luxatio hugans

awakening

mánudagur, október 31, 2005

Gísli Marteinn í 1. sætið

Ég mun minna á þetta á hverjum dagi fram að kosningum.
Ef þið eruð með atkvæðisrétt í prófkjör hunskist þá til að kjósa Gísla Martein.
Þá var það ekki fleira í bili.

Verð að mæla með

gleraugnabúðinni Gleraugað í bláu húsunum í Faxafeni. Þjónustan þar er með ólíkindum góð. Það væri vont að vakna upp við þann vonda draum að þau væri farin á hausinn. Ef þið eruð gleraugnaglámar, hunskist þá til að versla við þá.

sunnudagur, október 30, 2005

Ragnheiður Gröndal

Shit hvað gellan er sjúklega hæfileikarík. Heyrði í henni í fyrsta skipti live í gærkvöldi. Hún sat ein við flygilinn og söng. Bæði lög eftir sjálfa sig og lög eftir aðra sem hún hafði útsett sjálf. Úffffffff þetta var margföld gæsahúð. Mér finnst gaman þegar fólk er svona "alvöru" talentar. Ekki uppdubbað feik eitthvað. Ég nefni engin dæmi í því samhengi. Ég er viss um að þau koma ósjálfrátt upp í hugann á fólki sem þetta les;)

laugardagur, október 29, 2005

Hjartans mál

Fór í fyrstu opnu hjartaaðgerðina mína fyrir helgina. Fyrirfram hafði mér verið sagt að ég fengi ekki að skrúbba mig inn vegna plássleysis. Ég var svo sem alveg sátt við það, þar sem ég átti að mæta í foreldraviðtal í skólanum hjá Ingvari klukkan 14.00. Ég stóð því alveg róleg hjá svæfingunni þegar deildarlæknirinn kemur vaðandi inn á skurðstofuna og sagði mér að skurðlæknirinn vildi að ég kæmi að þvo mér og ég ætti að flýta mér. Ég rauk fram, og á leiðinni að vaskinum verður mér litið á hendurnar á mér og sé gullhringina mína 3 sem ég er búin að ganga með, í yfir 10 ár. Ríf þá af mér og set þá í brjóstvasann á skurðstofugallanum. Gott múv eins og seinna sannaðist. Nú svo þvæ ég mér og þegar ég kem inn á skurðstofuna klæðir skurðlæknirinn mig í. Gott og vel. Það hefur aldrei gerst áður. Það voru öll tákn á lofti um að þetta væri eitthvað viðsnúið. Jæja hefst þá aðgerðin. Bringubeinið er sagað opið og þar sem ég er nú dauðsteril þá er ég nánast ofan í sárinu. Þegar það var opnað inn í gollurshúsið og hjartað blasti við og sló svo fagurlega, þá táraðist ég. Ég trúði þessu varla að þetta væri hægt og trúði því varla að ég stæði þarna og héldi um ósæðina og finndi straum blóðsins upp í hana. Ég þekkti líka sjúklinginn ágætlega frá deginum áður og fannst þetta allt hið magnaðasta.
4 tímum seinna var ég aftur gráti nær. Í þetta skipti af leiðindum. Og aftur trúði ég því ekki að ég stæði þarna........... í sömu sporunum, að deyja úr hita og verk í hnjánum. Hversu langan tíma tekur þetta, spurði ég sjálfa mig og leit á klukkuna á veggnum sem sýndi að ég var að verða of sein í foreldraviðtal. Þá voru þeir nú sem betur fer að byrja að loka og ég sagði bara: "Strákar, ég er að fara í foreldraviðtal. Þið lokið þessu bara." Nei ég sagði það ekki. En það hefði verið kúl. En þarna var ég orðin of sein. Reif af mér sterila gallann og hljóp fram. Inn í búningsklefa, úr skurðgallanum, skurðgallinn í stampinn, í fötin mín og út af spítalanum.
Mörgum klukkustundum seinna lít ég á hendurnar á mér og öskra. Jamm. Glataðir að eilfífu.

miðvikudagur, október 26, 2005

Sannfæringarmáttur fjöldans

Þetta virkaði vel. Ég er að fullu sannfærð. Hér eftir verða leyfð komment við allar mínar færslur. Sko, sjáið bara.........

þriðjudagur, október 25, 2005

Hvað ætli myndi gerast.........

ef ég myndi leyfa komment við færslur á blogginu mínu eins og mikið er grenjað um úr öllum áttum? Hummmmmmmm það væri áhugavert að sjá.

mánudagur, október 24, 2005

Ester Helga

Ester Helga er eins árs í dag. Litla krúttapúttið. Að sjálfsögðu örkuðum við mæðgurnar í göngu á kvennafrídaginn. Okkur vantaði bara kröfuskilti. Ég veit ekkert hvað ég hefði sett á slíkt skilti, mér fannst bara gellurnar með skiltin kúl. Rosalega voru margir í þessari göngu!!!!!! Svo fer ég á kvennafund og fæ að því loknu fólk í mat. Það dugar ekkert minna þegar prinsessur eiga afmæli. Á laugardaginn var fjölskyldan og fjölskylduvænir vinir. Á sunnudag, skólavinir og í dag enn aðrir vinir. Þetta er náttúrulega bara rugl. Ég veit það vel. Þetta verður ekki svona á næsta ári. Ég sver.

ravisantravis

Ég hitti mann í dag sem sagði að síminn hans hefði orðið batteríslaus í gær og hann hefði ekki nennt að standa í því að reponera því. Já, ég veit það ekki. Ég myndi seponera svona talsmáta.

sunnudagur, október 23, 2005

Öryggið á oddinn

Ég á Volvo V40. Hann er geðveikt öruggur. Með allskyns magnaðan öryggisbúnað fyrir börnin mín. Svo er hann með aksturstölvu sem lætur mig nákvæmlega vita hvenær ég á að fara að kaupa bensín, skipta um olíu, bæta á rúðupissið. Þá blikkar svona viðvörunarljós sem lætur mig vita. Og upp á síðkastið hefur Volvoinn minn varað mig við hvað það er kalt úti. Ef hitastigið fer undir 5 gráður á celsius, þá blikkar aksturstölvan mín rauðu sem óð væri, til að vara mig við kuldanum úti. Ég skil bara pointið með aðvörunum ef hægt er að grípa til viðeigandi ráðstafana. Fara að kaupa bensín, skipta um olíu, bæta á rúðupissið. Hvað á ég að gera þegar kalt er úti? Er mælst til þess að ég sé heima við? Eða er þetta bara svo að ég setji nú örugglega á mig lúffur og eyrnaband þegar ég hætti mér út úr örygginu innan Volvosins og út í brunagaddinn? Svíarnir eru alltaf 1mm of mikið. Glætan að ég gæti flutt til Sverige eins og Doddi gælir við að við eigum eftir að gera. Ég gæti aldrei funkerað í þessu politically correct umhverfi þeirra. Það komu sænskir læknanemar í heimsókn á bæklunardeildina þegar ég var þar. Þegar yfirlæknirinn bauð þeim kaffi, litu þeir forviða á hann og afþökkuðu með orðunum: Nej, man ska inte drikka kaffe!!! Man kan få gastrit!

Venni ritar

bakþankana Fréttablaðsins í dag. Mér fannst hann fyndinn. Einu sinni var Venni einkaþjálfarinn minn. Þá fannst mér hann fyndinn. Þá hélt ég reyndar að það gæti verið svona óttablandin aðdáun gagnvart yfirvaldi hvað mér fannst hann hryllilega fyndinn. Ég var seinna hjá öðrum einkaþjálfara sem heitir Nonni. Mér fannst hann líka súrrealískt fyndinn. Af þessu mætti draga aðra af tveim ályktunum:
1. Einkaþjálfarar eru fyndnir
2. Aðalheiður er spikfeit

föstudagur, október 21, 2005

Djös...

Mér finnst tískan í búðunum núna ömurleg. Það er sama djönkið í öllum búðunum og allt lítur þetta út eins og frá hjálpræðishernum. Djöfull er að vita þetta. Það hlýtur að vera agalegt að vera þessi second hand týpa sem vill vera svo spes að hún er í klukkutíma að velja sér ósamstæða sokka. Núna líta allir út fyrir að vera í notuðum fötum, eini munurinn er að fólk er að borga morðfjár fyrir:) Djöfulsins rugl. Mér hefur sjaldan fundist fólk vera láta hafa sig að jafn miklum fíflum og nú. Stelpurnar sem voru að afgreiða í 17 í dag litu út fyrir að hafa fálmað blindar eftir einhverju til að fara í vinnuna í morgun. Það er synd. Ég hef nefnilega oft notfært mér þær til að fá púlsinn. Það fannst enginn púls í Kringlunni í dag, þar sem ég ráfaði í örvæntingarfullri leit minni af einhverju sem ég gat hugsað mér að borga fyrir. Ég hefði borgað fúlgur, ef ég BARA hefði fundið eitthvað. Ég stend við fyrri yfirlýsingar mínar. Ég mun aldrei girða gallabuxurnar mínar ofan í stígvél. Þá hef ég einskis að iðrast frá árinu 2005. Það sama verður ekki sagt um mjög marga.

þriðjudagur, október 18, 2005

Köben

Hið ótrúlega hefur gerst!! Ég og Doddi ætlum til Köben. Við förum þann 11. nóv að hitta Beggu og Robba, og náttúrulega frændfólk annað;) Svona getur hann Doddi flippað ærlega þegar sá gállinn er á honum. Hilsen.

sunnudagur, október 16, 2005

MaggaVaff

hefur klukkað mig. Er hægt að klukkast aftur? Því hef ég ákveðið að koma með eina litla, en jafnframt afar auðmýkjandi, sögu af sjálfri mér.
Ég hef fengið eiginhandaráritun hjá Geirmundi Valtýssyni. Ég var 11 ára. Ég bjó í Skagafirði. Það var ekki kúl, en Geirmundur þótti hinsvegar mjög kúl þar. Foreldrar mínir voru á Þorrablóti í Miðgarði og Geirmundur var að spila. Ég var heima að passa systkini mín. Þá fékk ég þá flugu í hausinn að ég þyrfti hreinlega að fá eiginhandaráritun Geirmundar sama hvað það kostaði. Ég hringdi því í Miðgarð og náði sambandi við einhvern sem vann á barnum. Ég tjáði honum að ég yrði að tala við pabba minn hið óðara. Viðkomandi skynjaði alvöru málsins og rauk upp á svið og lét hljómsveitina kalla Jóhannes Björnsson upp með þeim skilaboðum að hann yrði að hringja samstundis heim. Pabbi minn, sem sá fyrir sér að húsið stæði í ljósum logum, hringdi strax heim með öran hjartslátt. Þar var ég hin hressasta og bar upp mitt mikilvæga erindi. Ég man nú ekki eftir að hann hafi reiðst mér neitt voðalega og eiginhandaráritunina fékk ég morgunin eftir. Fjölskylda mín segir þessa sögu reglulega þegar ég "erann". Ég er ekki ennþá komin með húmor fyrir þessu, en ég er nýlega komin yfir það að vilja deyja þegar sagan er sögð. Það er nú progress, allavega ekki prolapse!

Bloggari dauðans

er byrjaður aftur. Það gleður mitt hjarta. Ég þori samt ekkert að linka á hann því ég þekki hann ekkert. Ekki frekar en tvíburabróður hans sem ég les samt á hverjum degi. Eða félaga þeirra, geðþekka herstöðvaandstæðinginn. Allt massabloggarar. ÁJ er nú samt þeirra bestur og ég hef saknað hans. Því get ég glaðst í dag.

laugardagur, október 15, 2005

Æðakirugian

Það var æði á æða. Ljóðrænt. Enn og aftur sannast það að það skiptir mestu máli hvaða fólki maður lendir með. Hvort maður smitast af einlægum áhuga annars fólks og hæfileikanum til að segja frá á áhugaverðan hátt. Á æða var til að mynda rjómi kandidatanna. Kandidat nr. 1 eins og við kölluðum hann. Yndið hann Hilmir. Hann hefur þennan hæfileika að geta farið yfir EKG með manni og látið mann fá áhuga á því sem hann er að segja. Þvílíkt gæðablóð og kennsluvænn náungi OG það mikilvægasta af öllu, með húmor. Án húmors er málið dautt. Gaman þegar maður klúðrar feitt að geta hlegið sig máttlausan að því eftirá. Ég drap samt engan til að fyrirbyggja allan misskilning. Verst að ég get ekki flutt Hilmi með mér á milli deilda og haldið áfram að gera hann vitlausan með eilífum spurningum:) Og svo var það Birna. Vinkona Beggu frá Kaupmannahöfn. Klassagella alveg og það var mjög gaman hjá okkur. Verst að við lendum ekkert meira saman á deildum. En hún er eitthvað að spá og spekúlera og kannski verður hún eitthvað meira með okkur. Það yrði kúl. Á mánudag er það heila og tauga. Það er nú að leggjast eitthvað misjafnlega í menn. Sjáum til.

Nýr linkur

Set inn link á Jón Fannar af því að hann lofaði að hætta ekki að blogga þó ég myndi linka. Það hefur nefnilega oft gerst, hehehe. Mér líst vel á þetta. Það er næstum allt þotuliðið að blogga. Koma svo þotulið...............

föstudagur, október 14, 2005

Sönn saga

Ég var að lúra uppi í sófa í gærkvöldi í Reynilundinum. Mér var kalt. Ég kallaði í Ingvar og bað hann að koma og kúra hjá mér og hlýja mér. Það kostaði nokkrar beiðnir því hann sat önnum kafinn við borðstofuborðið að vinna heimanámið sitt. Svo lét hann tilleiðast og kom og lá hjá mér í smástund.
Svo spurði hann: Er þetta nóg?
Nei, sagði ég.
Eftir smástund sagði hann svo: Má ég ná í hitapoka til að setja í staðinn?
Nei, sagði ég. Ég vil svona Ingvarshlýju.
Þá sagði Ingvar: Nei nú verð ég að fara að vinna heimanámið mitt!!!!
Og svo stóð hann upp og fór og ég lá eftir og leið eins og einhverjum sem spillir því góða og göfuga í fari annara. Hnuss.

Jess


Baldur hlýtur að vera farinn að safna sér fyrir bíómiða í Lúxussal á nýju myndina með Jodie Foster. Úúúú falleg maður!!!! Það skilja þennan brandara nógu margir sem lesa þessa síðu, svolleis að ég nenni ekki að útskýra. Enda er tilgangurinn með þessari bloggsíðu ekki að stríða öðru fólki eða leggja nokkurn mann í einelti. Ætli það megi taka með sér Kleenex box í Lúxus??

sunnudagur, október 09, 2005

Tímaskekkja

"Vinir einkabílsins" eru tímaskekkja og úr takti við alla aðra þróun í heiminum. Ég ætla að ganga lengra og segja að þetta sé argasta þvæla og kjaftæði. Ég get ekki alveg útskýrt það en það hellist yfir mig sama tilfinning eins og þegar ég sé ofdekraðann krakka taka frekjukast í stórmarkaði. Þetta er eitthvað svo sjálfsmiðað viðhorf. Skítt með það að við séum hluti af einhverri stærri plánetu. Mér finnst þvert á móti að það eigi algjörlega að gera almenningssamgöngum hærra undir höfði og gera betri hjólreiða- og göngustíga. Hvernig stendur til dæmis á því að fyrir íbúa Hlíðahverfis er orðið alveg fáránlega erfitt að labba upp á Landspítala við Hringbraut án þess að vera í lífshættu? Og nú er ég enginn verkfræðingur en ég sé ekki að þeir séu að gera neitt til að tengja Hlíðahverfið við Lansann fyrir gangandi vegfarendur. Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að skilja að það léttir á umferðarþunga ef fólki er gert það kleift að komast hraðar á milli staða fótgangandi en á bíl.

Ég elska

nýja iPod nano sem Snorri Laxdal kom með heim frá UK, handa mér. Hann er svo hvítur, og þunnur og í fallegu hvítu leðurhulstri. Ekki það að ég þurfi veraldlega hluti til að gleðja mig. Nei til þess er ég ALLTOF andleg. iPodinn er bara næstum því andlegur. Já þannig er það.

"Óvæntasti?????"

Við leigðum okkur mynd í gær, skötuhjúin. Flippuð... já ég veit. Við leigðum okkur mynd sem:
"fór beint á toppinn í USA"
"Óvæntasti grínsmellur ársins"
og coverið lofaði eldhressri grínmynd um kostulega fjölskyldu og eftirminnilegum uppgjörum. Og hver er myndin sem svo göfuglega er lofuð? Diary of a mad black woman. Jesús góður. Þegar jafn dagfarsprúður maður og Þóroddur var farinn að hóta að henda sér fram af svölunum á 4. hæð, þá er eitthvað hræðilegt í gangi. Og trúið mér...... þetta var skelfilegt. Mig langaði að ná mér í gaffal og plokka úr mér augun. Hustler myndarinnar var bæði ljótur og tileygður og virtist hafa greindarvísitölu í kringum 80. En verst þótti mér þó hvað hann var tileygður. Engin voru eftirminnilegu uppgjörin og lítið fór fyrir kostulegu fjölskyldunni. Hvaða múgsefjun var í gangi þarna vesturfrá? Ég er viss um að Oprah hefur hrósað myndinni í hástert. Þá skiptir engu máli lengur hvað neinum finnst. Oprah verður fyrsti svarti kvenforseti Bandaríkjanna. Hún á bara eftir að ákveða hvenær.

fimmtudagur, október 06, 2005

Langamma Ester


Svona gerist þetta fljótt. Örfáum dögum eftir færsluna mína um ömmurnar tvær sem eftir eru, dó önnur þeirra. Langamma Ester dó 4. október. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Því unglegri og hressari áttræð kona var vandfundin. Hún keyrði ennþá silfurlitaða Coltinn sinn, sem hún hafði keypt úr kassanum fyrir 17 árum:) Bílinn er keyrður 45000 og það sér ekki á honum. Hún var að taka slátur daginn sem hún dó. Tók 4 slátur eins og hún var vön. Ca. 50 - 60 keppir það. Hún átti alltaf nóg fyrir grautinn á laugardögum. Maður gat gengið að því vísu að í hádeginu á laugardögum eldaði amma Ester graut. Síðast þegar ég mætti í graut komu 15 manns, allir án þess að boða komu sína sérstaklega áður. Hún átti 54 afkomendur þegar hún lést og hún vissi alltaf hvað var í gangi hjá okkur öllum. Maður kom aldrei að tómum kofanum hjá henni þar. Og hún fylgdist með mér þó ég væri ekki alltaf að hringja í hana og það kom mér oft á óvart hvað hún var meðvituð um það sem var í gangi hjá mér. Ester Helga mín var 50 afkomandinn sem hún eignaðist. Hún heitir í höfuðið á þeim hjónum báðum Ester og Helga sem eignuðust 5 börn og bjuggu á Másstöðum í Skíðadal. Þegar amma Ester var 30 fórst afi Helgi í snjóflóði og hún var orðin ekkja með 5 börn. Elsta 11 ára og yngsta 2 ára. Þegar hreppurinn mætti til að leysa heimilið upp, mætti þeim ung kona með eld í augunum sem sagði þeim að hafa sig á brott hið snarasta eða hljóta ellegar hið verra af. Og hún hafði það af, ein með 5 börn. Það var kannski frekar einhæfur matseðill, en þau voru aldrei svöng og þau komust á legg og eru öll hið glæsilegasta fólk í dag. Við höfum verið að hittast á 2 ára fresti afkomendurnir hennar með hana sem heiðursgest. Síðast núna í júlí á Másstöðum í Skíðadal. Ekkert okkar átti von á því að þetta yrði síðasta skiptið hennar með okkur á þeim mótum. Næst verður hún ekki með okkur. Það er vægast sagt undarleg tilhugsun.
Ég er með brúnu augun mín í beinan kvenlegg frá henni. Allir afarnir sem komu að á leiðinni eru bláeygðir, enda fór það svo að þegar bláu augun hans Dodda mættu, þá gat ég ekki lengur gefið þau áfram. Ég er samt ekki nálægt því jafn dökk og amma Ester var. Ég spurði hana einu sinni hvernig gæti staðið á þessum litarhætti á afdalakrökkum sem höfðu ekki aðgang að sjó og öllum Fransmönnunum sem komu þar í höfn? Þá hló hún og sagði að sér hefði alltaf verið sagt að hann Kristján 10 hefði verið afi hennar. Hann hefði haft einhverja viðkomu í bælinu hjá ömmu hennar á för sinni um landið. En hver veit? Konungborin eða ekki þá var hún kjarnakona með mikla ástríðu og skap, því verður ekki neitað, enda hefur það ábyggilega fleytt henni í gegn um raunir sem hefði bugað flesta. Mér er eftirsjá af þessari konu og ég bar mikla virðingu fyrir henni. Hvíl í friði.

mánudagur, október 03, 2005

Svalir

Þessir eru töffarar. Það var hlegið að þeim á fyrstu ráðstefnunni þar sem þeir reyndu að kynna hugmyndina um að það væri baktería sem veldur magasári. Eins gott að þeir létu ekki óttann við álit annara fjötra sig. Jamm.

sunnudagur, október 02, 2005

Er asnalegt

eða jafnvel sjúklegt, að verða ofsalega afbrýðisöm þegar sjúkrabílarnir fara út með ljósum og sírenum? Men hvað ég vildi vera um borð!!