luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Enn af U2

Þá er vika í Gautaborg liðin. Þetta verður bara betra og betra. Frá því ég skrifaði síðast hefur gámurinn komið með allt dótið okkar, það gekk rosalega vel að tæma hann og koma draslinu okkar úr Mölnlycke þar sem Þórhildur og Þórður búa, hingað í Fotballgatan. Hér á milli eru 10 km og Doddi leigði sér "kerru" sem reyndist vera á við lítinn gám og drógum við búslóðina aftan í Rent a wreck volvónum okkar. Ingvar er svo feginn að bíllinn er rækilega merktur með þessum rent a wreck límmiðum því þá getur enginn haldið að við eigum þennan bíl;)
Krakkarnir voru kátir að fá dótið sitt, ég saknaði svo sem einskis þannig lagað, það er allt til alls hér í húsinu hans Jónasar.
Það var haldinn stofnsaumaklúbbur íslenskra kvinna hér í Gautaborg í gærkvöldi og var það mjög skemmtilegt og heklaði ég eina blúndu af 36 í nýja sjónvarpsteppið mitt. Ansi vel af verki staðið. Heimilislegt að komast í klúbb aftur;) Doddi líka mættur í einhvern íslendingabolta hér svo okkur ætti svo sem ekki að leiðast.
Loksins kom himneskt veður og vorum við Doddi með græna fingur í dag. Slógum grasið, kantskárum, ég reytti arfa í matjurtagarðinum hans Jónasar og reyndar tók ég ótímabært upp nokkrar gulrætur líka í misgripum fyrir arfa. Ekki nógu gott. En ég er búin að komast að því að Jónas ræktar eitt og annað. Í garðinum er nefnilega epla, peru og plómutré. Hann ræktar rifsber, brómber, hindber, jarðarber og bláber. Svo er hann með rabbabara, kál, gulrætur, graslauk, rósmarin, timian, basiliku, sítrónugras og einhver fleiri krydd. Ég fíla þetta mjög vel. Ég elska líka húsið hans og myndi helst vilja eignast það. Vona amk að þetta verkefni hans í Brussel verði framlengt;)
í dag kom svo nágrannakonan, sú sem er læknir á Sahlgrenska, og bauð okkur í grill í kvöld ásamt vinahjónum þeirra, þar sem gaurinn er íslenskur. Nágrannarnir eiga strák sem er jafngamall Ester og vinahjónin stelpu sem er jafngömul henni og tvítyngd svo fram fór mjög áhugavert tungumálaatriði hjá krökkunum í kvöld. Litla Svava túlkaði fyrir Ester og Erik;) Grillveislan var svo bara mjög skemmtileg, samræður á sænsku sem ég skildi svona 80%, og svíarnir bara mjög fyndnir. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað þau voru á köflum kaldhæðin.
Á morgun stefni ég svo á leynifélagsfund ásamt leynifélaga, og svo er matarboð hjá Jóhönnu og Guðna á föstudaginn og Madonnutónleikar á lau. en ég ákvað í dag að skella mér á Madonnu, hvaða rugl væri að gera það ekki??!!

Þetta blogg er að breytast sé ég. Ætlaði aldrei að blogga í dagbókarfærslum en það breytist eitthvað við að segja fregnir af sjálfum sér í öðru landi. Sjáum til hvað svo verður.

p.s titillinn á bloggfærslunnu var fyrir Beggu. Ég grenjaði úr hlátri þegar ég fattaði sneiðina;)

5 Comments:

At 9:47 f.h., Blogger Ólafur G.S. said...

já... mér finnst dagbókafærslur bara skemmtilegar (einn sem hefur stundað það í 8 ár ) gaman að heyra að ykkur líður vel....

kv. frá kópaskeri( sem er eiginlega lengra í burtu en Gautaborg!!!)

 
At 10:12 f.h., Blogger Unknown said...

Já og Madonnutónleikarnir reyndust vera á sunnudeginum

 
At 12:05 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Grímur brosti hringinn þegar ég sagði honum að það væri Íslendingabolti.

kv Dögg

 
At 12:30 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gott að heyra frá ykkur. Fyrir okkur sem heima sitjum verður þú að gera dagbókarfærslur :) eða stofan nýja síðu fyrir það.
Kveðja
Þórgunnur R

 
At 1:55 e.h., Blogger B said...

Ég var að horfa á Leonard Cohen syngja með U2 - ofsalega fallegt. Horfði að vísu á það í tölvunni minni en ekki live.

Elska garðinn þinn & sænsku stjörnurnar & leigubílinn ykkar.

Koss B.

 

Skrifa ummæli

<< Home