luxatio hugans

awakening

föstudagur, janúar 16, 2009

Til minningar um Möggu Odds

Margrét Oddsdóttir var jarðsungin í dag.
Það er svo ótal ótal margt sem mig langar til að skrifa en öll orð sem ég reyni að velja verða einhvern vegin ónóg.
Þó það sé sárt að kveðja þá er ég samt svo ofboðslega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni og fyrir allt sem hún gerði fyrir mig. Það var mín mesta gæfa að hafa fengið rannsóknarverkefni hjá henni á 3. ári og hefði ég ekki getað gert mér það í hugarlund fyrirfram hversu mikill happdrættisvinningur það var í raun og veru.
Ég, sem er í grunninn verkkvíðin og neikvæð, kynntist þarna konu hverrar óbilandi kraftur, jákvæðni og lífsgleði var mjög hrífandi. Ég lærði bara á fyrstu vikunum að hætta að segja að eitthvað væri ekki hægt, það var allt hægt þegar Margrét var annars vegar. Svo reyndi ég það aftur þegar leið að SAGES þingi í Las Vegas, en einhvern vegin var ég samt farin að búa til veggspjald og komin upp í flugvél. Ferðastyrkur? Þeir koma! Og þeir komu.
Ég tek þetta með mér enn þann dag í dag að gera bara hlutina og hætta að hugsa um að gera þá.
Áður höfðum við kynnt sama verkefni á Skurðlæknaþingi Íslands og fórum þá þrjár til Akureyrar og gistum í íbúð sem fjölskylda Dodda átti þar. Það var rosalega skemmtileg ferð með göngu í Kjarnaskógi þar sem við óðum snjóinn upp í nára og ég hélt að ég myndi kafna við að halda við fimmtuga konuna.
Metnaðurinn sem hún hafði fyrir hönd okkar Hildar var líka alveg merkilegur, og hvernig hún kynnti okkur fyrir fólki var með þvílíku stolti, að mér leið verst að ég myndi ekki standa undir lofrullunni.
Það sem hún hló hátt og hvað hún gat verið hávær og hvað hún öskraði stundum á okkur, í kærleika, alltaf í kærleika.
Hún var margar vikur að muna nöfnin okkar Hildar í sundur og sagði lengi: Þú, þarna stelpa! Og hún þarna hin stelpa! Og alltaf flissuðum við Hildur.
Kaffisull drakk hún ekki og labbaði með okkur margar ferðir niður á GG þar sem hún splæsti í almennilegan kaffibolla. Ohh hvað koffeinistinn var óendanlega þakklátur fyrir þær kaffiferðir.
Henni fannst ég líka alltaf svo hokin og ýmist reif mig upp á hárinu ef ég sat eða rak olnbogann í bakið á mér ef ég stóð. "Réttu úr þér stelpa!"
Vandamál voru ekki til og það er fyndið að rifja það upp hvað hún brást alltaf hressilega við öllu. Við Hildur keyptum 3 miða á Mamma Mia í Las Vegas af því að við náðum ekki í hana í síma áður. Svo þegar við náðum í hana og sögðum henni frá miðanum hennar þá var hún búin að sjá þetta í London. En brást samt svo gleðilega við:
"Alda fer með ykkur!"
Uhh hver er Alda?
"Alda hjúkka!! Hún fer með ykkur!"
En reyndar reddaði hún sér svo fjórða miðanum og við fórum allar. Rosa fjör.
Svo bárust þær fregnir heiman að frá Íslandi að Oddur hefði átt að mæta einhvers staðar á vegum skólans og allar buxur voru óhreinar.
Þá lá Möggu hátt rómur. "Hvað haldið þið að hann Jón Ásgeir hafi gert?! HANN FÓR OG KEYPTI NÝJAR BUXUR!" Svo hló hún hrossahlátri og ef íbúar Las Vegas hefðu talað íslensku þá er ég viss um að þar fyrirfyndist ekki sá maður sem ekki vissi núna af þessum kaupum.
Þegar ég var Conn´s uppvinnslunni og HÁS var að tala um mögulega aðgerð þá skreið ég inn til Möggu og vældi: "Magga það á að fara að rífa úr mér nýrnahettu!"
"Já flott!! Þá gerum við það bara!" Ég veit ekki hvaða viðbrögðum ég átti von á öðrum svosem;)
Eftir að við kynntumst betur og hún áttaði sig á aðstæðum okkar Dodda þá fannst henni þetta ótækt. Við þyrftum aðstoð og filippeysk heimilishjálp væri sú besta í heimi. Góðhjartað og duglegt fólk sem hægt væri að treysta 100% fyrir börnum og heimili.
Já okei, mér fannst þetta áhugaverð hugmynd og var jákvæð fyrir henni. Ég átti samt ekki von á því að daginn eftir myndi hún rétta mér mynd af Lydiu og segja: "Hérna, þetta er konan sem ætlar að koma og vinna fyrir þig. Þú þarft bara að sækja um atvinnu og dvalarleyfi fyrir hana!" Hálfu ári seinna var Lydia mætt eftir mörg símtöl og heimsóknir til Jóns Ásgeirs og Möggu eftir aðstoð við frumskóginn sem umsóknarferlið var. Og þegar Lydia var nýkomin og þekkti engan nema Seth frænku sína sem bjó hjá Möggu þá var ekkert sjálfsagðara en að leyfa Lydiu að gista heima hjá sér fyrstu dagana á meðan hún væri að venjast.

Eins og ég sé líf hennar einkenndist það af hrópandi andstæðum persónulegra sigra sem eru merkilegri en hægt er að ímynda sér á sviðum læknisfræðinnar og hins vegar margra áfalla. Barnsmissir, makamissir og það að greinast með ólæknandi sjúkdóm. En með það eins og allt annað þá var hún bara jákvæð og kjarkmikil og aldrei bilbug á henni að finna.
Ég græt vegna þess að ég hefði viljað hafa hana lengur í mínu lífi en líka finnst mér missir heimsins mikill. Af hverju hún með allt sem hún hafði að miðla og gefa af sjálfri sér og átti eftir að afreka svo ótalmargt í viðbót?
Þetta er ekki hægt að framselja nema að því leiti að hún gaf mörgum innblástur að allt væri hægt. Þrátt fyrir að syrgja það að hafa ekki náð að fara í þessa síðustu kaffiheimsókn sem ég var alltaf á leiðinni í þá er ég svo þakklát fyrir að hafa náð að þakka henni fyrir allt sem hún hafði gert fyrir mig í útskriftinni minni í vor.
Ég ætla ekki að lesa þetta yfir aftur og ritskoða þetta. Ég skrifaði þetta með hjartanu og þetta er mín minningagrein. Mogginn fékk ritskoðuðu útgáfuna;)


Hláturskast í uppsiglingu;)

Í Las Vegas.

Eftir Mamma Mia fórum við og borðuðum á Paris hótelinu

Hildur og Alda

Virðulegt lokahóf SAGES