luxatio hugans

awakening

sunnudagur, desember 21, 2008

Af Canestu

Á þessu eina og hálfa ári sem ég hef verið að taka vaktir á Selfossi þá hef ég oft hent mér inn til Kristínar og Matta þegar ekkert er að gera.
Þá hafa þau oftar en ekki verið að spila Canestu við vinahjón sín, Jón og Gullu. Canesta er fáránlega flókið spil, alltaf heyrir maður einhverjar nýjar og nýjar reglur, svo þetta er eins og spurningaþátturinn Bambuzzel, sem Joey átti að kynna í sjónvarpinu, (ef einhver skilur hvað ég meina með því). Spilað með tveim spilastokkum, jókerarnir eru með, villt spil, hægt að læsa bunkanum, fáránlega strangar reglur hvernig mar opnar bunkann aftur, fáránlega strangar reglur með að leggja niður o.s.frv.
Anyways. Einhvern tímann fékk Unnur María ælupesti í miðju spili svo ég stökk inn fyrir Kristínu og spilaði við Gullu. Þá skildi ég þetta aðeins betur þegar ég þurfti að hugsa sjálf en samt var langt í land.
Svo komu Matti og Kristín hérna í haust og spiluðu við okkur Dodda og Doddi tók glósur eins og vitlaus maður. Samt vorum við litlu nær.
Svo hef ég fengið að spila eitthvað í viðbót heima hjá Matta og Stínu sem staðgengill og þóttist því fær í flestan sjó að fara að breiða út boðskapinn.
Okkur var boðið í mat til Ólafar og Freys í gærkvöldi og var ætlunin að spila Canestu. Rétt fyrir klukkan 19.00 í gærkvöldi fékk ég panik. Reif upp símann og hringdi í Kristínu: "Ég á ekki eftir að muna þetta allt!!!!!! Farðu aðeins yfir þetta með mér aftur!"
Kristín var í Reykjavík og ætlaði að koma við hjá mér og fara yfir þetta.
NEI! gargaði ég. "Það er ekki tími til þess! Ég á að vera mætt!"
Þannig að Kristín skautaði yfir reglurnar í símanum, ég glósaði á A4 blað. Svo lauk hún símtalinu með því að segja: "Ég verð með símann, hringdu ef eitthvað er."
Sem er nokkurn vegin það sama og sérfræðingarnir sem eru á bakvakt eru vanir að segja við mig.
Eftir dásamlegan kvöldverð var byrjað að spila. Ég þurfti strax að hringja í Kristínu. Ég mundi ekki hvað gefin voru mörg spil í upphafi. OK.
Símtölin urðu alls fjögur í bakvaktina á meðan spilað var. Ólöf hafði miklar áhyggjur af því hvenær Kristín færi að sofa. Og þrátt fyrir að Kristín svaraði alltaf símanum þá var Matti ekkert minna æstur með ráðleggingarnar og reglurnar á bak við hana. Gott að eiga góða að!
En.............. ég held samt að við höfum endanlega náð þessu í gærkvöldi. Ég virkilega held það.
Ég og Ólöf töpuðum, Doddi og Beisi unnu. Sem eru basically sömu úrslit og ég er vön að sjá heima hjá Matta og Stínu. Kallarnir vinna alltaf. Hvað er það?! Er eitthvað dulið phallic hneigt twist í þessu?

fimmtudagur, desember 18, 2008

Kompás minn rass

Hnakkus tekur rannsóknarblaðamennskuna upp á næsta plan með færslu sinni um fjarheilun.
Þetta er rosaleg lesning! Og mjög smooth plott hjá gaurnum verð ég að segja.
Hnakkus er skyldulesning en bloggar reyndar alltof sjaldan.

miðvikudagur, desember 17, 2008

Af eftirmeðferðum

Þrátt fyrir að mig gruni að yfirlýsing SÁÁ um gjaldtöku fyrir eftirmeðferðir sé ekkert annað að pólitískur þrýstingur þá finnst mér það gott mál.
Fólk ber meiri virðingu fyrir þjónustu sem það þarf að borga fyrir og hugsar sig þá etv tvisvar um hvort það sé tilbúið í þessa meðferð. Auðvitað mun fólk falla eftir meðferðina eftir sem áður, þetta verður ekki eingöngu her hinna staðföstu en ég hef góða tilfinningu fyrir þessu.
En af þessu verður náttúrulega most definately ekki samt.
Eða ég hef allavega enga trú á því.
Myndi glöð éta það ofan í mig.

Jólabloggið 2008

Hér kemur falleg jólafærsla:

Ég er að klúðra jólakortunum í ár. Þau verða líklegast engin. Sem er GRÍÐARLEGA áhugavert í ljósi þess að jólin 2008 eru fyrstu jólin í 14 ára sögu okkar Þóroddar þar sem hvorugt okkar er í prófum. Sem aftur sannar kannski þá tilgátu að fólk sé sérstaklega iðið við hluti sem koma námi ekkert við í próflestri. Anyways.

Ég fæ líkamleg einkenni af viðbjóð þegar ég heyri 2007 útgáfuna af Hjálpum Þeim í útvarpinu. Mér finnst hræsnin hreinlega skríða eftir allri húðinni á mér og ég fæ hroll og gæsahúð sem lagast ekki fyrr en ég næ að skipta um útvarpsstöð. Ónotin sitja þó í mér eitthvað lengur. Hrikalegt að verða fyrir þessu.

Ég fékk jólagjöf frá vinnuveitenda mínum í ár. Innpökkuð og læti. Lifi HSu. Lifi Hnakkinn!

Jólakveðjur,

miðvikudagur, desember 10, 2008

Af konum með vestræn vandamál

Ég var að hlusta á konu í morgunútvarpi Rásar 2 á leiðinni í vinnu í morgun. Sú hafði skrifað bók um íranskar konur. Allt gott um það að segja. Þegar hún var spurð að því hvað íranskar konur ættu sameiginlegt með íslenskum konum þá minnist hún á það að alls staðar í heiminum séu konur að glíma við sömu vandamál.
Já, hugsaði ég, eru íranskar konur að glíma við sömu vandamál og ég? Og hvaða vandamál er ég að glíma við? Ég braut heilann og ég komst að því að mitt stærsta vandamál í lífinu er að ég þarf stundum að eiga samskipti við fólk sem er ekki eins og ég vil hafa það. Það gæti svo verið útfærsluatriði hvort það, að fólk sé ekki eins og ég vil hafa það, sé frekja eða vandamál og fer alfarið eftir hugarástandi þess sem færir fram rökin.
Að öðru leiti gat ég ekki fundið neitt í mínu nánasta umhverfi eða andlega lífi sem ég gæti kallað vandamál án þess að vera með meiriháttar ýkjur.
Get ég þar með ályktað að stærsta vandamál íranskra kvenna sé að fólk sé almennt ekki eins og þær vilja hafa það?

Af flutningabílum

Ég hata flutningabíla og ég vil banna þá á þjóðvegum landsins á dagvinnutíma. Þeir æða á glórulausum hraða á móti manni, ef það er bleyta eða slabb þá ausa þeir svoleiðis yfir bílana sem þeir mæta að rúðuþurrkur á hraðasta eiga ekki roð í verkefnið, sogið sem kemur á eftir þeim getur þeytt venjulegum bílum útaf þegar það er hvasst og hálka og svo er ekki séns að lifa það af ef fólksbílar fara framan á svona ferlíki.
Þeir magna auk þess hjólför og eyðileggja vegkanta.
Þarf ég að halda áfram að telja upp?

Það er verið að halda ríkisstjórnarfund hérna í eldhúsinu hjá mér því Ingvar og vinir hans eru búnir að steypa ríkisstjórninni af stóli og stofna nýja ríkisstjórn. Ég ætla að leggja þetta fyrir nýju ríkisstjórnina að þeir komi flutningabílum af sömu vegum og ég þarf að aka.

Annars skil ég ekki eljuna í Ingvari að nenna setja sig inn í stjórnmál og efnahagsástandið. Ég er 29+ eða eitthvað, ég man það ekki alveg, og ekki nenni ég að setja mig inn í ástandið nema kannski í örfá sekúndubrot á nokkura vikna fresti. En hann nennir endalaust að velta sér upp úr Evrum og ESB og seðlabankanum og Glitni og einhverju sem mér finnst svo boring að ég nenni varla að pikka það inn.
Jamm.

mánudagur, desember 08, 2008

Af Spáni




Af Miss World

Ég er búin að vera með í maganum yfir þessari Ungfrú Heimur keppni frá því ég hlustaði á Heiðar snyrti lýsa mikilvægi hennar á morgunútvarpi Rásar 2 ekki fyrir svo löngu. Ég vissi ekki að það væri svona lítið að marka þessar veðbankaspár svona löngu fyrir úrslitakvöldið, ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta gæti allt breyst á síðustu stundu og að netatkvæði mitt gæti haft úrslitaáhrif hvort ungfrú Ísland kæmist áfram eða ekki.
Nú þá fór ég náttúrulega að kjósa á netinu eins og mofo, það er nefnilega svo yndislegt þegar íslensku stúlkunum gengur vel.
Það var þungu fargi af mér létt þegar ég sá að hún landaði sem betur fer sporttitlinum, við förum þá svo sannarlega ekki tómhent heim og hægt að blása til móttökunefndar í Vetrargarðinum út á sportstúlkutitilinn. Þetta er bara svo dásamlegt.

Nú og svo ef henni gengur ljómandi vel á sjálfu lokakvöldinu, þá er bara að horfa sem oftast á Sirrý Geirs í þættinum hennar Evu Maríu, til að kópera hvernig maður á að koma vel fyrir sem uppgjafafegurðardrottning í svona viðtölum. Þetta verður alveg silfurs.

föstudagur, desember 05, 2008

Af bloggleiða

En hann hefur gripið mig.
Frá því að ég byrjaði að blogga hefur bloggfærslan alltaf orðið til í höfðinu á mér og SVO hef ég sest niður við tölvuna og pikkað hana inn.
Ég hef aldrei sest niður og samið bloggfærslu af því bara eitthvað.
Ég er að finna fyrir því núna að það koma færri færslur til mín en áður. Fyrst hélt ég að ég væri andlaus en ég er allt í einu að fatta hver orsökin er.
Ég hef alltaf bloggað svo mikið um eitthvað fyndið og skemmtilegt í umhverfi mínu, óspart gert grín, góðlátlegt vona ég, að samferðafólki mínu og fyndnum uppákomum.

Nú er ég allt í einu hætt í skóla og komin í vinnu, sem er vissulega skemmtileg og vissulega gerist oft eitthvað sem er mjög fyndið, en það ríkir augljóslega mikil leynd yfir þessu öllu. Og línan hvað má segja og hvað ekki er svo grá að það er best að segja aldrei neitt til að klúðra þessu ekki.
Ég hef átt í fyndnum uppákomum með samstarfsfélögum mínum á Selfossi en þegar ég ætla kannski að skrifa um þær þá gætu þær þótt óviðeigandi í augum einhverra og ég því strokað þær út aftur.

Stærsti hluti vinkvenna minni kemur þar fyrir utan úr félagsskap sem hefur skeytt orðinu nafnleysi í heiti samtakanna;) Ég á ekki fokking breik.

Og þar sem ég hef aldrei og ætla aldrei að skrifa dagbókarfærslur um daginn minn, hvað ég borða í hádegismat og annað eftir því, þá er efniviðurinn eðlilega minni.
Ekki það að þjóðfélagið sé ekki á öðrum endanum en mér finnst það bara ekkert skemmtilegur efniviður, hvar er húmörinn í því???

Eitt hefur þó komið upp í hugann minn síðustu daga og er það hugleiðing sem er tilkomin af Fésbókinni. Voðalega finnst mér hallærislegt þegar fólk er augljóslega með bestu myndina sem það fann af sér sem profile mynd. Í árshátíðardressinu jafnvel. Hvar er hressleikinn people? Nei ég vil bara að allir sjái hvað ég var sæt á síðasta vinnustaðadjammi, Sirrý Geirs in the making.

Góða helgi!!!!

miðvikudagur, desember 03, 2008

Af persónuofsóknum

Fólk sem elskar að hata Davíð Oddsson hringasnýst í gagnrýni sinni á honum. Fyrst var hann ábyrgur af því að hann kom ekki auga á yfirvofandi efnahagshrun, nú svo þegar kom í ljós að hann sá hrunið fyrir og reyndi að vara við því, þá varð hann ábyrgur af því að hann gerði ekki nóg.

Er ég sú eina sem man eftir svívirðingunum sem hann varð fyrir þegar hann var að reyna að benda á það að ef JÁJ færi á hausinn þá færi landið á hausinn með honum?
Jú bíðið við þá var talað um persónulega öfund DO út í velgegni JÁJ. Það var allt brjálað út í bláu höndina sem vildi kremja það sem þjóðinni var kærast, nefnilega Bónusveldið sem átti að hafa verið mesta kjarabót landsmanna fyrr og síðar. Var Baugsmálið etv eitthvað annað og meira en persónuleg hefnd biturs stjórnmálamanns? Var etv verið að reyna að sanna að ekki væri allt með felldu í þessum fjárfestingum hulduhlutafélaga í hverju öðru í endalausri hringavitleysu?
Hlustaði þjóðin þá? Þetta sama fólk og stendur um helgar fyrir framan seðlabankann og öskrar á afsagnir eða fór þetta fólk þá einmitt hamförum í bloggfærslum um ofsóknirnar gegn aumingja Jóni Ásgeir litla sem hefði ekkert til saka unnið annað en að vera bara svo óhemjuklár að DO gæti ekki unað því að einhver gæti efnast meira en hann? Mig minnir það nefnilega.

Mér er óglatt af tvískinnungnum.

mánudagur, desember 01, 2008

Fullveldisbarnið

Luxatio hugans var fyrst með fréttirnar á sínum tíma að Baldur og Eygló ætluðu að fjölga mannkyninu.

Hér er svo afraksturinn. Í dag, 1. des. 2008 fæddist loksins dásamlega falleg lítil krúttubolla sem dró hálfa þjóðina á asnaeyrunum við að láta bíða eftir sér. Valdi mjög flottan afmælisdag reyndar. Til hamingju allir hlutaðeigandi.

Allý eitthvað klaufsk við handtökin.

Daman kvartar hástöfum undan meðferðinni. Hvernig er hægt að vera svona sæt öskrandi?!

Sætu mús fannst betra að lúra í Dodda hálsakoti;)