luxatio hugans

awakening

sunnudagur, september 07, 2008

Af þrítugsafmælis Spa

Þegar Begga vinkona varð þrítug í maí (sjitt hvernig tilfinning ætli það sé að vera þrítug?) ákváðum við þrjár, ég, hún og Kristín H, að lyfta okkur eitthvað á kreik af því tilefni. Nú svo leið tíminn án þess að stundaskrár okkar næðu að stemma og í raun orðið styttra í þrítugsafmæli Kristínar Hörpu í nóv og því ákváðum við að lyfta okkur á kreik í tilefni af þrítugsafmælum okkar allra (þó mitt sé í raun á næsta ári - eða þarnæsta, ég man það ekki).
Kristín H pantaði tíma handa okkur í Riverside Spa á Hótel Selfossi og tókum við daginn í gær í það. Þetta var argasta snilld. Aðbúnaðurinn er sturlaður og þjónustan var ýkjulaust sú albesta þjónusta sem ég hef komist í tæri við á þessu landi. Þær gerðu eitthvað smá klúður í sambandið við bókunina í nuddið, eitthvað sem skipti akkúrat engu máli og við vorum algjörlega kúl yfir því, en við fengum allar 50% afslátt af meðferðinni og eins mikla drykki og við gátum drukkið, Kristín fékk fría litun og plokkun og við Begga fría andlitsmaska. Þetta var of mikið. Ég fékk heiftarlegt samviskubit þegar hún gaf okkur ofan á þetta 50% afslátt þegar við gerðum upp, því dagurinn var snilld. Maður á að fá 50% afslátt þegar allt er ömurlegt!
Svo keyrðum við á Þorlákshöfn á Hafið Bláa og vorum æðislega skömmustulegar þegar við játuðum að okkur langaði bæði að panta okkur humarsúpu og grillaðan humar, sem og við gerðum.
Mikið slúðrað og mikið rifjað upp. Einhverra hluta vegna man Kristín fleiri hluti en við Begga, ég skil það ekki, eins og við Begga höfum verið í annarlegu ástandi árum saman og minnið því gloppótt;) En þá er gott að hafa Kristínu til að minna mann á hluti sem gleymdust af ástæðu!
Snilldardagur.