega háar tekjur, en hann borgar þó allavega viðurstyggilega há opinber útgjöld. Ætli hann hafi ekki borgað fyrir menntun og læknisþjónustu minnar fjölskyldu á árinu. Þeir þrír hæstu greiddu milljarð í opinber gjöld. Það er þokkaleg samfélagsþjónusta. En athygli mína vakti að Björgólfur Thor greiddi ekkert, ef ég skyldi fréttina rétt. Djöfull er það lélegt!!

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Brúðhjón ársins 2007

Í útvarpinu glymja auglýsingar í ofur hressri stemningu þar sem auglýst er eftir: "Brúðhjónum Smáralindar ársins 2007!"
Fyrirgefið en þetta hlýtur bara að vera "Bolurinn" í hnotskurn! Bolir búsettir í póstnúmerum 109 og hærri, flykkjast í Smáralind að skrá einhverja gjafalista til að eiga möguleika á því að verða kjörin Brúðhjón Smáralindar 2007. Ég get ekki varist aumingjahrollnum sem skríður eftir mér allri við tilhugsunina. Ég myndi frekar skjóta mig í hausinn en að taka við slíkri "viðurkenningu".


Hér má sjá mynd af hinum hamingjusömu brúðhjónum þegar þau fá tilkynninguna um að þau hafi verið hin lánsömu. Eins og sjá má eru þau sæl með titilinn.



Brúðhjón Smáralindar ársins 2007

Afsakið fordómana

en ef þið ætlið í skyndibitasjoppu þá ættuð þið að reyna að fá (skrifist: þybbnasta, lesist: feitasta) einstaklinginn sem starfar í sjoppunni til að afgreiða ykkur. Þetta er einfaldlega liðið sem gerir hamborgara með nákvæmlega fullkominni samsetningu allra þátta og útkoman er djúsí, teistí börger. Það er ALLT eins og það á að vera. Frá kryddinu til sósumagnsins. Uhm mh mh.

Annars borða ég ekki skyndibita. Ég er mjó.

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Ólund dagsins

Ég tilnefni Heiðar Austmann sem verðugasta Íslendinginn í fyrsta heilatransplantið sem framkvæmt verður. Það mun auðvelda transplantið mjög að ekki er neinn heili fyrir sem þarf að fjarlægja áður en hinum nýja heila verður komið haganlega fyrir. Tel ég að þessi aðgerð muni verða mannkyninu í heild til góðs.

mánudagur, júlí 23, 2007

Hlutir sem eru algjörlega off

ég fíla alls ekki tilhugsunina um það, að ég eigi eftir að drepast. Óumflýjanlegt vissulega en ósmart engu að síður.

mánudagur, júlí 16, 2007

Guddublogg

Hildur hringdi í mig áðan og sagði mér að hún hefði verið klædd eins og Tyrkja-Gudda að taka á móti sjúklingum í dag í Vestmannaeyjum. Svona er Hildur í hnotskurn. Heiðrar forfeður okkar og mannkynssöguna og er flippuð í bland. Hress.

Hundablogg

Ég er nú með meiri mannasiði en svo að ég gat stillt mig um að hæðast að kertavökunni sem haldin var víðsvegar um landið til að minnast Lúkasar, sem úbs, er á lífi bæðevei!! Og úbs, búið að fremja mannorðsmorð á einhverjum grey dreng sem greinilega kom hvergi nærri meintum dauða Lúkasar. Fólk, verið róleg með dramað! Heisús hvað fólk hlýtur að fá mikinn aumingjahroll yfir því að hafa sést grátandi í fjölmiðlum að leggja blóm á einhvern ljósastaur. Allt vegna sprelllifandi, lítils kjölturakka sem vill bara ekkert láta ná sér aftur. NÚNA má hæðast að kertavökunni!

sunnudagur, júlí 15, 2007

ICD 10

greiningarkerfið er stundum ansi fokked vægast sagt. Um daginn var ég að leita að greiningu fyrir flóabit og fann ekki en fann þess í stað greininguna:
W58.5 BITIN(N) EÐA LOSTIN(N) AF KRÓKÓDÍL EÐA ALLÍGATOR - Á VIÐSKIPTA- OG ÞJÓNUSTUSVÆÐI
Þetta fannst mér mjög fyndið og hef flissað reglulega af þessu síðan. Nú í kvöld var ég svo að ræða þetta við félaga mína hér sem fannst þetta misfyndið og spurði Ragnar sem er fróður mjög um ýmsa gagnslausa hluti hver væri munurinn á krókódílum og allígatorum. Örvar, sem er sligaður af reynslu sinni sem mediciner, fannst þetta frekar læknanemalegt að vera að hlæja að fyndnum icd-10 greiningum og fylgdist önugur með okkur ræða að munurinn á þessum tveimur dýrum væri sitthvor tegundin og stærðarmunur. Þar til vall upp úr honum: "Og hugsa sér, samt þarf maður að nota sömu greininguna fyrir bæði dýrin."

Grillpartý

Eftir vel heppnaðan sólardag var haldið grillpartý. Margt áhugavert var rætt, m.a gott Beistan, sem er raunverulegt hugtak, um stemninguna um borð í þotum rétt áður en þær steypast til jarðar, tæknifrjóvganir lesbía, D-vítamín skort af völdum Loréal sjálfbrúnkukrems og hvort sveppasýkingar eru algengari í rökuðum eða órökuðum píkum. En setningu kvöldsins á Jóhann Vilhjálmsson þegar hann var að lýsa útliti manns á þennan veg: "Hann lítur helst út fyrir það að vera afkvæmi systkina!"

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Innilokunarkennd

eiginmanns míns mun líklega halda mér á lífi um óákveðin tíma. Hann hafði það nefnilega að orði þegar hann kom heim af Hrauninu í gær að það væri líklega best að myrða ekki mann, hann myndi drepast úr innilokunarkennd í gæsluvarðhaldsklefunum. Alright! Ég er nefnilega búin að sofa með annað augað opið frá því hann vildi endilega kaupa handa mér himinháa líftryggingu í fyrra, undir yfirskininu: "fjárhagslegt öryggi barnanna". En þá get ég kannski farið að sofa rórra núna vitandi að gæsluvarðhaldsklefarnir eru honum ekki að skapi. Annars er hann búinn að vinna ansi duglega í því að telja heiminum trú um að hann sé ótrúlega ljúfur náungi. Líklega kæmist hann upp með það að stúta mér.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Af feðraorlofi

Náttúran setti titties á annað kynið af ástæðu. Annars gætu báðir foreldrar mjólkað. Þetta feðraorlof er að ala af sér aumingja.

Af fréttum

Jú nú ganga Pólverjar og Lettar um landið og drepa Álftafjölskyldur sem hingað til hafa glatt konur sem ganga með stafi í Árbænum. Eða það er ekki öruggt reyndar en það fór ekki á milli mála hvað þessum veiðiverði í fréttum Stöðvar tvö í kvöld fannst um "þetta fólk" sem nú er verið að flytja hingað inn.
Og þessi frétt var stuttu á eftir fréttinni um það hvað útlendingum utan EES svæðisins væri gert erfitt fyrir að nálgast atvinnu og dvalarleyfi hér á landi. Frétt, full vandlætingar og samúðar.
Íslendingar eru hræsnarar og rasistar.

mánudagur, júlí 09, 2007

Hlutir sem eru algjörlega off

Þegar maður keyrir úr 23 stiga hita, logni og glampandi sól á Selfossi, til Reykjavíkur í 13 stiga hita og dumbung er algjörlega off að hafa ekki verið með sundföt til að geta sofið á sundlaugabakka á Selfossi í vaktafríinu sínu.

laugardagur, júlí 07, 2007

Umburðarlyndi og kærleikur

eru einkunnarorð mín.

Hópsálin

Í dag, kæru vinir, hef ég ákveðið að ganga í hjónaband. Þið, sem ekki verðið í öðrum brúðkaupum í dag, eruð hjartanlega velkomin að samfagna með mér á heilsugæslustöðinni á Sefossi. Doddi verður einnig viðstaddur. Kaffi úr vélinni. Einar Bárða leikur fyrir dansi. Hlakka til að sjá ykkur.

föstudagur, júlí 06, 2007

Blessaðir Suðurnesjamenn

Hlið við hlið eru í Morgunblaðinu í dag, yfirlýsingar frá Skagamönnum og Keflvíkingum. Yfirlýsing Skagamanna er yfirveguð og kurteisisleg og yfirlýsing Keflvíkinga stútfull af skítkasti og rógburði. Auk þess er hún illa skrifuð og ber það með sér að hafa verið skrifuð í bræði.
Keflvíkingar eru búnir að skíta upp á bak. Og þegar þjálfari Keflvíkinga fór að tala um það í 14-2 í gærkvöldi að hann ætti tvær grátandi dætur heima sem væru búnar að grátbiðja hann að hætta að þjálfa, þá vissi ég hreinlega ekki hvort ég ætti að stökkva af stað og ná í fiðluna eða ælufötuna.
Eitt eiga þeir þó sameiginlegt þessir ágætu þjálfarar ÍA og Keflvíkinga. Það er ekkert sérstaklega öfundsvert að vera afkvæmi þeirra. Glætan að þessar stelpur eigi ekki eftir að fá að heyra af þessu grenjutali það sem þær eiga eftir ólifað. Ójá.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Flugger viðarvörn

Þessi auglýsing er snilld. Mér finnst hún sjúklega fyndin. Og fyndnast finnst mér í endann þegar gaurinn er með hausinn hálfan inni á skjánum með derhúfu sem á stendur Flugger og bætt er málning aftan við. Hey! Það er mjög erfitt að lýsa þessu á skematískan hátt en nú takið þið eftir þessu næst þegar þið horfið á auglýsinguna. Svo verið þakklát fyrir viðleitnina.

Af boltamálum

Ég er algjörlega á bandi Bjarna Guðjónssonar í þessu sirkusmáli öllu. Ég er líka 100% sammála honum að þetta Ajax dæmi sem dregið er upp sem sambærilegt er það ekki vegna þess að viðbrögð Keflvíkinga voru strax frá upphafi óásættanleg. Ef þeir hefðu brugðist kurteisislega við afsökunarbeiðninni sem Bjarni kemur augljóslega með strax eftir að markið er skorað hefði hugsanlega verið hægt að leyfa Keflvíkingum að skora mark óáreittir. Ég hef samúð með Bjarna, hann kom vel fyrir í þessu Kastljós viðtali. Hvort sömu sögu er að segja um föður hans skal ósagt látið.

Ekki dauð

Nú verð ég að skrifa eitthvað sjúklega fyndið svo að þið haldið ekki að ég sé dauð, eða að beita ykkur þagnarmeðferðinni. Ég er hvorugt. Ég get bloggað núna því það vill enginn bóka sér tíma hjá mér í dag. Hvaða rugl?! Svakalegur diagnostiker hér í boði fyrir bæjarbúa! Líklega labba ég bara í bakaríið og angra bókhaldarann hérna hinum megin við götuna, en það er einmitt sjálfur Dómari Dauðans, ofurhnakkinn og brúðkaupssöngvarinn sjálfur, Kristín Harpa Hálfdánardóttir sem telur fram hérna í götunni. Það er ágætt svosem að hafa hana í nágrenninu. Þá þarf ég ekki að sitja alein í hádegismat og þykjast vera niðursokkinn í DV svo hinir sjái ekki tárin í augunum á mér sem spretta sjálfkrafa fram vegna einmanaleikans og ónytjungskenndarinnar.

Við fórum með Gaggsa á Shellmót í Eyjum um síðustu helgi en óhætt er að segja að allt síðasta ár hafi snúist um þetta blessaða mót. Endalausar fjáraflanir og fundahöld og nú er þetta afstaðið.... í bili. Hann er nefnilega á yngra ári í 6. flokki svo það má búast við að næsta ár fari í þetta líka. Enda setti Ingvar sér markmið fyrir Shellmót að ári. Hann kom heim af lokahófinu þar sem tilkynnt var Shellmótsliðið, skotfastasti leikmaðurinn, hver hélt lengst á lofti, markahæstir o.s.frv. Já, hann var með glampa í augunum þegar hann tilkynnti mér að hann ætlaði að vinna hamborgarakappátið á Shellmótinu á næsta ári. Og hann mun ábyggilega standa við það. Ég elska drenginn minn ekkert minna en mæður drengjanna í Shellmótsliðinu, en þvílík djöfulsins stemning sem það hlýtur að vera að að hvetja með hjartanu í stað skyldurækni á úrslitaleik Shellmótsins. En ég verð við kappátsborðið ef þið þurfið að ná tali af mér.

Svo fékk drengurinn að halda síðbúna afmælisveislu í Keiluhöllinni á þriðjudaginn. Ekki var hægt að halda hana fyrr vegna vanrækslu foreldranna. Ég mæli 100% með þessu. Afslappaðasta barnaafmæli sem ég hef nokkurn tíma haldið. SNILLD! Og ekkert svo dýrt þannig séð.

Jæja verð að hætta. Kannski hringir nefnilega einhver í mig í símatímanum. Annars segi ég upp!