luxatio hugans

awakening

mánudagur, janúar 31, 2005

Annar í Þorra

Fór á annað þorrablótið á tveimur vikum í gærkvöldi. Uhhh mér fannst matseðillinn öllu ógeðslegri þar en á mínu blóti. Það ógeðslegasta á mínu blóti var súra vélindað, en Hálfdán goði bauð upp á: súrt slátur, súrsaðann selshreifa, og súrar lambaklaufir sem ég var svo sannarlega ekki með. Hálfdán hafði varpað fram fyrripart til okkar á netinu, þar sem rímorðin voru öxl og mjöðm. Þóttist hann fyndinn og hafa fundið fyrripart sem ómögulegt væri að botna. Nú við Sigurður Árnason botnuðum hann samt og bárum fyrir okkur latínu og flámælgi til þess að þetta gengi nú upp. Það er skemmst frá því að segja að við unnum botnakeppnina og hlutum að launum frosið lambahjarta. Það er óþarfi að taka fram hve margir botnar bárust í keppnina. Það er ekki að spyrja að því þegar svona fagnörd hittast og hafa gaman. Þá fjúka brandarar eins og: "Strákar, eruð þið búnir að smakka súru Sertoli frumurnar?" sem þykja fyndnir, á þessum vettvangi eingöngu og hvergi annars staðar. Jamm.

föstudagur, janúar 28, 2005

Afmælisbarn dagsins

er að sjálfsögðu Þóroddur. Til hamingju með afmælið Doddi litli.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Einstefna

Ég veit ósköp vel að Laugavegurinn er einstefnugata, en samt lít ég alltaf til beggja hliða þegar ég labba yfir götuna. Hvað er það?

Svo kann ég góðu sögu um einstefnugötur. Árni frændi minn var eitt sinn í Þýskalandi, ásamt öðru fólki. Þegar hann kom út af hótelinu sínu, ætlaði hann aldeilis að leggja nafn götunnar á minnið. En þegar hann ætlaði upp á hótel aftur lenti hann í vanda. Það hétu víst ansi margar götur Einbahnstrasse í þessari borg.

Gamli refur

Hehe, Sverrir Hermannsson er snillingur.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Þorrablót

Jóhann smakkar auga


Þorrablót

Jóhann kúgast

Nýr linkur

Bæti inn link á Pönnuköku Ölmu, sem kynnti mig fyrir þeim unaðslegustu pönnukökum sem ég hef smakkað. Hver hefði getað trúað því að amerískar pönnukökur gætu verið svona himneskar? Ekki Jói Krói að minnsta kosti. Hann vill gefa út veiðileyfi á allt bandarískt. Hey Jói! Þeir ætla að opna Burger King í Fossvoginum. Það er guðlast.

mánudagur, janúar 24, 2005

Þokkalega nörduð


I am nerdier than  64% of all people. Are you nerdier? Click here to find out!

Ævisagnaæði

Ævisagnaæði er flott orð. Ég var að klára Jónas Hallgrímsson eftir Pál Valsson. Hún er alveg hrikalega skemmtileg. Það er algjör tilbúningur að Jónas kallinn hafi verið drykkjurútur og aumingi. Þvert á móti var hann einn af þessum harðduglegu Íslendingum sem skvetta ærlega í sig. Jæja nóg um það. Bráðskemmtileg bók. En þá gat ég loksins byrjað á Hallóri Laxnes sem ég fékk í jólagjöf. Ég fékk bókina hans Halldórs Guðmundssonar, sennilega eitthvað pínu ritskoðuð, en hvað um það. Eitt hefur Hannes kallinn þó framyfir þennan Halldór. Það er að skipta bókinni í þrjú bindi. ALDREI nokkurn tíma hef ég reynt að lesa þyngri bók. Þetta er heilsuspillandi, maður fær vöðvabólgu. Einn minn helsti munaður í lífinu er að lesa í baði, það geri ég mikið. Ég reyndi að fara með Laxness kallinn í bað í gær og það var ekki hægt. Ég gat ekki haldið á bókinni fyrir ofan vatnið. Samt er ég ekkert æðisleg aum neitt. Humm. Ég held stundum að ég sé á rangri hillu í lífinu. Ég er læknanemi með óslökkvandi sagnfræðiþorsta. Ég finn ekki fyrir þessum óslökkvandi þorsta í meinafræðibækurnar, það væri óskandi. Þá kæmi ég miklu í verk. Það hefur ekki komið út sú ævisaga síðustu ár, að ég hafi ekki lesið hana. Nú hrópa ég eftir almennilegri ævisögu um meistara Þórberg og eins væri afar áhugavert ef einhver nennti að skrifa um Brynjólf Pétursson. Annars þarf ég kannski að gera það.

laugardagur, janúar 22, 2005

Þorrablót

Til þeirra er málið varðar!!
Borðhald hefst klukkan 19.00.
Vilja þeir sem þetta lesa láta hina vita.
Kann ekki að senda ókeypis sms og það hvarflar ekki að mér að spreða háum fjárhæðum í ykkur.
Sjáumst hress og kát.
Blótmeistari.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Góður fengur

Þóroddur kom hlaðinn varningi heim af Læknadögum eða Læknaþingi eða what ever. Eins og mér sé ekki sama, ekki var mér boðið. Það sem mér fannst flottast var þó að hann fékk ferðavinning frá Flugleiðum. Ferð, fram og til baka, hvert sem er í Evrópu. Verst að það var bara fyrir einn. En hvað um það. Það verður ábyggilega gaman hjá mér.

Skelfileg lífsreynsla

Í gærkvöldi varð ég fyrir óskemmtilegri lífsreynslu. Ég hélt í nokkur augnablik, sem reyndar virtust sem heil eilífð, að uppþvottavélin mín væri ónýt. Það dó eitthvað innra með mér. En svo reyndist ekki vera. Guði sé lof.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Amazing Race

Vííí. Ég iða af spenningi. Þátturinn í gær var fyndnastur ever. Það sem fólk getur nöldrað og verið leiðinlegt. Það er æði. Mér finnst nöfnin á liðunum alltaf svo súr. Hver man ekki eftir Dating models og Bowling moms? Í þessari seríu eru Married grandparents. Maður átti fyrirfram von á því að þau væru ofsalega góðleg og gömul eitthvað. En nei. Grandma from hell. Amman er þokkalega geðill og undirförul og langsamlega kappsömust í hópnum. Crazy in the brainhouse. Þar með er hún orðin uppáhaldið mitt. Go granny.

mánudagur, janúar 17, 2005

Tenutex

Hér kemur lítil saga. Hún er innblásin af tvennu. Annars vegar því að nú eru ótalmargir búnir að benda mér á, að það stendur alls ekki Flatlús á veggnum undir hlíðum Esjunnar, heldur Flatus. Hvaða andskotans rugl er Flatus??!! Jæja þar sem heil færsla er þar með fallin um sjálfa sig þarf að gera gott úr þessu, ég mun koma flatlúsinni að. Hins vegar kemur innblásturinn úr því að ég er með hypochondriu eins og áður hefur komið fram. Frá því að ég man eftir mér hef ég verið sannfærð um það að ég sé að deyja úr hinum ýmsustu sjúkdómum.
Það var svo í sumar að ég bólgna öll upp á sköflunginum. Verð rauð og þrútin og aum viðkomu án þess að nokkur áverki hafi komið til. Jæja ég fletti upp í hausnum og kemst að því að þetta eru dæmigerð einkenni blóðtappa. Það er svo bara tímaspursmál hvenær blóðtappinn fer af stað, veldur lungnaemboliu og þar með bráðum dauða mínum. Svo að ég skelli í mig magnyl og panta tíma hjá lækni sem myndi taka frekari ákvarðanir um meðferð blóðtappans. En nei. Læknirinn ungi var nú ekki á því að ég væri með blóðtappa. Hann rýnir í þrútna svæðið og þykist greina klórför og spyr mig hvort mig klæji þarna. Ég er ekki viss og fer að spá í það og er þá ekki frá því að það geti verið að mig klæji þarna. Læknirinn ungi segist þá halda að ég sé með kláðamaur og spyr mig hvað ég starfi. Ég segist vera nýbyrjuð í sumarafleysingum á leikskóla. Bingó, segir læknirinn ungi. Klárlega kláðamaur. Svo spyr hann mig hvort mig klæji á fleiri stöðum og það er við manninn mælt að ég iða öll af kláða sem blossar upp um allan líkamann. Jæja hann skrifar svo út heljarinnar magn af áburði sem öll fjölskyldan á að bera á sig til að drepa vágestinn. Doddi átti ekki til orð þegar ég sagði honum hvað læknirinn hafði sagt. Reyndi að malda í móinn að ég gæti hreinlega ekki verið með kláðamaur en ég hlustaði ekki vegna kláðans sem var orðinn óþolandi. Við fórum saman inn í apótekið og leysum út marga lítra af Tenutex áburðinum. Stöndum þarna saman og fáum lyfið okkar. Í bílnum á leiðinni heim fer ég svo að lesa mér til og sé að lyfið er einkum ætlað til meðhöndlunar á flatlús sem og öðrum húðmaurum. Greit!! Og þarna stóðum við hönd í hönd og litum út fyrir að vera leita okkur meðhöndlunar við flatlús saman. Og alveg ótrúlega glöð með það.
En það er skemmst frá því að segja að ég var ekki með kláðamaur og við eigum miklar birgðir af Tenutex í ísskápnum. Svo endilega hafið samband ef þið fáið flatlús. Hver hefði getað trúað því að læknum gæti skjátlast??

Drottinn minn

Þóroddur er að fara keppa á gönguskíðum INNI Í KRINGLUNNI á laugardaginn. Það verða fjölmiðlar á staðnum. Frá og með laugardeginum er ég einstæð móðir. Áhugasamir hafi samband. Verða að hafa gaman af börnum og læknisfræði. Takk.

föstudagur, janúar 14, 2005

Frekar döpur spilamennska

Við eignuðumst teiknispilið um jólin. Ingvar vill að við spilum teiknispilið við hann. Það viljum við ekki af því að hann er svo lélegur í því. Þá tók hann sig til í gær og ákvað að spila bara teiknispilið við sjálfan sig. Sem er áhugavert. En allavega, þarna sat hann einbeittur þegar Snorri Lax kom og spurði hann hver væri eiginlega að vinna í spilinu. Þá andvarpaði Ingvar og sagði: Æi, ekki ég!
Sem hlýtur að teljast afar döpur spilamennska þegar spilað er við sjálfan sig.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Mig vantar

200 milljónir. Ég þarf nefnilega að kaupa einbýlishús í Blikanesi sem sagt er dýrasta hús Íslandssögunnar. Það er hús drauma minna. Ég var að lesa umfjöllun um það og það er allt eftir mínu höfði og smekk. Hversu oft rekst maður á þannig eignir? Þannig að ég er að hugsa um að stökkva bara á þessa. 200 mills... anyone?? Ég er ekki einu sinni viss um tveir læknar á sérfræðilaunum dugi fyrir þessu. Dauði og djöfull að vera ekki kvótabarn.

Talandi um að vanta. Ingvar sonur minn hefur frá því að hann var ótalandi borið ótrúlegt skynbragð á dýra hluti. Hreint undarlegur fjandi oft á tíðum. Þeir Doddi fóru svo uppeftir í B&L fyrir jólin. Hann settist inn í alla bílana í sýningarsalnum en nei þeir voru ekki nógu góðir. Það var alltaf eitthvað ómögulegt. Þar til hann settist inn í 10 milljóna króna Range Rover jeppann, með öllum mögulegum aukabúnaði. Þá var hann sáttur og sagði: "Já, þetta er bíllinn sem mig vantar" Ekki langaði í, heldur vantaði. Við gerðum grín af honum og sögðum að hann yrði þá að byrja að safna. Það tók hann mjög alvarlega og hver einasta króna sem honum áskotnast þessa dagana fer inn á bókina. Það gekk svo langt að fyrir jólin var ég að drekka malt og Ingvar stóð yfir mér. Mamma ertu búin úr dósinni? En núna? Svo hrifsaði hann dósina af mér. Ég þarf að fá þessa dós. Ég er að safna fyrir bílnum.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Botninn upp

er annað snilldar lag sem á skilið umfjöllun á síðu þessari. Er ég gengin í barndóm??

Afskiptum þarf að linna

skrifar Friðbjörn Orri Ketilsson. Gaman væri nú að litlu frjálshyggjuguttarnir, sem líta allir eins út, færu nú að reyna að auka við orðaforða sinn og hugðarefni. Þetta er orðið svo þreytt. Ég hlustaði á útvarpsviðtal við einn guttann rétt fyrir jól um frumvarpið á auglýsingalöggjöfinni og ég gat mæmað með svörum hans. Einstaklingurinn á að hafa frelsi til að velja sjálfur á hverju hann kýs að drepa sig. Foreldrarnir eiga að hafa vit fyrir börnum sínum o.s.frv.
Einu sinni hafði ég æðislegan áhuga á stjórnmálum, setti mig inn á allt og hafði vit á öllu. Þvílík andskotans tímasóun. Mér finnst ég hafa vaxið upp úr þessu. Hver hefði trúað því að "what ever" gæti veitt manni svona mikla hugarró og vellíðan? Reyndar var Svala vinkona mín búin að segja mér þetta margoft. Allý, það eru bara ungar sálir sem taka þátt í stjórnmálum. Fólk sem virkilega trúir því að það geti breytt einhverju. Að sjálfsögðu þurfa hlutirnir að gerast, en ég er nú samt þeirra skoðunar að þó einhver ákveðinn hrindi ekki hlutunum í verk, þá gerir það einhver annar. Það hefur margoft sýnt sig, í vísindum til dæmis, að oft eru margir hópar vísindamanna vítt og breitt um heiminn í kapphlaupi við að ná sömu niðurstöðu. Því væri barnalegt að halda því fram að ef Edison hefði ekki fundið upp ljósaperuna að þá væru þær ekki til. Var það ekki annars hann?
Þess vegna segi ég "what ever" og látum aðra um það.
En gaman væri að varpa þeirri spurningu til ungra frjálshyggjumanna, sem eru ákafir talsmenn reykingamanna, hvort það væri frelsi mitt sem einstaklings, ef ég fengi þá fíkn að úða asbesti í kringum um mig hvert sem ég færi? Ég er bara alveg ótrúlega háð því að úða asbest, ég vel það sjálf, veit um áhættuna sem fylgir því og það fer svo sáralítið á aðra í kringum mig. Ef fólk þolir það ekki þá getur það bara farið eitthvert annað.
Er það frelsi mitt að fá að gera það?
Ég leyfi komment á þetta ef það skyldi einhver frjálshyggjumaður lesa þetta.

Það versta

sem fólk með hypochondriu getur gert er að fara að læra læknisfræði. Spyrjið bara mig eftir ferðina á bráðamóttöku hjartadeildar. Hehehe. Það besta við þá ferð var samt hvað Doddi var spenntur og glaður að fara með mér:) Það lá við að hann hrópaði yfir allt: Ég er með henni!! Jæja en það verður seint sagt um mig að ég hafi ekki húmor fyrir því hvað ég er mikill hálfviti.

Lífið

með Írafár er uppáhalds lagið mitt þessa dagana. Ég er algjör píkupoppari, ég veit það. Ég meira að segja gaf Gyðu systur minni diskinn með Írafór í jólagjöf og hún sagði: "Oj, hver getur hlustað á Írafár?!" Hún er 10 ára!! Allavega. Mér finnst textinn svo flottur. Gaurinn er búinn að fá nóg af lífinu og segir að það hafi aldrei gert neitt gott fyrir hann. En bíddu við, leyfðu mér að sýna þér hvað lífið er dásamlegt og hvað það hefur gert margt gott fyrir þig ef þú dregur hausinn út úr rassgati sjálfsvorkunar í smástund. Það finnst mér flottur boðskapur. Flottari en dauðans eilífðar beibí æ lov jú, væ dónt jú lov mí bakk...... jejeje vóóó.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Lítið kraftaverk

Ég get ekki sofið. Ég er hátt uppi eftir að hafa horft á lítið kraftaverk líta dagsins ljós í fyrsta skipti. Barbara vinkona mín var að eiga stelpuna sína og vildi hafa mig hjá sér. Enn einn ávinningurinn í mínu lífi af edrúmennskunni. Ég veit ekki um nokkurn mann sem hefði viljað hafa grumpy, gömlu Allý í fæðingunni sinni fyrir rúmum tveimur árum. Og ég skil það vel enda hafði ég ekkert að gefa þá.
Barbara hetja. Við fórum saman á Flórída í kvöld þar sem ég fékk tveggja ára peninginn minn. Hún skilaði mér heim um 23.00 leytið og sagðist kannski ekki vera frá því að það gæti eitthvað gerst. Hringdi 00.30 búin að missa vatnið og ætlaði að hafa samband upp á deild. Mummi hringdi svo 01.30 og sagði mér að koma hið snarasta upp á deild ef ég ætlaði að ná þessu. 02.47 er sæt lítil prinsessa komin í heiminn og ég fékk að klippa á naflastrenginn. Takk Mummi. Barbara var alveg eins og hetja. Fékk engar deyfingar, ekkert glaðloft, engar nálastungur, bara ekki nokkurn skapaðan hlut, og gerði þetta samt eins og hún væri að drekka vatn. Allt ósköp áreynslulaust. Það var ólýsanlegt að sjá lítinn haus gægjast í heiminn og að lokum barnið fæðast og byrja að orga. Hún var alveg voðalega falleg og ósköp lík mér. Hún þekkti samstundis í mér röddina enda væri annað óeðlilegt eftir allt sem hún hefur þurft að hlusta á mig tala. Ég verð ábyggilega uppáhaldið hennar. Allavega veit ég það að gellurna eiga eftir að verða grænar úr öfund í grúppunni á morgun.
Til hamingju Barbara, Mummi, Anika og Aron með sætu litlu prinsessu.

laugardagur, janúar 08, 2005

Hehe

Því gleðst mitt illa hjarta yfir óförum annara? Ég hef sennilega aldrei jafnað mig á því þegar hann gekk mér úr greipum. He's on my list and the list is laminated!!

Flatlús lifir

Ég hef ansi oft keyrt á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fyrir ótal mörgum árum, man ekki hvenær, rak ég augun í veggjakrot á malarnámu undir hlíðum Esjunnar. Þar stóð einmitt: "Flatlús lifir". Ekki botnaði maður neitt í yfirlýsingu þessari. Í öll þessi ár á eftir sá maður þetta alltaf, glotti út í annað en varð aldrei neinu nær, enda er það aukaatriði þegar kemur að töff veggjakroti. Smám saman dofnaði krotið og svo var það nær horfið. EN þegar ég kom keyrandi frá Akureyri í gær þá sá ég að einhver hafði tekið sig til og krotað upp á nýtt, með skínandi fersku litaspreyi, "Flatlús lifir enn".
Skyldi þetta vera einhver gaur sem neitar að leita sér lækninga við flatlús og er að rannsaka upp á eigin spýtur hve lengi hún lifir. Og eins og aðrir vísindamenn deilir hann niðurstöðunum með þjóðinni. Og staðan í dæminu er sú að hún þraukar enn helvísk. Ég spái því að gaurinn sé búinn að klóra af sér öll skapahár, því það getur ekki verið þægilegt að vera búinn að vera með flatlús í hátt í 20 ár. En ég mun fylgjast áfram spennt með framvindunni. Lifið heil.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Akureyri

Er enn á Akureyri, kem heim á morgun og hlakka til. Strollaði um allan Akureyrarbæ áðan eins og geðjúklingur með vagninn í frekar lélegri færð. Þurfti að fara yfir mestu skaflana á þrjóskunni og veit ekki eins og hvað ég hef litið út, fyrir ökumenn sem keyrðu fram hjá mér. En einhver hlýtur nú að vera ástæðan fyrir djöfulganginum í mér? Jú mikið rétt. Ég ákvað að nota tímamótin sem gærdagurinn var í nýtt fráhald. Út með sykurinn. Mér finnst ég orðin eins feit og ég ætla mér að verða og nú skal dæminu snúið við. Nema hvað. Það er líka hætt við því að fólk eins og Bergþóra og Björgvin fari að hætta að tala við mig. Ég las einhvern tímann að fordómar væru hræðsla. Ef það er rétt þá eru B og B logandi hrædd við feitt fólk. Hehe.
Ég verð líka að vera komin á laugardaginn því mig langar að fara á Flórída og skipta út peningnum mínum. Þessa setningu skilja sumir lesendur aðrir ekki. Gaman að því að lifa í tveimur heimum, þar sem annar er svona leyniheimur og restin veit ekki hvað fer þar fram. Ég man allavega hvað það kom mér á óvart hvað það var mikið í gangi þarna. Jamm.

Vonbrigði gærdagsins voru tvenn.
1. Barbara fyrir að eiga ekki krógann á edrúafmælinu mínu. Barnið hefði þá að sjálfsögðu verið skírt í höfuðið á mér. Eníveis.
2. Ítalski veitingastaðurinn á Akureyri með hallærislega nafnið, La vita é Bella. Sökkaði!! Eini ljósi punkturinn á þeirri ferð var þegar þjónustustúlkan kom og spurði hvort hún mætti taka diskinn hans Dodda eða hvort hann væri bara í smá pásu. Það var ógeðslega fyndið.

Hrós gærdagsins fær Doddi fyrir fallegu gjöfina sem ég fékk á edrúafmælinu mínu. Doddi er kúl, Doddi er kúl, Doddi er svalur, Doddi er kúl. Eins og fimm glaðværar meyjar sungu eitt sinn á leiðinni heim af skautum, fullar. Og verðlaunin fyrir besta úthaldið EVER fær...................... DODDI!!! Eins og þegar sponsorinn minn stoppaði mig í 5. sporinu og spurði: "Bíddu og er þetta sami maðurinn sem þú býrð með núna?? Áhugavert!" Lifið heil.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

2 ára í dag

Í dag á ég tveggja ára edrúafmæli. Hef ég af því tilefni ákveðið að leyfa komment við þessa færslu til að taka við þeim ótal hamingjuóskum sem mér hljóta að berast.
Innilega til hamingju til mín. Í dag er ég glöð.

laugardagur, janúar 01, 2005

Gleðilegt nýtt ár