luxatio hugans

awakening

mánudagur, maí 30, 2005

Happiness

is a city in the state of mind.
Já eða að vera á hjóli á þessum fallega vordegi og hjóla framhjá tjörninni að loknum mögnuðum, eða sturlað góðum réttara sagt, fundi í Gula. Volgur andvari í hárinu, allt að springa út, blóm og afkvæmi.
Lífið er algjörlega brjálað flott ævintýri.

sunnudagur, maí 29, 2005

Fórnfýsi eða græðgi?

Ég var stopp á rauðu ljósi á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Ég var staðsett í Lönguhlíðinni og horfði á umferðina á Miklubrautinni bruna framhjá á ógnarhraða. Kemur þá svífandi mávur, sem hringsólar í smástund og steypir sér svo niður í götuna, fullt af bílum að koma æðandi og hann rétt slapp á loft aftur með eina skitna franska kartöflu í gogginum. Ég varð ofsalega hrifnæm eitthvað því ég held að ég hafi aldrei þráð neitt jafn ákaft í lífinu og þessi mávur þráði þessa frönsku kartöflu. Ég hef allavega aldrei lagt lífið að veði til að ná því. Þess vegna hefði verið ofsalega kúl að fylgja honum eftir og sjá þegar hann gaf soltnu ungunum sínum frönskuna sem hann fórnaði næstum lífinu við að afla þeim. En reyndar eru mestar líkur á því að hann hafi sporðrennt henni sjálfur og er þetta þá einhver gráðugasti mávur sem uppi hefur verið.

laugardagur, maí 28, 2005

Maður er ekkert

uppi á Landspítala á þessum tíma á laugardagskvöldi að skrifa ritgerð. Eða jú, bíðið við. Það er ég einmitt. *Andsk.....*

Mætt aftur

Hingað til hefur enginn dáið við það að flytja rannsóknarverkefnið sitt og viti menn, það gerði ég ekki heldur. Komst nokkuð klakklaust og lifandi frá þessu. Sem er fínt. Ákvað að setja nokkrar línur hingað inn áður en ég hverf inn í ritgerðina mína.

Ég horfði á Garden State í gærdag þegar ég var búin að flytja fyrirlesturinn minn. Henti mér kúguppgefin upp í sófa með teppi og ís með oreo kexi. ÞESSI MYND ER ARGASTA SNILLD!!!! Samtölin eru svo vel skrifuð að það var hreinn unaður. Ég ætla ekki að skemma myndina fyrir neinum en hún er skylduáhorf. Ég er alltaf að komast að því betur og betur að maður á bara að horfa á svona low profile myndir. Enga Hollywood formúlu, því hún er löngu dauð. Myndir sem eru einhvern vegin þannig að maður hefur aldrei séð nákvæmlega þannig mynd áður, þær eru bestar. Þetta er það sem gerðist þegar maður sá Sixth sense og Fight club.
Annars fer ég ekkert ofan af því að Punch drunk love með Adam Sandler er bara ein af þeim betri ever. Jamm.

laugardagur, maí 21, 2005

Nokkrum lögum síðar

er króatíski söngvarinn bara of fallegur til að maður kjósi hann ekki.

ÁFRAM MOLDAVÍA!!!!

Því annað er bara rugl

föstudagur, maí 20, 2005

Það er rosa gott

að þekkja Möggu Vaff þessa dagana. Hún er hress.

Auglýsingaherferð

sem virkar: 10-11 auglýsingarnar með Svavari og Steini Ármanni. Mér finnst þær ógeðslega fyndnar. "Það er smart að versla á New York tíma" og "Glamour coming through!" fær mig alltaf til að hlæja. Eins og 6 ára barn að prumpubrandara.

sem virkar ekki: KEA skyr auglýsingarnar. Þegar markaðsstjórinn ákvað að fara að hella mjólk yfir unglingsstúlkur í þröngum bolum með tíkarspena í hárinu og láta unglinga fara í hvísluleik í einhverju súrrealísku hormónaflæðispartý þar sem unglingarnir gæða sér á skyrafurð, þá mætti ætla að hópurinn, sem herferðinni væri ætlað að ná til, hefði menn eins og Michael Jackson og Steingrím Njálsson að geyma. Og nei, ég hef enga trú á því að MJ sé saklaus. Ekki frekar en SN.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Okei nú verð ég drepin

en ég get ekki varist þeirri hugsun að það séu fullt af konum þarna úti að láta hafa sig að fíflum. Ég er að tala um niðurþröngu gallabuxurnar sem, jamm ekki allt búið enn, er troðið ofan í stígvél. Það er bara ekkert langt síðan maður vældi úr hlátri yfir myndum af einhverjum í gallabuxum sem þrengdust niður. Þær hafa ekkert breyst. STILL UGLY. Og ég held að ansi margir eigi eftir að naga sig í handarbökin eða í það minnsta henda nokkrum myndum. Ég verð ekki ein af þeim. Ef þið mætið mér, með gallabuxur girtar ofan í stígvél, þá erum við stödd í sveit og ég er á leiðinni í fjós. Jamm.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Tók politiskt próf

á netinu. Lenti þar í ágætis félagsskap með ekki verri mönnum en Dalai Lama, Gandhi og Nelson Mandela. Var blessunarlega langt frá Bush, Hussein, Mugabe, Hitler og fleiri fáráðlingum. Nú ætla ég að tileinka mér andlegan hroka því mér finnst ég eiga rétt á því.
Ég vorkenni fólki sem eru fangar efnishyggjunnar.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Ingvar

vann sinn fyrsta leiksigur í gærkvöldi. Hann var rosalegur í hlutverki sögumanns í meistarastykkinu Rauðhettu. Þegar ég sagði fólki að Ingvar yrði sögumaður, voru viðbrögð fólks ávallt: "Auðvitað, hvað annað!"
Þetta var rosaleg uppfærsla. Allir foreldrar og grandforeldrar mættu og settu bakkelsi á langborð. Því næst hófst sýningin. Leikmyndin var rosalega flott, krakkarnir í litskrúðugum búningum og léku á hljóðfæri. Dýrin í skóginum bæði sungu um óvissuferð Rauðhettu í gegn um skóginn og brugðu fyrir sig rútíneruðum dansi. Baldur stóð á kantinum með videocameruna sem kom SOS að norðan í gær, og Dodda varð að orði að ef allt hefði verið með felldu þá hefði hann sjálfur komið of seint eða helst misst af sýningunni. Þá fattaði ég að við vorum stödd á skólaskemmtun í Hollywood kvikmynd.
En án gamans þá var þetta rosalega flott. Það var fullt af dýrum í skóginum en mér fannst mörgæsirnar flippaðastar:) Gaman að því.

Ester Helga

er yfirnáttúrulega þver. Og svo er hún ogguponsu frekjurassgat. Hún er samt yndislegasta stúlkubarn sem fæðst hefur síðan móðir Móður Theresu hélt á henni í sínum örmum. Var hún þá amma Theresa?