luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, desember 10, 2008

Af konum með vestræn vandamál

Ég var að hlusta á konu í morgunútvarpi Rásar 2 á leiðinni í vinnu í morgun. Sú hafði skrifað bók um íranskar konur. Allt gott um það að segja. Þegar hún var spurð að því hvað íranskar konur ættu sameiginlegt með íslenskum konum þá minnist hún á það að alls staðar í heiminum séu konur að glíma við sömu vandamál.
Já, hugsaði ég, eru íranskar konur að glíma við sömu vandamál og ég? Og hvaða vandamál er ég að glíma við? Ég braut heilann og ég komst að því að mitt stærsta vandamál í lífinu er að ég þarf stundum að eiga samskipti við fólk sem er ekki eins og ég vil hafa það. Það gæti svo verið útfærsluatriði hvort það, að fólk sé ekki eins og ég vil hafa það, sé frekja eða vandamál og fer alfarið eftir hugarástandi þess sem færir fram rökin.
Að öðru leiti gat ég ekki fundið neitt í mínu nánasta umhverfi eða andlega lífi sem ég gæti kallað vandamál án þess að vera með meiriháttar ýkjur.
Get ég þar með ályktað að stærsta vandamál íranskra kvenna sé að fólk sé almennt ekki eins og þær vilja hafa það?