Ræktin, klipping og grænn kostur.
Við AMV gerðumst nokkuð góðar í gær og byrjuðum í ræktinni. Djöfull var tekið svakalega á því. Anna María hafði verið harðari á því en ég að mæta í gær og lofaði mér að við færum bara í hálftíma á brettið. Eftir 30 mín sléttar stóð ég upp við brettið hjá Mæju og sagði: "Þú lofaðir að við færum heim eftir hálftíma!" Þá var Mæja í svaka axsjón og rétt að byrja að hitna........... en hún hafði lofað krakkanum, svo hún fór með krakkann heim.
Hitt sem ég afrekaði í gær var að fara með Ester Helgu í klippingu og ég klippti 10 cm neðan af hárinu hennar allan hringinn, þannig að toppurinn og hárið er jafnsítt og nemur við kjálka (fyrir þá sem vilja gera sér þetta í hugarlund). Þetta var afrek, segi ég og skrifa, því ég þjáðist við þetta. Ég engdist við hvert hvisshljóð í skærunum. En það var núna eða aldrei. Það hefði alltaf verið erfiðara og erfiðara að jafna hárið eftir því sem það síkkaði meira. En hún er samt voða krútt og varð fullorðnisleg við þetta.
Í hádeginu fór ég svo með B. á grænan kost. B. vinnur með eiginmanni mínum og finnst hann besti læknir í heiminum. Þess vegna er svo erfitt að tala illa um eiginmanninn við B. eftir að hann hefur borað 8 göt í sólarhringsgamla borðstofuborðið mitt. Hún heyrir það hreinlega ekki! Göt, föt! Hljómar eins fyrir henni þegar viðkemur Dodda. Eftir borunarmálið ógurlega bað ég eiginmann minn vinsamlega um að einbeita sér bara að því að svæfa fólk og gefa því Dobutrex. Látum bara iðnaðarmennina um að bora. Eða ég bað hann reyndar ekki vinsamlega en það lítur betur út á bloggsíðu að segjast hafa gert það vinsamlega.
Þegar við B. kvöddumst hafnaði hún kostaboði á sönnun fyrir ákveðinni lífeðlisfræði líkama míns. Skiljanlega. Ég verð að hætta að ofbjóða B.
<< Home