luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, desember 30, 2009

Af næstsíðasta degi ársins

Ingvar: "Ester, farðu með diskinn þinn í vaskinn!"
Ester: "Nei ég get það ekki! Mér er svo illt í öxlunum!"
Doddi: "Alveg er það á hreinu að báðir X-litningarnir í þér koma úr mömmu þinni"

Og ég bara sit og flissa.

fimmtudagur, desember 24, 2009

Af aðfangadegi i Sverige

En hann er nokkuð eins og maður á að venjast. Maður gerir bara sín eigin jól. Krakkarnir eru ótrúlega róleg. Hér er búið að fara út og rúlla upp þremur snjóköllum sem standa vígalegir umhverfis húsið með gulrótarnef og trefla og bjóða fólk velkomið á tveim tungumálum. Viljum sko ekki að neinum líði óvelkomnum við komuna hingað. Ég ætlaði að reyna að fá mynd með Ester hjá snjókallinum en hún svarar að sig langi ekki til þess. Er málið þar með útrætt. Menn geta því fabúlerað um ásýnd sveinanna hver í sínu horni.
Hér var möndlugrautur í hádeginu eins og Doddi er alinn upp við og ég hef vanist frá því ég kynntist honum. Það fer að verða hálf ævin svo ég get svo sem kallað það mína eigin hefð. Snorri og Tinna og dætur komu í möndlugraut en fóru tómhent heim. Doddi jós í diskana og maður spyr sig hvort einbeittur vilji hafi verið fyrir því að halda spilinu innanhúss. Snorri fór allavega saddur heim, það er bót í máli.
Nú tekur maður því aðeins rólega áður en matargerðin tekur við á ný. Brandur lúrir hérna við hliðina á mér og ég væri alveg til í að sofna með honum. Róandi að hafa svona ketti, mæli með því við alla ofnæmislausa.
Nú er að hefjast dagskrá með Andrési Önd í sænska ríkissjónvarpinu. Þetta er einhver heilagasta jólastund Svíanna svo það er eins gott að missa ekki af því. Þeir segja að julafton verkligen börjar með þessu!!!! Hvað er málið? Ég veit það ekki en ég ætla að komast að því. Sögusagnir segja að Andrés Önd hafi verið bannaður í Svíþjóð hér áður því hann hafi verið buxnalaus en ég hef ekki fengið það staðfest, og svo þegar loksins mátti horfa á hann þá varð það þvílíkt hype!!
Doddi hefur víst séð þetta áður og er nú þvílíkt spenntur.
Já það er gaman að þessu.

þriðjudagur, desember 22, 2009

Af tímamótafærslunni

Fjölmargir hafa hringt í mig og þakkað mér fyrir tímamótafærsluna. Hún breytti víst lífi þeirra. Svona er ég! Alltaf eitthvað að gefa af mér!

sunnudagur, desember 20, 2009

Af Ester Helgu

En hún óð upp að pabba sínum um daginn með 10 skr.
Gjörðu svo vel, sagði hún.
Hvað á ég að gera við þetta spurði Doddi.
Þú varst svo duglegur að taka til í herberginu mínu dag, svaraði þá skrímslið.

Áðan rak Doddi tána í, í stiganum og veinaði eitthvað hálfkæft.
Hvað gerðist? spurði Ester.
Ég meiddi mig, svaraði Doddi.
En þú ferð ekkert að grenja samt! sagði Ester.
Nei nei, svarar Doddi.
Nei þú grenjar bara þegar einhver er dauður!

laugardagur, desember 19, 2009

TRUE STORY!!

Ég sit gráti nær í eldhúsinu í Fótboltagötunni, 5 dagar til jóla og einsemdin og ónytjungskenndin að gera útaf við mig í vinnunni.
Þá segir minn elskulegi ofvirki eiginmaður, íklæddur svuntu með kokkahúfu og önnum kafinn við að troða gráðuosta/döðlufyllingu í svínalundir.

"Svona svona! Er þetta ekki bara þetta erfiða hálfa ár sem allir eru að tala um og gengur yfir á endanum?! Annars veit ég það ekki. Ég fitta inn. Svæfingahjúkkurnar voru að bjóða mér að vera með í innanhússtrandblaki! Annars skil ég nú reyndar ekki af hverju það vilja ekki allir vera svæfingarlæknar."

Jú, gott ef ég varð ekki aðeins minna einmana í kvart úr sekúndu við tilhugsunina um Þórodd í innanhússstrandblaki með svæfingahjúkkunum.

fimmtudagur, desember 17, 2009

Af bloggi

En ég er að hugsa um að henda inn einhverri tímamótafærslu í fyrramálið. Kannski einhverri sem mun breyta lífi ykkar allra varanlega!

laugardagur, desember 12, 2009

Af ættjarðarást

Stekkjastaur kom til byggða í Gautaborg í nótt. Koma hans vakti gríðarmikla lukku. Ester Helga telur að hann hafi komið með flugvél. Simple. Ég sé það alveg fyrir mér að Stekkjastaur sé svona Íslendingur sem flugfreyjurnar hafa verið hættar að bera áfengi í. Vona jafnframt að vélin hafi ekki verið full svo hann hafi verið einn í sætaröð. Svona vaðmálsföt lykta svo andstyggilega.
En hvað um það.
Ég á 10 jólasveina sem Brian Pilkington hannaði. Þeir eru svo himneskir. Fyrir áhugasama þá vantar mig skyrgám, þvörusleiki og askasleiki.
Í morgun tókum við svo fram Stekkjastaur og ég las Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum fyrir Ester. Ég skynjaði að mér þótti mikilvægt að hún lærði hvað væri á bak við þessar sendingar í skóinn. Eftir sem á leið kvæðið klökknaði ég þegar andi liðinna jóla helltist yfir mig. Andi liðinna jóla úr Skagafirði. Þaðan kemur minn jólaandi. Jólin í sveitinni, myrkur og kertaljós. EIN kaupstaðaferð þar sem allt var keypt til hátíðahalds, þess utan varð maður ekkert var við jólaörtröð og geðveiki. Litlu jólin í Steinstaðaskóla þegar presturinn á Mælifelli, Ólafur Hallgrímson, las jólaguðspjallið. Sjaldan man ég eftir að hafa fundið aðra eins hugarró og akkúrat þarna og minningin er ljóslifandi. En sem betur fer vinna nú góðir menn hörðum höndum að því að forða saklausum börnum frá öllum slíkum uppákomum þjóna kirkjunnar.
Önnur jól sem snúist hafa um geðveiki, meira og minna, hafa ekki vakið hjá mér jólaandann. Það þarf svo mikið af öllum andskotanum til að hægt sé að halda jól og ekki bara af veraldlegum hlutum heldur uppákomum. Þú þarft að vera eins og þeytispjald út um allar trissur til að upplifa aðventuna í dag.
En jólakvæði Jóhannesar minnti mig einmitt svo á fegurð einfaldleikans og gleðina yfir litlu. Og það var engin rödd eftir í síðasta erindið.
Hófst þá lestur helgarblaðsmoggans hratt flett í gegnum auglýsingar á gsm símum og sófasettum fyrir jólin. Staldraði við viðtal við Friðrik Þór og Kristbjörgu Kjeld um Mömmu Gógó. Fór aftur að grenja við lesturinn að Mamma Gógó kunni textann við Ég lít í anda liðna tíð, þrátt fyrir að allt annað væri horfið úr huganum.
Ég er svo átakanlega mikill Íslendingur hérna í Svíþjóð. Mér líður eins og Jónasi Hallgrímssyni þegar hann þráði landið sitt. Hann gat ort falleg ættjarðarljóð til að sefa (eða ýfa) söknuðinn. Ég sest og blogga. Bíð spennt eftir komu Giljagaurs.
Get ekki beðið að grenja svolítið meira á morgun.

fimmtudagur, desember 10, 2009

Af aumkunarverðri og óskiljanlegri niðurlægingu

Kannski fulldramatískur titill og þó - ég læt lesendur um að dæma.
Ég hef stundað það heima við að beita fyrir mig ofurhallærislegu sænsku slangri við sem flest möguleg tilfelli. Heilsa fjölskyldunni gjarnan glaðhlakkalega með; hejsan allihopa! við heimkomu á daginn.
Nema ég misreikna svona hraparlega stað, stund og persónu í dag þegar þessi ofur glaðhlakkalegi frasi hrekkur upp úr mér í vinnunni þar sem ég finn loksins hjúkku sem ég var búin að vera að leita að til að gera eitthvað f. sjúkling. Nákvæmalega þessi hjúkka sem er eiginlega minnst hressust af öllum á deildinni. Sú horfði í gegnum mig með sínu alvanalega ískalda augnaráði og spurði hvort þetta mætti bíða.
Eruð þið að skynja hvað þetta er akút hræðilega slæmt?!
Að sjálfsögðu játaði ég að þetta mætti bíða því ég var svo önnum kafin við að kæfa sjálfa mig með kodda í huganum.
Fattaði ekki fyrr en ég var komin nokkur skref í burtu að þetta mátti náttúrulega alls ekki bíða.
Ohh hvað ég meika ekki að vera útlendingurinn sem er að reyna að vera töff á sænsku!

miðvikudagur, desember 09, 2009

Af Tiger Woods

En þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Svíinn sé ánægður með hvernig farið var með Elínu þeirra.

þriðjudagur, desember 08, 2009

Af epikrisum

Þessi titill er fyrir Örvar sem engist um af öfund í Boston að fá ekki að skrifa epikrisur.
Fyrir áhugasama þá var ég sett í frí í viku 14. og 15. Semsagt tveggja vikna páskafrí. Veit ekki hvers vegna og spyr ei. Ætla bara að njóta. Allir kærir vinir og ættingjar hjartanlega velkomnir. Vorin í Svíþjóð ku vera himnesk.
Svo kom skemaleggjarinn minn til mín í gær og vildi absolut gera ST-plan með mér í lok vikunnar. Þar með er spurningunni í síðustu færslu svarað. Og þá vil ég bara að benda á að þá verð ég orðin ST-læknir hálfu ári á undan Dodda. Ekki það að við erum náttúrulega miklir jafningjar og vinir og ekki í neinni keppni. Ég verð til staðar fyrir hann þangað til hann fær sinn. Kemur Doddi!
Annars er ég mikið að fíla þetta fjölþjóðlega samfélag hér. Þessa vikuna er ég með yfirlækni frá Egyptalandi. Sá er reyndar búin að búa hér í 27 ár, samt getur verið erfitt að skilja sænskuna hans. Hann er nú samt með kundskapinn á hreinu sem er það mikilvægasta. Hann er mjög næs og viðkunnalegur líka en ákaflega óreiðukenndur, en það er bara fyndið. Það er náttúrulega allt himnasending á meðan ég þarf ekki að eiga við ónefndan someone. Hrollur. Það toppaði náttúrulega flest þegar hann bað mig um að stinga fingrinum mínum ofan í kaffið hans því hann vildi hafa kaffið sitt sætt. Euwwwwwww. Sænska nágrannakonan mín sagði: Nei svona mega menn ekki gera í Svíþjóð! Really?! En í samfélagi mannanna yfir höfuð?
En nú er hádegishlénu officialt að ljúka.
Læt ég þá staðar numið færslu þessari.

sunnudagur, desember 06, 2009

Af öðrum í aðventu

Þá eru Ólöf og Freyr komin og farin. Reglulega notalegt að hafa þau. Takk fyrir komuna. Svo verður bara spennandi að vita hvort það verður strætóferð eða lestarferð á milli okkar á nýju ári;)
Annars er voða lítið nýtt í þessu. Við bökuðum hérna piparkökur í vikunni sem voru málaðar í dag og eins og fyrri ár þá er það Doddi sem verður spenntastur við málningadjobbið. Situr einbeittur við og málar mikil listaverk.
Ég fór smá túr og var að skima eftir hugmyndum af jólagjöf handa krökkunum. Sá fullt af búningum í einni deildinni og þar sem Ester finnst fátt skemmtilegra en að klæða sig í búninga fór ég að skoða. Þar sá ég eitt það ósmekklegasta sem ég hef séð.



Fegurðardrottningarbúning, með hálfgerðum litlum mellukjól og borða sem á stóð "Little Miss". Gubb!! Þetta var of mikið fyrir frúna. Ekki segja mér að það sé markaður fyrir svona??!!
Mjög næs.

Annars er nú árið bara að styttast í annan endann. Ótrúlegt að vera byrjuð á 4. mánuði í vinnunni. Ráðningin mín rennur út eftir 2 mánuði og þá verður spennandi að sjá hvort þeir geri við mig ST-samning eða hvort þeir ætli að framlengja vikariet samninginn. Ég held þeir sparki mér amk ekki því ég er á vaktaplani út maí. Þannig að það er bara þessi ST vs. Vik fråga. Breytir ekki öllu, þannig lagað, hvort verður en maður er óneitanlega með meiri réttindi sem ST hvað námskeið og kennslu varðar. Plús að það er æviráðning;)
Fátt meira um það að segja í bili.