luxatio hugans

awakening

sunnudagur, janúar 05, 2014

Kisublogg

Nú ætla ég að gera þetta með kettina upp. Rétt um ári áður en við fluttum til Svíþjóðar lofuðum við Ingvari og Ester að þau mættu fá kött. Við fórum og völdum kött úr norsku skógarkattagoti, alveg hryllilega krúttlegan, loðinn kettling sem krakkarnir nefndu Harry Potter. Þau voru búin að föndra skilti; Velkomin heim Harry Potter, þegar foreldrarnir áttuðu sig á því að þau byggju í blokk og það þyrfti leyfi fyrir kettinum. 25%, þ.e ein íbúð í stigaganginum, sagði nei. Þar með fór það. Kaupin afturkölluð og krakkarnir skildu ekki neitt. Eftir á að hyggja var reyndar mjög heimskulegt að ætla að kaupa kött ári fyrir brottflutning úr landi. Jæja svo erum við flutt til Svíþjóðar. Ester að verða 5 ára og henni finnst allt leiðinlegt í Svíþjóð. Allt var betra á Íslandi og hún vill fara heim aftur. Þá ætlaði ég nú aldeilis að trompa þetta, gefa henni kött í afmælisgjöf sem yrði sigur fyrir Svíþjóð vegna þess að á Íslandi var ekki hægt að fá kött. Á þessum tíma var ég frekar ókunnug í Gautaborg. Ég keyrði út til Torslanda þar sem ég hafði séð auglýsingu á blocket með mjög sætum kettlingum. Ég taldi mig vera að keyra út í opinn dauðann enda þurfti ég að fara yfir á Hisingen. En þegar á staðinn var komið var þetta heimsins sætasti kettlingahópur. Vildum við læðu eða vildum við fress? Vildum við einlitan kött eða einn sem var líka svona hvítur í framan og á loppunum? What to do? What to do? Við fengum okkur tvo. Jæja nema hvað, þegar Ester sér kettlingana að morgni afmælisdags síns, segir hún; Ég vildi hund. Hún hefur oft minnt okkur á það síðan að hún hefði frekar viljað hund. En þessi litlu systkini voru komin til okkar. Brandur var stærri, læðan Ariel var minni. Um leið tókum við eftir að hann borðaði á undan og hún beið á meðan, svo þegar hann var búinn þá fór hún að matardöllunum. Hann var kelinn og elskaði að hoppa í fangið á hverjum sem var og láta fara vel um sig. Hún var hvekktari og ekki eins sækin í fólk. Þeir drulluðu alveg ógurlega og kattasandskassinn var alltaf fullur af skít, þrátt fyrir að þeir völsuðu inn og út eins og þeim sýndist. Magnús og Brandur voru ógurlegir félagar enda gaf Brandur færi á sér sem Ariel gerði alls ekki og forðaði sér hið snarasta ef Mangi nálgaðist. Nema hvað að svo dó Brandur og ég var með ógurlegar áhyggjur af Ariel. Hvernig tekur hún þessu sem er búin að hafa Brand með sér allt sitt líf? Ég lagði það á mig að presentera Brand dauðann í kassa fyrir Ariel svo hún myndi átta sig á því af hverju hann væri skyndilega horfinn, (ég held að dýr fatti hvenær einhver er dauður). Nema ég hefði getað sparað áhyggjurnar, Ariel BLÓMSTRAR eftir að Brandur dó. Hún er rólegri, alls ekki hvekkt, sækir í nærveru, borðar þegar henni sýnist og kattasandskassinn hefur ekki verið þrifinn síðan Brandur þó því það kemur EKKERT í hann. Hún pissar ekki einu sinni þar. Hann hefur terroriserað hana allan þennan tíma. Samt fannst okkur Brandur alltaf vera góði kisinn. Svona getur þetta verið skrítið. Núna eigum við kött sem Fríða elskar að skríða eftir og reyna að ná;) Gaman að þessu. Ester spyr ennþá reglulega hvenær hún megi fá hund.

3 Comments:

At 10:00 e.h., Blogger Hannes said...

Snilld!

 
At 10:40 e.h., Blogger arnyarnarsdottir said...

Guð minn góður hvað við hlóum mikið! Sérstaklega hann faðir minn, sem elskar ekkert meira en ketti...

 
At 11:25 f.h., Blogger Unknown said...

Þetta hefur verið heimilisofbeldi! Svona hefur ofbeldiskötturinn verið flagð undir fögru skinni! Ég hinsvegar er með kött ef þú vilt sem terrorisar mömmu sína.

 

Skrifa ummæli

<< Home