luxatio hugans

awakening

föstudagur, nóvember 30, 2007

Áfengisfrumvarp og Rokk

Fór á pallborðsumræður hjá Lýðheilsufélagi læknanema um áfengisfrumvarpið. Það var vægast sagt mjög áhugavert. Framsögumenn voru:

Sigurður Kári Kristjánsson
Þingmaður og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins
Bjarni Össurarson Rafnar
Yfirlæknir á geðdeild Landspítala
Sigurður Jónsson
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Guðfríður Lilja
Þingmaður
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Þingmaður
Valgerður Rúnarsdóttir
Læknir á Vogi

Mér fannst þingmenn Sjálfstæðisflokksins bara ekki nógu sannfærandi og standa nógu vel með frumvarpinu sínu. Horfðu niður í pontuna og voru hálf vandræðaleg eitthvað. Eins og þau skömmuðust sín fyrir frumvarpið. Nema þau hafi skynjað sterkt að fundurinn hafði ekki hljómgrunn með þeim. Ég veit það ekki. Mér fannst Valgerður mjög flott. Það var bara átakanlega pirrandi að þingmennirnir áttuðu sig ekki á því hvað hún var að fara með forvarnarrökunum. Það gerðu sér allir aðrir viðstaddir ljóst hvað hún átti við með mótsögninni í því að fjarlægja forvörnina sem hefur best sannaða fylgni við minnkaða áfengisneyslu en tala samt fyrir auknum forvörnum!! Kannski skildu þau alveg en voru að beita einhverju pólitísku heyrnar/skilningarleysi. Sömu sögu er að segja um rökleysuna þeirra um það að áfengisstefna Íslendinga um lítið aðgengi væri ekki að skila árangri því áfengisneysla síðustu 10 ára hefði margfaldast en samt töluðu þau um að ÁTVR verslanir hefðu sprottið upp eins og gorkúlur um allt land á síðustu 10 árum.
Uhh já.... það að ÁTVR verslunum með meira áfengisúrvali, ólöglegum áfengisauglýsingum og lækkuðu áfengisverði miðað við kaupmátt hafi fjölgað á sama tíma og áfengisneysla hefur margfaldast eru meiriháttar rök fyrir því að forvarnarstefnan um lítið aðgengi hafi mistekist. Það sýnir þvert á móti svart á hvítu hvað gerist við aukið aðgengi og að stjórnvöld eru ekki að fylgja eftir núgildandi stefnu. Eða þannig skil ég það allavega.

Svo fór ég beint í Rokk til Beggu Gísla sem er hætt að nenna að lesa bloggið mitt af því að hún fær ekki að kommenta á því. Hér er því kjörinn vettvangur fyrir mig að úthúða henni. T.d að benda á það hversu egócentriskt það er að þurfa endilega að getað kommentað. En ég stóð mig ágætlega í Rokkinu. Ég fór ekki með þvag með mér, hrækti ekki á neitt eða slefaði eða varð mér nokkuð til skammar. Það munaði samt ekki miklu þegar mesta dónastelpan fór að leika hvað konur ættu helst að gera við hendurnar á meðan samförum stendur. Það varð mér til happs að Bergþóra sem vinnur á gjörgæslunni og er orðin mjög hæf í því að bregðast við á ögurstundu, sá í hvað stefndi og hrópaði á mig að stinga ekki vínberinu sem ég var með í hendinni upp í mig. Guð einn getur spáð fyrir um hvernig annars hefði farið.
Ef dónastelpan væri ekki jafnframt Yfirrokk þá hefði hún ábyggilega fengið að fjúka eftir þennan leikþátt. Sumt er einfaldlega bara yfir strikið!

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Var þetta stofugangurinn???

Nú ætla ég að breyta þessu bloggi í almennilegt sjúkdóms-/sorgarblogg. Tala eingöngu um það hvað kerfið sé ömurlegt, hvað ég hafi það slæmt og hvað læknar eru ómögulegir. Nei ég er að djóka. En þið hafði ekki reynt neitt fyrr en þið hafið reynt 4 klst stöðupróf. Með stöðupróf þá á ég ekki við próf þar sem kannað er hvar námsmaðurinn er staddur í einhverju fagi, heldur á ég við að sjúklingurinn á að standa í fjóra tíma. Stöðupróf;) Fyrst þegar læknirinn minn, sem hefur upphafsstafina HÁS og er að sögns algjör House, sagði mér að ég ætti að vera standandi í 4 tíma þá fannst mér það ekkert svo svakalegt. Svo fylgdi sögunni að það mætti ekki halla sér upp að neinu, ekki styðja sig við neitt, ekki fara á salerni þá fóru að renna á mig tvær grímur. Hvenær hef ég staðið í fjóra tíma án þess að tylla mér eða styðja mig við eitthvað? Well. Ég kláraði þetta. 10 tíma lega, 4 klst stöðupróf, 10 tíma lega, 4 klst salthleðslupróf. 5 blóðprufur og tvær nálar. Skuggaefni og CT. Bara fjör.
Allavega þá vorum við nokkur þarna inni í sama prófi á sama tíma því HÁS er að safna sjúklingum saman til að geta flutt inn einhvern sænskan gaur sem er víst bestur í heimi að framkvæma æðaþræðingu sem við þurfum að fara í og þurfum að vera búin í prófinu áður. Í morgun var stofugangur. Þegar hann var búinn leit konan sem var í rúminu á móti mér á mig og spurði: "Var þetta virkilega stofugangurinn?"
Mér fannst það mjög fyndið. Því þó mér persónulega hefði ekki getað verið meira sama þá skil ég hvað hún var að fara.
Og annað... ég skil líka hvers vegna sjúklingum finnst eins og það séu bara hjúkkur sem eru að hugsa um þá. Það er ekki rétt, en ég skil núna hvernig þeir fá þá hugmynd.

Sóun á tíma

Ég er fylgjandi jafnrétti kynjanna. Ég vil að dóttir mín eigi alla sömu möguleika og sonur minn. Ég vil vera með sömu laun og Doddi fyrir sömu vinnu. Ég var svona gella sem var úber hrædd við að láta bendla mig við feminisma. Ég væri sko ekki þröngsýn öfgapíka. En ég var svo lánsöm að hafa látið það út úr mér í návist Vaffarans að ég væri ekki feministi. Hún tók mig á teppið og ég fattaði að ég hafði aldrei vitað hvað orðið þýðir. Að feminsti væri einstaklingur, karl eða kona, sem vill jafnrétti kynjanna, gerir sér grein fyrir að jafnrétti er ekki náð og vill gera eitthvað í málunum. Uhh þá hlaut ég að vera annað hvort feminsti eða fáviti og fávita vil ég ekki kalla mig.
Að þessu sögðu verð ég að tjá mig um það að ég er yfir mig hneyksluð á umræðu á Alþingi um það hvort við hæfi sé að klæða ungabörn í bleikt og blátt eftir kyni á fæðingardeildum sjúkrahúsa landsins. Það skiptir máli að vita hvort kynið þetta er, hvort sem notað er bleikt og blátt eða grænt og gult eða bara whatever! Mér finnst að þjóðkjörnir fulltrúar okkar eigi að finna sér eitthvað betra við tíma sinn að gera. Og best að kóróna það með beinni útsendingu RÚV frá fæðingadeildinni! Er fólk að tapa vitglórunni?

mánudagur, nóvember 26, 2007

Björn Emil

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Bróðursonur fæddur

Lítill Björn Emil Snorrason fæddist í gærkvöldi. Hann er í Stokkhólmi. Ég er á Akranesi. Mér þykir það óneitanlega verra.

laugardagur, nóvember 24, 2007

Prófessor Viðutan

Ég er að vinna á Akranesi alla helgina og hlutirnir heima eru greinilega í ólestri. Ingvar sonur minn fór á fótboltaæfingu í gær. Hann klæddi sig í fótboltatreyju, rauðu Vals flíspeysuna utanyfir, fótboltasokka og fótboltaskóna. Hann gleymdi hins vegar að huga að neðri hlutanum en var sem betur fer allavega í BRÓK. Svo fór minn maður út úr húsi svona múnderaður á brókinni einni saman, labbaði niður Eskihlíðina og í Valsheimilið og fór á fótboltaæfingu og rölti svo sem leið lá heim aftur. Þar mætti Þóroddur, eiginmaður minn, syni sínum á brókinni á bílaplaninu heima og er skemmst frá því að segja að Þóroddi var ekki skemmt. Ingvar sagðist hins vegar hafa fattað það þegar æfingin var rúmlega hálfnuð að hann var á brókinni!!!! ER ÞETTA HÆGT??!!! Er eitthvað etiquette í gangi við svona aðstæður? Hringir maður í þjálfarann og biðst afsökunar oder?
Ég trylltist úr hlátri í morgun þegar Doddi hringdi í mig og sagði mér þetta og þá var Doddi nú líka farinn að hlæja að þessu. Ég losna bara ekki við myndina úr hausnum af Ingvari í allri fótboltamúnderingunni og svo brókinni einni saman á röltinu niður í Valsheimili:)

Föðursystir in the making

Ég sit og bíð eftir því að verða föðursystir. Síðast þegar fréttist frá Stokkhólmi var 9 í útvíkkun. Það er orðin góð stund síðan svo ég er að verða óþreyjufull. Mamma hafði heyrt í Snorra í morgun þegar þau fóru upp á spítala og spurði hvað væri langt á milli hríða. Snorri hafði svarað: "Ein sekúnda eða ein mínúta eða eitthvað!! Hvað veit ég um það?!!!"
Hehehe greinilega mikið sem gengur á.

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Leti

Ég var að horfa á Sopranos og fattaði allt í einu að ég var í Las Vegas og fór ekki að skoða Grand Canyon af því að ég nennti því ekki. Það er eiginlega dálítið spes.
En þetta með þyrluflugið í NY Snorri....... það er ekki leti. Mig langar bara ekki til að drepast í þyrlu!

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Misskildasti listamaður nútímans

Það er vel við hæfi að flagga Toxic með litlu dúllunni henni Britney, klukkustund fyrir próf í Toxicologiu. Og þá my friends er eitt próf eftir. Are you getting this? ONE TEST!!

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Starfsmaður í þjálfun

Sit á alveg hreint steindauðri neyðarbílsvakt. Við erum sett í svona rautt vesti utan yfir slökkviliðsgallann sem á stendur STARFSÞJÁLFUN bara til þess að maður fari nú ekki að halda að maður sé eitthvað. En þetta er náttúrulega ótæmandi uppspretta brandara um Starfsmann í þjálfun hér á stöðinni. Þegar við vorum í bílnum á fjórða ári var ekki byrjað að sýna Nækturvaktina. Munurinn er augljós.

Takk fyrir afmæliskveðjurnar

Ég þakka þeim sem sendu mér kveðjur í gær. Dagurinn var tilburðarlítill. Fékk góðar gjafir, fórum í sund, settum upp eldhúsinnréttingu að hluta og Doddi eldaði góðan mat. Ég hafði hringt í Huldu hans Þóris til að fá uppskriftina af bernaise sósunni himnesku sem hún gerir frá grunni og fær mann til að gleyma eigin föðurnafni. Það er skemmst frá því að segja að ég klúðraði henni og afraksturinn átti voða lítið skylt við bernaise sósu og ef ekki hefði verið fyrir The Bernaise Essence sem fór út í hræringinn þá hefði fólk haldið að ég væri að hræra í heimagerða ælu. Jæja Toro bjargaði því sem bjargað varð.
Dagurinn endaði á nýju bókinni hans Arnaldar. Ekki slæmur endir.

Uppnefnum Harald Briem

Mér datt í svefnrofunum allt í einu alveg fáránlega fyndið uppnefni á Harald Briem sóttvarnarlækni.

Haraldur Heimsfaraldur

eða

Haraldur faraldur.

Hallast að því að Haraldur Heimsfaraldur sé fyndnara. Og já ég veltist um af hlátri.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Nei Guð, NEI!

Kaffivélin mín gefur meldingu um að ég eigi að afkalka. Hún fokking neitar að gefa mér kaffibolla nema hún fái afkölkun fyrst. Díses kræst ég nötra af fráhvörfum hér. Hvernig í veröldinni á ég að finna út úr því hvernig ég á að afkalka vélina nema fá KOFFEINIÐ mitt fyrst?! Ég er að hugsa um að bryðja nokkrar kaffibaunir og sjá hvort ég fæ næga lausn frá þjáningum mínum til að geta tekist á við þetta verkefni.

laugardagur, nóvember 10, 2007

AMATEUR TRANSPLANTS: Anaesthetists Hymn LIVE

Þetta lag segir í raun allt sem mér finnst um fagið;)

Af aspirations pneumonium

Tókst að klúðra fyrirlestri um aspirations pneumoniur (sem útleggst ábyggilega ásvelgingar lungnabólgur??) á svæfingunni. Minnti á gamla tíma þegar ónytjungskenndin lét á sér kræla. Hrollur. Gekk bara vel í prófinu í gær, svæfing og gjörgæsla í höfn og nú eru bara tvö próf eftir í læknadeild. TVÖ PRÓF!!!!
Það var rokkklúbbur í gærkvöldi. Það var bara frekar skemmtilegt nema þegar Bergþóra tók leikþáttinn um læknanemann áhugalausa. Þar lék hún senu sem hún þóttist hafa orðið vitni að þar sem komið var inn með krítískan sjúkling og allir rosa æstir og mikið að gera nema hjá læknanemanum sem hallaði sér upp að náttborði sjúklings og geispaði. Jæja sennilegast verð ég ekki gjörgæslulæknir. Óþarfi að hæðast að mér samt. Ég er viðkvæm.
En talandi um fyrirlesturinn "góða", þá þurfti ég að taka ákvörðun á sekúndubroti í gærkvöldi um það hvort ég ætlaði að frussa sódavatni yfir nýja borðstofuborðið hennar Evu eða fá ásvelgingar lungnabólgu. Semsagt þegar Magga St. deildi með okkur í fullkominni einlægni að henni fyndist svo skrítið að lesbíur litu bara út eins og venjulegt fólk svo það væri ekki einu sinni hægt að sjá á þeim að þær væru samkynhneigðar og það kæmi þvílíkt á óvart OG VAR EKKI NEITT AÐ GRÍNAST! Ég hélt ég myndi andast úr hlátri. Sérhlífni mín varð til þess að borðstofuborð Evu varð útatað í sódavatni og munnvatnssafa. Ég hugsa að vinkonur mínar í rokkklúbbnum hætti að bjóða mér heim því þegar maður bætir þessu við þá staðreynd að ég mætti í útskriftarveisluna hennar Bergþóru með þvag í dunk þá fer að verða nokkuð augljóst að ég er ekki húsum hæf. Það var líka óborganlega fyndið þegar Kristín L. var að skúra eftir veisluna og rak skúringarmoppuna í pokann minn. Lyfti pokanum fullum af þvagi yfir hausinn á sér og gólaði: "Allý hvað ertu með í þessum poka?!" og eftir að ég hafði hvískrað því að henni í trúnaði að hún gólaði enn hærra: "Ha! Ertu með þvag í pokanum?! Bergþóra! Hvernig finnst þér að Allý hafi komið með þvag í poka í útskriftarveisluna þína???!!!"
Hvað á maður að gera þegar manni er boðið í veislu í miðri sólarhringsþvagsöfnun? Ha? Ha?
Ég ætla að reyna að vera til friðs framyfir innflutningspartý Gunnýjar í nýja húsið við Meðalfellsvatn. Þá stendur til að fara naktar í gufuna. Patinn getur ekki látið sig vanta í þess háttar samkomu;)
Jæja ef einhver skyldi hugsa TMI eftir þessa lesningu þá getið þið bara átt það við ykkur sjálf. Það er enginn að biðja ykkur um að lesa þetta.
Góða helgi

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Sunnudags/prófalestursblogg

Er að lesa undir próf í svæfingu og gjörgæslu. Víííííí. Hafið þið samt tekið eftir því hvað ég þreytist seint á því að væla undan námi mínu?! Haltu kjafti kelling! Þú tókst þessa ákvörðun, stattu með henni!!!
Dísess.
Er að sturlast úr höfuðverk og langar sjúklega mikið í blóðuga nautasteik, bakaðar kartöflur og bernaise. En Doddi er á vakt og því hef ég ENGAN til að snúast umhverfis duttlunga mína. Eymd mín er alger.
Ég er yfirgengilega léleg að intubera. Doddi vill ekki leyfa mér að æfa sig á honum sem er aldeilis dæmigert fyrir hans eigingirni og sjálfshyggju. Ég fæ allavega ekki vinnu á ER á County í Chicago. Þar ertu barkaþræddur ef þú kemur inn með kvef. Nei ég fæ sennilegast ekki vinnu þar.
Jæja ég ætla að ljúka þessu því það er engu líkara en Lífsharmurinn hans Sigga sé kominn í heimsókn til mín.
Lifið heil.