luxatio hugans

awakening

laugardagur, september 30, 2006

Hlaupblogg

Náði personal best í hlaupunum í gær. Ég er að fatta að það er til góð formúla fyrir hlaup og slæm formúla fyrir hlaup. Góða formúlan hljóðar nokkurn veginn þannig:
Best er að hlaupa seinnapartinn, gott er að vera angandi af sympatiskri svitalykt og vera haldinn líkamlegum pirringi sem ekki hefur fengist útrás fyrir. Allir sem hafa setið við próflestur kannast við líkamlega pirringin sem um er rætt. Allavega þurfti Baldur að skreppa reglulega heim af Baró í vor til að fletta mogganum.
Þegar hlaupin eiga sér stað er gott að hafa innbyrt verulegt magn af koffEINI þann daginn, að vísu er tachycardia þá óhjákvæmileg en ekki hamlandi þó. Bráðnauðsynlegt er að hafa hægt sér. Ekkert er verra en erting á sphincterinn í hverju spori.
Og að lokum. Tónlistin. Píkupopp af verstu gerð með góðu beati. Skiptir ekki máli þó um sé að ræða danstónlist frá fermingarárinu bara að beatið sé rétt. Auk þess getur maður farið í ákveðna nostalgíu við að heyra sum lög og fengið sama rush og við tilefnið forðum. Allavega virkar það þannig fyrir mig.
Vona að formúlan eigi eftir að hjálpa öðrum. Þannig er líf mitt í dag. Alltaf að hjálpa öðrum.

miðvikudagur, september 27, 2006

Hvít Kanína

Fór með nokkrum vinkonum mínum að sjá leiksýningu sem önnur vinkona okkar er að leika í, Hvít Kanína, sem útskriftarárgangur Leiklistarskólans er að setja upp.
Ég var búin að lesa nokkuð misjafna dóma í blöðum síðustu daga og vissi því ekki við hverju ég átti að búast en vissi bara það að auðvitað færi ég.
En strax í upphafi, áður en hleypt var inn í salinn, var byrjað með gjörning og þá byrjaði ég að hlæja og ég hló nánast óstjórnlega alla sýninguna. Mér fannst þetta argasta snilld. Verst var þegar ég var ein eftir að hlæja í salnum og ætlaði að stramma mig af og kom með grísahrínið. Eða æi, það var eiginlega skemmtilegt líka. Takk Kristín Þóra fyrir magnað sjóv og allir sem ekki eru húmorssnauðir ættu að skella sér og hafa gaman af. Heia.

sunnudagur, september 24, 2006

BUFF

Við Ingvar spilum Buff. Oft er það hið besta mál, t.d þegar Doddi er með í för og er að keyra. Hins vegar er möguleiki á því að ég sé að stofna lífi fólks í hættu þegar ég spila Buff við Ingvar þegar við erum tvö ein í bílnum.
Leikreglur hins prýðilega leiks, Buff, eru eftirfarandi: Keppst er við að sjá sem flest bílnúmer sem annað hvort innihalda tvo eins bókstafi, t.d. MM, eða þrjá eins tölustafi, t.d. 777. Ultimate Buff er MM 777. Það er rosalegt að ná ultimate Buff. Þegar maður sér bílnúmer sem uppfyllir eitt af skilyrðunum öskrar maður: "BUFF 555" og bendir á viðkomandi bílnúmer til sönnunar. Svo er stigunum safnað. Eitt stig fyrir buff, tvö stig fyrir ultimate buff. Því er erfitt að vera fyrirmyndarökumaður samhliða því að spila Buff. Keppnisskapið bara nær mér þarna. Ekki séns að ég leyfi Ingvari að vinna. Ef ég get rústað honum, þá rústa ég honum. Hann er rosalegur í trash talkinu. "Mamma, búðu þig undir að tapa", "Þú getur ekkert í Buff", "Þetta er síðasta stigið sem þú færð". Samt má til gamans geta að við vorum að koma inn og ég vann 17-14. Ekki slæmt hjá gamalli konu sem sér illa frá sér og var auk þess að keyra. BUFFFFFFFFFFFFFF!

föstudagur, september 22, 2006

Morgunfundurinn

Ansi spennandi morgunfundur í vikunni. Viðstaddir eru sérfræðingar, deildar/aðstoðarlæknar og læknanemar. Það var verið að ræða athyglisvert tilfelli ungs manns þegar inn ræðst geitungur. Geitungur þessi var haldinn grimmd þeirri sem einkennir geitunga þegar dauðinn nálgast. Töluverður órói skapaðist í læknanemahrúgunni innst í herberginu, næst glugganum, og voru menn vopnaðir plastglösum og blaðsíðum og hófust aðgerðir til að fanga kvikindið. Sérfræðingarnir héldu ró sinni og einbeittu sér að tilfellinu sem fyrir lá. Veiðitilraunirnar í niðurbældri geðshræringu minntu helst á atriði í þögulli bíómynd því ekki mátti trufla fundinn. Loks náðist geitungurinn og flaug nú stjórnlaust og spastiskt innan í hvítu plastglasi sem lá á hvolfi yfir honum.
Á meðan öllu þessu stóð höfðu sérfræðingarnir verið að ræða tilfellið og nú segir einn þeirra: "Hvað viljið þið þá gera við hann?" Ein stúlkan sem hafði líklega bara sturlast tímabundið af viðureigninni við geitunginn svarar hátt og tryllingslega: "Nú við drepum hann auðvitað!!" Það mátti heyra saumnál detta í herberginu og sérfræðingarnir sátu þrumulostnir undir þessari uppástungu. En djöfull hlógum við þegar við losnuðum út af fundinum.

miðvikudagur, september 20, 2006

MND eða nei annars...

Frá því ég byrjaði í verknáminu á taugadeildinni hef ég orðið sannfærðari og sannfærðari með hverjum deginum að ég sé með MND. Einkennin hrönnuðust upp hvert af öðru, máttleysi í útlimum, dysphagia, tungan definately farin að rýrna, og síðast en ekki síst.......... helvítis fasiculationir í öllum líkamanum. Þessar fasiculationir, eða fjörfiskur eins og pöpullinn kallar það, fóru svo stigmagnandi með hverjum deginum og voru náttúrulega bæði komnar í tunguna og augun. Frábært. Það, ásamt kyngingarörðugleikunum, merkti að ég var að presenterast með bulbar form sjúkdómsins eða alversta form sem hægt var að fá. Ég var við það að bugast úr sjúkdómnum í gærkvöldi en náði að harka af mér og mæta á deildina í morgun. Eftir hádegi var svo kennsla hjá Elíasi. Allt í einu segir hann að hann verði að minnast á fyrirbæri sem sé ákaflega algengt meðal lækna og læknanema um allan heim. Það sé þessi sannfæring sem svo margir fá um að vera komnir með MND, sérstaklega byggð á fasiculationum. Fyrirbærið kallaði hann Benign Fasiculation Syndrome. Vúff. Það var þungi fargi af mér létt. Nú er best að vinda sér óhikað í það að óttast næsta sjúkdóm sem gæti drepið mig.

Word

Ég ÞOLI EKKI fólk í náttfötum á almannafæri. Samt geri ég það náttúrulega stundum sjálf, eða í uþb. 20% tilfella þegar ég fer út úr húsi. Enda búsett í Hlíðunum.

þriðjudagur, september 19, 2006

Látum í okkur heyra People!!!!

Segið svo að kraftur fjöldans geti ekki haft áhrif. Þetta sýnir bara hverju er hægt að áorka ef fjöldinn tekur sig til. Reyndar greinilega bara í málum sem raunverulega skipta máli, ekkert til að stoppa barnsmorð í Írak eða önnur smámál. Bara raunveruleg hitamál.

mánudagur, september 18, 2006

Heimsóknamet

Heimsóknir á síðuna mína eru að ná áður óþekktum hæðum. Mér finnst ég nú oft hafa átt betri spretti en akkúrat upp á síðkastið, ég vildi að ég væri skemmtilegri fyrir allt þetta fólk sem les. Málið er bara að ég er orðin svo blíð og í góðu andlegu jafnvægi. Þá sveiflar mér ekkert. Bestu færslurnar koma í sveiflunum. Ég þarf að fara að rifja upp gamla gremju og næra hana til að ná fram skriftunum. Leyfið mér að hugsa þetta aðeins.

laugardagur, september 16, 2006

Soul

Fórum á Sálina og Gospelkórinn í gærkvöldi. Hafandi eytt unglingsárum mínum í að vera Sálargrúppía nr. 1, þá gat ég ekki látið mig vanta þegar gefið var út að gömlu góðu lögin yrðu sett í gospelbúning. Þegar tónleikarnir byrjuðu með gospelútsetningu á laginu Ekkert sem að breytir því, þá rann þakklætistár niður kinn mína. Ég bara sat og upplifði þakklæti. Sem er spes fyrir einhvern sem er jafn vanþakklát og ég er. Tónleikarnir voru absolutly sturlaðir. Og Óskar Einarsson! Eruð þið að grínast?! Ég fattaði bara í gærkvöldi að besti friggin píanóleikari landsins spilaði í brúðkaupinu mínu. Hhafði í raun og veru ekkert verið svo imponeruð fram að því, bara ofsalega þakklát að hann sló ekki EINA feilnótu. Það fer æðisleg í pirrurnar á mér þegar atvinnutónlistarmenn sem eru keyptir í svona athafnir slá feilnótur eða eru falskir. Það var algjör unun að fylgjast með honum stjórna kórnum sínum í gærkvöldi.
Við hliðina á mér sat hópur fólks sem greinilega hafði komið saman á tónleikana. Örugglega eitthvað vinnustaða thingy ásamt mökum. Liðið var svo drukkið og ósmart, talandi saman undir lögunum eða verra, syngjandi með. Alltaf á fleygiferð eftir röðinni til að komast á barinn frammi því það var ekkert hlé. Hvers vegna ekki að spara sér 5500 krónur fyrir tónleikamiða og fara bara á fyllerí á Kaffi Austurstræti? Maður spyr sig.

föstudagur, september 15, 2006

Ultimate djókur

Á Barótímabilinu í vor, varð til hugtakið "Ultimate djókur" hjá Barógenginu. Það spannst út frá umræðum um það, að oft er fólk eitthvað að grína en þorir ekki að taka grínið alla leið, semst fremja Ultimate djókinn. Dæmi um algengan djók er að keyra af stað, rétt áður en einhver sest upp í bílinn, stundum nokkra metra. Ultimate djókur væri að keyra í burtu. Alveg og koma ekki til baka. Sjúklega fyndið. Annað dæmi um djók er að þegar einhver reiðir fram visakortið til að borga pantaðar pizzur fyrir hópinn að segjast ekki ætla að borga. Ultimate djókur væri að hópurinn tæki sig til og gerði það ekki. Líka sjúklega fyndið. Allavega varð hugtakið þjált í okkar meðförum og oft var sagt: "Hey væri það ekki ultimate djókur að........." Þess vegna þótti mér sárt að enginn af Barógenginu var viðstaddur þegar eitt alflottasta potential af ultimate djók rak á fjörur mínar í lok sumars. Þá fór ég ásamt hóp af konum út að borða. Það vildi svo skemmtilega til að ég átti gjafabréf upp á þriggja rétta máltíð af matseðli fyrir tvo á þessu veitingahúsi sem var að renna út og við Doddi vorum að fara til Króatíu. Því bauð ég einni konunni, sem stóð mér næst, að nýta sér þetta með mér. Á meðan hinar pöntuðu sér salöt, fórum við í forrétti, dýrustu nautasteikina og eftirrétti og fengum að sjálfsögðu góðlátlegar glósur frá samferðarkonunum. Gjafabréfið lá svo bara á borðinu á meðan við borðuðum og þegar við stóðum upp til að borga þá tók ein gellan upp gjafabréfið og hélt því yfir sprittkerti sem var á borðinu og þóttist ætla að kveikja í því. Djókur. Ultimate djókur hins vegar hefði verið að láta verða af því og láta okkur sitja uppi með einhvern 18.000 króna matarreikning, en það fattaði enginn hvað mér fannst þetta fyndið og reyndi að benda á hvað þetta hefði verið mikill snilldar ultimate djókur.
Svo fékk ég hugmynd af ultimate djók úti í Króatíu. Fyrsta kvöldið sem við löbbuðum í bæinn sáum við hóp af tribal indjánum syngja lög, spila á panflautur og berja einhverjar spýtur og okkur fannst þeir sjúklega flottir. Þeir voru að sjálfsögðu að selja geisladiska með tónlistinni og maður hugsaði með sér að þótt þeir væri flottir þá myndi maður nú ekkert setja diskinn á fóninn. Eftir 14 kvöld í bænum og 14 sessionir af tribal indjánum með panflautur þá vorum við komin með líkamlegt og andlegt ofnæmi fyrir þeim. Þá sagði ég við Dodda að ég myndi gefa honum diskinn í jólagjöf og við hlógum að því hversu ömurleg jólagjöf það væri. Þá kom hugmyndin. Að kaupa helvítis diskinn og gefa hann í jólagjöf og EKKERT ANNAÐ. That´s it. Þetta er jólagjöfin og ultimate djókur. Gleðileg jól ástin mín.
En ég náði aldrei að laumast ein og kaupa diskinn. Eða hvað? Nú getur Doddi ekki verið viss. Kannski er þetta ultimate djókur.....

þriðjudagur, september 12, 2006

Aðahleiður

Samkvæmt heimaverkefni sem Ingvar er að gera um fjölskyldu sína, heitir móðir hans Aðahleiður. Þetta er svo lógískt ályktað hjá honum að mér dettur ekki í hug að leiðrétta hann:)

laugardagur, september 09, 2006

Ágætis afmælisveisla

Við vorum að koma heim úr 1. árs afmæli sem hefði fengið hvaða íslensku geðsýkisfermingarveislu til að fölna í samanburði. 1. árs varð barnabarn einnar úr filippeysku mafíunni sem Lydia tilheyrir. Okkur var reyndar boðið í skírn sama barns fyrir tæpu ári en þá komumst við ekki. En þessi bætti það upp því gjafastafla hef ég aldrei séð stærri, fjölda rétta hef ég aldrei séð fleiri, háværari og hressari gesti ekki minglað við fyrr og gestrisnin var með eindæmum. Afmælisbarnið lét sér fátt um finnast um borðana með myndunum af því sem þöktu veggina og óskuðu honum til hamingju með áfangann. Ég sá hann heldur ekki fá sér af afmæliskökunni sem var á við brúðartertu. En annars var hann hress með partýið held ég. Ester Helga var eins og álfur hlaupandi um, algjörlega hvíthærð, umkringd svarthærðum strákum, engum stelpum. Það fannst henni fjör. Lydia segir að Ester has the attitude of a boy. Hún er allavega ekki jafn pen og filippeysku stelpurnar. Góð tilraun var gerð til að fylla Þórodd með sama árangri og venjulega. Það gæti verið áhugavert að raðgreina genamengi okkar Þóroddar og stilla þeim upp hlið við hlið, áhugamenn um nóbelsverðlaun hafi endilega samband. Gott flipp að koma fullur heim úr 1. árs afmæli. Doddi a.k.a CrazyinTheBrainhouseManiac lét það þó vera í þetta skiptið. Þegar við yfirgáfum samkvæmið var svo að hefjast æsileg karaoke keppni milli liðs A og B. Mér var ekki boðin þátttaka og sætir það undrun. Kannski Doddi hafi komið þeirri lygasögu á kreik í afmælinu að ég gæti ekki sungið, þar væri honum rétt líst. Ef fólk bara vissi hvað ég þarf að búa við..........

þriðjudagur, september 05, 2006

Magnaaðdáandi

Eruð þið að grínast hvað þessi 99 ára gamli aðdáandi Magna er mikið krútt:)
Stundum held ég að ég hafi misst af einhverju mjög merkilegu að hafa aldrei unnið á elliheimili.

föstudagur, september 01, 2006

Tanblogg

Er komin heim frá Króatíu, þokkalega tönuð. Sverrir félagi minn setur inn tanmyndir af sér á bloggið sitt. Ég tel mig yfir slíkt hafna. Er því ekki um að kenna að ég hafi minnimáttarkennd gagnvart tani Sverris, ég bara treysti því að lesendur trúi þegar ég segist vera vel tönuð. Annars varð Ingvar lang brúnastur í fjölskyldunni. Ég mun heldur ekki setja inn myndina, sem ég taldi (með miklum fortölum) barnið á að leyfa mér að taka, af bakhluta hans, þar sem sést svo skemmtilega hvar snjóhvítur rassinn og mórautt bakið mætast. Ég var alltaf að grínast eitthvað í honum og kallaði hann Gaggsa tanaða og á hverju kvöldi barst það í tal að Ingvar væri lang tanaðastur í fjölskyldunni. Áhersla er hér vakin á því að aldrei var notast við hugtakið "að verða brúnn" í ferðinni. Nema hvað að í rútunni á flugvöllinn á leiðinni heim var Ingvar að horfa á ferðaDVDspilarann með heyrnartól í eyrunum þegar hann gólar allt í einu, allt of hátt eins og börn með heyrnartól gera: "Mamma heldur þú ekki að Steinþór (fararstjóri Heimsferða) sé lang tanaðastur af öllum í rútunni? Af því hann er alltaf í Króatíu?" Ingvar vakti lukku í rútunni með kommentinu. Ester fékk líka rosa athygli þarna úti. Sérstaklega eftir að hárið var orðið næstum alveg hvítt í sólinni þá var fólk alltaf að horfa á eftir henni og kalla eitthvað til hennar. Ítalarnir sem voru á hótelinu okkar vildu líka koma við hárið á henni. Ég skil reyndar ekki þá tilhneygingu. Aldrei hef ég fundið hjá mér þörf að fá að koma við hárið á svartri manneskju. Hvað býst fólk við að finna?