luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, júlí 23, 2003

Ég brá mér upp í Mosfellsbæ í gærkvöldi. Sem er náttúrulega KJAFTÆÐI maður bregður sér ekkert upp í Mosfellsbæ, maður leggur land undir fót og nær loks áfangastað upp í Mosfellsbæ. Eins og Svala vinkona mín segir; "það er kindalykt í Mosó" Allavega. Ég fór þangað uppeftir til að hitta vanfæra vinkonu mína Krístínu Hörpu, betur þekkt sem Gyða Sól, og ekki að ósekju, því þegar ég kem er hún svo illa haldin í bakinu að hún gat varla gengið. Jú, hún hafði nefnilega tognað, í marki, á fótboltaæfingu, KOMIN 8 MÁNUÐI Á LEIÐ!!

Ég og Sólveig vinkona mín erum báðar ættliðasvindlarar en þó erum við hreinar andstæður í því svindli.
Hreinar afleiðingar af mínu svindli eru m.a:

Þegar ég er mynduð með mínum ættlið á fjölskyldumótum, þá held ég á krökkunum sem enn eru með bleiu:(
Bræður mömmu eru bestu vinir mínir og Ingvar leikur sér við börnin þeirra.
Systkini mín og Ingvar, rífast um það hver fékk mest bland í poka.
Ingvar á 78 ára langalangömmu sem dansar polka og spilar bridds.
Ég gerði tvær konur að langömmusystrum, önnur var 43 og hin 45 og kunnu þær mér ekki þakkir fyrir.

Sólveig, hins vegar,
leikur sér við börn systkina sinna, eða gerði það, nú drekkur hún með þeim.
Öll systkini Sólveigar gætu átt hana, nema tvö yngstu.
Sólveig er að verða ömmusystir í annað sinn, ekki orðin 26 ára. HAHAHAHAHAHAHAHA

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Á þessu ágæta fjölskyldumóti á Álftanesi, sem ég hef mikið skrifað um, þá var spilað hið magnaða sumarbústaðaspil KUBB. Já Svíabusar, Ragnar og Róbert, nú megið þið fara að vara ykkur, verður ekki spilað kubb um versló?? Á einhver kubb? Veit einhver hvar maður fær svoleiðis? Er þetta 4. spurningin í röð? Svo er ég ekki einu sinni með komment til að svara á.

mánudagur, júlí 21, 2003

Hey, já og barnæska Ingvars er komin í albúm, eða það sem er liðið af henni. Engin smá vinna. Ég og Raggi hittumst líka daglega, því daglega fór ég í Pennan og keypti sitthvað smáræði sem mig vantaði, eins og 40 karton og plastumslög, Á DAG. Job well done.

Þetta litla stef: "give me the beat boys and free my soul, I wanna get lost in your rock and roll, and drift away...." minnir mig alltaf svakalega mikið á Örvar. Hver man ekki eftir tímabilinu þar sem Örvar mátti ekki drekka einn bjórsopa, þá var hann farinn að kyrja; ég tjútta til að gleyma!!
Ég varð að koma þessu á framfæri.

sunnudagur, júlí 20, 2003

Helgin var frábær. Reyndar var löng helgi, því Gunna, Auja og Palli komu á miðvikudaginn og þá eru jólin hjá Ingvari. Palli var svo eftir hjá okkur þegar Gunna og Auja fóru til Polska og hann og Ingvar voru að frændast. Á fimmtudaginn kom Doddi frændi með tjaldvagninn sinn og ég og Atli frændi fórum með hann upp á Marbakka þar sem fjölskyldumótið fór fram. Strax á fimmtudagskvöldið var fólk að koma og tjalda, veðrið var geggjað, krakkarnir léku sér í fjörunni og allir voru þvílíkt kátir. Ég og Árni frændi vorum svo í heilmiklum snúningum á föstudeginum en Ingvar fékk að vera á Marbakka í góða veðrinu, krakkarnir voru í pottinum og fólk lá og lét sólina sleikja sig. Dagskráin hófst svo formlega á laugardegi með hópferð í sund um morguninn, hádegisgrilli og "léttum" ratleik, sem átti sér stað á öllu Álftanesinu. Ég var farin að æla blóði eftir öll hlaupin, enda ekki í formi, en ég ÆTLAÐI að vinna. Og vann. Eða mitt lið vann. Svo var grillað og kvöldvaka á laugardagskvöldinu. Ég held bara að ég eigi skemmtilegustu fjölskyldu í heiminum. Þetta er líka frábært form á ættarmóti. Bara amma Ester og afkomendur hennar. Maður þekkir hvern einasta kjaft, líka minnstu börnin. Við vorum 50 um helgina en einhverjir komust ekki. Þetta ágæta mót er haldið á tveggja ára fresti við mikinn fögnuð og nefndin fyrir næsta mót var kynnt í gærkvöldi. Já það er líf og fjör.

Síðasta færsla fékk heilmikil viðbrögð. Það virðast vera mjög margir meðlimir í samtökum gegn sjálfselsku. Virðist flestum sem að nú sé mál að linni og eru heilu skipsáhafnirnar komnar í viðbragðsstöðu. Menn fylkjast á bak við það góða í baráttunni gegn hinu illa og er það vel.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Er til orð yfir fólk sem hættir með maka sínum en heldur áfram að nota hlutina þeirra og jafnvel farartæki?? Mér kemur ekkert í hug nema tækifærissinni en ég er ekki viss um að það nái yfir þennan flöt endilega. Ég man bara ekki eftir neinu lýsingarorði um fólk sem notar aðra. Allar ábendingar vel þegnar.

Ég fór í Baby Sam áðan að kaupa ónefnda gjöf handa ónefndum og ekki meira um það. Út um alla búðina glymur: Alexandra Mist! Viktoría Líf! Máni Alexander! Mér var skapi næst að biðja um ælupokann þar sem ég beið við kassann. Hvað varð um Jón, Guðmund og Sigríði sem byggðu þetta land?! Þar sem ég stend svo við afgreiðsluborðið og bíð á meðan konan pakkar inn gjöfinni, þá rek ég augun í blað þar sem maður gat skráð sig á póstlista hjá Baby Sam. "Þá getur þú fylgst með öllu því sem er að gerast hjá Baby Sam" Kræst. En þarna skaust skrattinn upp hjá mér og ég skráði ónefnda, vanfæra vinkonu mína á þennan póstlista. Það er ekki séns að afskrá sig af svona listum, ég hef reynt það.

Góð afsökun eða? Sénsinn að perrarnir eigi ekki eftir að skýla sér á bak við þetta.

þriðjudagur, júlí 15, 2003

Okei, man einhver eftir Bob úr bachelorette? Of course, því hann var gorgeus!!! Allavega, þá var einhver þáttur um feita hjá Opruh, einu sinni sem oftar. Feitt fólk sem hafði misst ævintýralega mörg kíló bla bla bla. Einhver gaukur fékk Porche og grét úr gleði og mér var alveg sama um það. Nema hvað að einhver gella sem missti 50-60 kíló sagði hjartnæma sögu af því að hún hefði aldrei farið á deit, ergo aldrei fengið í hana, því hún var svo ljót og feit, buh hu hu, nema hvað, haldið þið að Bob, minn Bob, komi ekki bara og sæki hana á limma og fari með hana á deit. ÉG VAR BRJÁLUÐ!!! Okei hvað þarf ég að missa mörg kíló?

mánudagur, júlí 14, 2003

Ófædd börn með heimasíður á barnaland.is
1. Er fólk klikkað?
2. Er ég klikkuð og þetta fólk normal?
3. Hafa vanfærar konur sem ekki koma sér upp slíkri síðu, engan áhuga á ófæddum börnum sínum?
4. Ef svar við 3. er játandi hafa þá Begga og Kristín engan áhuga á börnunum sem þær ganga með?
5. Hvað verður þá um börnin þegar þau fæðast óvelkomin inn í þennan heim?
6. Eru einhver úrræði fyrir þessu óvelkomnu börn?
7. Eða er fólk bara snarklikkað?

Er réttlætanlegt að gefa börnum bjór eða önnur vímuefni í því skyni að draga úr málæði þeirra?
Er réttlætanlegt að fá sér bjór eða önnur vímuefni til að höndla málæði umræddra barna?
Hvað skyldi barnaland.is segja við þessu?
Þetta er örugglega ekki á umræðuvefnum þeirra.
Hvaða diss er þetta í mér útí barnaland.is?

sunnudagur, júlí 13, 2003

Annars gæti verið að ég hætti að blogga hér og fari að blogga hjá Robba. Þá var Begga líka að tala um að hún færi að blogga þar. Það væri stuð. Ég er að skoða þetta.

Rosalega finnst mér SS pylsu auglýsingarnar um að það sé kurteisi að bíða eftir því að allir fái matinn sinn og að það sé ekki kurteisi að tala með fullann munninn, leiðinlegar.
Ætli SS hafi skipt um auglýsingastofu eftir að auglýsingarnar með Gunna og Björk voru gerðar??? Þær voru nefnilega drepfyndnar.

í Fókus er talað um að Flatt sé flott. Þó svo að einhverjir hönnuðir eða stílistar séu búnir að ákveða að nú sé flatt inni, þá mun karlmönnum aldrei fara að finnast flöt brjóst fallegri en stór. Sorrý. Skoran telur.

Jæja ég er komin heim frá Köben. Það var mergjað í Köben. Mergjað er kannski ekki alheitasta slangrið í dag. Það var allavega mjög skemmtilegt. Ferðin var Ingvarsmiðuð. Þ.e.a.s það var farið í Zoologisk Have, dýragarðinn fyrir þá sem fengu undir 5 í dönsku og muna ekki eftir spes kafla um ferð í Zoologisk Have í dönskubókinni. Allavega. Svo fórum við á Bakken í tívolíð þar og þar fór ég í eitthvað viðurstyggilegt powerball og það eina sem ég gat hugsað um var að ef það gæfi sig skrúfa þá væri ég dauð. Hvernig fær maður þá flugu í hausinn að skemmta sér á þennan hátt?? Svo fórum við náttúrulega á Istegade þar sem hórur Danmerkur halda til, topplausir barir, hjálpartækjaverslanir, peep show og annað þesslags. Og hvað voru Konan sem ekki drekkur, 5 ára sonur hennar og vanfæra konan að flækjast þar?, gæti maður spurt sig. Jú því á Istegade var veitingastaðurinn Indus þar sem mátti fá gómsæta Indverska rétti. Ég og Begga erum báðar með ástríðu fyrir Indverskum mat, já og reyndar mat yfir höfuð. En þessi furðulega þrenning átti jafnlítið heima í Kristianiu en þangað skelltum við okkur samt. ÚFF lyktin þar...... Reyndar var ég búin að lofa sponsornum mínum að hringja ákveðin símtöl ef mér dytti í hug að fara niður í Stínu, en þar sem ég fór sem túristi en ekki neytandi þá sá ég ekki ástæðu til þess. Þvílíkur staður. Öðrum megin eru seldir minjagripir um Kristianiu og hin ÝMSU áhöld til neyslu fíkniefna, ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að ímynda mér í hvað allt þetta drasl er notað. Hasspípur af hundrað gerðum og ýmis sigti og síur og ................ Hinum megin voru svo sölubásar dauðans. Bás eftir bás með útstillingu á þeim fíkniefnum sem voru þar til sölu. Allir sjálfir að reykja sem unnu í básunum, ungar og fallegar stelpur jafnvel. Reyndar er ég ung og falleg, hvað er ég að tuða?! Svo fórum við í tívolíð í Kaupmannahöfn, við fórum á ströndina og urðum brún, við borðuðum á Nyhavn sem er magnaður staður. Ekki hægt að lýsa stemningunni þar þegar fór að dimma. Þetta var bara mögnuð ferð. Takk Begga, Benni, Bumbubenni og Hera. Vi ses i Reykjavik Island:)

sunnudagur, júlí 06, 2003

Farvel min venner!!
Ég er farin til Kaupmannahafnar. Þ.e.a.s ég er tilbúin, allt komið ofan í töskur, passinn til, allt klárt. Nú er ég bara að bíða þangað til klukkan er orðin 5. Þá legg ég af stað ásamt einkasyninum sem getur ekki beðið eftir að fara í þotu. Til útlanda. Samt hafði hann pínu áhyggjur að hann væri að fara til byssuútlanda og að hann yrði skotinn. Ég náði að sannfæra hann um að það væri ekki raunin en varð í leiðinni að ljúga því að enginn í Danmörku ætti byssu!!! En þetta flokkast örugglega sem hvít lygi í góðum tilgangi.
Þegar ég sagði að allt væri komið ofan í töskurnar þá átti ég líka við hangikjötssalatið og karamellujógúrtina sem elskuleg og vanfær vinkona mín bað mig um að færa sér til Danaveldis. Ég ákvað að spyrja ekki meir og festi kaup á þessu sem snarast svo ég myndi ekki gleyma því. en?? jú nó.
Ingvar er líka mjög spenntur að fara í dýragarð og tívolí og ég er spennt með honum.
Jæja ég segi frá því sem markvert gerist úti
Líf og fjör

laugardagur, júlí 05, 2003

Þetta er geðveikur dagur.
-ég á afmæli í dag. 6 mánaða
-ég keypti mér far til Köben í dag. Jíbbý
-ég fór í bláa lónið í góðra vina hópi
-ég fékk blóm frá Dodda
-Sverrir hringdi í rífandi góðum gír, allt gott að frétta af honum.

Í gær
-átti Baldur litli alvöru afmæli, svona 23 ára afmæli
-ég fékk ótrúlega flott boðskort í brúðkaup Auju og Gísla

Það er bara endalaust fjör hjá mér