luxatio hugans

awakening

laugardagur, maí 03, 2008

Af jólagjöfum


Besta jólagjöf allra tíma eru án efa þessir skór sem ég keypti handa Dodda. Ég og Tinna og Kristbjörg vorum í einhverjum Sex and the City fíling í Soho í haust og að eðli málsins samkvæmt þræddum við skóbúðir. Þar sá ég afar myndarlegan, grannan og ákaflega hýran mann í þessum skóm og hann seldi mér algjörlega hugmyndina um ágæti þeirra. Eitthvað var hann í minna skónúmeri en Þóroddur auk þess og táin þar af leiðandi ekki eins löng.
Skórnir kostuðu eitthvað í kringum litla 550 dollara, það verður eiginlega að fylgja með því sagan verður mun fyndnari þrátt fyrir að venjulega ætti maður náttúrulega að steinhalda kjafti yfir slíkum heimskupörum. En allavega eftir mikið plott kom ég skónum heim án vitneskju Þóroddar og ákvað hress í bragði að sýna Snorra bróður þá. Komin heim til Íslands, í Eskihlíðina og með Snorra bróður sem módel þá urðu skórnir fáránlegir. Hann reyndi að halda haus fyrir mig en svo gat hann ekki meir og lak í gólfið í hláturskasti með skóna eins og flaggstöng uppaf búknum. Þá náttúrulega trylltist ég líka úr hlátri og þegar ég sagði Snorra að þeir hefðu kostað 40.000 kall þá vorum við farin að emja. En tárin voru líka sorgartár, því þarna, korter í jól, fattaði ég að jólagjöfin hans Dodda var ömurleg, en samt of dýr til að kaupa nýja. Ég lét því slag standa. Því miður á ég ekki mynd af svipnum á Dodda þegar hann barði skóna augum en hann lætur sig hafa það greyjið að fara í þá endrum og eins. Myndin er tekin í jólaboði á jóladag hjá mömmu á Dalvík og móðurbræður mínir sendu Dodda eina og eina pilluna. En Doddi þolir það! Hann þolir eitt og annað, það er nokkuð ljóst.