luxatio hugans

awakening

föstudagur, ágúst 29, 2008

Af vinnudeginum

Í dag gerðist þetta:
-ég vann 2500 krónur í veðmáli
-nýr forstjóri LSH var kynntur
Hvort samhengi er þar á milli skal látið liggja milli hluta.

-sjúklingur sagði um mig: "Hún er nú útlend þessi!" Og hálf hrópaði svo á mig: "Skilur þú íslensku??!"












Læt fylgja með mynd af útlendingnum.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Af staffapartý

Mér fannst ekkert sérstaklega gaman í Clausus, ég held ekki að neinum finnist það, en mér fannst það viðbjóður. Ég fæ hroll þegar ég hugsa til baka og geri það helst ekki. En lítið msn spjall sem ég átti áðan minnti mig samt á óstöðvandi hláturskast sem ég fékk yfir 200 manna salinn.
Það var í sálfræðitíma þegar Eiríkur Örn var að tala um einhverja gosverksmiðju sem hafði þjálfað dúfur til að pikka út skítugar flöskur, (vírd að muna þetta.... ég veit) og svo hefði bara verið einn human verkstjóri, og Jói Vilhjálms hvíslar að mér: Psst... Hvernig helduru að sé að mæta í staffapartý?! og ég gjörsamlega trylltist úr hlátri og hélt ég myndi aldrei ná stjórn á mér. Nú eru liðin 8 ár og ég flissa enn þegar ég framkalla myndina af staffapartýjinu í huganum.

Af Peugeot


Ég á rafmagns saltkvörn. Þegar ég ýti á þar til gerðan takka sem færir mér nýmalað salt þá lýsir ljós á diskinn minn. Kvörnin sú arna gerir mig hamingjusama.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Af Phelps og Bolt

eða tveim sjúklegum töffurum.
En einn er ekki töffari og það er ég sem sat og skældi yfir grein um Phelps og mömmu hans í íþróttablaði Moggans í dag.
Bolt er náttúrulega bara svo flottur að ég veit ekki til hvers ég ætti að vera að eyða tíma í að finna rétta lýsingarorðið.

sunnudagur, ágúst 17, 2008

Af blómstrandi dögum

Ein af mínum bestu og án efa sú fágaðasta af mínum vinkonum fékk sérstaka hugmynd í gær. Hún vildi endilega skella sér með börnin á Blómstrandi Daga í Hveragerði sem hún hafði heyrt að væru svo skemmtilegir. Ennfremur var henni mikið í mun að sjá Magna, aka the Magnificent, performera. 
Ég er alltaf til í gott flipp og lét því tilleiðast þrátt fyrir að þykja þetta óneitanlega vera bolur. En allavega.  Kristín HH, sem einu sinni varð fyrrverandi vinkona mín eftir góðan Spaugstofuskandal, er nú orðin fyrrverandi vinkona mín á ný eftir verstu veðurfréttir mannkynssögunnar. Jú jú, gott ef það var ekki bara sól, logn og hlýtt fyrir austan fjall skv. símtali.
Allavega. Það var svo hvasst að krakkarnir stóðu varla í lappirnar, skjálfandi af kuldi í alskýjuðu veðri, þar sem þau úðuðu í sig Kjörís í Kjörístjaldinu, en ísinn var góður. Svo sáum við Magna taka 3 lög. Ekkert af þeim var Spenntur sem er uppáhaldslag vinkonu minnar. B. var næstum farin upp á svið að biðja um óskalag, ég rétt náði að stoppa hana, hefði getað orðið vandræðalegt, ég er líka að fara að vinna þarna fyrir austan svo orðsporið skiptir máli. Svo enduðum við í sundi í Laugaskarði þar sem B. sýndi nokkra af dýfingatöktunum frá því hún keppti í dýfingum í gamla daga. Mjög mikið Rokk. 
Þegar upp er staðið fannst mér þetta í besta falli svona lala hátíð einhver, en vinkona mín er farin að telja niður þá 364 daga sem eru til næstu hátíðar. 
  

laugardagur, ágúst 16, 2008

Af kjaftæði

Hafa þeir sem boða yfirburði hvíta mannsins aldrei horft á 100 m hlaup?

Af góðum ráðum

Ég er að vinna með konu núna, hjúkrunarfræðing sem er gift lækni. Þessi stelpa útskrifaðist fyrir einhverjum árum, ekkert mörgum líklegast þar sem hún er frekar ung. Þau stefna á að flytja út í haust því hann er að byrja í sérnámi.
Þar sem ég sat í gær og bisaðist við að skrifa einn tímamóta dagálinn sem mun sennilega breyta gangi sögunnar heyri ég þessa stúlku segja að hún hafi ákveðið að söðla um og hefja nám í læknisfræði erlendis í haust. Ég leit upp úr meistarverkinu sem ég var langt á veg komin með og horfði á konuna. Ekki gerði ég mér grein fyrir að það væri á neinn ákveðinn hátt fyrr en hún sagði: "Af hverju horfiru svona á mig? Þú ert með sama svip á andlitinu og maðurinn minn!"
Þá áttaði ég mig á því að það var svipur örvæntingar. Örvæntingarinnar yfir því að langa til að hjálpa fólki en vita ekki hvernig á að fara að því. Svo ég stundi bara hógvært: "Þetta er pottþétt ekki þess virði." Ég stillti mig um að rífa í hárið á mér og veina: "Ekki gera það !!!!!!!!!"
En hún yppti bara öxlum og sagði að þetta væri nákvæmlega það sem maðurinn hennar segði alltaf líka. Hana langaði bara samt til að prófa.
Þá ákvað ég bara að klára dagálinn svo að ég gæti amk sagst hafa hjálpað sjúkling dagálsins þann daginn.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Af nýja borgarstjóranum

Skyldi Hanna Birna hætta að vera alltaf svona reið nú þegar hún er orðin borgarstjóri?

mánudagur, ágúst 11, 2008

Af barnslegri tiltrú

Ester Helga: Mamma þú kannt að lækna fólk!
The Healing Mother: Mhmm
Ester Helga: Þegar ég verð stór eins og þú ætla ég líka að lækna fólk!

Ég fékk mig ekki til að segja uppveðruðu barninu það sem ég og Guð vitum bæði; nefnilega það að ég hef ekki læknað málaðan mann. Ekki einn.
Ja ekki nema ég vanmeti lækningamátt röntgenbeiðna.

sunnudagur, ágúst 10, 2008

Samviskuspurning

Er ljótt að horfa á barn syngja í Stundinni okkar og vera að ergja sig á því hvað krakkinn er falskur?!

laugardagur, ágúst 09, 2008

Af óvæntri uppákomu

En ég varð heldur betur fyrir henni á fimmtudagskvöldið þegar Haraldur Pólfari kom og sótti mig á fund.

föstudagur, ágúst 08, 2008

08.08.08

Ég er að fara að gifta mig í dag, í áttunda skipti.

Nei ég er að djóka. Ég bara varð að blogga eitthvað á þessum degi samt, það er svo töff.
Ég væri meira en til í að fara á Clapton tónleikana í kvöld eins og nýji besti vinur minn í Salzburg virðist ætla að gera, kannski tekur hann Mósann með sér, það væri nú alveg til að kóróna gremju mína, en þess í stað ætla ég á vakt í Fossvogi. Sjúklegt líf og fjör! Vona að ég fái að setja inn Kóvar hjá einhverjum rétt fyrir klukkan 18.00, helst einhverjum sem ég þekki ekkert og ekki hefur verið tekið INR hjá í 3-4 daga. Það eru uppáhaldspípin mín í öllum heiminum.
Það er alltaf, og þegar ég segi alltaf þá meina ég 3-6 x á hverjum einasta andskotans degi, verið að spyrja mig í hverju ég ætli að sérhæfa mig. Haldið ykkur! Hér kemur það: Segavarnir Ríkisins! Starfa ekki læknar þar?!

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Af sveimhuga

Ég hitti konu í húsdýragarðinum um síðustu helgi sem ég var að vinna með fyrir 8 árum. Eftir að við höfðum glaðst yfir óvæntum endurfundum spurði konan mig hvort ég væri orðin flugumferðarstjóri. Það sem ég hló. Ekki vegna þess að spurningin hafi verið út í hött, því það var hún ekki miðað við síðustu vitneskju þessarar konu um hagi mína, heldur vegna þess hvað ég var og er kannski enn, ógeðslega rugluð!
Við þurftum að skila einhverjum meðmælabréfum með umsókninni til Flugumferðarstjórnar og ég talaði við Tryggva Gíslason, skólameistara MA. Hann sagðist jú alveg geta skrifað þetta meðmælabréf fyrir mig en svo spurði hann: "Af hverju í ósköpunum heldur þú að þú viljir vera flugumferðastjóri?" Mig sárnaði þetta því akkúrat þarna hélt ég að flugumferðarstjórnarframi minn væri alpha og omega leitar minnar að lífshamingjunni. Sannkallaður húmör!

Af sjónvarpi

Ég fæ alltaf kökk í hálsinn og tár í augun yfir dramatísku ólympiuleikaauglýsingunni.
Scrubs gera mig hamingjusama.
Samhengislaus færsla.

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Af lúðaháttum

Ég er svo mikill lúði þegar kemur að peningum. Ég veit ekkert um þá, mér þykir gaman að eyða þeim en lítil er vitneskja mín um hinn economiska veruleika. Mér leiðast fjármál óstjórnlega, ég vil ekki hugsa um lán og verðbólgu og vaxtabætur og gengisvísitölu og verðtryggingu og stimpilgjöld. Líf mitt er prýðilegt þrátt fyrir fullkomna vanþekkingu á þessu sviði.
Lydia kom til mín áðan og spurði: "Allý hvað er orlof og hví hefur Hrafnista stofnað orlofsreikning handa mér?"
Ég svaraði: "Orlof er eitthvað sem allir sem vinna fá. Námsmenn mega taka það út þegar þeir vilja. Humm ég veit það samt ekki, æi spurðu bara Dodda þegar hann kemur heim."

10 mín seinna kom Ingvar sonur minn, til mín og bölvaði: "Ohh ég er að tapa peningum!"
Ég: "Nú?"
Ingvar: "Evran var 125 síðast þegar ég vissi og er nú 122"
Ég: "Átt þú Evrur?"
Ingvar: "Já"
Ég: "Huh!"

mánudagur, ágúst 04, 2008

Af aðkomumönnum

Hér hljóta aðkomumenn að hafa verið á ferð með óspektir á meðan heimamenn kepptust við að brosa sínu blíðasta. Það er skömm að þessu!

laugardagur, ágúst 02, 2008

Læknar bloggheima eru upp til hópa hálfvitar!!

Ekki er skafið af því frekar en venjulega á þessari síðu en ég hef sitthvað til míns máls.

Hér er dæmigerð læknaumræða í bloggheimum. Fólk sem ekki er skrifandi á íslensku en telur sig þrátt fyrir það alltaf geta gert betur í aðstæðum sem það þekkir ekkert til. Í þessari umræðu virðist enginn hafa nennt að lesa fréttina til enda þar sem skýrt er að sjúkdómsmyndin hafi verið óvenjuleg, flestir hætta að lesa þar sem ..... lést í sjúkrabíl" endar.

Uppáhaldskommentin mín þarna eru þessi:

1. Því miður eru læknar mannlegar verur eins og við hin, hins vegar finnst mér þar sem líf eru í húfi þá verði besti aðilinn að sitja í því rúmi og læknar eiga að vera mjöööög hæfir einstaklingar.

2. Ég get ekki séð annað en læknafræðum fer ekkert fram nema í aðgerðum. Ég held að þeim sé bara kenndur upprunalegri grunnurinn í læknisfræðinni og puntur. Það er einn og einn læknir sem fylgist með af áhuga og kemur í veg fyrir svona slys.

Af hverju er þetta fólk ekki á alþingi?

Mér finnst það að sjálfsögðu ömurlegt að svona hafi farið fyrir blessuðu barninu en svona hálfvitalegar umræður á bjánalegum vettvangi bæta aðstæður ekki neitt.


föstudagur, ágúst 01, 2008

Af fasteignum

Í töluvert mörg ár hefur fasteignavefur mbl verið minn uppáhaldsvefur. Ég er ALLTAF að skoða fasteignir. Í hvaða tilgangi veít ég eigi. Í nokkra mánuði núna hef ég slegið inn í leitina einbýli og raðhús í hverfum 103, 105, 108. Uppfæri reglulega til að engin glæsieignin renni mér úr greipum. Mér finnst ég vera að svíkja nýju uppgerðu íbúðina mína, sem gerði Gísla Kort tímabundið mjög hamingjusaman í gærkvöldi. Ég er eiginlega á klámsíðum ótrúa íbúðareigandans. En nú er ég komin með nýtt áhugamál. Ég er hætt að skoða hús í Fossvoginum og er nú farin að skoða búgarða í Uppsala, Sverige. Það er enginn prís á þessu!!