luxatio hugans

awakening

föstudagur, júlí 31, 2009

Af leiðindum

Ok ég veit að ég er ekki búin að vera lengi hérna og þætti gæti hljómað eins og óhemjugangur (sem var oft bendlaður við mig í æsku) en mér leiðist í Gautaborg. Mér finnst leiðinlegt hér. Kannski kann ég ekki að hafa ekkert fyrir stafni? Það er júlí og það er svo viðbjóðslega kalt í húsinu að ég sit í lopapeysu í hlýjasta horninu sem ég finn. Það ku vera svo dýrt að kynda í Svíþjóð.
Ég fór reyndar út að hlaupa í dag í nýju Asics skónum mínum. Þegar mar eyðir mörgum peningum í hlaupaskó þá þarf mar eiginlega að nota þá. Ég hlunkaðist um hverfið, sem er mjög fallegt btw. og þá fannst mér eiginlega skemmtilegast frá því ég kom hingað. Komst 4 k, með herkjum. Nú skal tekið á því. Ætla að skrá mig í Gautaborgarhálfmaraþonið sem er það stærsta í heimi og svo sá ég á hlaup.com að það verður hlaup yfir Öresundsbrúnna í júní á næsta ári og eru það einhverjir 21 k líka. Það er nú býsna kúl. Best að skrá sig í það, og segja nógu andskotans mörgum að mar ætli að hlaupa þetta hlaup, þá er svo erfitt að beila. Þarf eiginlega að stofna prófíl á hlaup.com líka til að hvetja mig. Er það ekki?
Á morgun eru U2 tónleikar. Aldrei farið á svona stóra tónleika fyrr. Spennandi. Læt vita.
Þarf eiginlega að fá kött handa krökkunum þegar Jónas verður búinn að taka sína. Þau elska að hugsa um þá. Það er bara fjandi erfitt að átta sig á sænskum smáauglýsingum.
Djöfull er ég hress.

Af annarra manna köttum

Nú ætla ég ekki að breytast í neinn gæludýrabloggara í nýju landi en þar sem ég ligg andvaka í rúminu hans Jónasar hér á Fotbollgatan með köttinn hans malandi ofan á mér með svo víðar pupillur að mar spyr sig hvað hann hafi verið að bardúsa um þá kvöldið, þá er ekki laust við að á mig sæki spurningar um lífið og tilveruna. M.a hvort eðlilegt sé að liggja í ókunnu rúmi með ókunnum ketti?
Svíþjóð leikur mig grátt til að byrja með. Skítaveður, þrumur og eldingar þegar læknisfrúin ætlaði að morra og tanast. Ég er með enga kennitölu sem hefur djúpstæð áhrif á upplifun mína sem einstakling. Gámurinn minn er ekki kominn. Ég er bíllaus. Ég sofnaði kl. 18.00 í kvöld, það tók á að flytja úr landi og vinna fram á síðasta dag, djók ég meina næst síðasta dag, það munaði auðvitað helvítis helling að vera í fríi þarna á þriðjudeginum;) Vaknaði svo klukkan að verða 23.00! Og kláraði Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Er þetta djók hvað bókin er góð?! Ég grenjaði heil ósköp yfir henni af því að ég er eðlileg. Maður þyrfti að vera meira en lítið óeðlilegur að vera ósnortinn. (sjáið hvað ég covera mig þarna fyrir fólki sem hefði kannski hætt sér að vera ósammála). Jæja hvað get ég sagt í bili? Kötturinn malar sem aldrei fyrr. Ég er með hausverk af kæfðum grátinum svo ég vekti ekki Dodda sem botnar ekkert þegar ég grenja yfir bókum. Sbr. brúðkaupsferðina okkar þegar hann hafði mestar áhyggjur af því að fólkið á hótelinu héldi að ég væri lamin reglulega því ég grét svo mikið við lesturinn við sundlaugina.
Ein saga af Ester svona af því að ég er ekkert á leiðinni að verða neitt minna andvaka. Hún fór út á leikvöllinn hérna við hliðina á okkur með Ingvari í kvöld. Hún sagði mér að sænsk stelpa hefði komið og spurt: Hvad heter du? Og hvað sagðir þú? spurði ég. Ekkert, sagði Ester. Ég nennti ekki að segja: Jeg heter Ester. Þessi skaðræðiskrakki er svo skemmtilegur.
Ég er svo menningarleg þegar ég fer til útlanda eða þannig. Fór á Sex museum í New York þegar fínna hefði eflaust þótt að fara Met en þannig var nú það. En hér í Museum of Mölndal er búið að setja upp sýningu sem ég hef mikinn áhuga á að fara á og við Ester ætlum á morgun. Það er Barbie í 50 ár. Hlakka voðalega til. Veit ekki hvort Ingvar fæst til að koma með;)

föstudagur, júlí 17, 2009

Ný færsla

Vá ég mundi lykilorðið hingað inn! Það er magnaður andskoti. Ég var að hugsa um að endurvekja þetta blogg í tilefni af flutningum til Sverige. Margt sem þarf að koma á framfæri þá. Fréttir dagsins eru þær að við Doddi pökkum eins og fáráðlingar. Lítill tími til stefnu. Ég hlakka svo endalaust mikið til að flytja. Veit ekki hvert ég held að ég sé að fara en ég sé fyrir mér betri tíð með blóm í haga. Meiri lífsgæði og betri líðan. Kemur svo í ljós hvort satt reynist. Ég set það þá inn hér. Jæja ég settist við tölvuna á meðan í gúffaði í mig einum súrmjólk og seríós. Áfram með smjörið, gámurinn fyllir sig ekki sjálfur!