luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, október 27, 2010

Af spendýrum

Ég hef vitað að ég tilheyri flokka spendýra síðan mér var sagt það í 4. bekk eða eitthvað. En ég hef aldrei upplifað það jafn áþreifanlega og akkúrat núna, ekki einu sinni í hin tvö skiptin því þá hafði ég svo mikið annað að gera. Núna er þetta öll tilvera mín að vera krani fyrir aðra manneskju. Manneskju sem er eiginlega rándýr. Manneskju sem fæddist 4.5 kg og verður ekkert léttari. Hann er rosalega vær og góður en þegar hann vaknar og vill fá að drekka þá er zero tolerance fyrir biðtíma hvers konar, til dæmis ef ég læt mér detta til hugar að taka skítinn af rassinum á honum áður en ég legg hann aftur á brjóst. Hann lætur huggast þegar hann kemst loksins á brjóstið en hann sendir mér reiðilegt augnaráð þegar hann heggur sig á brjóstið. Augnaráð sem segir; "já við getum kannski látið kyrrt liggja í bili en ekki halda að ég gleymi þessu!"
Ég á mér enga eigin tilveru þessa dagana. Sturtu og klósettferðir eru teknar á sprettinum og Doddi gengur allra okkar erinda utanhúss. Hin tvö eldri spyrja hvar pabbi sé þegar þeim vantar eitthvað. Moldvörpulíf. En ég er samt að reyna að kaupa mér hús í þessum töluðu orðum. Eða ég stend álengdar og horfi á Dodda reyna að kaupa hús handa okkur. Það er spennandi. Víííiíí.
Við erum svo upptekin við að kaupa hús að við vitum ekkert hvað Monsinn á að heita. Hvað á Monsinn að heita??

föstudagur, október 22, 2010

Af barnvænu Sverige

Um Svíþjóð og Svía eru margar ranghugmyndir. Klassískt er náttúrulega hvað Svíar eru leiðinlegir og húmorslausir, fátt er meira fjarri sannleikanum. Og gleypi ég þó ekki allt ósoðið sem á að heita fyndið. Sjáið þarna setti ég minn eigin húmor á háan hest, það má maður þegar skrifar á sitt eigið blogg.
Önnur goðsögn er ansi lífseig og nær vestur yfir haf til klakans, og hún er sú hve barnvæn Svíþjóð sé. Ég er núna í 14 mánuði búin að vera að segja sjálfri mér að Svíþjóð sé æðislega barnvænt land en á einhvern hátt vitað að ég er að ljúga að sjálfri mér. Og nú skal ég segja ykkur af hverju. Svíar geta nefnilega verið bjánalegir, án þess endilega að vera bjánar þó.

Þeir hreykja sér af því að hafa verið fyrstir þjóða til að undirrita einhvern mannréttindasáttmála fyrir börn. Afleiðingin er sú að sænsk börn má hvorki siða né aga. Enginn hækkar róminn við krakkana sínaog það eru óteljandi senurnar þar sem ég hef orðið vitni af foreldrum reyna að díla við snarvitlausa ungana sína á diplómatiskan hátt. Útkoman er náttúrulega súrrealisk. Besta dæmið var þegar við Doddi vorum með nágrannana í kaffiboði og skyndilega sátum við Doddi ein við borðið því sænska fjölskyldan var öll komin undir borðið!!!! Foreldrarnir fóru á eftir krökkunum til að reyna að dekstra þá undan borðinu. Við Doddi horfðum bara á hvort annað og fengum okkur eina kanilbulle til, hvað annað getur maður gert?! Mér finnst sænskir krakkar oft sjúklega óþekkir, hverjum er greiði gerður með agaleysi?

Vinnudagurinn hér er 45 mín lengri en heima því hér á maður að taka obligatoriskar 45 mínútur í ólaunaðan hádegismat. Fávitar! Fyrir það fyrsta kemst maður ekkert alltaf í mat og í öðru lagi færi ég frekar heim klukkan 16 en 16.45 og myndi sleppa því að éta ef ég fengi að velja. Þetta þýðir náttúrulega að maður er að sækja á leikskólann að nálgast 17.30 sem mér finnst bara sjúklega seint!!

Þegar foreldrar fara í fæðingarorlof má eldra barn ekki lengur fara á leikskólann nema 15 klst á viku, það eru 3 tímar á dag. Nú er Ester Helga stálpuð og sjálfbjarga en maður þekkir til að að eldra barnið er sjálft hálfgerður óviti og meiriháttar fyrirtæki fyrir nýbakaða móður að hafa alla til að koma eldra barninu í leikskóla til að þurfa að sækja eftir 3 tíma. Og vera svo að reyna að gefa brjóst með annan handóðan óvita að fara sér á voða. Fjölskylduvænastefna Svíanna er nefnilega sú að það sé svo voðalega gott fyrir börnin að vera heima ef foreldranir eru heima. Þá víkur að því að ef foreldrnir eru heima að fara á eða koma af næturvakt þá á barnið ekki rétt á því að vera á leikskólanum heldur, það á nefnilega rétt á því að vera heima með ósofnu foreldri sínu sem er kannski á leið á næturvakt næstu nótt líka. Það er nefnilega barninu svo hollt!!! Það er enginn sem lítur svo á að barnið sé að missa af neinu að mæta ekki á leikskólann, sem aftur vekur athygli á því hvernig þeir sjálfir líta á leikskólann, nefnilega sem geymslu en ekki fyrsta menntastigið eins og heima á Íslandi. Og starfið ber þess merki, klárlega! Þetta er geymsla og ekkert annað.

Á leiðinni í vinnuna í haust þá hlustaði ég á viðtal við forstöðukonuna í skólavistuninni í einum skóla hér í Gautaborg. Hún var með áhyggjur af því að þau voru tveir starfsmenn með hátt í 70 börn og óttaðist að geta ekki tryggt öryggi þeirra úti á skólalóðinni og svona. (Uhh skrítið) Þá var klippt inn símaviðtal við skólastjórann sem sagðist telja að öryggi barnanna væri tryggt! Og þar með var það afgreitt.

Allt sem snýr að tómstundaiðkun barna hér er ótrúlega low budget og úr sér gengið, allavega sem við höfum kynnst í gegnum fótboltann, tónlistarskólann og fimleikana. Og þá sér maður hvað það er ofboðslegur metnaður heima. Kannski er það auðvitað svolítið 2007 allir þessir sparkvellir, gervigrasvellir, innanhúsvellir, skautasvell og annað brjálæði heima en hér finnst ekkert svona. Það er ekkert verið að mylja undir krakkana.

Hvaðan kemur þá þessi hugmynd að Svíþjóð sé svo barnvæn? Jú það er nefnilega tiltölulega auðvelt að vera foreldri hér. Fæðingarorlof er langt og vel borgað. Barnabætur eru himinháar, ekki tekjutengdar og greiddar í hverjum mánuði. Það er ekkert mál að fá frí í vinnu við veikindi barna eða skólafrí eða vegna annars sem snýr að krökkunum, því annað þætti ekki pólitískt rétt.
Þannig er Svíþjóð er miklu frekar foreldravæn en nokkurn tímann barnvæn að mati undirritaðrar.
Skoðanaskipti óskast gjarna;)

fimmtudagur, október 21, 2010

Af fæðingarorlofi

Það er svo áhugavert að prófa að vera í svona alvöru fæðingarorlofi eins og annað fólk fer í. Við Doddi bæði heima og dagurinn snýst um litla Måns, brjóstagjafir og bleiuskipti. (Og reyndar 6 ára afmæli, bílasölur og yfirvofandi húsferlaflutninga;)
Þegar Ingvar fæddist var nýbúið að lögleiða 2 vikna fæðingarorlof fyrir feður. Doddi fékk ekki að taka út sitt hjá atvinnurekandanum FMN, hann fékk að hætta eftir hádegi fyrstu vikuna eftir að hann fæddist og gott ef hann fékk ekki frí daginn eftir að hann fæddist, ég er ekki alveg viss samt. Doddi var sendill á FMN, glætan að það hafi skipt máli hvort það var hann eða einhver annar sem keyrði út einhverja pappakassa en að fara í fæðingarorlof var ekki option. Svo byrjaði ég í skólanum og þá fékk Ingvar brjóst á morgnana, í löngufrímínútum og hádeginu, ekkert væl þess á milli enda borgaði það sig ekki. Eitthvað svipað var upp á tengingnum með Ester, kannski ívið strembnara að fá það til að passa við verknám með skyldumætingu enda komu tengdamamma, amma, einhver kelling úr Breiðholtinu og svo að lokum Lydia til að redda þessu. Ester var selflutt á Baró til að fá brjóst um vorið.
Núna þarf Måns rétt svo að umla og það koma báðir foreldranir hlaupandi. Þetta verður mikill dekurrass;) En þetta er svo miklu skemmtilegra! Engin kvíðahnútur yfir neinu yfirvofandi prófi eða verknámi eða einhverju rugli. Það eina sem ég veit er að ég fer næst í vinnu 1. sept 2011.

Í næsta pistli verður fjallað um goðsögnina "barnvænu" Svíþjóð.

sunnudagur, október 17, 2010

Af Dodda

Doddi getur verið svo fyndinn (finnst mér allavega) algjörlega áreynslulaust. Bara verandi í eigin skinni (og heimi) getur hann skemmt mér konunglega.

Í morgun fetti hann sig og bretti og lýsti sigrihrósandi yfir að gönguskíði væru kraftaverk!! Það væri gaman að vita skoðun páfagarðs á því.

Þegar ég var búin að vera í tæpan sólarhring í fæðingu á laugardeginum þá stundi hann: "Ég ætlaði nú eiginlega með Sverri í Liseberg í dag." Það er ekki gott að fá hláturskast í hríðum;)

"Måns! eins og í Monster!" sagt milli 4 og 5 einhvern morguninn í vikunni sem leið.

"Ef ég á að segja alveg eins og er - þá fæ ég aldrei neitt útúr þvi að klippa á naflastrenginn!"

föstudagur, október 15, 2010

Af koddum og ungabörnum

Hejsan allihoppa!
Nú þegar ég verð sennilega mest ein með hausnum á mér á komandi mánuðum er ekki ósennilegt að hlutir poppi upp í hugann. Það er hættulegt að hugsa of mikið einn með sjálfum sér, betra að blasta því á meðal fólks.
Mér liggur endalaust mikið á hjarta varðandi litla Måns (sem ég verð að fara að hætta að kalla Måns). Það er til að mynda búið að vera sjúklega áhugavert að eignast þrjú börn á þremur æviskeiðum. "Reglurnar" í ungbarnaverndinni breytast stöðugt og í hvert skipti fylgir maður ráðleggingum dagsins í dag eins og heilögum sannleik af ótta við að mistakast sem foreldri. í dag var okkur sagt að Måns ætti að sofa á bakinu á KODDA!!!! Við supum næstum hveljur. Ingvar átti að sofa á maganum eða hliðinni. Ester átti að sofa á hliðinni og ALLS EKKI maganum, í bæði skiptin voru koddar drápstól sem engum heilvita manni myndi detta í hug að leggja ungabarn á. Nei nú á Måns að sofa á bakinu á kodda svo við eyðileggjum ekki á honum höfuðlagið. Án spaugs. Og þá rjúkum við út í næstu sérvöruverslun með barnavörur og án þess að efast í eina sekúndu er keyptur ungbarnakoddi á 189 skr. Sannleikurinn breytist og mennirnir með. AD droparnir eru bara D dropar í dag enda A vítamín toxiskt á meðan allir eru með D vítamín skort. Það tók 12 ár að komast að því. Nú vonum við Doddi bara að það hafi verið A-hlutinn sem olli magakveisunum hjá krökkunum okkar, annars fær þristurinn heldur enga dropa.
Jamms.