Ófædd Þóroddsdóttir
Þá hef ég fengið að vita að ég geng með stúlku. Ansi snotur verður snótin sú ef hún líkist mömmu sinni eitthvað og skemmtileg og fyndin með eindæmum. Ég var svo glöð að ég grét næstum þegar ljósan kvað upp úrskurð sinn varðandi kynið. Ég sá fyrir mér að verða undir í lífsbaráttunni ef enn einn strákurinn kæmi. Ég yrði ein á móti þremur og hefði ekkert um það að segja að farið yrði á Hornstrandir um Verslunarmannahelgar og svoleiðis. Nú hef ég eignast bandamann sem stendur með mér í svona stelpustöffi. Viðheldur gellunni í mér. Mæður sem eiga bara syni veslast upp í Henson göllum, Millet úlpum og snjáðum strigaskóm. Dóttir mín mun hins vegar neita að fara með mér í Kringluna nema ég sé sómasamlega til fara og í því felst ákveðið aðhald. Því er ekki að neita.
Blessuð stúlkan er auk þess komin með nafn en því mun ég ekki uppljóstra.