Af líflegum bankaviðskiptum
Ég hef engan hug á að leggja árar í bát (sko sjómannamyndlíkingarnar hjá minni!) hvað mín bankaviðskipti varðar. Ég var að leggja inn 20 evrur í Smáranum, eina bankanum á landinu sem ekki stundar ruglfjárfestingar skv. meilinu sem bankastjórinn sendi frá sér í gær. Ég hef ekki stofnað reikning í þessum banka fyrr þrátt fyrir mikið ónáð og áreiti frá forsvarsmanni bankans. En hví að sitja á 20 Evrum þegar maður getur geymt þær í plastmöppu í herbergi frumburðarins og auk þess fengið vikuleg meil um líðan evranna góðu. Það er gaman að segja frá því að innlánasjóður Smárans samanstendur að mestu leiti af evrum en að mjög litlu leiti af ísk krónum. Hvaða bankar geta aðrir stært sig af svo háu hlutfalli erlends gjaldeyris?
Talandi um ágang frá bönkunum. Síðustu vikur og mánuði hef ég nefnilega fengið uþb eitt símtal í viku frá umhyggjusömum starfsmönnum bankanna sem hafa haft miklar áhyggjur af lífeyri mínum og sparnaði. Prísa ég mig nú sæla að hafa ofnæmi fyrir slíkum símtölum og algjöran skort á nennu að setja mig inn í þessi samtöl. Og algjöran skort á áhuga á peningum ef út í það er farið. Ekki misskilja mig, ég er langt því frá að mála upp þá mynd af mér að ég hafi verið naumhyggju- og sparsöm, öðru nær, ég gengst við mínu óhófslíferni en ég hef þrátt fyrir það akkúrat engan áhuga á peningum sem slíkum eða því að safna að mér feitum sjóðum og tilbiðja Mammon sem minn æðri mátt.
Ég hef því ekki undan neinu að kvarta. Ég skulda minn yfirdrátt eftir sem áður, tapaði engu því ég átti ekkert, menntun mín virðist skyndilega skynsamlegri en fyrir þrem árum........... nei segjum þrem vikum, þegar ég grenjaði undan kjörum lækna. Fólk virðist fá hálsbólgur eftir sem áður og hafa þörf fyrir þjónustu mína, sem er gott fyrir afkomu fjölskyldu minnar, líka hina því hálsbólgan læknast.
Krakkarnir mínir eru sæt, skemmtileg, klár og verður aldrei nokkurn tíma misdægurt.
Verður varla betra en það.
Og ég verð að segja að ég upplifi afslöppun á einhvern fáránlegan hátt. Það er einhvern veginn eins og maður fái loksins frið!
<< Home