luxatio hugans

awakening

föstudagur, desember 29, 2006

Jólablogg

Verður maður ekki að uptodate-a á þetta?
Á Þollák hittist þotuliðið á Kaffi Karólínu eins og hefð er orðin fyrir. Reyndar var aðal tjokkóinn á Kanarí og var hans sárt saknað. Sungum við meðal annars þjóðsöng Kanaríeyja honum til heiðurs þá um kvöldið og gekk það vel.
Aðfangadagskvöld var líka ljómandi fínt þrátt fyrir að frúin hafi þjáðst af ofsaþreytu. Yngra barnið mitt var ofsalega stillt og rólegt allt kvöldið en eldra barnið var tryllt. Fyrir þá sem þekkja Ingvar þá vita þeir að það er ekki hans eðlilega ástand að vera trylltur, svo það var heví spenna í gangi sem olli meiri vanlíðan en gleði. Ég kenni Mammon og hans hyski um. Reyndar er Mommon líka ábyrgur fyrir nýja unaðslega Gorgio Armani úrinu mínu, svo hann er ekki alslæmur.
Jóladagur var svona líka prýðilegur. Brunað á Dalvík þar sem stórfjölskyldan hittist. Um þrjúleitið klæddi frúin sig í nýju frostheldu spandexbuxurnar frá hennar heittelskaða og spókaði sig, teygði á og stundi í eldhúsinu svo það færi örugglega ekki framhjá neinum viðstöddum hvað stæði til. Þetta fólk sem þarf alltaf að passa að allir viti að þeir séu að hlaupa er svo yfirþyrmandi óþolandi, að það var magnað að fá að vera þessi ergjandi týpa. Pabbi hennar Álfheiðar keyrði okkur svo 10 km inn í Svarfaðardalinn ljúfa, dalinn þar sem ég fæddist á háaloftinu á Völlum í brjáluðu veðri ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum. Rosalega er það samt meira töff heldur en að hafa fæðst á sterilu sjúkrahúsi. Ég var töff strax daginn sem ég fæddist. Formúlan getur ekki klikkað. Við Álfheiður hlupum svo á undraverðum tíma í bæinn, eða á 55 mín. Óþarft er að eyða orðum í þann örlitla meðvind sem var í hlaupinu. Það var svona varla að maður fyndi fyrir honum í bakið, nema í hviðunum. Að loknu hlaupi var lagst í pottinn á pallinum og horft á stjörnurnar sem maður sér ekki í Reykjavík. Magnað. Kalkúnn var étinn með góðri samvisku og svo rústaði ég litlu systur minni og nýju sænsku mágkonunni í Sequence með einhverjum meðspilara sem greinilega var í aukahlutverki samt. Reyndar tapaði ég svo seinna í Hrútaspilinu fyrir Birni bróður en það er ekkert merkilegt spil, svo það telur ekki. Reyndar er ég ekkert tapsár. Ég er minnst tapsár allra sem ég þekki. Atli frændi hagaði sér almennilega, sem er óvenjulegt, svo allt var eins og best verður á kosið. Ester og Embla voru óaðskiljanlegar, m.ö.o vék Ester ekki frá Emblu, hvert sem Embla reyndi þó að lauma sér. Fyndinn svipurinn á Emblu þegar hún er að kvarta undan Ester og greinilegt að henni finnst þetta barn ekkert minna óþolandi heldur en í fyrrasumar. Hins vegar leit Ester ekkert við hvolpunum hennar Emblu sem voru niðri í kjallara, 7 talsins. Henni fannst þessi gamla tík miklu flottari.
Á annan í jólum var svo jólaboð hjá stórfjölskyldunni hans Dodda. Þar var étið enn á ný og svo keyrðum við til Reykjavíkur og með okkur í för Þorleifur nokkur Árnason Snorrasonar. Umræddur Árni var víst viðstaddur óveðursnóttina miklu þegar undirrituð lét sjá sig í þennan heim og fannst ekki mikið um. Hvorki um atburðinn né afraksturinn. Ég spurði eitt sinn Árna þegar Ester var nýfædd hvort hún minnti ekki á mig þegar ég var nýfædd?
Hvað á ég að vita um það? svaraði Árni. Nú, varstu ekki þarna? spurði ég. Jú, svaraði Árni, en ég nennti ekkert að horfa á þig. Mér fannst þú bæði ljót og leiðinleg!
En Árna þessum hlýtur að finnast ég sæt og skemmtileg í dag, því bæði gaf hann mér að éta þegar ég var búin að skila syninum og ætlar hann einnig að snæða með mér á gamlárskvöld. Svo lengi getur vont batnað, og ljótt fríkkað.
27. des buðu Begga, Benni og Benni (mér finnst þetta fyndið) okkur í humar og læri. Ekki var laust við að kokkanám Benónýs kæmi að gagni. Gaman að fá matinn framreiddan á diskunum eins á veitingahúsi. Það vantar ekki klassann þar á bæ.
28. des buðum við svo kjaftforum Lundúnabúa sem er afar fær með myndavélar, og fylgiliði hans í ítalskar kjötbollur ala Allý. Eða ala Guðrún Narfa svo maður sé ekki að ljúga hér á opnum vef. En það getur verið erfitt að fylgja uppskriftum!!! Allavega, þar ákvað ég að hætta þessu læknarugli fyrir skítakaup og opna heldur ítalskan veitingastað. Það er meira vit í því. Kjaftfori Lundúnabúinn er auk þess afar fyndinn og orðheppinn. Ohh ég elska að þekkja fyndinn Breta. Það er ákveðinn status í því. Æi fyndi breski vinur minn kom í mat í gær. Það er töff.
Og þá er það bara dagurinn í dag. Sem er ágætur so far.
Líkur þá þessari skemmtilegu dagbókarfærslu.
Gleðileg Jól.