luxatio hugans

awakening

fimmtudagur, september 30, 2004

Lét verða af því

og henti út dauðum tenglum. Siggi Reynir bjargaði sér með færslu í gær og keypti sér þar með tíma. Hadda nýtur vafans í ljósi sögunnar. En þar með er það upptalið.

Allý dansar og syngur

Þeir voru hér í gærkvöldi, Palli og Doddi. Þeir voru að fara út að hlaupa og svo að lyfta í "líkamsræktarstöðinni" hans Dodda. Ég skil reyndar ekki afhverju ég hef aldrei bloggað um "líkamsræktarstöðina" sem Doddi kom sér upp í kjallaranum, en glöggir taka væntanlega eftir að "líkamsræktarstöðin" er í "gæsalöppum". Valhöll heitir hún víst. Hehehe.
Anyways. Ég hóf upp raust mína og söng. Ég syng frekar vel, eða mjög vel, öllu heldur. Nema að það gladdi mig verulega að Palli tók allur við sér og fór að dansa og klappa við sönginn minn. Ég fæ nefnilega Dodda aldrei með mér í slíkan stemmara. Dæmi:
Ég: Doddi syngjum saman!
Doddi: Nei.
Ég: Doddi dansaðu við mig!
Doddi: Nei.
Ég: Doddi koddu og sjáðu mig dansa!
Doddi: Nei.
Rétt er að taka fram að slíkar senur eiga sér ekkert endilega stað á laugardagskvöldi þegar fólk er leið út að skemmta sér, heldur kannski bara í hádeginu á fimmtudegi, eða seinnipart á þriðjudegi.

Vaxtarskór

Las í mogganum í morgun um brilliant uppfinningu á íþróttaskóm sem vaxa með barninu. Það er einhverskonar harmonikka í miðjunni á skónum sem getur lengst. Snilld. Ég nefnilega geri ekki annað en að kaupa skó á barnið mitt. Eða allar flíkur hreinlega því krakkinn sprettur eins og arfi. Hann verður sjálfsagt 1.90. Fór með hann núna í haust að kaupa kuldaskó, og sagði við afgreiðslumanninn að ég væri hreint ekki viss í hvaða skóstærð hann væri kominn. Afgreiðslumaðurinn sagði að fyrst hann væri 6 ára þá væri hann örugglega kominn í stærð 30. Já já, sagði ég. Fyrir ári eða svo. Labbaði út með skóstærð 33. Það er alveg á hreinu að barnið er rangmæðrað. Ég veit ekkert með hvaða konu Þóroddur á þetta barn, en það getur ekki verið ég.

þriðjudagur, september 28, 2004

Tapað-fundið

Hey já og ég fann svarta meðgöngu- og gjafabrjóstahaldarann sem ég lýsti eftir hér á blogginu fyrir nokkrum misserum. Hann var hjá ágætri vinkonu minni. Sem er ágætt því ég sé fram á að þurfa að eiga fleiri en einn, og best að þurfa að kaupa sem minnst af þessu. Því ég er sannfærð um að aldrei hafi jafn ljótar flíkur kostað jafn mikið. Djöfulsins rugl. Enn einn anginn af meðgöngufasismanum. Þeir vita að maður þarf þetta og þá er best að okra.

Dauðir

Flestir bloggararnir á tenglalistanum mínum eru steindauðir. Nema Jói Krói. Hann stendur sig alltaf. Nú fer ég að gera hreint og losa mig við dauða tengla. Þeir bloggarar sem ég les mest geymi ég í favorites, því ég þekki þá ekki neitt og þori ekki að linka á fólk sem ég þekki ekki. Fólk gæti haldið að ég væri aumkunarverð. Það viljum við ekki.
Það er hins vegar aumkunarvert að mig langar í McDonalds hamborgara.

mánudagur, september 27, 2004

Forsíðuefni

Akkuru kom það ekki á forsíðu DV þegar ég fór í meðferð?

Millibelgjafokk-krapp

Hvern hefði grunað að til væri fyrirbæri sem kallast millibelgjavatn? Ekki mig allavega og ég get ekki sagt að sú nýáunna vitneskja hafi glatt mig eitthvað sérstaklega. Nei ég er bara alveg helvíti pirruð!!!!

laugardagur, september 25, 2004

Væri ekki huggulegra

ef herferðin héti "Bjór eftir blóð"?

föstudagur, september 24, 2004

Geðbilaðir tónleikar

Tónleikarnir í gær voru geggjaðir svo ég noti nú lýsingarorð fermingarbarns. Þetta var mögnuð upplifun. Ég efast ekki í eina sekúndu um verkjastillingu góðrar tónlistar lengur. Mér var farið að vera ofsalega illt í baki, fótum og grindinni eftir stapp í biðröð og bið eftir goðinu. Hún Lára þarna sem hitaði upp var bara vond og mér leiddist hún ofsalega mikið. En þegar Damien byrjaði að spila, þá hurfu allir verkir eins og dögg fyrir sólu. Ég sat bara með lokuð augu í alsælu. Engir verkir. Shit hvað fæðingin verður easy með gaurinn á fóninum. Það sem helst skyggði á gleðina, var eins og venjulega í margmenni, reykingafólkið. Nú verður skorin upp herör gegn reykingum með landlækni í broddi fylkinga. Ég vona bara að maðurinn verði snöggur að koma hugmyndum sínum inn hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Allar reykingar á öllum opinberum stöðum verði bannaðar. Það dugar ekkert minna. Ég labbaði út af staðnum og hafði ábyggilega reykt sem jafngildir kartoni af filterslausum Camel. Ekki gaman að því.

fimmtudagur, september 23, 2004

Óhugnarlegur

fjöldi færslna í dag er mjög góður mælikvarði á það hversu stutt er í prófin mín.

Ekki er óhugnalegt

að ég sé að fara á Damien Rice í kvöld. Það er bara snilld. Miðarnir seldust upp á 20 mínútum og ég fékk einn af þeim dýrmætu miðum. Það er óhætt að nota samanburðinn við heitar lummur hér. Mér skilst að ég megi þakka DerX það að ég eigi miða. Ég geri það þá, hér með, þó svo ég sé þess fullviss að hann lesi ekki bloggið mitt. Aðalatriðið er að vera kvitt hjá Guði. Nú bíð ég bara eftir því að einhver af góðum vinum mínum bjóðist til að fara snemma og taka frá borð á góðum stað. Sjálf ætla ég ekki að mæta fyrr en ég þarf. Af heilsufarsástæðum sko...... sem eru ekki þráðormar í görn, þó svo þeir séu mér hugleiknir.

Fleira er óhugnalegt

en Henry kallinn í dag. Mér þykja óhugnalegar auglýsingarnar frá Sambíóunum um barnagæslu frá 12-17. Barnið borgar inn 600 krónur og sér 3 bíómyndir í fullri lengd. Hvaða viðbjóður er þetta?!! Hverjum dettur til hugar að nýta sér þetta?

Meira af Henry Birgi Gunnarssyni

Maðurinn er hreint og beint óhugnalegur. Hann tekur hér um bil alla bls. 38 í fréttablaðinu undir grein sína: "Af hverju er íslenski boltinn svona leiðinlegur?" Ég skil ekki af hverju hann hefur titilinn á spurningaformi, þar sem hann er með svörin á reiðum höndum.
Ég bíð spennt eftir greininni: "Af hverju er Henry Birgir Gunnarson svona leiðinlegur?" Kannski ég skrifi hana sjálf bara. Spurning um að símsenda lyfseðil á Zoloft handa greyinu. Það ætti enginn að þurfa að vera svona reiður í okkar geðlyfjavædda þjóðfélagi. Kannski að þú gangir í það Doddi minn?

Þráðormar í görn

Það er eitthvað gefandi að lesa um þráðorma í görn á þessum síðustu og verstu tímum. Já.

miðvikudagur, september 22, 2004

Gremja

Ég er að hugsa um að taka út síðustu færslu, hún var skrifuð í svo mikilli gremju.

þriðjudagur, september 21, 2004

Mjög mikilvægt

er að allt gangi upp í atburðarrásinni, þegar maður er að rista sér brauð og vill fá ostinn til að bráðna örlítið. Ég veit ekki hvort fólk almennt áttar sig á því hve lítið má fara úrskeiðis. Þetta er spurning um sekúndur, þar sem ekki ein má fara til spillis. Það þarf allt að vera klárt áður en maður ýtir brauðinu niður og svo þarf maður að vera alveg tilbúin til verka þegar brauðið kemur upp. Þetta er prýðileg æfing fyrir læknastarfið, þar sem aðgerðaröðin og tímasetningin er crucial. Jahá.

mánudagur, september 20, 2004

Fjandans kennaraverkfall

Ég þurfti að setja einkaprinsinn upp í flugvél í morgun. Leið hans lá til Akureyrar. Sorg hans var öllu minni en mín, vitandi að framundan er óhóflegt dekur. Ég er hins vegar döpur yfir því að geta ekki eytt síðustu vikunum með honum áður en innrás prinsessunnar brestur á. Ekkert quality moment. Ég spurði hann í gærkvöldi með kökkinn í hálsinum hvort hann ætti ekki eftir að sakna mín ef hann færi til Akureyrar í verkfallinu. Hann svarði: "Heyrðu góða mín. Ég er með konu á Akureyri, og það er hún amma Gunna!" Og þar hafði ég það. Ég þurfti að minna mig á það í morgun að þetta væri sennilega ekkert persónulegt hjá kennurum gagnvart mér að hafa af mér krakkann. En ég þurfti að hafa fyrir því.

Frammarar

Skyldu Frammarar slá saman í bæjarlistaverk handa Grindavík? Mér þætti það ekki mikið reyndar. Þokkaleg ávísun á magasár, haust hvert, að vera Frammari. Ég er ekki Frammari. Ég er ekki heldur KA manneskja þar sem að það hlakkaði í mér þegar KA féll. Svona er ég illa innrætt.

föstudagur, september 17, 2004

Neyðarlegt

Vægast sagt.

Húrra

Var að fá póst frá háskólanum þess efnis, að takmarka ætti staði þar sem reykingafólki verður leyft að eitra fyrir okkur hinum. Drepið endilega ykkur sjálf, en látið það vera að drepa mig. Húrra, húrra, húrra fyrir háskólanum.

Ljót

Ég er hvergi jafn ljót eins og í speglinum í klippingu. Nú gætu einhverjir haldið að ég sé að grínast. Allý ljót?? Þvílík fásinna! En ég er ekki að grínast. Ég forðast augnsamband við sjálfa mig í speglum dauðans. Svo hræðilegt er það.

miðvikudagur, september 15, 2004

Ég vildi óska

að Helga Jónsdóttir ætti góða mömmu sem myndi segja henni að hætta þessari andskotans vitleysu áður en hún yrði sér meira til skammar.
Mér finnst algjörlega fáránlegt að fólk megi ekki lengur beita geðþóttarstuðli við ráðningar á fólki. Hvernig í andskotanum á fólk að geta unnið vinnuna sína ef þeim líkar ekki við nánasta samstarfsfólkið sitt? Þetta er bara krafa um mannréttindi finnst mér, að þurfa ekki að ráða einhverja cavebitch bara vegna þess að hún flaggar einhverjum plöggum. Þetta er bara rugl!!!

Damien Rice

Shit, hvað hann er góður!!!
Ég verð sko pottþétt á tónleikunum, Raggi þú kaupir miða handa mér í leiðinni, erþaggi?
Og gott ef þetta er ekki diskurinn sem kemur með mér upp á fæðingardeild. Hafði hallast að Jeff Buckley en þetta er sennilega málið. Já góða barn. Fyrst tónleikar og svo bara að fæðast við unaðslega tónlist. Þú er lánsamt lítið barn að eiga mömmu með góðan tónlistarsmekk.

laugardagur, september 11, 2004

Hvaða leiðindagaur

er að lýsa Chelsea leiknum? Dreptu mig endilega úr leiðindum ágæti lýsandi. Annars er ég hvorki að horfa á leikinn né blogga, heldur er ég að læra.

miðvikudagur, september 08, 2004

Sænsku konungshjónin

Ó mæ god, ég sá sænsku konungshjónin og Ólaf og Dorrit út um stofugluggan minn. Ég bý nefnilega við hliðina á Neyðarmiðstöðinni Skógarhlíð, og þeim hefur greinilega fundist áhugavert að kynna sér hana. Enn og aftur er ég kannski ekki alveg jafn merkileg og hann Doddi minn sem var á barnadeildinni í gær þegar frúrnar mættu þangað. Ég spurði Dodda hvort hann hefði ekki kynnt sig fyrir drottningunni sem tengdasonur hennar en hann fékk víst ekki að koma nálægt henni. Ég hef sagt frá þessu áður, en þegar Doddi bjó í Svíþjóð þá var hann skotinn í Svíaprinsessu og ætlaði að giftast henni. Well that's not gonna happen. Doddi er bara með annars konar prinsessu núna og það er ekkert minni vinna að halda henni ánægðri.
En mikið er ég oft búin að vera ólýsanlega fegin upp á síðkastið að hann Ólafur er kvæntur henni Dorrit. Hann er svo asnalegur og mikill þurs eitthvað, með ljóta enska framburðinn sinn, en þá birtist þessi siðfágaði engill, í rándýru dragtinni sinni með óaðfinnanlegt hárið og maður varpar öndinni léttara og veit að þessari opinberu móttöku er borgið. Flottasti fulltrúi Íslands, gyðingurinn frá Ísrael.

þriðjudagur, september 07, 2004

Hey strákar

látum Símann kaupa Skjá Einn og þá sjá allir að við höfðum rétt fyrir okkur!! Gott á þá uppi á Lynghálsi!!

föstudagur, september 03, 2004

Ónæmislitanir og ofbeldishneigð

Það eru ákveðin takmörk fyrir því hvað einstaklingur getur haft mikinn áhuga á ónæmislitunum. Að því hef ég komist. Þetta byrjaði í clausus hjá Helgu Ögmunds, og síðan þá, hefur komið kennari á hverri einustu önn, í einhverju fagi, sem starfar við ónæmislitanir og treður þeim inn í fyrirlestrana sína. Í gær fengum við ítarlega aðferðarfræði veirufræðings sem notar ónæmislitanir, PCR, kjarnsýruþreifingar og allt þetta andskotans krapp, í starfi sínu. Þá var ég með ágætis tolerance, enda næstum 3 mánuðir síðan ég hlustaði á þetta síðast. En þegar sýklafræðingurinn kom í dag og byrjaði fyrirlestur sem hann fékk örugglega lánaðan hjá veirufræðingnum um sama efni, þá var þolinmæðin á þrotum. Og þá kemur að þessu áhugaverða. Ég finn fyrir ofbeldishneigð þegar mér fer að leiðast svona hrikalega í fyrirlestrum. Ég pota nær undantekningalaust skrúfblýantinum mínum í Baldur, eða krassa á hann eða krassa yfir glósurnar hans. Ef hann er ekki við hliðina á mér og ég næ ekki í hann, þá finn ég leið til að koma andstyggilegum háðsglósum, um hann, til hans. Ef hann er ekki einu sinni í tíma, þá sendi ég honum niðrandi sms. Ég kann mig svo vel að ég níðist aldrei á neinum öðrum, það er þá helst Sverri í neyðartilvikum. Þetta er MJÖG áhugavert frá atferlisfræðilegu sjónarmiði. Getur verið að bullum sem leggja aðra í einelti, leiðist bara svona mikið?

jájá

Ég er andvaka og upptjúnuð eftir að hafa haldið saumó. Vanfær kona ætti náttúrulega að vera sofandi núna og safna kröftum. Það er náttúrulega áhugavert útaf fyrir sig að hrokabolti eins og frú Aðalheiður sé komin í saumó, hvað þá að hún haldi slíkar samkomur. Það eru greinilega engin takmörk fyrir því hverju 12 spora kerfi geta komið til leiðar.
Talandi um vanfærni mína. Lokaorðin í öllum samtölum okkar Þóroddar upp á síðkastið hafa verið: Já en ég er að smíða líf, í 24 tíma á sólarhring, og ekki kvarta ég. Venjulega er ég þá að koma mér undan einhverju, varpa aukinni ábyrgð á hann eða fá hann til að rétta mér eitthvað. Við þessu á hann ekkert svar, honum finnast rökin (augljóslega) fáránleg en það er ekkert sem hann getur sagt án þess að líta út eins og tillitslaust karlrembusvín með engar tilfinningar. Hvaða nútímakarlmaður segir við vanfæra konu sína árið 2004: Getur þú ekki náð í það sjálf? ENGINN. Ekki einn. Það notfæri ég mér blygðunarlaust, og smíða svo líf á meðan hann skýst út í búð eftir einhverju lítilræði handa mér. Já, líf og fjör.