Af Lottu
Ég er búin að vera að lesa Lotta flytur að heiman fyrir Ester síðustu kvöld. Ég er ekkert sérstaklega seinlesin, bókin er bara löng. Nema hvað að þetta er alveg hrikalega fyndin bók. Miklu fyndnari en myndirnar því bókin fangar mjög vel sauðþráan þankagang Lottu sem hlýtur að vera óþekkasti krakki í heimi. Ég hef því ítrekað fengið óstöðvandi hlátursköst við lesturinn.
Í kvöld háttaði ég svo Ester í mitt rúm því Doddi er á næturvakt og þá er notalegt að hafa lítinn svefnfélaga. Þar sem ég er svo að byrja á næsta kafla í Lottu þá lét Ester mig heyra það að ef ég ætlaði að fara að hlæja mikið þá færi hún yfir í sitt rúm!! What?! Hvar er húmorinn í þessum krakka?
Smá brot:
-Lotta! Ætlaru ekki að koma niður og drekka kakóið þitt, kallaði mamma niðri í stiganum.
-Já þú heldur það kannski, tautaði Lotta og hreyfði sig ekki.
-Svaraðu mér Lotta, kallaði mamma. Ætlarðu að drekka kakóið þitt eða ekki?
Nú hýrnaði yfir Lottu. Mamma mátti standa þarna og spyrja eins oft og hún vildi hvort Lotta ætlaði að drekka kakóið sitt. Lotta ætlaði ekki að svara og henni fannst eitthvað kitlandi við það að svara mömmu ekki þegar hún kallaði.
En hún var orðin svöng og hana langaði talsvert í kakóið og þegar hún hafði beðið mátulega lengi tók hún Bangsa undir handlegginn og lagði af stað niður stigann. Hún gekk afskaplega hægt og stansaði smástund í hverju þrepi. Mamma skyldi sko ekki vera of viss. Kannski drykki hún kakóið. Og kannski drykki hún það ekki.
-Ég sé til hvað ég geri, sagði Lotta við Bangsa.
Þessi krakki myndi náttúrlega gera mann geðveikan. En þvílíkur snillingur sem Astrid Lindgren hefur verið að spotta atferli.
<< Home