luxatio hugans

awakening

mánudagur, desember 31, 2007

Árið gert upp

Já nú er rétti tíminn til að fara yfir allar prófgráðurnar, viðurkenningarnar og upphefðirnar sem mér hafa verið veittar á árinu. Já árið var gjöfult, sei sei.

sunnudagur, desember 30, 2007

Til hamingju með íþróttamann ársins

Ég er gríðarlega ánægð með valið á íþróttamanni ársins. Ég hafði vonað að það yrði hún þegar ég sá listann yfir 10 efstu en hafði samt eiginlega ekki leyft mér að trúa því. Átti alveg eins von á því að það yrði Örn fyrir að setja eitthvað met í 25 metra laug................ eins og venjulega. Fór í taugarnar á mér að sjá hvað Birgir Leifur var ofarlega. Get ekki beðið eftir þeim degi að hann ætti að iðka golf.

sunnudagur, desember 23, 2007

Þolláksbloggið 2007

Ester Helga er búin að vera að söngla jólasöngva á aðventunni sem hún lærir í leikskólanum. Ég hef komist að því að mér þykja jólasöngvarnir Fúm fúm fúm og Skín í rauðar skotthúfur einna skemmtilegustu jólasöngvarnir.
Ég var að syngja með henni Göngum við í kringum einiberjarunn um daginn og ég hélt ég dræpist úr leiðindum. Fyrir það fyrsta er þetta langdreginn, monoton söngur, en í öðru lagi og EKKI SÍÐUR er verið að syngja um hluti eins og að þvo þvott, hengja hann upp, brjóta hann saman og skúra gólf. OJ BARA!! Og aldrei man ég eftir að hafa velt þessu fyrir mér þegar ég spangólaði þetta hástöfum við að skrölta umhverfis eitthvert jólatréð. En þarna fann ég verkkvíðann hellast yfir mig og ég gat eigi sungið meir.
Annars hefur þessi aðventa farið í steypuryk, terpentínu og vatnslagnir. Frekar festive verð ég að segja. Því er ekki laust við tilhlökkun að komast norður á eftir þar sem ég geri ráð fyrir hvítri jörð og vel skreyttum og ilmandi heimilum móður og tengdamóður.
Annars óska ég ykkur sem nennið að lesa þetta blogg gleðilegra jóla. Hinir geta farið í jólaköttinn.

p.s ég kann vel að skrifa Þorláksmessa, ég átti langafa sem sagði alltaf Þollákur og habbðu þetta, seggðu!

miðvikudagur, desember 19, 2007

Pistill (ó)hógværu móðurinnar

Það er komin skýring á stuttbuxnaleysi Ingvars á fótboltaæfingunni frægu. Hann er bara of gáfaður. Við köllum þetta Þorvaldar Jónssonar syndromið hér á þessum bæ. Anyways við fengum út úr samræmdu í dag og Ingvar fékk 10 í stærðfræði og er í topp 1% á landsvísu. Tungumálakunnáttan er sæmileg líka en hann fékk 8.5 í íslensku og er í topp 5% á landsvísu. Hógværð er dyggð sagði einhver, ég bý ekki yfir þeirri dyggð. Mér finnst gaman hvað krakkinn er klár;)

Fleiri NY myndir

Hjónin Sigurður og Kristbjörg taka sig einstaklega vel út í limosinu. Greinilega ferðamáti sem hentar hjónunum.


Allir ánægðir með Öndina og Þorskinn

Doddi greinilega mjög gáfaður

Ég er aftur á móti greinilega mjög mikið módel

Sigurður, rétt áður en hann kemur með frasann: "Nei sko málið er bara það, að ..........."

NY myndir

Við fórum í svona þyrluútsýnisflug í New York. Mjög gaman og ég mæli algjörlega með því

Þessi mynd var tekin af þyrluförunum fyrir flugið. Ég er ekki með á myndinni því ég er að taka myndina. Augljóst eða?!


Mjög flott útsýni


Frelsisstyttan og jarí jarí

Tinna var eitthvað að reyna að spjalla í þyrlunni en ég mátti ekki vera að því, ég var of upptekin við að mynda

Komin lifandi aftur úr fluginu. Einhverra hluta vegna er ég aftur á myndavélinni. Veit ekki hvert Doddi hljóp?

sunnudagur, desember 16, 2007

Hvað er verra

en að vera andvaka með kallinn á næturvakt? Það er að vera andvaka með kallinn á næturvakt og frystinn stútfullan af sörum. Djöfull og andskoti. Það færi þó aldrei svo að ég kæmist ekki í D&G kjólinn um jólin. Einungis frk. B veit hversu hræðilegt það yrði og það er ekki eingöngu vegna fegurðar kjólsins.

En fyrst þessi færsla er orðin meinhorn þá langar mig að bæta við litlum fróðleiksmola um verðlag á okureyjunni okkar. Á lokadegi mínum í NY fattaði ég að mig sárvantaði ákveðna skó, lífshamingja mín hreinlega stæði og félli með því. Þá var ég fallin á tíma að finna þá sjálf en hugsaði mér gott til glóðarinnar að Doddi yrði fjórum dögum lengur en ég og ég gæti verslað þá á netinu og sent þá á hótelið til hans. Ég stóð í þeirri meiningu að skórnir væru ófáanlegir á klakanum. Skóna fann ég víða á netinu og alls staðar á 119 dollara. Þegar ég ætlaði að kaupa, þá fékk ég alltaf meldingu um að varan í réttum lit og minni stærð væri uppseld. Þegar ég var búin að reyna 4000 síður þá gafst ég upp. Skóna fann ég hins vegar í Bretlandi en blöskraði alveg að sjá að þar vildu þeir fá lítil 140 pund fyrir herlegheitin. Þar fannst mér Bretinn okra á Kananum. Ég öskraði af kæti í dag þegar ég rakst á auglýsingu í Fréttablaðinu frá ákv. skóbúð sem auglýsti skóna mína. Ég hringdi og sú ágæta verslun vill fá 26500 íkr fyrir skóna PLÚS að þeir áttu ekki litinn sem ég vildi.
USA: 7500 íkr
UK: 17800 íkr
Ísland: 26500 íkr

Jæja ætlum við að láta bjóða okkur þetta rugl alveg út í það óendanlega eða???! Sem betur fer hef ég náð að halda fjölskyldunni vel dressaðri með þremur USA ferðum á ári. Maður á bara ekki að versla hérna heima. Djöfulsins glæpamennska.

föstudagur, desember 14, 2007

Til þeirra er málið varðar

Sörurnar eru í húsi! Ég endurtek........ sörurnar eru í húsi!
Nú þarf Draumurinn bara að svara símtölum en hann hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir það, a.m.k ekki þegar læknisfrúin á í hlut. Allavega verður Bush-áhangandinn þá að senda handrukkarana á Drauminn núna því boltinn er hjá honum.
Yfir og út.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Litla krúttið



Ef þetta er ekki meiriháttar krúttlegur krakki þá veit ég ekki hvað.
Hann minnir líka alveg rosalega mikið á Snorra Guðlaug þegar hann var svona lítill. Mig langar að hitta þennan krakka og bíta hann aðeins í kinnarnar. Það er ekkert óeðlilegt við það.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Straff á dónann

Ingvar er í einhverjum leik online sem heitir Club Penguin.
Þetta er svona Eve online fyrir krakka. Hann hringir í vini sína og biður þá að koma online og svo er hægt að interacta á rauntíma. Hann og vinur hans fóru í feluleik áðan og á meðan vinur hann (mörgæsin) var að fela sig þá "taldi" Ingvar á stikunni. Eins og maður gerir þegar maður er að grúfa í feluleik, telur upp í 10. Nema hvað að Ingvar kom miður sín fram og sagðist hafa verið bannaður í mörgæsaleiknum. Í sólarhring er búið að loka á hann. Við spurðum hvað hann hefði verið að gera og hann sagði okkur það. "Ég var bara að telja, einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex............. og þá var lokað á mig!!!"