Jólasveinablogg
Frá hnakkabælinu Selfossi, hefur veflók þessum borist sú beiðni að segja frá jólasveinaupplifunum Ingvars í ár. Ég held að Ingvar lesi ekki bloggið mitt og hef ég því ákeðið að verða við því.
Þetta byrjaði allt hálf klaufalega í ár. Ingvar fann einhvern DVD disk sem heitir Fyrstu Jólin og var sjálfsagt keyptur til styrktar einhverjum fjandanum. Ég sagði honum að vera ekki að rífa hann upp, það mætti gefa Ester hann í skóinn. Algjört hugsunarleysi af minni hálfu, ég bara trúði því ekki að krakkinn tryði enn á jólasveininn. Ingvar horfði á mig eins og ég hefði leikið mér að því að snúa labrador hvolp úr hálsliðnum og veinaði: JÓLASVEINARNIR GEFA Í SKÓINN!! HVAÐ ERTU AÐ SEGJA MAMMA?! Ég bakkaði út úr þessu með gamla góða mismælgis klassikeranum, en næstu daga á eftir horfði Ingvar önugur á mig og spurði reglulega: Af hverju sagðiru að þú myndir setja DVD diskinn í skóinn??!
Ég ruglaðist bara, sagði ég.
Já þú ruglaðist svo sannarlega mamma! Jólasveinarnir setja í skóinn!!
Ég fann fyrir hótunarbrodd í yfirlýsingu þessari. Þér er hollara að þegja kelling!!
Þarna leitaði ég til mér vitrari kvenna. MaggaVaff varð fyrir valinu, en hún á einmitt líka dóttur í 8 ára bekk. Ég spurði hana hvort það gæti verið að Ingvar tryði enn, eða hvort það væri verið að fokka í okkur af kapitalisma markmiðum. Dóttir Möggu hætti að trúa í fyrra, en stelpur eru bráðþroska svo enn sat ég eftir með óvissuna.
Næstu dagar hjá Ingvari fóru í það að klippa út myndir af jólasveinum af mjólkurfernum því allir áttu sveinarnir að fá myndina af sér.
Rann þá upp sá dagur er Stekkjastaur myndi birtast. Við Doddi vorum búin að birgja okkur upp af Tiger drasli og fyrsta kvöldið var látið til skarar skríða. Í glugganum voru mandarínur, mjólkurkex, mjólkurfernumynd af Stekkjastaur og eftirfarandi bréf:
Elsku besti Stekkjastaur. Hérna gef ég þér noggrar gjafir. Taktu myndina af þér, fáðu þér kex og mandarínu. Þetta eru gjafir til að þakka þer fyrir hvað þú ert búinn að vera góður við mig í fyrra og í hittífyrra og hitthittífyrra og hitthitthittífyrra og hitthitthitthittífyrra og ofboðslega yrði ég glaður ef þú myndir gefa mér dóddabyssu og dóddahandjárn saman í pakka. (Sænskt þroskasjokk, innsk. höfundar) Mér þykir svo vænt um þig, Ingvar.
Svona birtust bréfin næstu kvöld nema í stað byssu og handjárna kom beiðni um spæaradódd, því drengnum var sagt að jólasveinar væru boðberar ljóss og friðar og gæfu ekki morðvopn. En drengurinn var greinilega enn tortrygginn því einn morguninn sagði hann: Humm, skrítið. Ég taldi mjólkurkexin fyrir nokkrum dögum og þá var ekki nóg til fyrir alla jólasveinana en nú er allt í einu nóg til handa þeim öllum.
Okei barnið er að telja mjólkurkex. Hann er augljóslega ekki sannfærður, en ofboðslega langar hann til að trúa. Og hvað er athugavert við það. Hann mun vita næstu 80 ár ævinnar að jólasveinarnir eru ekki til, svo hvað sakar eitt ár í viðbót sem hann trúir?
Já aðventukveðjur til ykkar allra þarna úti sem trúið á jólasveina.
<< Home