luxatio hugans

awakening

laugardagur, desember 12, 2009

Af ættjarðarást

Stekkjastaur kom til byggða í Gautaborg í nótt. Koma hans vakti gríðarmikla lukku. Ester Helga telur að hann hafi komið með flugvél. Simple. Ég sé það alveg fyrir mér að Stekkjastaur sé svona Íslendingur sem flugfreyjurnar hafa verið hættar að bera áfengi í. Vona jafnframt að vélin hafi ekki verið full svo hann hafi verið einn í sætaröð. Svona vaðmálsföt lykta svo andstyggilega.
En hvað um það.
Ég á 10 jólasveina sem Brian Pilkington hannaði. Þeir eru svo himneskir. Fyrir áhugasama þá vantar mig skyrgám, þvörusleiki og askasleiki.
Í morgun tókum við svo fram Stekkjastaur og ég las Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum fyrir Ester. Ég skynjaði að mér þótti mikilvægt að hún lærði hvað væri á bak við þessar sendingar í skóinn. Eftir sem á leið kvæðið klökknaði ég þegar andi liðinna jóla helltist yfir mig. Andi liðinna jóla úr Skagafirði. Þaðan kemur minn jólaandi. Jólin í sveitinni, myrkur og kertaljós. EIN kaupstaðaferð þar sem allt var keypt til hátíðahalds, þess utan varð maður ekkert var við jólaörtröð og geðveiki. Litlu jólin í Steinstaðaskóla þegar presturinn á Mælifelli, Ólafur Hallgrímson, las jólaguðspjallið. Sjaldan man ég eftir að hafa fundið aðra eins hugarró og akkúrat þarna og minningin er ljóslifandi. En sem betur fer vinna nú góðir menn hörðum höndum að því að forða saklausum börnum frá öllum slíkum uppákomum þjóna kirkjunnar.
Önnur jól sem snúist hafa um geðveiki, meira og minna, hafa ekki vakið hjá mér jólaandann. Það þarf svo mikið af öllum andskotanum til að hægt sé að halda jól og ekki bara af veraldlegum hlutum heldur uppákomum. Þú þarft að vera eins og þeytispjald út um allar trissur til að upplifa aðventuna í dag.
En jólakvæði Jóhannesar minnti mig einmitt svo á fegurð einfaldleikans og gleðina yfir litlu. Og það var engin rödd eftir í síðasta erindið.
Hófst þá lestur helgarblaðsmoggans hratt flett í gegnum auglýsingar á gsm símum og sófasettum fyrir jólin. Staldraði við viðtal við Friðrik Þór og Kristbjörgu Kjeld um Mömmu Gógó. Fór aftur að grenja við lesturinn að Mamma Gógó kunni textann við Ég lít í anda liðna tíð, þrátt fyrir að allt annað væri horfið úr huganum.
Ég er svo átakanlega mikill Íslendingur hérna í Svíþjóð. Mér líður eins og Jónasi Hallgrímssyni þegar hann þráði landið sitt. Hann gat ort falleg ættjarðarljóð til að sefa (eða ýfa) söknuðinn. Ég sest og blogga. Bíð spennt eftir komu Giljagaurs.
Get ekki beðið að grenja svolítið meira á morgun.

3 Comments:

At 9:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Blessuð
Hvað er heimilisfangið hjá ykkur?
Kv. Freydís

 
At 12:17 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég fagna því að þú sért farin að blogga aftur og ég er sérstaklega glöð með að þú leyfir athugasemdir. Ég lofa að vera aldrei með dónaskap í athugasemdarkerfinu þínu.
kær kveðja,
Margrét V.

 
At 6:37 e.h., Blogger JJ said...

I feel your pain! Búin að grenja nokkrum sinnum af svipuðu tilefni... fyrstu jólin okkar í Kanada... :)

 

Skrifa ummæli

<< Home