luxatio hugans

awakening

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Ég er

víst fædd á ári pönksins. Gaman að því.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Guð minn góður

hvernig dettur mönnum í hug að þeir geti sungið eins og Freddy Mercury?! Sá eitthvað Queen coverband frá Hollandi (af öllum stöðum) í Ísland í bítið í morgun. Mig langaði að fara og hnippa í söngvarann og segja: "Heyrðu, visni gaur. Þú getur bara alls ekki sungið eins og Freddy Mercury. Blessaður slepptu þessu bara. "
Ef einhver segir við mann að maður geti sungið eins og Freddy, þá er rétta svarið: "Get the fuck out of here" því það getur enginn, ENGINN sungið eins og Freddy Mercury. Enginn segi ég!!

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Þjóðsöngurinn

Það er rugl að ætla að skipta um þjóðsöng. Auðvitað eiga ekkert allir að geta sungið hann, heldur bara einhverjir heimsklassa tenórar í upphafi landsleikja á Laugardalsvellinum. Ef allir gætu sungið hann, þá yrði hann sunginn í réttunum af einhverjum blindfullum sveitalubbum með brennivínsfleyg í ullarsokk. Nú eða á tjaldsvæðinu í Þórunnarstræti á Halló Akureyri á meðan fólk brennir Rúmfatalagerstjöldin sín. Það viljum við ekki. Það þarf að vera reisn yfir þjóðsöngnum og mér finnst kúl að það geti ekki hvaða plebbi sem er gaulað hann hvenær sem það hellist yfir hann löngun til að syngja þjóðsönginn. Jamm.

Vandræðalegt

Mér finnst alveg hrikalega vandræðalegt hvað Birgittu dúkkan er ljót. Þetta er eins og transa, svo ég vitni nú í góðvinkonu mína, hana Svölu. Allavega, þá dauðkenni ég í brjósti um Birgittu Haukdal að hafa sett nafn sitt við þessa forljótu dúkku. En það er svona. Djöfulsins púl að vera idol.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

26 ára, tveggja barna móðir

er lýsing á kellingu sem á ekkert skylt við mig.
Sjálf er ég ennþá ung, hipp og kúl.
Það er eitthvað minna og minna gaman að eiga afmæli, eftir því sem árin færast yfir. Jamm.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Damien Rice

Ég og Ester chillum á daginn og hlustum á Damien Rice. Það er greinilegt að hún fílar hann og man eftir tónleikunum góðu, því hún róast þegar ég spila lögin hans. Það er ekki víst að krílið þeirra Snorra og Tinnu muni jafnvel eftir tónleikunum, enda afar smá rækja á þeim tíma. Og þó, það er aldrei að vita hversu sterkt góð tónlist getur tekið sér bólfestu.

Martröð

Ég finn til með Scott Ramsey. Ekki það að ég finni ekki til með aumingja manninum sem dó og fjölskyldu hans, en þetta er bara svo fáránleg óheppni. Ég held að gaurinn hljóti að hafa verið með slagæðagúl sem sprakk eða blóðtappa sem fór af stað því það er svo fráleitt að allir detti niður dauðir sem eru barðir um helgar. Þetta kennir okkur kannski að vera ekkert að berja neinn, því það er aldrei hægt að vita hverjir eru með slagæðagúl. Jamm.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Flott hjá R-listanum

að tryggja Sjálfstæðisflokknum meirihluta í borginni eftir 2 ár, með vali sínu á borgarstjóra. Mér finnst Steinunn Valdís alveg ótrúlega ógeðug í viðtölum og samtalsþáttum og ekki hefur hún útlitið beint með sér. Ég meina það er ekki verra að líta ágætlega út í opinberu starfi. Ha?

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Bakari fyrir smið?

Nú þegar Þórólfur Árnason er búinn að segja af sér, þá finnst mér eins og bakari hafi verið hengdur fyrir smið. Hann var bara aum senditík. Hvar eru helvítis bófarnir? Reyndar hefur Kristinn Björnsson tímabundið vikið úr stjórn Straums, en hvað? Er það bara rétt á meðan öldurnar lægir?
Jæja þá er það bara doktorinn í stólinn. M.ö.o Dag B. Eggertsson fyrir borgarstjóra. Mér finnst hann rosalega sjarmerandi. Kannski er það bara vegna þess að ég er svo veik fyrir mönnum í hvítum sloppum. Kannski.

Egocentrík

Maður verður rosalega egocentrískur við það að eiga barn. Samfélagið er á suðupunkti, olíuskandall og kennaraverkföll og meinhæðnasti bloggarinn hefur ekkert um málin að segja. Heimurinn snýst um nýja barnið og brjóstin á mér og allt annað verður svo lítilvægt. Fór reyndar og hitti leiðbeinandann minn í rannsóknarverkefninu í gær. Hún hefur þann skemmtilega ávana að slá mig létt í öxlina þegar hún talar við mig. Og hún sló þeim mun meira eftir því sem hún þurfti að leggja meiri áherslu á mál sitt. Ef þið rekist á skurðlækni með glóðurauga, þá hef ég misst stjórn á skapi mínu og svarað fyrir mig.

Kennaragrýla

Hafi ég einhvern tímann átt vin sem er kennari er hann örugglega ekki vinur minn lengur, eins harðorð og ég hef verið í garð kennara. En það er allt í lagi, því þeir eru svo blankir að þeir geta ekki gefið manni afmælisgjafir eða boðið manni í mat. Hver þarf þannig vini?

föstudagur, nóvember 05, 2004

3 ára háskólanám

Ég skil ekki hvers vegna kennarar stagglast alltaf á þessu þriggja ára háskólanámi máli sínu til stuðnings. Þriggja ára háskólanám er ekki langt, það er stutt. Háskólanám gerist ekki öllu styttra en þrjú ár. Þannig að eftir að hafa heyrt ræðuna um launin með þriggja ára háskólanám að baki, þá hugsa ég bara: Já og?
Nei, nei kennarar mega vel hafa hærri laun. En þriggja ára dæmið eru ekki góð rök.