Af nýjum mánudegi
Gott að blogga bara á mánudögum, skemmtileg hefð.
Helgin leið alveg ótrúlega hratt, það er hálfgerð ólund, en hún var himnesk. Algjört letikast með miklum góðum mat, girnilegum eftirréttum og Ástríði og Næturvaktinni. Himneskt.
Fjölskyldunni tókst loksins að draga mig í Åby badet, en þar er ævintýraland með vatnsrennibrautum. Ég hef þráast við eins og mér einni er lagið enda sauðþrá með eindæmum. Ég tilkynnti Ingvari í upphafi að ég ætlaði ekki í neinar rennibrautir til að forðast allt suð á svæðinu.
Jæja það fór þó ekki svo að læknisfrúin missti sig í rennibrautunum, aðrar konur litu mig hornauga af fyrirlitningu þar sem ég skaust upp úr rennibrautinni hvað eftir í annað og dró sundbolinn út úr rassgatinu. Málið er - að það er tímataka á helvítis rennibrautunum og besti tíminn stendur á veggnum þar til hann er sleginn næst og það er náttúrulega til að æra óstöðugan. Ekki bætir úr skák að minn elskulegi eiginmaður átti besta tímann á tveim rennibrautum sem mig langaði afar mikið til að slá. Það gekk ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en ég kenni eðlisfræðilegu fyrirbæri, svokölluðum skriðþunga, um! Þóroddur talar um tækni en það eru ákveðnar breytur sem ekki er hægt að keppa við. Ólöf og Beisi eru hvött til að taka með sundföt svo hægt sé að taka paramót í rennsli;)
En allavega, nýr vinnudagur, klukkan er ekki orðin hádegi og mig langar að myrða samstarfsfélaga minn, hinn hressa bosníska sérfræðing sem er vinum mínum orðinn vel kunnugur af afspurn. Ekki svo fagurri afspurn verð ég að segja. Jú ég gæti vissulega beðið fyrir honum. Já því ekki það. Sjáum hvað það gerir. Læt vita fljótlega.
Skrifum nokkur remiss, skrifum nokkrar epikrisur. Hljómar eins og par-tei ..... ef þið skiljið hvað ég meina.
Og aðeins að Eyjólfi hinum leiðinlega í Ástríði. Hvílík snilldarvel skrifuð persóna. Það þekkja allir einn Eyjólf! Ohhh ég fékk hroll af snilldinni. Og hve frábærlega leikið af Friðrik. Love it!
1 Comments:
Hahahahha! Þetta hafa verið þroskuðustu foreldrarnir á svæðinu í sundlaugarferðinni. Voru börnin bara með hauspoka á meðan?
Skrifa ummæli
<< Home