luxatio hugans

awakening

föstudagur, ágúst 21, 2009

Myndir

Af Europe

Framvegis mun ég ekki blogga nema ég hafi farið á tónleika;) Við fjölskyldan skruppum nefnilega á Europe tónleika hér á Götapladtsen í Gautaborg. Þetta var partur af menningarviku Gautara. Nú nema hvað - sannleikurinn er sá að mig dauðlangaði að vera á Way out West tónlistarhátíðinni sem var haldinn í Slottskogen. Þar voru ma að spila Anthony and the Johnsons og Lily Allen. En það var dýrt og mar búin að splæsa á U2 og Madonnu. Þannig að ..... í svekkelsinu yfir að vera ekki í Slottskogen þá skyldi maður gera eitthvað. Europe áttu að spila og því ekki að fara og sjá Final Countdown? Helvítis húmor í því! Sannleikurinn er sá að þetta var eitthað það viðbjóðslega leiðinlegasta sem nokkurt okkar, ég, Doddi, Jónas, Ingvar og Ester höfum á okkur lagt. Brandarinn eiginlega brann inni í höndunum á okkur þegar Europe tók hvern viðbjóðslega leiðinlega slagarann af fætur öðrum. Við vorum farin að glensa með það að kannski tæku þeir bara ekkert Final Countdown. Það væri til að kóróna hryllinginn. En þetta var orðið svo að það var ekki hægt að fara án þess að heyra helvítis lagóbermið. Börnunum var kalt og þau voru þreytt en mamma og pabbi vildu ekki fara heim á þrjóskunni. Og þá gerðist það. Ljósin slökknuðu og Europe þakkaði fyrir sig. Þeir létu klappa sig upp og Final Countdown var SEINNA uppklappslagið. Og það var ekki einu sinni neitt meiriháttar! En við gerðum með okkur heilagan sáttmála að láta aldrei neitt annað uppi en að þetta hefðu verið bestu tónleikar sem við hefðum farið á. Þann sáttmála rýf ég hér með.
Og þá er það bara PINK í nóvember;)

Dagarnir líða einn af öðrum hér (en ekki hvað?). Hversdagsleikinn er tekinn við. Ingvar er byrjaður í 5B, þeir eru einni tölu á eftir hér því 6 ára bekkurinn þeirra er núllan. Doddi mætir með honum alla daga og þýðir í eyrað á honum. Doddi er þannig farinn að læra sögu og landafræði og deilingu upp á nýtt. Doddi mætir líka í vettvangsferðir og fær verkefni eins og hinir þar sem hann hleypur um skólalóðina og spyr nemendur spurninga í einhvers konar spurningakeppni. Doddi ætlaði að vinna og lagði sig allan fram. Ég held hann hafi ekki unnið þó. Doddi er náttúrulega búinn að kynnast öllum í bekknum og finnst þetta frábærir krakkar. Þau hafa tekið mjög vel á móti Ingvari og leggja sig fram við að involvera hann. Mjög kúl. Ingvar er líka byrjaður að æfa fótbolta með Dalen og er meira að segja búin að keppa sinn fyrsta leik við BK Bifröst. Leikurinn tapaðist 9-2. Kemur Dalen!!
Við Doddi keyrðum svo ásamt Jónasi Hvannberg og tveimur kátum Tyrkjum norður í rassgat að kaupa okkur píanó og píanóbekk. Píanóið fékkst á spottprís, 1000 sænskar, flutningurinn á því heim kostaði 2000 sænskar. En hey 3000 sænskar er rugl prís á þessu glæsilega stykki. Nú getur krakkinn haldið áfram að æfa á píanó hér.
Ester er byrjuð hjá dagmömmu sem heitir Caroline og er himnesk. Krakkarnir eru frá 2 ára upp í 6 ára, dagmömmurnar eru 4 sem eru saman á hverjum degi svo það er nóg af krökkum og mikið líf og fjör hjá Ester Helgu. Hún er hæstánægð með þetta og alltaf glöð að fara og mjög ánægð með daginn þegar við sækjum hana. Hún er líka komin með pláss í fimleikum svo þetta er að smella hjá okkur.
Skólinn hans Ingvars er í 500 m fjarlægð og Dagmamman er í 100 m fjarlægð. Lúxus.
ég er líka alltaf að sjá betur og betur hvað Toltorpsdalen er sjúklega huggulegt hverfi. Sjúklega flott hús og fallegir garðar. Frúin fer ekki fet úr dalnum að ári liðnu. Verst að það er gjörsamlega ekkert til sölu hér. Helst vona ég að Jónasi bjóðist eitthvað áframhald á sínum samning, eitthvað sem hann getur ekki hafnað og leigi okkur áfram eitt ár í viðbót. Mér líður nefnilega eins og húsið sé mitt. Það verður erfitt að flytja héðan út.
Læknisfrúin flokkar sorp í Svíþjóð eins og enginn sé morgundagurinn. Það er í raun ekki nýfundin ást á jarðkringlunni sem veldur, heldur sú staðreynd að sorptunnan er tæmd hálfsmánaðarlega. Ef maður flokkar ekki sorp í Svíþjóð þá drukknar þú í sorpi. Svo einföld er sú formúla. Jónas er auðvitað með moltutrog í garðinum og ég myndi halda að 50-60% af öllu okkar sorpi fari í moltuna. Jesús, er ég farin að blogga um sorp? Er þetta komið út í það?!
Ég er búin að taka æfingaakstur á sjúkrahúsið mitt síðustu daga. Það væri nefnilega svo vandræðalegt að koma ekki í vinnuna af því að maður fann ekki spítalann. Í dag fór ég svo líka og hitti Anniku aftur, sótti um bílastæðapassa og fékk skáp og ljót vinnuföt. Lansadressin kæmust í Vogue samanborið við þessa hörmung hér. Úff. Annika heldur að ég sé hálfviti en hún var ferlega næs og almennileg þrátt fyrir það. Svíinn er voða almennilegur eitthvað.
Svo er það bara Finnland á mánudagsmorguninn.
Jamm.

þriðjudagur, ágúst 11, 2009

Af Madonnu

Hejsan hvað Madonnu tónleikarnir voru geðveikir!! Mig langaði að grenja á köflum en ég lét það vera;)
Gautaborg heldur áfram að vera æði. Hér í borg er fullt fullt af vötnum sem vinsælt er að baða sig í. Bara 15 eða eitthvað í Mölndal einum saman (Mölndal er bæjarfélag við Gautaborg, svipað og Kópavogur við Reykjavík), en einnig má fara á strandir sem liggja víða eftir sjávarlengjunni. Við höfum gert bæði og það er eiginlega betra að fara í vötn finnst okkur, hitt var gaman líka.

Mikil skriffinnska hefur átt sér stað síðustu daga. Það væri til að æra óstöðugan að segja frá því hvernig ferðirnar á Skatteverket hafa gengið en Svíinn er nákvæmari en andskotinn! Við vonum að okkar síðustu ferð hafi lokið í dag en þá eyddum við þremur tímum þar. Aumingja Ester Helga, en það sem hún var góð enda tróð mamman hana út af sælgæti;)
Aðrar góðar fréttir af Ester eru að hún er komin með dagmömmupláss! Já sæll og góðan daginn Svíþjóð! Við foreldrarnir vorum æf fyrst. Okkur hafði skilist að Mölndal hefði 4 mánuði frá umsókn til að redda barninu leikskólaplássi og þar sem við sóttum um í maí-ferðinni okkar þá vorum við nokkuð róleg að hún fengi pláss í síðasta lagi september. En þá var hringt í morgun og þeir hafa 4 mánuði til að redda EINHVERJU vistunarúrræði og Ester er komin með dagmömmu, verði ykkur að góðu, takk fyrir og bless.
Við fórum í uppnámi yfir til nágrannana Lindu og Per yfir raunum okkur með dagmömmuna en þá voru þau svona himinsæl fyrir okkar hönd. Oh det er bra!! Þá eru þetta eldri börn líka, ekki bara ungabörn með hor eins og heima, plús að Linda sagði að seinasti veturinn í leikskóla hér er ekkert í líkingu við skólahópana heima. Þeirra 6 ára bekkur sem er 0. bekkur fer í það hér.
Jæja, jæja. Þá þurrkuðum við horið og grenjurnar framan úr okkur og urðum fegin að Ester er komin með vistun og við getum byrjað áhyggjulaus að vinna. Mycket bra!
Þsð er svo gott að búa hérna, maturinn er mjög góður og miklu ódýrari en heima, jafnvel þó maður sé enn að margfalda með 17, sem er náttúrulega rugl. Mar á að hætta því. Eitt sem menn óttast við ESB er innflutningur matvæla. Nú held ég mjög með íslenskum bændum og vill íslenskum landbúnaði allt hið besta en mjólkurmaturinn hér er síst verri en heima. Ostarnir himneskir. Feta og mozzarellan svo margfalt betri hér, jógúrtin guðdómleg, sýrði rjóminn er dásamlegur, ég get borðað hann með skeið. Enda fitna ég, þrátt fyrir að vera tekin til við hlaupin á ný.

Já það er gaman að þessu. Samt er ég eitthvað andlaus.
Reyni að setja inn fleiri myndir fljótlega.

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Enn af U2

Þá er vika í Gautaborg liðin. Þetta verður bara betra og betra. Frá því ég skrifaði síðast hefur gámurinn komið með allt dótið okkar, það gekk rosalega vel að tæma hann og koma draslinu okkar úr Mölnlycke þar sem Þórhildur og Þórður búa, hingað í Fotballgatan. Hér á milli eru 10 km og Doddi leigði sér "kerru" sem reyndist vera á við lítinn gám og drógum við búslóðina aftan í Rent a wreck volvónum okkar. Ingvar er svo feginn að bíllinn er rækilega merktur með þessum rent a wreck límmiðum því þá getur enginn haldið að við eigum þennan bíl;)
Krakkarnir voru kátir að fá dótið sitt, ég saknaði svo sem einskis þannig lagað, það er allt til alls hér í húsinu hans Jónasar.
Það var haldinn stofnsaumaklúbbur íslenskra kvinna hér í Gautaborg í gærkvöldi og var það mjög skemmtilegt og heklaði ég eina blúndu af 36 í nýja sjónvarpsteppið mitt. Ansi vel af verki staðið. Heimilislegt að komast í klúbb aftur;) Doddi líka mættur í einhvern íslendingabolta hér svo okkur ætti svo sem ekki að leiðast.
Loksins kom himneskt veður og vorum við Doddi með græna fingur í dag. Slógum grasið, kantskárum, ég reytti arfa í matjurtagarðinum hans Jónasar og reyndar tók ég ótímabært upp nokkrar gulrætur líka í misgripum fyrir arfa. Ekki nógu gott. En ég er búin að komast að því að Jónas ræktar eitt og annað. Í garðinum er nefnilega epla, peru og plómutré. Hann ræktar rifsber, brómber, hindber, jarðarber og bláber. Svo er hann með rabbabara, kál, gulrætur, graslauk, rósmarin, timian, basiliku, sítrónugras og einhver fleiri krydd. Ég fíla þetta mjög vel. Ég elska líka húsið hans og myndi helst vilja eignast það. Vona amk að þetta verkefni hans í Brussel verði framlengt;)
í dag kom svo nágrannakonan, sú sem er læknir á Sahlgrenska, og bauð okkur í grill í kvöld ásamt vinahjónum þeirra, þar sem gaurinn er íslenskur. Nágrannarnir eiga strák sem er jafngamall Ester og vinahjónin stelpu sem er jafngömul henni og tvítyngd svo fram fór mjög áhugavert tungumálaatriði hjá krökkunum í kvöld. Litla Svava túlkaði fyrir Ester og Erik;) Grillveislan var svo bara mjög skemmtileg, samræður á sænsku sem ég skildi svona 80%, og svíarnir bara mjög fyndnir. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað þau voru á köflum kaldhæðin.
Á morgun stefni ég svo á leynifélagsfund ásamt leynifélaga, og svo er matarboð hjá Jóhönnu og Guðna á föstudaginn og Madonnutónleikar á lau. en ég ákvað í dag að skella mér á Madonnu, hvaða rugl væri að gera það ekki??!!

Þetta blogg er að breytast sé ég. Ætlaði aldrei að blogga í dagbókarfærslum en það breytist eitthvað við að segja fregnir af sjálfum sér í öðru landi. Sjáum til hvað svo verður.

p.s titillinn á bloggfærslunnu var fyrir Beggu. Ég grenjaði úr hlátri þegar ég fattaði sneiðina;)

sunnudagur, ágúst 02, 2009

Af U2


Nú er ég rokgjarn (e. versatile) persónuleiki. Ég skipti oftar um skoðun en nokkur annar sem ég þekki. Því ætti mér því ekki að líka illa í Gautaborg einn daginn og prýðilega þann næsta?

Doddi og Jónas hittust klukkan 5 í nótt og tóku hring, úti og inni og fóru yfir hlutina. Hann tók engar videomyndir og minntist ekkert á það heldur. Hann sagði okkur að vinsamlegast opna aldrei uppþvottavélina fyrr en hún væri búin að fullþurrka leirtauið því það fer svo illa með innréttinguna (BALDUR HEYRIR ÞÚ ÞAÐ?!) og bað Dodda að slá grasið í garðinum í dag. Helvískur! Og ég sem var búin að liggja á hnjánum og reyta arfann í rósmarínbeðinu til að ganga í augun á honum þegar hann kæmi. Það er aldrei hægt að gera Jónasi til hæfis! Djók. Jónas er hinn vænsti maður og vill okkur hið besta hér í Svíþjóð.

Í dag ætlum við að fara að ná í bíl sem við leigðum okkur á Rent a wreck, þar til okkar kemur með skipinu. Þetta er eldgamall Volvo, en þetta eru bestu prísarnir á bílaleigubílum í dag;) Svo á að fara með íslenska krakkastrollu í Liseberg tívolíið.
Á morgun kemur svo gámurinn okkar og Þórðar og Þórhildar. Þá kemur það heimilistæki sem ég elska og sakna mest, kaffivélin mín. Og stólinn hans Dodda, þá fer þetta að verða eins og heimili hér.
Nokkrar myndir fyrir þá sem eru ekki Feisbúkk, mamma og Svansa frænka og fleiri.