luxatio hugans

awakening

mánudagur, júní 25, 2007

Ammilisbarn dagsins

í dag og ryður þar með Hildusi litla af toppnum er frumburðurinn, Ingvar Þóroddsson. Ingvar tekur við heillaskeytum á heimili sínu í dag. Móðir hans verður vant við látin á vakt á Selfossi. Gaman að því. Drengurinn fékk vélmennið sem móðir hans burðaðist með heim frá Vegas af þeim sökum í gærkvöldi. Vélmennið vakti gríðarlega lukku eins og mig renndi nú í grun um. Fyndnast þótti mér þó hvað honum fannst vélmennið mikið krútt þegar það lék hundakúnstir sínar og í morgun þegar ég kvaddi hann, sá ég að vélmennið hafði fengið að lúra uppí. Sjálfri fannst mér vélmennið voða lítið krúttlegt.

miðvikudagur, júní 20, 2007

Ammilisbarn dagsins

er Hildus litli. Vonandi hefur Eyjalæknirinn það gott á afmælisdaginn sinn og fer að ekki að eyða deginum í það að ryksuga undan rúmunum þó að von sé á læknishjónunum úr Hlíðunum í heimsókn. Ég myndi reyndar skilja það samt.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Minning

Ótrúlega falleg og hæfileikarík stúlka hefur kvatt þennan heim, allt allt of snemma. Susie Rut var stelpa með mikla útgeislun og það var erfitt að hrífast ekki með kraftinum og lífsgleðinni sem stafaði frá henni. Mikill húmoristi og fjörkálfur og einstaklega hláturmild. Það var alveg sérstaklega skemmtilegt að hafa fengið að vera samferða henni, þó að það hafi verið of stuttur tími. Hún kláraði Menntaskólann Hraðbraut á mettíma og vann svo á milli tarna í skólanum á röntgen. Það var svo uppörvandi að fylgjast með henni. Ég var ótrúlega hress með það að hún var á leiðinni í læknisfræði eftir stúdentinn en það náði ekki að verða. Þetta er hrikalega ósanngjarnt eitthvað, og ótrúlegt. Ég er dofin.

föstudagur, júní 15, 2007

Pirringur

Einhverra hluta vegna geta sumir hlutir gert mig sjúklega pirraða af ástæðum sem eru hreint ekki augljósar.
Einn af slíkum hlutum eru fréttir af íslenskum íþróttamönnum á alþjóðavettvangi. Björgvin Björgvinsson hafnaði í 52. sæti. Jakob Jóhann Sveinsson varð næst síðasti í sínum riðli en bætti Íslandsmetið um hálft sekúndubrot, Dagný Linda féll í seinni ferðinni. Hinn og þessi sem hafnaði í 48. sæti á norðurlandamótinu og er það besti árangur sem íslenskur íþróttamaður hefur náð frá upphafi. GOD! Ég veit ekki afhverju en það læðist sjúklegur pirringur um allan líkamann á mér. Ég hreinlega þoli ekki að hlusta á þessar fréttir. Einn er hann þó aumingjans íþróttamaðurinn sem veldur sýnu verstu ofnæmisútbrotunum. Það er Birgir Leifur Hafþórsson. Það er bara eitthvað við það.............. þegar röddin í Adólfi Inga Erlingssyni byrjar að segja frá því á hve mörgum höggum yfir pari hann lék seinni daginn á einhverju úrtökumóti............ þá fyllist ég löngun til að öskra af öllum lífs og sálar kröftum. Þetta eru afar sterk en óvenjuleg ofnæmisviðbrögð. Ég óska þess hreinlega að hann Birgir fari að hætta þessu poti.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Uppáhaldstími minn á árinu

er runninn í garð. Það er þegar spenningurinn vegna væntanlegs kvennahlaups er að bera mig ofurliði. Svona þegar ég er búin að eignast bolinn, búin að hóa öllum vinkonum mínum saman, og búin að kjaga lúshægt um hverfið dögum saman til að undirbúa mig undir hlaupið. Ég er samt mest spennt fyrir eróbikk upphituninni fyrir hlaupið. Ég verð að viðurkenna að eiga orðið erfitt með svefn af tilhlökkun. Í ár ÆTLA ég sko að sjást í sjónvarpinu.

Skoppa og Skrítla

eru viðurstyggilegar! Mér er actually flökurt.

miðvikudagur, júní 13, 2007

Að standa ekki undir væntingum

Ingvar getur verið fyndinn fýr. Hann er búinn að vera að safna pening upp á síðkastið fyrir einhverjum Draco köllum (veit eigi hvernig það er skrifað) og allt hefur snúist um það. Hann var alveg friðlaus hérna um daginn þegar ég sagði honum að Dr. Maack hefði endilega viljað losna við flöskur og dósir og linnti ekki látum fyrr en við vorum búin að fara og ná í þær.
Svo segir hann dreymandi eitt kvöldið: "Ohh ég öfunda svo krakka sem eiga mömmu og pabba sem eru full á hverjum degi." Mér svelgdist all verulega á kaffinu sem ég var að drekka og vissi ekki hvort ég ætti að þora að spyrja hvers vegna. Ég lét það líka alveg vera að minna hann á að það væru ekkert svo mörg ár síðan hann var sjálfur einn af þeim lánsömu bastörðum. En svo mannaði ég mig upp í það að spyrja hvers vegna hann öfundaði svo þá krakka. Jú, þau geta nefnilega alltaf fengið nóg af dósum. Alright. Það eru rök útaf fyrir sig.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður á strák í árganginum hans Ingvars í Hlíðaskóla. Á skólaslitunum vatt Ingvar sér borubrattur að henni og spurði hana hvort hún væri ekki fréttakona. Jú, Jóhanna játti því, og mamma hans Hjalta Geirs, sagði hún. Þá dæsti Ingvar: "En hvað Hjalti Geir er heppinn." Ég beið bara eftir því að hann spyrði hana hvort hún væri kannski full á hverjum degi í ofanálag.
Á mánudaginn var svo sumarhátíð í leikskólanum hennar Esterar. Selma Björns á krakka í leikskólanum og heiðraði viðstadda með því að mæma tvö lög með sjálfri sér. Þá hafði Ingvar það að orði hvað það væri nú heppilegt að það væri hægt að fá einhverja svona fræga til að skemmta fólkinu. Í orðunum fólst ásökun um algert gagnsleysi mitt.
Sko nú er mér nóg boðið. Ég vil nú ekkert halda því fram að ég sé eitthvað betri en þessar ágætu mæður, en hringdi neyðarlínan tvisvar í þær á síðasta sólarhring eftir aðstoð?
TELUR ÞAÐ EKKERT Í MÖMMUKLADDANN??!

Ónotakennd

Það er voðaleg ónotakennd og öryggisleysi í mér. Ég tek svo nærri mér þessa sundrung og deilur í Ungfrú Ísland keppninni. Fulltrúi okkar Íslendinga í fegurð, fegursta kona landsins, sjálf Fegurðardrottning Íslands verður fyrir aðkasti og smán hinna keppendanna. Málið lekur í fjölmiðla og þjóðfélagið er á ystu nöf. Sjálf Ella Beautyamma viðurkennir að um einelti hafi verið að ræða sem ekki hafi farið framhjá aðstandendum keppninnar. Mér finnst voða dapurlegt að það séu leiðindi í þessum frábæra hóp og að þessar stelpur séu ekki allar bestu vinkonur. Ég er óróleg. Ég þarf teppið mitt.

sunnudagur, júní 10, 2007

Lifandi Vísindi

Ingvar tilkynnti okkur það í morgun að það eru til 3 tegundir af hori. Með hans orðum: "Það er slímhor, fast hor og hart hor. Mér finnst slímhorið ógeðslegast en harða horið skást. Manni klæjar undan harða horinu ef að það er mikið af því laust í nefinu og þess vegna þarf að ná því út, en það er auðvelt. Það er erfiðast að ná fasta horinu og þá fær maður stundum blóðnasir."

Jahá. Er einhverju við þetta að bæta?!

föstudagur, júní 08, 2007

Traustur vinur.... getur gert.....

KRAFTAVERK

Á Eva Sólan enga nógu góða vinkonu til að segja henni að nýji efri gómurinn hennar passar ekki upp í hana?

Bjánapistill

Ég er núna búin að vinna 5 daga í Hveragerði. Þessi hálftími hvora leið hefur farið í það að hlusta á útvarpið og er þetta það mesta sem ég hef verið í tengslum við atburði í þessu þjóðfélagi sem ég bý í í langan tíma. Eitt hefur þó leitað sterkt á huga minn við þessa hlustun. Er ekki gerð nein lágmarkskrafa um greind til þeirra sem starfa við útvarp? Jesús guð á himnum. Stundum vil ég rífa af mér eyrun.
Fífl dagsins hlýtur að vera gerpið á svarta bensanum með einkanúmerið bæbæ sem reyndi hvað hann gat að drepa nokkra í umferðinni í dag. Af fréttum að dæma hefur það ekki tekist enn.
Mikið vildi ég að þeir hjá Umferðarstofu hefðu fengið sér læknisfræðilegt consult við gerð auglýsingarinnar þar sem dána fólkið svífur til himins og gaurinn í beltinu lifir. Ömurlega illa útfært. Ég tek út fyrir það að þurfa að horfa á þennan þvætting. Eins og boðskapurinn er í sjálfu sér góður.
Að lokum: Þarf Selma, aðstoðarkona Bubba Byggis, virkilega að vera svona munúðarfull?? Hvaða djöfulsins gredda er þetta í gellunni? Svo er allt að verða vitlaust yfir Tinky Winky ræflinum sem aldrei hefur gert neinum neitt. Hvernig væri að fara aðeins ofan í saumana á hórkonunni sem aðstoðar Bubba Byggi dags daglega? Ég hefði nú haldið að það væri brýnna.

sunnudagur, júní 03, 2007

Af leikkonum og líkamlegri þreytu

Ég fór í hreint út sagt yndislega útskriftarveislu í gær. Kristín Þóra er orðin leikkona með stimpil uppá það. Ég var búin að kannast við hana í smá tíma, því við kynntumst hægt, áður en ég spurði hana hvað hún gerði í lífinu. Þegar hún sagði mér að hún væri í leiklistarskólanum þá fékk ég svona "auðvitað tilfinningu" Hvað annað? Ég hefði átt að geta sagt mér það sjálf;) Hún var svo glæsileg í gær, og fólkið hennar svo stolt af henni. Fallegt.

Líkaminn er undarlegt fyrirbæri. Í dag, á fimmta degi frá próflokum, er ég gjörsamlega örmagna. Ég hef vart getað reist höfuð frá kodda í dag án þess að yfir mig hellist heiftarleg yfirliðstilfinning. Vonandi verð ég sprækari í fyrramálið í vinnunni. Það gæti orðið neyðarlegt ef sjúklingarnir þurfa að veita mér fyrstu hjálp. Nú ligg ég uppi í rúmi með fartölvuna, ó dásamlega tækni, og eiginmaður minn eldar Flosahumar í eldhúsinu. Það er ekki fræðilegur möguleiki að það sé einhver betur gift en ég. Ekki fræðilegur.

laugardagur, júní 02, 2007

Í dag steig kona, sem mér þykir mjög vænt um, stórt skref í átt til móðunnar miklu. Ég á að sjálfsögðu við að konan er þrítug í dag. Ég má vart til þess hugsa ógrátandi hvernig fyrir henni er komið. Ég hugsa um það hvað hún hlýtur að vera döpur, í peysufötunum, með flétturnar í hárinu. Ef til vill hefur hún fengið sér Kandís til að hressa sig við, kannski fékk hún sér tuggu. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvernig henni tekst að ráða við þetta. Ég hef á síðustu fjórum og hálfa árinu leitað mikið til þessarar konu eftir ráðleggingum um það hvernig ég eigi að haga mínu lífi en hún gekk sömu braut og ég hef gengið nokkrum árum á undan mér. Ég fæ varla séð að ég geti leitað til hennar úr þessu. Hún hlýtur að vera orðin dement. Það er hrikalegt alveg þegar svona fer fyrir fólki. Og hún sem á lítinn dreng og á von á öðru barni. Að hugsa sér. En öll sorgleg mál eiga sér sínar björtu hliðar. Hún á sem betur fer kornungan eiginmann. Guði sé lof fyrir það.