luxatio hugans

awakening

mánudagur, ágúst 30, 2004

Skólinn byrjaður

og þvílíkur unaður sem það er. 6 unaðslegir fyrirlestrar í röð, sem toppuðu með veirufræði fyrirlestrum Arthurs Löve, sem tryllti lýðinn þokkalega með skemmtilegum fyrirlestri. Mér flaug í hug hvort hann tæki e.t.v að sér veislustjórn, þar sem brúðkaupið mitt er yfirvofandi. Svona náttúrulegir talentar eru nefnilega ekki á hverju strái.


sunnudagur, ágúst 29, 2004

Valur Íslandsmeistari

Það var algjörlega sturlað að vera viðstaddur þegar Valur varð Íslandsmeistari í fótboltanum í gær. Ásta frænka mín er í liðinu og mér fannst hún náttúrulega langbest, og svo var ég hálfklökk, þegar leikurinn var flautaður af og ljóst að titillinn var í höfn. Það er eins gott að þessari meðgöngu fari að ljúka áður en ég tapa kúlinu endanlega. Ásta fékk þrusudóma fyrir sinn leik í blöðunum í morgun, þannig að það var ekki bara frændsemi að mér fyndist hún flottust í liðinu. Ingvar var náttúrulega alflottasti Valsarinn í stúkunni, í valsbúningnum með valsbuffið. Hann veit hins vegar ekkert um fótbolta. Doddi fagnaði til dæmis einu sinni: Já, þetta var góður bolti!! Ingvar svaraði: Já það er vel pumpað í hann. En það stendur nú allt til bóta, því Ingvar er að fara í handboltaskóla hjá Val, sem er í boði fyrir '98 gutta. Ég þrái nefnilega að verða soccermom, talandi um andlega vakningu, og þræða öll shell og essomót á landinu. Eflaust verð ég samt svona foreldri sem fær tiltal á hliðarlínunni, annað hvort hætti ég að öskra á dómarann eða ég verð beðin um að koma ekki á fleiri leiki. Ég sé það alveg fyrir mér.
Að leik loknum fór svo fjölskyldan í dinner til Ragga. Raggi klikkar að sjálfsögðu ekki á matseldinni, það gerist ekki öllu betra. Líf og fjör til ykkar allra.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Samkynhneigðir og fæðingarorlof

Sá í Fréttablaðinu í gær að Dick Cheney er fylgjandi hjónaböndum samkynhneigðra, ólíkt yfirmanni hans, apanum Bush. Hélt í eitt augnablik að gaurinn væri líbó og kúl, en í ljós kom að dóttir hans er samkynhneigð og þaðan er samúðin með málstaðnum eflaust runnin. Mér finnst það hálfskítt ef að við þurfum alltaf að bíða eftir því að ráðamenn rati í ákveðnar aðstæður til þess að fá greitt úr málunum.
Þetta minnti mig nefnilega á það þegar foreldrar mínir eignuðust tvíburana fyrir 10 árum. Þá voru engar reglur um lengra fæðingarorlof til tvíburaforeldra. Mamma gat sótt um viðbótarumönnunarstyrk, þar sem Gyða litla var léttburi, en fékk synjun því maðurinn hennar frystitogarasjómaðurinn (a.k.a ekki svo mikið heima við), væri svo tekjuhár. Jæja nokkrum árum seinna kemur Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, með langþráð frumvarp um lengingu fæðingarorlofs til fjölburaforeldra. Frumvarpið var samþykkt án nokkura deilna, eftir því sem að ég best veit. Litlu seinna les maður um son Ingibjargar, fótboltagutta einhvern af Skaganum og konu hans í Séð og heyrt, þau höfðu eignast litla tvíbura. Ingibjörg sagðist í viðtalinu ekki hafa haft hugmynd um að sonur hennar ætti von á tvíburum þegar hún lagði fram frumvarpið. Hann hafi svo hvíslað því að sér seinna. Right! Þetta frumvarp var frábært framtak, en mér finnst pirrandi þegar gert er ráð fyrir að fólk sé fífl.
Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég vil að Árni Magnússon sitji sem fastast í Félagsmálaráðuneytinu og að Jón Steinar Gunnlaugsson má gjarnan verða hæstaréttardómari fyrir mér.

Það borgar sig

að auglýsa á netinu. Ég er búin að fá símaskrána mína tilbaka. Þá veistu það Kristín mín, næst þegar þú þarft að fletta upp útibúsnúmeri.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

ROBBI!!

Ég vil fá símaskrána mína tilbaka.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Svikinn um símasex

Ég varð fyrir undarlegri áreitni um daginn. Átti notalega stund með fjölskyldu minni þegar ég fæ sms. Þekki ekki númerið og í sms-inu stendur: "Hæ elskan, hvað ertu að gera?" Ég svaraði ekki því ég þekkti ekki númerið. 5 mín. seinna kom annað sms: "Hæ elskan, hvað ertu að gera?" Ég fer í tölvuna til að fletta númerinu upp og á meðan ég er að því hringir síminn, og það er sama helvítis númerið. Ég svara og ætla að leiðrétta misskilninginn sem grey manneskjan er haldin. Sæll, segi ég, þú ert nokkuð örugglega með vitlaust númer.
Nei, segir gaurinn, var ég ekki að spjalla við þig á netinu áðan?
Nei, nei, segi ég.
Varstu ekkert á netinu áðan, spyr gaurinn tortrygginn.
Nei, laug ég, því ég var most definately ekki að spjalla við gaurinn þó að ég hafi brugðið mér á netið, eins og gengur.
Nú jæja, afsakaðu þá, segir gaurinn og leggur loksins á.
Þarna hélt ég að ég væri laus við hann en fékk nokkrum mínútum seinna annað sms: "Ertu ekki á lausu?"
Þá þandi Þóroddur minn bringuna og ætlaði að hringja í gaurinn og lesa yfir hausamótunum á honum. Ég taldi hann ofan af því, og þetta var sem betur fer það síðasta sem ég heyrði frá þessum nýja félaga mínum.
Svo fann ég hálfpartinn til með honum. Einhver hafði þokkalega haft hann að fífli en hann hélt að í vændum væri gott símasex, eða eitthvað þaðan af betra. Grey kallinn.
Sjálfri leið mér eins og gaurnum í sturtunni í The crying game. Eins og einhver hefði saurgað mig.

Litli snillingurinn

minn fór í skólann í 1. skipti í dag. Ég tók mynd af honum með skólatöskuna á bakinu í forstofunni áður en við lögðum af stað í skólann. Íhugaði að taka myndavélina með, en ákvað svo með sjálfri mér að það væri náttúrulega geðveiki á hæsta stigi, og myndavélin varð eftir heima. Við löbbuðum svo í Hlíðaskóla eftir kúnstarinnar reglum í grenjandi rigningu. Ingvar kann að sjálfsögðu á klukku, eins og öll gáfumannabörn, og vissi að hann ætti að vera mættur klukkan 8.10 og fylgdist AFAR nákvæmlega með því. Ég hélt stundum að hann myndi hrasa því hann horfði ekkert framfyrir sig, bara á úrið, sem er vel, þegar kemur að því að hann fer að labba sjálfur. Við fórum svo í röðina okkar fyrir utan skólann og biðum eftir því að kennarinn kæmi út að ná í þau. Ég blótaði mikið í hljóði þegar hinir foreldrarnir drógu upp stafrænu myndavélarnar sínar og mynduðu litlu englana sína sem stóðu stillt og prúð í röðinni 1. daginn. Myndavélablossarnir minntu svo á það sem maður sér í úrslitunum í 100 m spretthlaupi karla á Ólympíuleikunum, þegar kennarinn kom út á tröppurnar og litla röðin trillaði sér inn. Fjandinn!! Enn og aftur lít ég út fyrir að elska barnið mitt minnst!! Verð að koma mér í foreldraráðið og eyða misskilningnum þar með látlausum uppákomum. Líf og fjör.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Af gardínum og sveittum karlmannsklofum

Ég keypti mér fyrir nokkru síðan unaðslega fallegt rúmteppi og gardínur í stíl, í Habitat. Þegar heim var komið voru gardínurnar of síðar, en af því að ég hef ýmsum hnöppum að hneppa, þá dróst það að þær færu í styttingu. Þegar ég svo var komin í frí í júlí og hreiðurgerðin orðin yfirþyrmandi, þá ákvað ég að hrinda því í verk að láta stytta þær. Það er eitt og annað sem verður óbærilegt þegar barn er væntanlegt í heiminn og of síðar gardínur er eitt af því. Þetta er mjög áhugavert fyrirbæri og ætti að rannsaka.
Ég finn saumastofu í símaskránni, og það sem er mikilvægast við val á slíku fyrirtæki, er að hægt sé að leggja beint fyrir framan það. Sem afskrifar Laugaveg, Lækjartorg, Kringlu og Smáralind. En saumastofa í Ármúla kom eldheit inn fyrir þessar sakir. Ég hringi á undan mér og þetta fyrirtæki er einmitt í því að stytta gardínur. Svo að ég ríf þær niður og sé að þær eru örlítið skítugar neðst, enda of síðar og stundum er ló í svefnherberginu mínu. Ef að við svo skoðum það aðeins hverjir geta leyft sér, að það sé ló einstaka sinnum í svefnherberginu, þá eru það tvímælalaust 2 læknanemar sem unnu báðir með náminu og eru auk þess að ala upp 6 ára barn. Enginn hroki, bara kalt mat. Þannig að því fer fjarri að ég skammist mín fyrir lónna.
Þegar ég kem svo með gardínurnar í þetta ágæta fyrirtæki í Ármúlanum, þá er það fyrsta sem afgreiðslukonan gerir athugasemd við, að ég hafi ekki þvegið þær. Þær gætu styst í þvotti. Ég er óþolinmóð og fljótfær og ég sagði að ég kærði mig kollótta um það. Ég tæki bara þá áhættu og ég vildi endilega fá þær styttar a.s.a.p. Þá fer gellan að fitja upp á nefið og segir: "En þær eru bara svo voðalega skítugar, ég verð bara líka að hugsa um saumakonurnar mínar, þetta er svo ógeðslegt. Þetta er eins og að skipta um rennilás á skítugum karlmannsgallabuxum"
Ég horfði orðlaus á hvítu svefnherbergisgardínurnar mínar með gráu röndinni neðst og varð hálf sár yfir samanburðinum við klofsvitann. Þannig að ég tók gardínurnar mínar og labbaði út. Alveg dramalaust samt. Ef þessi kona syndir svoleiðis í viðskiptum að hún getur leyft sér að velja kúnna, þá er það frábært. Lifi kapitalisminn. En þessi kúnni kemur ekki aftur.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Henry Birgir Gunnarsson

íþróttafréttamaður bloggar frá Aþenu. Það er ekki fyrir meðvirkan mann að lesa pistlana sem hann skrifar í Fréttablaðið. Pistlarnir eru gjörsamlega dragúldnir. Allir í Aþenu eru fífl, og allt er ekki eins og það á að vera, a.m.k ekki eins og hann vill hafa það. Nú veit ég ekkert annað um manninn en það sem ég les eftir hann og ef ég á eftir að mæta honum í dimmu húsasundi, þá verður maze úðinn dreginn fram og tekið til fótanna. Maður tekur bara enga sénsa núorðið.

föstudagur, ágúst 20, 2004

Vindlar

Það er til orð yfir konur sem reykja vindla. Það orð skrifa ég ekki hér.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Enn af öfund

Reyndar er ég orðin of andleg til að öfundast.

Meiri öfund

Auk þess get ég öfundast út í Svölu fyrir það að kærastinn hennar er að keppa í handboltanum á Ólympíuleikunum. Því gleymdi ég í gær. En kærastinn minn keppti á gönguskíðum á Ólympíuleikum Æskunnar. Það telur.

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Ísland-Ítalía

Ussss........ hvað Indriði Sigurðsson er beittur. Ég verð að játa það að ég öfunda Svölu vinkonu mína að eiga bróður í landsliðinu. Það væri gaman að geta gortað sig af því. Bróðir minn er fyrirsæta fyrir hestatímarit í Þýskalandi. Það telur vissulega eitthvað.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Peningaplokk

Það er algjörlega takmarkalaust hvað reynt er að plokka pening af ófrískum konum. Maður þarf ákveðna gerð af vítamínum, þessi gömlu góðu fjölvítamín verða gagnslaus við það að verða vanfær. Nú þarf maður fjölvítamín sem heita "Með barni" "Móðurást" eða "Pregnacare", þ.e.a.s ef konan raunverulega elskar barnið sem hún ber undir belti. En ef betur er að gáð, þá er innihald þessara vítamína það sama og kostar 1000 krónum meira. Þá hlýtur barni hugulsömu konunnar að vegna betur sem nemur 1000 krónum. Skyldi maður ætla.
Annað er meðgönguleikfimin, meðgöngujógað og meðgöngusundið. Öll önnur hreyfing verður bókstaflega gagnslaus ef hún hefur ekki forskeytið meðgöngu-. Sjálf hef ég látið mér nægja að synda alla meðgönguna og er í fantaformi og afar fögur.
Þriðja eru öll kremin sem ófrískar konur smyrja á sig svo þær verði ekki ljótar og krumpaðar eftir barnsburð. Rándýr krem sem eru vitagagnslaus, þar sem slit ræðst af erfðum og hraða þyngdaraukningar og verður auk þess í leðurhúðinni en kremin takmarkast við hornlagið og flagna af.
Tölum þá aðeins um kremin sem konur eiga að bera á innri skapabarmana í nokkrar vikur fyrir áætlaðan fæðingardag til þess að þær rifni síður í fæðingunni. RIGHT!!
En það síðasta sem ég rakst á og varð kveikja þessarar færslu er brjóstagjafanámskeið fyrir verðandi mæður. Aðeins krónur 2000 fyrir eitt kvöld. Hvernig í andskotanum á að kenna konum með engin börn að gefa brjóst?? Það er eins og að kenna læknanema með enga nál og ekkert fórnarlamb að setja upp nál í handarbak. Engin fræðsla getur raunverulega kennt manni að gera það þegar á hólminn er komið. Þetta byggist allt á því að móðir og barn finni sinn rythma, engin tvö börn eru eins og þetta er bara eitt af því sem verður ekki kennt í bókum. Og skíthræddar frumbyrjur flykkjast á námskeiðið, sannfærðar um að annars muni þeim aldrei takast að gefa barninu brjóst. Svona helvítis kjaftæði getur gert mig bálvonda. Og það er ekki komið hádegi.

Ammilisbörn dagsins

Til hamingju með afmælið Róbert og Örvar. Talan er 26. Það er ógeðsleg tala. Mín nálgast óðfluga en um það vil ég ekki hugsa að svo stöddu.
Hlakka til að koma í party á menningarnótt.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Colon ascendens eða descendens?

Einn spænsku leikmannanna í handboltanum heitir Colon.
Og þar sem latína er alþjóðlegt tungumál anatómíunnar þá finnst mér það heldur vandræðalegt fyrir hann. Ég verð að segja það!

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Hitabylgja

Áhugavert að það skuli koma hitabylgja akkúrat þegar ég er ólétt að kafna úr hita.
ÉG MAN EKKI EFTIR NEINNI HITABYLGJU HIN SUMRIN!!