luxatio hugans

awakening

laugardagur, september 29, 2007

Jón Gunnar

frændi okkar, vinur, veislustjóri og veiðifélagi berst nú fyrir lífi sínu á gjörgæsludeildinni í Fossvogi. Hann er nú þegar búin að hafa betur í erfiðum viðureignum við móður náttúru sem gefur okkur von um að hann gefi ekkert eftir á seinni hlutanum heldur.
Miklar aðgerðir að baki og síðast þegar ég heyrði í Dodda var hann heldur skánandi en hitt. Við fögnum því. Gott að eiga innanbúðarmann á gjörgæslunni núna. Reyndar erum við gríðarlega þakklát öllu því góða fólki sem starfar á gjörgæslunni.
Ég vona bara að Jón Gunnar muni það að Doddi á eftir að vera veislustjóri í hans brúðkaupi, hann fer ekkert að svíkja okkur um það. Eins þykist ég eiga inni hjá honum hreindýrasteik sem ég hef fullan hug á að innheimta.
Koma svo Jón Gunnar!!

miðvikudagur, september 26, 2007

Gullkorn dagsins

Próf í heimilislæknisfræði á föstudaginn. Í aðdraganda þess varð í dag til eftirfarandi gullkorn: "Þið þurfið að passa ykkur á ættingjum sjúklinga í heimahúsum"

þriðjudagur, september 25, 2007

Fríkað Bónusmóment

Fór í Bónus áðan og fór í grænmetiskælinn. Á sama tíma og ég voru þarna inni, þrír ábyggilega Víetnamar sem töluðu hátt og voru að versla mikið grænmeti og tvær pólskar konur sem töluðu saman á pólsku og ég veit að önnur þeirra er læknir. Ég stend og er að velja mér tómata, eða túmata eins og amma Þórgunnur sagði alltaf, í poka þegar það vindur sér að mér rétt rúmlega fimmtug kona og spyr: "Þú ert Íslendingur, er það ekki?"
Ég játa því náttúrulega enda ekki lygari eins og MaggaVaff sem hefði ábyggilega séð sæng sína útbreidda að koma með einhverja góða lygasögu um það að vera ættleiddur tvíburi af eistneskum uppruna við þetta tilefni.
Nema hvað að þá fer konan að spyrja mig hvort mér finnist þetta ekki skrítið að hafa alla þessa útlendinga hér og hvað mér finnist eiginlega um þetta. Ég muldra bara eitthvað vandræðalega enda ekki alveg tilbúin til að taka þátt í stofnfundi Hins íslenska nýnasistaflokks í grænmetisdeildinni í Bónus. Var að hugsa um að bjóða henni í kaffi til að kynnast Filippseyjingnum sem býr hjá mér. En ég lét það ógert.

sunnudagur, september 23, 2007

Nú kætist soccermom

í Hlíðunum með sigur Valsmanna á FH-ingum (grenju/leiðindaskjóðum).
Já nú er líf og fjör.

Efasemdir um hjónabandið II

Við hjónin vorum um daginn að gera grín að einum manni í samtökum iðnaðarins sem kom fram í fjölmiðlum og varð tíðrætt um það í viðtalinu að hann hafði gleymt að tríta sig sem sjúkling. Jæja aumingjahrollur dauðans að horfa á þetta viðtal og það komu móment þar sem ég skammaðist mín fyrir að tilheyra samtökum iðnarins.
Í morgun kom svo upp púki í mér og ég krafðist þess af Þóroddi að farið yrði að tríta mig meira eins og sjúkling, hann ætti að koma fram við mig eins og hann myndi gera ef ég væri með krabbamein.
Doddi hugsaði sig um í smástund og sagði svo: "Hvaða krabbamein og hverjar eru horfurnar?"

Efasemdir um hjónabandið

koma upp hjá mér þegar eiginmaður minn á setningar eins og eftirfarandi:
"Ég fór og keypti óperur á vinyl í Góða hirðinum. 16 stykki. Þvílík snilld!!"

föstudagur, september 21, 2007

Common girls

Hvar er sjálfsvirðingin? Enn og aftur falla knattspyrnukonur í þá gryfju að pósa sem kynverur við að auglýsa einhvern stórleikinn. Nú úrslitaleikinn í bikarnum. Ég er alveg steinhissa að þær skuli fást í þetta. Ekki smart. Það var alger hryllingur einhver herferðin sem landsliðið fór í um árið. Þá voru þær hreint og beint á nærfötunum að reyna að fá fleiri áhorfendur á leiki. Sorglegt. Þá tók ég Ástu frænku mína Árnadóttur á beinið og spurði hvur andskotinn væri eiginlega í gangi. Þá var þetta að sjálfsögðu ekki undan þeirra rifjum runnið, en samt taka þær þátt í framkvæmd hugmyndarinnar. Humm. Og markaðshópurinn................... Koma virkilega fleiri á bikarleikinn, karlar þá væntanlega, af því að þær sátu fyrir á handklæðum í blöðunum í dag? Og er það þá good thing? Herferðin að virka. Erum við ánægð með að þetta skili sér í auknum fjölda áhorfenda? Ég veit það ekki. Þeir sem koma fótboltans vegna hefðu alltaf komið á leikinn hvort sem er, en þeir sem koma til að fá að sjá stelpurnar sem voru undir handklæðunum......... viljum við fá þá á leikinn?

fimmtudagur, september 20, 2007

Hjálp

Ég er að bugast úr sjálfsvorkun. Ég er með tár í augunum og hor í nös af helberri og einskærri sjálfsvorkun. Mér finnst það ógeðslega ósanngjarnt að ég sitji hérna í þessum viðurstyggilega og ljóta Ármúla og sé að lesa undir 3 próf, korteri eftir að skóli hófst. Aðrir háskólanemar eru í bóksölu stúdenta að reyna að ákveða hversu marga liti af uni-ball eye pennum þeir eigi að nota við að taka niður glósur í vetur og hvort þeir eigi að versla fine eða micro odd. En við vesalings læknanemarnir erum að læra utanað innlenda löggjöf um sóttvarnir. Og ég sem þyrfti eiginlega að vera að velja háf og spansuðuplötu í nýja eldhúsið mitt. ÞETTA ER MANNVONSKA SEGI ÉG!!!!!
Mig vantar svo að einhver stór og mjúkur (útlit gæti samræmst deildarlækni á gjörgæslu) komi og strjúki hárið sem hefur fests í hori og tárum blíðlega frá andlitinu á mér, gefi mér fullt af sælgæti og segi mér að allt verði í lagi. Baðherbergið verði tilbúið áður en ég viti af.

Tillaga að nýbreytni til fjölmiðlamanna

Ég legg til að fréttamenn sameinist um að kalla málið, sem nú er í gangi á Fáskrúðsfirði, annað hvort "Fáskrúðsfjarðarmálið" eða "Skútumálið".
Það er hætt við því hins vegar, nú þegar í ljós hefur komið að þetta er mesta magn fíkniefna sem hefur fundist í einu, að málið verði kallað "Stóra fíkniefnamálið" í fjölmiðlum.
Þau hafa bara verið nokkur áður þessi stóru fíkniefnamál. Sýna smá frumleika hérna people.

mánudagur, september 17, 2007

Junior samtök herstöðvaandstæðinga

Ester Helga kom marserandi heim úr leikskólanum í dag og söng: "Ísland úr Nató, herinn burt! Ísland úr Nató, herinn burt!" Án þess að ég sé að benda á neinn................. þá er Ólína dóttir Stefáns Pálssonar á deildinni hennar Esterar. Tilviljun?

laugardagur, september 15, 2007

Yfirgengileg græðgi

Fór með krakkana í Bónus-video hérna í Mávahlíðinni áðan. Ester sá svona nammibar og vildi fá. Ég hef andstyggð á svona nammibörum yfir höfuð vegna fjölda þeirra sem um þá ganga en það sem ég varð vitni að áðan keyrði um þverbak. Neðst á barnum, í skóhæð þeirra sem við hann standa, er renna sem nammið sem "fellur útbyrðis" safnast í. Þegar ég var að hjálpa Ester að tína í pokann þá var þarna starfsmaður sem týndi nammið upp úr rennunni og flokkaði það í í rétta dalla aftur. Ég horfði á hann í smástund, svo undrandi að ég kom varla upp orði, og svo gat ég ekki stillt mig um að segja honum að þetta sem hann væri að gera væri vægast sagt ógeðslegt. Hann sagðist bara að vera vinna sína vinnu, eins og fyrirmæli hljóðuðu uppá frá yfirmanni. Ég sagði honum að skila því til yfirmanns síns að þetta þætti viðskiptavinum hans viðbjóðslegt.
Pælið aðeins í þessu. Þeir leggja ábyggilega svona 1000% á sælgætið og tína svo upp þá mola sem detta niður. Hversu ógeðslega gráðugur er hægt að vera???!!! Hversu mikil tík þarf ég að vera til að tala við heilbrigðiseftirlitið? Uhm, bíddu leyfðu mér að hugsa.......... ekki svo mjög mikil.

föstudagur, september 14, 2007

CSI

Próf í Réttarlæknisfræði á morgun. Mér líður eins og Grissom þar sem ég sit og les um líkbletti og raula: "Who are you? Who? Who? Who? Who?"

miðvikudagur, september 12, 2007

Eru FH-ingar wussies??

Ég veit vel að þeir eru ekki að brjóta neinar reglur, en for crying out loud............. hvaða aumingjagangur er þetta?!!! Djöfull finnst mér þeir lélegir. Þessir gaurar eru ekki nógu góðir fyrir FH svo þeir eru lánaðir, koma Fjölni í úrslit (ásamt öðrum að sjálfsögðu) en fá svo ekki að spila úrslitaleikinn sem hlýtur að vera draumur hvers knattspyrnumanns. Því nú eru FH-ingar hræddir við þá. Ég vildi að ég væri í leikskóla, því þá myndi ég finna mér FH-ing og góla framan í hann: Ertu hræddur við þá? með viðeigandi hæðnistón og tunguna úti.
En ég er ekki lengur í leikskóla, ég er í háskóla, og því kalla ég FH-inga Wussies á fartölvunni minni. Því það er svona meira við hæfi háskólastúdínu.

Er á það bætandi?

Hafa aumingja börnin í Tógó það ekki nógu slæmt fyrir? Eru Skoppa og Skrítla á það bætandi?

þriðjudagur, september 11, 2007

Martröð

Úff hrikaleg martröð í nótt. Var á vakt, rosa ánægð með að síminn var ekkert að hringja og fór á Kaffi Krús alveg róleg. Ákvað svo að rölta upp á heilsugæslustöð og þá er allt í pati þar. Fullt af sjúklingum og búið að kalla út bakvaktina sem stóð sveitt við störf af því að ég hafði ekki svarað í símann. Svo er ég eitthvað að reyna að bæta fyrir brot mín og hjálpa til en er bara fyrir. Að lokum er hringt og sagt að fyrst ég hafi ekki svarað í símann sé verið að flytja sjúkling með heilablæðingu á Sauðárkrók. Ég hrökk upp í svitabaði og angist. Það er ennþá ónotakennd í mér. Ég ætla að fá mér hafragraut.

þriðjudagur, september 04, 2007

Júdas

"Er búið að segja gjöriði svo vel?"

Bwaahahahahhaahah

mánudagur, september 03, 2007

Grímseyjarferjumálið

fer eitthvað svakalega í taugarnar á mér. Ekki vegna þess að ég hafi svo sterkar skoðanir á því, heldur vegna þess að ég er þreytt á því. Svo fór ég að hugsa. Er það kannski þess vegna sem menn komast upp með allan andskotann hérna á Íslandi? Vegna þess að fjölmiðlar djöflast svo á málefninu þar til fólk vill frekar gubba en að komast að hinu sanna. Minnir á vatnspyntingar hreinlega. Þannig var þetta orðið með Baugsmálið. Það var autonom reflex sem skipti um sjónvarps- eða útvarpsstöð ef orðið Baugsmál kom við sögu.
Ég nenni varla að setja almennilegan endapunkt á þessa færslu, svo mjög leiðist mér innihald hennar.

Af tenglamálum

Var að laga til á tenglalistanum mínum. Einhverra hluta vegna finnst mér það vera það leiðinlegasta við þetta blogg að laga tenglalistann. Það eru reyndar draugar úr fortíðinni frá þeim tíma þegar þurfti að restarta bloggsíðunni til að sjá breytingarnar og það tók aldir. Þetta er ekki svona í dag. En þetta er bara eins og dæmisagan af tannlæknaphobiunni og hugrænni athyglismeðferð. Ef þið fattið ekki samlíkinguna þá er það ykkar vandamál að vera svona illa lesin.
En það er nú vaninn að tjá sig um svona tenglabreytingar, hvers vegna hinn og þessi datt út o.s.frv. Ég nenni því ekki núna. Hins vegar vil ég benda á nýja tengilinn Rokk. Þar er ég að linka á Kiddu Rokk sem hefur gengið undir nafninu: "Kidda Rokk vinkona mín" eða alveg síðan ég komst að því að Coldplay hitaði upp fyrir hana þegar hún var að túra um Bretland. Ég myndi alls ekki kalla það grunnhyggni að mér þykir actually meira vænt um hana núna. Það er bara fallegt að láta sér þykja vænt um fólk, hver svosem ástæðan er.