luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, apríl 30, 2008

Af gúggli

Hadda bloggar um gúggl.
Mig langar að gera slíkt hið sama. Það er nefnilega svo sniðugt að skoða hvaða gúggl það er sem er að leiða fólk á síðuna mína. Heimasíðuteljarinn minn virkar allavega þannig að ég fæ að sjá leitarorðið sem slegið hefur verið inn.
Það mannanafn sem án efa hefur vinningin er Ingi Karl. Eða kannski á eftir Allý og Allý Rósa sem sjást reyndar mjög oft líka.
Henry Birgir Gunnarsson og Birgir Leifur Hafþórsson koma líka sterkir inn. Dodda og Dodda litla sé ég líka nokkuð oft. Ingvar Þóroddson hef ég líka séð nokkrum sinnum, veit ekki hvort einhver vill fréttir af syni mínum eða tengdaföður eða þeim þriðja sem býr í Bakkahlíðinni.
Freydís Helga kom í dag, ég man ekki eftir að hafa séð það áður.
Klúrasta gúgglið sem dettur inn daglega og missir ekki úr dag er símasex. Vændiskona birtist líka en sjaldnar.
Læknanemar sjást býsna oft.
Mér þykir leitt að skrifa það en af einhverjum ástæðum lendir fólk sem er að leita að Skoppu og Skrítlu á minni síðu.
Ég man ekki akkúrat núna eftir einhverju alveg absúrd en ég kem með update.
Svo er annað sem er spennandi. Opinber fyrirtæki eru nefnilega oft með eigin net og þá sér maður hvar einhver er sem slær inn leitarorðið. Það áhugaverðasta sem ég hef séð í þeirri katagoriu er þess eðlis að ég myndi ekki þora að segja frá því af ótta við að svartklæddir menn myndu mæta hér og handtaka mig eða pynta til dauða. Ég sagði reyndar Höddu frá því um daginn en maður setur það ekkert á netið.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Mér dettur ekki til hugar

að blogga um mótmælin og "óeirðirnar" í dag.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Af sómamálum

Hvernig stendur á því að Kristín H. er ekki Sómi Súðavíkur?
Vissulega getur Mugison raulað og glamrað á gítar en Kristín H. er héraðsmeistari í blaki!

Af hæfileikum

Ef ég ætti að skipta út einhverjum af mínum stórkostlegu hæfileikum til að öðlast aðra, þá myndi ég vilja geta sungið eins og Mariah Carey. Eruð þið að grínast með tónsviðið sem gellan er með?! Velur sér reyndar fáránlega leiðinleg lög til að syngja en getur samt sungið as hell.
Í staðinn myndi ég fórna kaldhæðninni minni, enda held ég að fari ekki vel saman að vera kaldhæðin og syngja eins og engill.
Og þó.

mánudagur, apríl 21, 2008

Af auglýsingahléi

Hey pabbi, fáðu þér Hydroxycut!

Af heyrnatólum

Þegar Hildus litli stendur upp frá borðinu sínu þá stel ég headphonunum hennar. Stærsti ókosturinn við það er þó sá að ég þarf að minnka stillinguna úr stærstu mögulegu stærð í þá minnstu. Her head is like an orange on a toothpick.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Til Frikka

Sumir eru með gamalt, óuppgert Nellýjar fetish úr æsku.

laugardagur, apríl 19, 2008

Af bústaðaferð


Við lærðum samt í alvörunni fáránlega mikið en ég get séð hvernig einhverjum gæti tekist að halda annað.

Af gefnu tilefni

þá vil ég taka fram að ég er ekki kærasta David Beckham þrátt fyrir að sífellt séu birtar af mér myndir og fregnir þess efnis í erlendum slúðurblöðum.
Ég og Posh erum bara svona líkar.

sunnudagur, apríl 13, 2008

Af samtali við systur

"Allý þekkiru Sólveigu Péturs?"
"Já."
"Ég var nefnilega í verknámi á lyfjadeildinni og hún er að vinna þar. Hún er svo næs og viðkunnaleg. Og svo er hún svo klár og fær læknir. Ég var að fylgjast með henni setja thorax dren og það var eins og hún hefði aldrei gert neitt annað!"
"Nú, þá er það ekki sama Sólveig Péturs og ég þekki. Hún er bölvað óbermi og veit sjaldnast hvað hún er að gera."

Right;)

laugardagur, apríl 12, 2008

Af elskulegu mér

Ég er elskuleg manneskja, því finnst mér við hæfi að senda þessa kveðju til ykkar frá mér. Ég myndi syngja þetta lag reglulega on daily basis ef mér hefði ekki verið hótað lífláti í dag ef ég myndi ekki hætta að syngja þetta lag. Ég næ nebblilega ekki alveg hæstu tónunum. Annars helvíti fínt hjá mér. Love.

föstudagur, apríl 11, 2008

Af bakþönkum II

Þórgunnur Oddsdóttir skrifar alltaf meiriháttar bakþanka. Á mannamáli.
Sá sem er alltaf að gúggla sjálfan sig og lendir hér inni, mætti taka sér þetta til fyrirmyndar. Ég elska hvað heimasíðuteljarinn minn gerir mér kleift að taka Big Brother á þetta!

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Af póker

Pókerkvöld í gærkvöldi. Við erum búnar að vera ansi stabilar með þennan póker, sem er mjög gott enda er þetta fáránlega gaman. Ekki eru allir á sama máli um gæði þessara pókerstunda. Dóttir Þórhildar og Þórðs hafði komið að máli við Ingvar í skólanum og spurt hann hvort honum þætti það ekki leiðinlegt að mömmur þeirra væru alltaf að spila póker á miðvikudögum;)
Ingvari finnst það ekkert leiðinlegt, hann heldur alltaf í þá von að fá að vera með, sem hann fær aldrei, en hann er samt alltaf jafnspenntur þegar taskan er dregin fram.
Það er hægt að gera margt verra á miðvikudögum en að spila póker.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Af fjallaþvaðri

Fyrir svona ca. 5 árum þá langaði mig að myrða með berum höndum fólk sem var æðandi upp um trissur og hóla, OG það sem verra var, þurfti að vera síþvaðrandi um það. Oj, hrollurinn og gubban og vorkunin sem ég fann með þessu óáhugaverða fólki og þeirra óáhugaverða lífi.
Fræg er orðin sagan af því þegar ég átti fyrsta símtalið við konu sem ætlaði að leiðbeina mér með ákveðna hluti. Áttum meiriháttar símtal í klukkustund og mér fannst ég aldrei hafa þekkt neinn svona vel og aldrei fyrr hafði einhver skilið nákvæmlega hvernig mér leið, en þegar við mæltum okkur mót og hún sagði mér að ég gæti þekkt hana á því að hún yrði í bláum vindjakka þá var ég næstum hætt við, án gamans, þá skipti tengingin í þessu klukkustundarsamtali engu máli lengur.
En allavega kveikjan af færslunni er sú að það hafði samband við mig maður sem er í miklu sambandi við fjallgöngufélagann minn. Hann var að biðja mig um að hætta að labba á fjöll með henni því hún gæti ekki hætt að þvaðra um þetta. Þá helltist það yfir mig. Ég er orðin Haraldur Örn.

Af Nip/Tuck

Doddi var að ergja sig á því í gærkvöldi að sjúklingarnir í Nip/Tuck eru ekki intuberaðir í aðgerðunum. Já það er einmitt ÞAÐ sem gerir þessa þætti ótrúverðuga.

mánudagur, apríl 07, 2008

Af heiladauða

Skoppa og Skrítla voru víst að frumsýna nýjan söngleik um helgina. Þar sem ég er með uppeldinu markvisst að sporna gegn því að dóttir mín verði heilalaus hálfviti þá munum við ekki fara á þann söngleik.

Af toppi Helgafells


Kannski ekki hæsta fjall landsins en hey! Djöfull lúkkum við samt vel á toppnum.

laugardagur, apríl 05, 2008

Helgarpistill

Ég og ólíklegi nýji fjallgöngufélagi minn sigruðum enn eitt fjallið í gær í guðdómlegu veðri. Fell eða Fjall, hver er að velta sér upp úr því;)
En fyrr hefði ég átt á dauða mínum von en því að landhjúkrunarfræðingur Íslands færi að taka upp á því að æða með mér á helstu hóla í nágrenni Reykjavíkur.
Við tókum sjúklega flotta mynd, en ég er á Selfossi og myndavélin er heima.
Og talandi um guðdómlegt. Ekki var það nú meiningin að verða hnakki dauðans af því að taka afleysingar hér fyrir austan en fátt er fegurra en að keyra niður Kambana í veðri eins og í morgun og sjá Flóann blasa við og Vestmannaeyjar rísa upp úr sjónum eins og lítill fjallgarður. Ég er svona bráðum alveg að byrja að fara að skilja hvers vegna fólk selur í borginni og kaupir sér fyrir austan fjall. Ekkert á dagskránni samt en maður segir svona.
En það sem er skemmtilegast af öllu við að keyra austur á vaktir á laugardögum eru Simmi og Jói á Bylgjunni. Drottinn minn hvað þeir eru hryllilega fyndnir án þess að hafa mikið fyrir því. Jamms.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Af sökkheitum

Patients may be asymptomatic but may also present with sudden cardiac death!

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Af síðustu færslu

Auðvitað var þetta aprílgabb. Við erum fokking hamingjusömustu hjón veraldar. Nema eftir næturvaktir og nema þegar Doddi smíðar. Og ég er eigi ólétt heldur, ætla mér að klára þetta kandidatsár.
En þeir teljast hafa hlaupið apríl sem sendu mér hamingjuóskir á sms eða msn;)
Það ískraði samt í mér yfir því. Sjúklega fyndið að senda hamingjuóskir en þessi meinti skilnaður var bara látinn liggja milli hluta.
Mér finnst súrast samt að mamma hringdi ekki á innsoginu. Þó hefur hún nokkrum sinnum hringt á innsoginu vegna skrifa minna hér. Þetta var líklega of langsótt fyrir hana.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Af okkur

Við Doddi eigum von á okkar þriðja barni, sem er í sjálfu sér ánægjulegt, en hins vegar höfðum við fyrir nokkru síðan ákveðið að skilja svo þessi fjölgun kemur ekki alveg á hagstæðasta tíma, en þetta verður gaman samt.
Doddi verður í íbúðinni með krakkanna, en ég hef fengið leigt á Njálsgötunni.
Svona er lífið.

Af Stóra planinu

sem ég fór að sjá áðan. Hún er leiðinleg. En stigagangurinn minn er í aðalhlutverki í myndinni. Það veit ég að Ingvari á ekki eftir að þykja leiðinlegt.