luxatio hugans

awakening

föstudagur, nóvember 25, 2005

Doddi, þú hélst þó ekki að ég myndi ekki blogga um þetta........

Ég lá eins og skata uppi í sófa í gærkvöldi. Var með mikið nefrennsli, höfuðverk og óþægindi. Það læddist að mér sá óþægilegi grunur að hin skæða H1N1 væri búin að taka sér bólfestu í mér, en ég hristi slíkar dauðahugsanir af mér undir heilalausum King of Queens. Kemur þá ekki Þóroddur, og segir mér að hann þurfi að játa svolítið sem hann hafi asnast til að gera. Hann sagði mér að hann hafi verið hálfsofandi eitt kvöldið þegar það hringir símasölumaður. Nú, og þetta hafði allt verið svo óraunverulegt og hljómað vel og hann hafði skellt sér á vöruna. Ég var þá þegar önug af höfuðverk, og hafði auk þess setið á allt of langdregnum fundi Félags Læknanema fyrr um kvöldið. Ég spurði því hranalega hvaða bók þetta væri þá. Þá fyrst varð Þóroddur vandræðalegur og tvístígandi, og sagðist skyldu ná í hana. Hann hafði sko falið hana uppi í efri skápnum í svefnherberginu. Maðurinn kom til baka með: Úr torfbæjum inn í tækniöld bindi I, II OG III. Þar sem ég starði orðlaus á bókakaup mannsefnis míns, kom hin endanlega játning. Þetta kostaði 14.000 krónur. Það verða dregnar 1000 krónur af visareikningnum okkar í 14 mánuði!!! Þá trylltist ég úr hlátri. Þarna varð þetta bara of absúrd til að ég gæti verið fúl yfir andvirði leðurstígvéla. Þetta er svona svipað og þegar Doddi var búinn að suða í mér um rafmagnsorgel í heila viku og ég sagði alltaf nei, þegar hann loksins játaði að hann væri búinn að sækja orgelið og hann geymdi það niðri í geymslu. Þá gat ég ekki annað en lekið niður í gólf af hlátri. Svona er það þegar það er komið svo herfilega aftan að manni að það telst að framan. Jamm.