Af skákmóti
Ingvar rétti mér miða í morgun og sagðist vilja komast á þetta skákmót, hver gæti skutlað honum? Huh! Teflir þú? spurði móðirin geðþekka. Já, sagði Ingvar, manstu ekki námskeiðið sem ég fór á? Þá rámaði mig reyndar í eitthvað skáknámskeið sem hann hafði fengið leyfi til að fara á í Hlíðaskóla en ég hafði verið búin að gleyma. En nú var svo komið að drengurinn vildi fara að etja kappi við aðra á skákvígvellinum.
Ég fékk lánaðan bíl hjá Baldri til að koma krakkanum upp í Grafarvog þar sem mótið var haldið í litlum búðakjarna. Voðalega fannst mér þetta fíflalegt þegar ég labbaði inn í verslunarkjarnann þar sem var búið að raða upp borðum og taflsettum í andyrinu. Mér fannst allir eitthvað voðalega undirmáls þarna í auglýsingamerktum fatnaði. Nú meistarinn skráði sig til leiks og svo fór gaurinn sem greinilega var allt í öllu þarna að ávarpa samkunduna. Hann byrjaði á því að bjóða forseta skáksambands Íslands velkominn og svo lýsti hann yfir ánægju sinni með hve margir af nýkrýndum Norðurlandameisturum og silfurverðlaunahöfum af Evrópumótinu (eða eitthað álíka) hefðu látið sjá sig. Uhhhh okei. Svo átti forsetinn að hefja fyrstu skákina og skák eins Norðurlandameistarans var valinn til þess. Forsetinn spurði strákpjakkinn hvort hann mætti leika öllum leikjum og sneri sér svo út í hópinn og sagði hátt: "Ég má leika öllum leikjum nema D7! (eða eitthvað álíka)" og uppskar hávær hlátursköll hjá viðstöddum skákforeldrum. Nema mér, því ég kann rétt svo mannganginn og veit ekki enn hvað var svona fyndið.
Fyrsti andstæðingur Ingvars var ábyggilega 15 ára og ég fann æðislega til með Ingvari. En svo byrjaði skákin og Ingvar virtist vera að standa í honum. Allavega kláruðust fullt af viðureignum á undan þeirra og mér fannst stórmerkilegt að fylgjast með Ingvari. Greinilega að hugsa á fullu marga leiki fram í tímann og muldraði fyrir vörunum einhverjar pælingar. En stóri gaurinn vann og engin voðaleg skömm að því, miklu eldri.
Á meðan verið var að raða upp í næstu umferð heyrði ég einn skákpabbann vera að lesa yfir syni sínum, pínulitlum pjakk með sykurlausan Svala. Hann var að segja honum eitthvað til, eitthvað sem ég skildi ekki, en var greinilega mjög mikilvægt. Í umferð 2 var pjakkurinn með sykurlausa Svalann andstæðingur Ingvars. Hann þurfti að krjúpa við borðið og með rörið í öðru munnvikinu. Skákin hófst og lauk í þremur leikjum. Með skák og mát litla pjakksins sem var ekki enn búinn með Svalann sinn. Nú voru farnar að renna tvær grímur á Ingvar. Hann kom til mín og muldraði að sennilega væri hann ekkert voðalega góður í skák.
Ég stappaði í hann stálinu og fór. Þú hringir bara í gemsann minn þegar ég á að sækja þig. Hafðu bara gaman af þessu!
En sjitt hvað ég vorkenndi honum. Ekki séns að hann fengi að hætta þó, enda bað hann ekki um það.
Þegar við sóttum hann svo 5 töpum og 1 sigri seinna með kók í annari og prins póló í hinni þá var hann alsæll. Gaman að þessu.
<< Home