Um Svíþjóð og Svía eru margar ranghugmyndir. Klassískt er náttúrulega hvað Svíar eru leiðinlegir og húmorslausir, fátt er meira fjarri sannleikanum. Og gleypi ég þó ekki allt ósoðið sem á að heita fyndið. Sjáið þarna setti ég minn eigin húmor á háan hest, það má maður þegar skrifar á sitt eigið blogg.
Önnur goðsögn er ansi lífseig og nær vestur yfir haf til klakans, og hún er sú hve barnvæn Svíþjóð sé. Ég er núna í 14 mánuði búin að vera að segja sjálfri mér að Svíþjóð sé æðislega barnvænt land en á einhvern hátt vitað að ég er að ljúga að sjálfri mér. Og nú skal ég segja ykkur af hverju. Svíar geta nefnilega verið bjánalegir, án þess endilega að vera bjánar þó.
Þeir hreykja sér af því að hafa verið fyrstir þjóða til að undirrita einhvern mannréttindasáttmála fyrir börn. Afleiðingin er sú að sænsk börn má hvorki siða né aga. Enginn hækkar róminn við krakkana sínaog það eru óteljandi senurnar þar sem ég hef orðið vitni af foreldrum reyna að díla við snarvitlausa ungana sína á diplómatiskan hátt. Útkoman er náttúrulega súrrealisk. Besta dæmið var þegar við Doddi vorum með nágrannana í kaffiboði og skyndilega sátum við Doddi ein við borðið því sænska fjölskyldan var öll komin undir borðið!!!! Foreldrarnir fóru á eftir krökkunum til að reyna að dekstra þá undan borðinu. Við Doddi horfðum bara á hvort annað og fengum okkur eina kanilbulle til, hvað annað getur maður gert?! Mér finnst sænskir krakkar oft sjúklega óþekkir, hverjum er greiði gerður með agaleysi?
Vinnudagurinn hér er 45 mín lengri en heima því hér á maður að taka obligatoriskar 45 mínútur í ólaunaðan hádegismat. Fávitar! Fyrir það fyrsta kemst maður ekkert alltaf í mat og í öðru lagi færi ég frekar heim klukkan 16 en 16.45 og myndi sleppa því að éta ef ég fengi að velja. Þetta þýðir náttúrulega að maður er að sækja á leikskólann að nálgast 17.30 sem mér finnst bara sjúklega seint!!
Þegar foreldrar fara í fæðingarorlof má eldra barn ekki lengur fara á leikskólann nema 15 klst á viku, það eru 3 tímar á dag. Nú er Ester Helga stálpuð og sjálfbjarga en maður þekkir til að að eldra barnið er sjálft hálfgerður óviti og meiriháttar fyrirtæki fyrir nýbakaða móður að hafa alla til að koma eldra barninu í leikskóla til að þurfa að sækja eftir 3 tíma. Og vera svo að reyna að gefa brjóst með annan handóðan óvita að fara sér á voða. Fjölskylduvænastefna Svíanna er nefnilega sú að það sé svo voðalega gott fyrir börnin að vera heima ef foreldranir eru heima. Þá víkur að því að ef foreldrnir eru heima að fara á eða koma af næturvakt þá á barnið ekki rétt á því að vera á leikskólanum heldur, það á nefnilega rétt á því að vera heima með ósofnu foreldri sínu sem er kannski á leið á næturvakt næstu nótt líka. Það er nefnilega barninu svo hollt!!! Það er enginn sem lítur svo á að barnið sé að missa af neinu að mæta ekki á leikskólann, sem aftur vekur athygli á því hvernig þeir sjálfir líta á leikskólann, nefnilega sem geymslu en ekki fyrsta menntastigið eins og heima á Íslandi. Og starfið ber þess merki, klárlega! Þetta er geymsla og ekkert annað.
Á leiðinni í vinnuna í haust þá hlustaði ég á viðtal við forstöðukonuna í skólavistuninni í einum skóla hér í Gautaborg. Hún var með áhyggjur af því að þau voru tveir starfsmenn með hátt í 70 börn og óttaðist að geta ekki tryggt öryggi þeirra úti á skólalóðinni og svona. (Uhh skrítið) Þá var klippt inn símaviðtal við skólastjórann sem sagðist telja að öryggi barnanna væri tryggt! Og þar með var það afgreitt.
Allt sem snýr að tómstundaiðkun barna hér er ótrúlega low budget og úr sér gengið, allavega sem við höfum kynnst í gegnum fótboltann, tónlistarskólann og fimleikana. Og þá sér maður hvað það er ofboðslegur metnaður heima. Kannski er það auðvitað svolítið 2007 allir þessir sparkvellir, gervigrasvellir, innanhúsvellir, skautasvell og annað brjálæði heima en hér finnst ekkert svona. Það er ekkert verið að mylja undir krakkana.
Hvaðan kemur þá þessi hugmynd að Svíþjóð sé svo barnvæn? Jú það er nefnilega tiltölulega auðvelt að vera foreldri hér. Fæðingarorlof er langt og vel borgað. Barnabætur eru himinháar, ekki tekjutengdar og greiddar í hverjum mánuði. Það er ekkert mál að fá frí í vinnu við veikindi barna eða skólafrí eða vegna annars sem snýr að krökkunum, því annað þætti ekki pólitískt rétt.
Þannig er Svíþjóð er miklu frekar foreldravæn en nokkurn tímann barnvæn að mati undirritaðrar.
Skoðanaskipti óskast gjarna;)