Af Europe
Framvegis mun ég ekki blogga nema ég hafi farið á tónleika;) Við fjölskyldan skruppum nefnilega á Europe tónleika hér á Götapladtsen í Gautaborg. Þetta var partur af menningarviku Gautara. Nú nema hvað - sannleikurinn er sá að mig dauðlangaði að vera á Way out West tónlistarhátíðinni sem var haldinn í Slottskogen. Þar voru ma að spila Anthony and the Johnsons og Lily Allen. En það var dýrt og mar búin að splæsa á U2 og Madonnu. Þannig að ..... í svekkelsinu yfir að vera ekki í Slottskogen þá skyldi maður gera eitthvað. Europe áttu að spila og því ekki að fara og sjá Final Countdown? Helvítis húmor í því! Sannleikurinn er sá að þetta var eitthað það viðbjóðslega leiðinlegasta sem nokkurt okkar, ég, Doddi, Jónas, Ingvar og Ester höfum á okkur lagt. Brandarinn eiginlega brann inni í höndunum á okkur þegar Europe tók hvern viðbjóðslega leiðinlega slagarann af fætur öðrum. Við vorum farin að glensa með það að kannski tæku þeir bara ekkert Final Countdown. Það væri til að kóróna hryllinginn. En þetta var orðið svo að það var ekki hægt að fara án þess að heyra helvítis lagóbermið. Börnunum var kalt og þau voru þreytt en mamma og pabbi vildu ekki fara heim á þrjóskunni. Og þá gerðist það. Ljósin slökknuðu og Europe þakkaði fyrir sig. Þeir létu klappa sig upp og Final Countdown var SEINNA uppklappslagið. Og það var ekki einu sinni neitt meiriháttar! En við gerðum með okkur heilagan sáttmála að láta aldrei neitt annað uppi en að þetta hefðu verið bestu tónleikar sem við hefðum farið á. Þann sáttmála rýf ég hér með.
Og þá er það bara PINK í nóvember;)
Dagarnir líða einn af öðrum hér (en ekki hvað?). Hversdagsleikinn er tekinn við. Ingvar er byrjaður í 5B, þeir eru einni tölu á eftir hér því 6 ára bekkurinn þeirra er núllan. Doddi mætir með honum alla daga og þýðir í eyrað á honum. Doddi er þannig farinn að læra sögu og landafræði og deilingu upp á nýtt. Doddi mætir líka í vettvangsferðir og fær verkefni eins og hinir þar sem hann hleypur um skólalóðina og spyr nemendur spurninga í einhvers konar spurningakeppni. Doddi ætlaði að vinna og lagði sig allan fram. Ég held hann hafi ekki unnið þó. Doddi er náttúrulega búinn að kynnast öllum í bekknum og finnst þetta frábærir krakkar. Þau hafa tekið mjög vel á móti Ingvari og leggja sig fram við að involvera hann. Mjög kúl. Ingvar er líka byrjaður að æfa fótbolta með Dalen og er meira að segja búin að keppa sinn fyrsta leik við BK Bifröst. Leikurinn tapaðist 9-2. Kemur Dalen!!
Við Doddi keyrðum svo ásamt Jónasi Hvannberg og tveimur kátum Tyrkjum norður í rassgat að kaupa okkur píanó og píanóbekk. Píanóið fékkst á spottprís, 1000 sænskar, flutningurinn á því heim kostaði 2000 sænskar. En hey 3000 sænskar er rugl prís á þessu glæsilega stykki. Nú getur krakkinn haldið áfram að æfa á píanó hér.
Ester er byrjuð hjá dagmömmu sem heitir Caroline og er himnesk. Krakkarnir eru frá 2 ára upp í 6 ára, dagmömmurnar eru 4 sem eru saman á hverjum degi svo það er nóg af krökkum og mikið líf og fjör hjá Ester Helgu. Hún er hæstánægð með þetta og alltaf glöð að fara og mjög ánægð með daginn þegar við sækjum hana. Hún er líka komin með pláss í fimleikum svo þetta er að smella hjá okkur.
Skólinn hans Ingvars er í 500 m fjarlægð og Dagmamman er í 100 m fjarlægð. Lúxus.
ég er líka alltaf að sjá betur og betur hvað Toltorpsdalen er sjúklega huggulegt hverfi. Sjúklega flott hús og fallegir garðar. Frúin fer ekki fet úr dalnum að ári liðnu. Verst að það er gjörsamlega ekkert til sölu hér. Helst vona ég að Jónasi bjóðist eitthvað áframhald á sínum samning, eitthvað sem hann getur ekki hafnað og leigi okkur áfram eitt ár í viðbót. Mér líður nefnilega eins og húsið sé mitt. Það verður erfitt að flytja héðan út.
Læknisfrúin flokkar sorp í Svíþjóð eins og enginn sé morgundagurinn. Það er í raun ekki nýfundin ást á jarðkringlunni sem veldur, heldur sú staðreynd að sorptunnan er tæmd hálfsmánaðarlega. Ef maður flokkar ekki sorp í Svíþjóð þá drukknar þú í sorpi. Svo einföld er sú formúla. Jónas er auðvitað með moltutrog í garðinum og ég myndi halda að 50-60% af öllu okkar sorpi fari í moltuna. Jesús, er ég farin að blogga um sorp? Er þetta komið út í það?!
Ég er búin að taka æfingaakstur á sjúkrahúsið mitt síðustu daga. Það væri nefnilega svo vandræðalegt að koma ekki í vinnuna af því að maður fann ekki spítalann. Í dag fór ég svo líka og hitti Anniku aftur, sótti um bílastæðapassa og fékk skáp og ljót vinnuföt. Lansadressin kæmust í Vogue samanborið við þessa hörmung hér. Úff. Annika heldur að ég sé hálfviti en hún var ferlega næs og almennileg þrátt fyrir það. Svíinn er voða almennilegur eitthvað.
Svo er það bara Finnland á mánudagsmorguninn.
Jamm.
2 Comments:
ji en huggulegt þarna hjá þér í sverige, leiðinlegt að heyra með europe svekkelsið, þú heldur áfram að reyna...svo verð ég að lýsa yfir ánægju mína með hann jónas minn! safnhaugur!! snilld!
knús,sveil
hEYSAN.... ÉG VANN einmitt á Vegahemmet vid Slottskugen.... "Ved du Hadda, du er presis som Eva i Paradis"..... og þar var ekkert verið að þýða neitt í andlitið á manni... maður var bara kófsveittur með orðabókina í nettu dressi!
Mjög gaman að sjá og heyra hvað Sverige fer vel með ykkur, sá einmitt yfir í dag, brá mér í Bakken í smá tívolíreysu;)
Skrifa ummæli
<< Home