Efnishyggjan
er að ganga af mér dauðri þessa dagana. Það er mjög erfitt fyrir einhvern sem er jafn andlegur og sjálfum sér nógur og ég er, að þurfa að sökkva sér svona algjörlega ofan í hégóma hins efnislega heims. Anyways. Hér í Eskihlíð 16b er uþb að verða fokhelt. Þetta er svona týpiskt dæmi um eitthvað smotterí sem vindur upp á sig út í hið óendanlega. Í rétt um ár höfum við verið að ræða hvað megi gera við Ester Helgu og alla hennar fylgihluti. Hún sefur inni hjá okkur, ennþá, og leiksvæðið hennar tekur hálfa setustofuna mína. Hvað skal gera? Það eru ekki fleiri herbergi í íbúðinni. Stofurnar eru vissulega tvær og mjög stórar. Hér upphófust miklar pælingar. Eigum við að kaupa nýja íbúð? Við viljum bara vera hér í Hlíðunum og stærri íbúðir eru mjög dýrar. Aukaherbergi á 15-20 milljónir? Eiga áfram íbúðina og loka annarri stofunni? Skipta upp annarri stofunni? Láta Ester fá hjónaherbergi og sofa í stofunni o.sfrv, o.s.frv. Að lokum játuðum við vanmátt okkar varðandi arkitektúr og leituðum til arkitekts. Jú þá kom svosem upp úr dúrnum að auk þess að herbergi vantaði í íbúðina, þá er baðherbergið ónýtt, það vantar þvottahús og skápa. Arkitektinn hófst handa, braut nokkra veggi á teikningum og voila, við vorum komin með nýtt bað, þvottahús, herbergi handa Ester með því að skipta borðstofunni upp í tvennt, nýtt eldhús og nýja skápa. Þá átti bara að fara að hefjast handa. Enn einir fagurfræðilegir ráðgjafar mættir á staðinn og við vorum að sýna þeim fyrirhugaðar framkvæmdir. Þá segir annar þeirra: "Af hverju færið þið ekki núverandi eldhús inn í stofu, búið til sameiginlegt eldhús og borðstofu og þá er eldhúsið fullkomin stærð á barnaherbergi og það þarf ekki að slá upp neina aukaveggi?" Ómægod!!! Þvílík snilldar hugmynd!! Af hverju höfðum við ekki fengið hana fyrr? Svona eru öll hús teiknuð í dag. Önnur ferð til arkitekts. Nei sorry guys. Engar lagnir, ekkert vatn, ekkert frárennsli. Gleymið þessu. En þráhyggjan var vöknuð. Náð var í lagnateikningar til borgarinnar, hringt í alla ættingja með byggingartæknifræðimenntun og viti menn! Við fundum mögulegt frárennsli. Það þarf bara að gera við það og fá leyfið. Allt á fullt á nýjan leik. Nýjar teikningar. Eldhúsið verður sameiginlegt með borðstofu. Skrilljón ferðir í milljón fyrirtæki sem selja eldhús og böð, parket og flísar og skápa. Mig dreymir eldhúsinnréttingar. Martraðakennt. Komin með iðnaðarmenn sem er þyngsta þrautin. Og nú þarf þetta bara að fara að byrja.
Mörgum finnst þetta of mikið vesen og skilja ekki af hverju við seljum ekki. Við erum í 140 fm eign, að vísu í blokk. Við viljum ekki úr hverfinu og ef við viljum stærri eign í Hlíðahverfi þá erum við að tala um eignir upp á 40-50 milljónir. Við fengjum kannski 25 milljónir fyrir okkar í núverandi ástandi. Mismunur 25 milljónir fyrir aukaherbergi að vísu í sérhæð en ekki blokk. Mismunur í mánaðarlegum afborgunum uþb 200.000 á mánuði. Svartsýnustu áætlanir fyrir þessar framkvæmdir eru 3 milljónir ef allt fer úr böndunum kostnaðarlega. Þá erum við komin með eign algjörlega eftir okkar höfði, herbergi fyrir alla og ennþá í hverfinu, í túnfætinum á Hlíðarenda, í göngufæri frá stærstu vinnustöðum landsins, og HR að hefja sína starfsemi á sama tíma og við seljum og flytjum út í sérnám. Ég er kannski ekki sú sleipasta í stærðfræði en mér finnst þetta frekar augljóst reikningsdæmi.
Kannski verður annað hljóð í mér þegar ég hef ekki komist í bað í mánuð;)