luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Fyrsta færslan

sem ég skrifa á nýju tölvuna mína. Glæsilegu nýju fartölvuna mína. Ekki það að ég elski dauða hluti, en mér þykir samt pínu vænt um fallegu fartölvuna mína.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Doddi, þú hélst þó ekki að ég myndi ekki blogga um þetta........

Ég lá eins og skata uppi í sófa í gærkvöldi. Var með mikið nefrennsli, höfuðverk og óþægindi. Það læddist að mér sá óþægilegi grunur að hin skæða H1N1 væri búin að taka sér bólfestu í mér, en ég hristi slíkar dauðahugsanir af mér undir heilalausum King of Queens. Kemur þá ekki Þóroddur, og segir mér að hann þurfi að játa svolítið sem hann hafi asnast til að gera. Hann sagði mér að hann hafi verið hálfsofandi eitt kvöldið þegar það hringir símasölumaður. Nú, og þetta hafði allt verið svo óraunverulegt og hljómað vel og hann hafði skellt sér á vöruna. Ég var þá þegar önug af höfuðverk, og hafði auk þess setið á allt of langdregnum fundi Félags Læknanema fyrr um kvöldið. Ég spurði því hranalega hvaða bók þetta væri þá. Þá fyrst varð Þóroddur vandræðalegur og tvístígandi, og sagðist skyldu ná í hana. Hann hafði sko falið hana uppi í efri skápnum í svefnherberginu. Maðurinn kom til baka með: Úr torfbæjum inn í tækniöld bindi I, II OG III. Þar sem ég starði orðlaus á bókakaup mannsefnis míns, kom hin endanlega játning. Þetta kostaði 14.000 krónur. Það verða dregnar 1000 krónur af visareikningnum okkar í 14 mánuði!!! Þá trylltist ég úr hlátri. Þarna varð þetta bara of absúrd til að ég gæti verið fúl yfir andvirði leðurstígvéla. Þetta er svona svipað og þegar Doddi var búinn að suða í mér um rafmagnsorgel í heila viku og ég sagði alltaf nei, þegar hann loksins játaði að hann væri búinn að sækja orgelið og hann geymdi það niðri í geymslu. Þá gat ég ekki annað en lekið niður í gólf af hlátri. Svona er það þegar það er komið svo herfilega aftan að manni að það telst að framan. Jamm.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Rólódiss

Fór með sætu dóttur mína á róló í dag. Hún var í nýja rauða kuldagallanum sínum, með rauða húfu með bleikum fíl á enninu og í bleikum stígvélum með rauðum og gulum blómum á. Á róló var einn faðir fyrir, með ca. fjögurra ára stelpu. Hann mætti okkur brosandi og spurði mig afar kumpánalega hvað hann væri gamall þessi. Lít ég út fyrir að vera sú týpan sem kemur með það statement að klæða son sinn í allt rautt og bleikt?

Oak Fetish

Örvar vinur minn hringdi í mig í gær til að óska mér til hamingju með afmælið mitt. Huh....... dæmi nú hver fyrir sig hvort það sé innan ásættanlegra tímamarka. Allavega. Það minnti mig á að ég hef aldrei skrifað um afar sérstæða lífsreynslu mína þegar ég fór að versla húsgögn með Örvari á dögunum. Maðurinn er nefnilega haldinn eikar fetish á hæsta stigi. Það lýsir sér einkum þannig að í hvert sinn sem hann sá húsgagn úr eik, kom stuna lengst neðan úr iðrum hans: "eiiiiiiiikhhhh", og svo ruddist hann að hlutnum til að strjúka eikaráferðinni. Á meðan ranghvolfdi hann í sér augunum svo einungis sást í hvítuna. Maður var svosem að reyna að benda honum á hina fínustu hluti sem voru úr öðrum viðartegundum, en þá leit hann á mig eins og ég væri kona geðveik. "Þetta er ekki úr eik, EIK SAGÐI ÉG!!" Skemmtilegt þegar fólk kemur sér upp svona áhugamáli. Sumir safna frímerkjum, aðrir húsgögnum úr eik.

laugardagur, nóvember 19, 2005

Svona rétt til áréttingar

áður en fleiri hella sér yfir mig fyrir að nenna ekki að svara heimasímanum, þá tilkynnist það hér með að heimasíminn okkar er ónýtur. Uppátækjasama dóttir mín, tók símtólið og henti því ofan í klósettið. Það fylgir ekki sögu þessari hvort einhver hafi verið á klósettinu á meðan eða ekki. Nú gæti fólk spurt sig hvort barnið eigi ekki foreldra sem fylgjast með því. Jú, en við tökum líka þann pól í hæðina að láta börnin sjálf finna fyrir afleiðingum gjörða sinna. Nú til dæmis getur Ester ekkert hringt, og þannig fattar hún að það er ekki sniðugt að henda símtækjum í salerni. Þetta virkar!

Begga

Þetta finnst okkur fyndið.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Ég og Ester Helga

verðum einar heima um helgina og erum ekki með kvöldverðarplön fyrir laugardagskvöldið. Tekið verður á móti kvöldverðarboðum í símanum mínum. Hann opnar núna. Fyrstir bjóða, fyrstir fá...................... mig og Ester í mat.

Afmælisbarn

Ég átti ammilli í gær. Það var eins og hver annar dagur, voðalega lítið merkilegur. Ég var búin að lýsa því yfir að ég þyrfti engar gjafir, og auk þess þá meinti ég það, því ég var svo efnishyggjulega mett eftir Danmerkurferðina. Þó fékk ég ágætisgjafir. Fallegust var þó þæfða veskið sem Ingvar kom með heim handa mér úr skólanum. Ég fór á kaffihús um kvöldið með vinkonum mínum. Það var reglulega skemmtilegt enda eru þær skemmtilegar. Þjónninn sem serveraði okkur var afar fyndinn. Afar hýr var hann einnig, en það hafði, held ég ekki, áhrif á hve fyndinn mér þótti hann. Við vorum að spjalla og gaurinn að færa okkur hluti og skaut inn kaldhæðnislegum kommentum á umræður okkar. Ég hefði tipsað hann fyrir skemmtilegheit ef það tíðkaðist að tipsa á Fróni. Vinkonur mínar gáfu mér líka gjafir. Bók fékk ég, og krydd frá Ungverjalandi. Það er náttúrulega sjúklega smart að eiga ferskt krydd frá Ungverjalandi. Ég mun nota það næst þegar ég geri ungverska gúllassúpu, en hana geri ég reglulega. Bókin var líka æði, og ótrúlega merkilegt að fyrr um daginn hafði ég staðið inni í bókabúð og girnst hana. Svona þekkja þær mig vel.
Jæja ég stefni hraðbyri inn í ellina. Það er víst óumflýjanlegur andskoti. Svei.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Verklega kirugiuprófið

Ég gleymdi að tala um verklega kirugiuprófið sem ég tók um morguninn áður en ég fór til Köben. Þetta er fyrsta munnlega prófið sem ég tek og ég var geðveikt stressuð. Skrítið að vita ekki almennilega til hvers er ætlast af manni. En þetta fór vel, sérstaklega núna þegar einkunnin er komin í hús. Þá gekk mér greinilega betur en ég hélt á staðnum. Sem er tvímælalaust betra en hið gagnstæða. En hér er fallegi helmingurinn af bekknum mínum sem var á kirugiu fyrir áramót.


Hópur 1.Hópur 2

Hópur 3.

Virðulegt lið, ekki satt? Kannski leynist þarna einhver verðandi kirug. Varla ég samt. Eða ég veit það ekki reyndar. Það þarf náttúrulega varla að taka það fram að hinn fallegi helmingur bekksins var á medicin og því ekki á þessum myndum. Þau eru þó ekki síður virðuleg. Eiginlega virðulegri, því þau kunna svo mikið af virðulegu stöffi. Við kunnum bara hluti um blóð og iður. En það er fínt.

Det var dejligt í Danmark

Jæja þá erum við komin heim frá Kongens København. Það var myljandi fjör alveg. Við hittum frændfólk Þóroddar sem er einstakt fólk. Þrjú systkini sem eiga íslenska mömmu og færeyskan pabba og eru búsett í Kaupmannahöfn í námi. Þvílíkt öðlingsfólk, sem er svo vel af guði gert, að mann skortir orð til að lýsa því. Síðasta kvöldið sem við vorum þarna úti, var Flóvin frændi upptekin með félaga sínum Össuri Skarphéðins. Hér er það sem Össur hefur um Flóvin að segja og segir mér svo hugur að fleirum en mér finnist mikið til þessa fólks koma:) Össur talar líka um ferð á Regens í herbergi Jóns Sigurðssonar. Þangað fórum við Doddi líka og hér má sjá okkur í glugganum hans Jóns. Ó við menningarvitar. Við gerðum líka margt fleira skemmtilegt. Vorum heilmikið með Beggu og Robba. Flippuðum ærlega og skruppum til Svíþjóðar. Það er nefnilega svo flippað að fara til margra landa. Það var nú samt neyðarlegt hvað Robbi var fáránlega æstur yfir því að hann væri að fara til Svíþjóðar. En maður umber nú ýmislegt þegar vinir manns eru annars vegar. Það koma fleiri myndir á eftir en nú þarf ég að fara í kennslustund.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Snilldarreglur

Hehehe Ingvar kom heim með skriflegar reglur 7. flokks kk. í Val. Þær eru svohljóðandi:

1. Bannað er að skamma samherja sína. Ef það gerist, þá verður sá sem skammaði að sitja fyrir utan völlin og horfa á í 2 mín.
2. Bannað að slást. Sá sem er laminn fær vítaspyrnu.
3. Þegar þjálfarinn er að tala, þá verða allir að hlusta. Ef þið hlustið ekki, þá vitið þið ekki hvað þið eigið að gera og þá getið þið ekki orðið betri í fótbolta.

Væri ekki heimurinn góður ef hægt væri að heimfæra reglur sem þessar á allt mögulegt. Regla 2 höfðar samt mest til mín.

Óþægindi

Ég finn til óþæginda daginn fyrir próf. Raunar er næst síðasti dagur fyrir próf, síðasti dagur fyrir próf hjá mér, því ég verð svo ómöguleg síðasta daginn fyrir próf að hann er gagnslaus. Ég geng um gólf, sest svo niður og fletti geðsýkislega í gegn um bækur og möppur og rýk svo á fætur og geng meira um gólf. Ég hringi aldrei meira í fólk en einmitt á svona dögum, og finn mér verkefni sem hafa lengi setið á hakanum og þarfnast tafarlausar úrlausnar. Þetta er glatað. Ég fæ því færri upplestrardaga en samnemendur mínir vegna fötlunar minnar.
Ég er að fara í próf á morgun, þess vegna er ég í tölvunni. Ég þarf að stroka rosalega mikið út, því ég geri svo mikið af innsláttarvillum með ísköldum og skjálfandi fingrum mínum. Ég er líka pínu dofin á vörunum og svo þarf ég að gubba. Hverjum þykir ekki gaman að lesa færslu þessa? Dauðans próf.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Jamm

Þarna mætti ég einmitt. Súr í bragði.

House

er glataður læknaþáttur. O.k ég veit vel að 4. árs nemi hefur ekki efni á miklum hroka eða yfirlýsingum, en drottinn minn, góður guð. Þegar aðstoðarlæknarnir hans House ákváðu að skreppa á labbið til að rækta sjálfir úr sýnunum sem þeir tóku, þá var þetta búið. Síðan þá hef ég ekki kveikt á House og læt það fara í taugarnar á mér þegar fólk dásamar þessa þætti. En þar sem bloggari dauðans orðar þetta svo snilldarlega þá er ég að hugsa um að spara mér málalengingarnar.
Það er reyndar rétt að taka það fram að ég held að bloggari dauðans hafi gaman af House. Þó við séum með sömu sýn á þættina þá birtist samt hrifning okkar á ólíkan hátt. Skrítið og skondið, en satt.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Frábært matarboð

Fór í frábært matarboð á föstudagskvöldið. Maturinn var ólýsanlega góður. Er ástæðan sú að húsbóndinn sá um matseldina og setti húsfreyjuna í að brytja í salatið. Húsfreyjan segist þó vera afbragðskokkur og vísar í gamlárskvöld árið 2001 máli sínu til stuðnings. Right:)
Hinir gestirnir voru líka mjög skemmtilegir, og fallegir, þó rauðkan með handtöskuna hafi þó haft yfirburði hvað fegurð og klæðaburð varðaði. Miss B er bara svo classy. Afbrotafræðingurinn talaði mest, en það var svo sem fyrirséð. Sem betur fer er hún fyndin, annars hefði þetta getað orðið vandræðalegt. Geðhjúkrunarfræðingurinn, maðurinn hennar, er samt eiginlega fyndnari. Eða kannski hefur hann bara gert svona fyndna hluti. "Venjulegu" fólki fyndust þessir hlutir kannski bara glæpsamlegir, ekki fyndnir. Ég veit það ekki. Hjónin af Suðurnesjunum voru til friðs, en það er óvenjulegt fyrir fólk af Suðurnesjunum. Það hlýtur að bjarga þeim að vera aðflutt. Svo gekk húsbóndinn fram af okkur, en bara einu sinni, og það telst gott. Doddi var frávikið, sá eini af okkur sem er ekki með banvænan sjúkdóm. Enda var hann hafður að háði og spotti allt kvöldið. Ef hann væri með fjaðrir og við hin með gogg, þá hefðum við reytt af honum fjaðrirnar.
Nei án spaugs þá var þetta frábært kvöld. Langt síðan ég hef hlegið svona mikið. Og mér finnst gaman að hlægja mikið.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Vantaði bara derið??

Skruppum í Húsasmiðjuna í dag, skötuhjúin með Ester með okkur. Þar var allt að fyllast af jóladóti og þar sem dóttirin var hress með þetta, þá var tekið nett tékk á jólaglingrinu. Þar voru meðal annars jólasveinabúningar, bæði á kríli og fullorðna, og fullt af jólasveinahúfum af öllum stærðum og gerðum. Vöktu þó sérstaklega athygli mína sérkennilegar jólasveinahúfur sem voru í tugatali á rekka einum. Þegar ég fór að skoða þetta nánar, þá voru þetta jólasveinahúfur með deri og teygju aftan á hnakkanum. Ég setti eina slíka á mig og í sömu andrá fékk ég svona flass upp í hugann af spikfeitum bjórdrykkjumanni að halda jólin hátíðleg í glaðasólskini með því að grilla ofan í famelíuna fyrir framan hjólhýsið. Hrollur..........
Það er pottþétt að það vaknaði einhver mjög timbraður og sagði við konuna sína: "Elskan, væri það ekki magnað ef maður gæti verið jólalegur með derhúfu? Hey!!!!!!!!!!!!!!! Ég veit.................."