luxatio hugans

awakening

sunnudagur, apríl 30, 2006

Bloggfærsla sem Stínafína skrifaði um daginn um dreifbýlislækninn rómantíska og hógværu hjúkrunarkonuna hans fékk mig til að huga um svolítið.
Ég var ótrúlega snemma í minni æsku búin að lesa Línu Langsokk og komin í Rauðu Ástarseríurnar. Þaðan fékk ég mína kynfræðslu að miklu leiti.
Hún er einhvern vegin þannig að konur þurfa að vera fullkomlega skapaðar til að fá manninn sem þær elska. Konur eiga ekki frumkvæði að samböndum við menn, þess í stað streitast þær á móti í margar vikur þar til þrautseigja mannsins sem þær elska í laumi ber þær ofurliði. Því hranalegri og dónalegri sem menn eru, því særðari eru þeir úr síðasta sambandi. Konur eiga ekki frumkvæði að kynlífi. Augntillit og létt stroka með fingurgóm frá draumaprinsinum er nægjanleg til að kona tryllist úr losta. Kynlíf er algjörlega fullkomin atburður þar sem allt gengur smurt fyrir sig, tveir hugir verka sem einn og engin búkhljóð heyrast.
Ungir karlmenn hins vegar fá kynfræðslu úr klámmyndum þar sem allar konur eru trylltar úr greddu og fá eki nóg af kynlífi. Konur eiga oftast frumkvæðið með því að tæla grunlausa menn í rúmið, sem komu kannski bara til að gera við pípulagnirnar. Konur fá fullnægingu af því að gefa karlmanni munnmök, svo unaðslegt er það fyrir þær.
Er eitthvað skrítið þó ungt fólk lendi í vandræðum þegar það er að stíga sín fyrstu skref í kynlífi??

laugardagur, apríl 29, 2006

Concert and kidneys

Ég fór á frábæra tónleika í gærkvöldi. Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt Eivör og Gröndal. Best var samt kynnirinn, hún Ragnheiður Ásta Pétursdóttir. Hún var svo æðisleg að ég hló og klökknaði til skiptist. Magnaðir tónleikar. Ég fór með báðum dætrum hans Guðjóns, sem ég kann engin frekari deili á, meðleigjanda Guðjónsdætra og vinkonu meðleigjandans.
Svo styttist óðum í nýrnafjörið. Barógengið ætlar að fagna frídegi verkalýðsins með nýrnafjöri á Barónstígnum. Hver þarf að fara í skrúðgöngu þegar hann getur farið í nýrnafjör? Þar sem spjallað verður á líflegan hátt um nephrotic syndrome, nephritic syndrome, glomerulonephrita, interstitial nephrita, pyelonephrita, prerenal, renal og post renal blóðmigu, bráða nýrnabilun, langvarandi nýrnabilun, bráða nýrnabilun ofan í langvarandi nýrnabilun, elektrolytabrenglanir, sýru og basa brenglanir, truflanir í vatnsbúskap, hvaða ávinning má hafa af því að góna ofan í þvag annara í mismunandi upplausnum OG MARGT ANNAÐ VIÐURSTYGGILEGA SPENNANDI. Rétt upp hönd sem eru spenntir? Ég er spennt. Víst er ég spennt!! Víst er ég spennt!!!!!!!!

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Jákvæðar staðhæfingar

Ég elska svo mikið Barógengið mitt.
Ég elska svo mikið leynifélagslesgrúppuna mína.
Ég elska svo mikið Sigtið með Frímanni Gunnarssyni.

Ohhhhhh

Það vilja allir vera eins og ég. Nú síðast kærastinn hennar MögguVaff. Hann vill vera eins og ég. Sem er náttúrulega skiljanlegt ef maður pælir í því. Hann er búinn að átta sig á því að ég er átrúnaðargoðið hennar MögguV og skilur að þetta er það sem hann þarf að gera ef hann ætlar að halda aðdáun hennar. Mjög skiljanlegt.

Jájá

Þarf ég ekki að fara að skrifa eitthvað skemmtilegt hérna?

sunnudagur, apríl 23, 2006

Tvífarar

Doddi var að leika sér á einhverri tvífarasíðu á netinu, þar sem maður gat sett inn mynd af sér og fengið að vita hvaða celebrity maður líktist helst.
Þetta, dömur mínar og herrar, er Tarja Halonen, Forseti Finnlands en hún er einmitt það celeb sem Doddi líktist mest.
Eftir að hafa ÖSKRAÐ úr hlátri í hálftíma, tókst mér að gleyma þessari vandræðalegu samlíkingu við mannsefni mitt. Eða allt þar til í gærkvöldi þegar við Doddi opnuðum loksins svona páskaegg fyrir tvo, ástareggið frá Mónu. Í því voru tveir málshættir, annar væminn og auðgleymanlegur en hinn hljómaði á þennan veg: Ekki eru allar ástir í andliti fólgnar. Upphófust nú þrætur hjá okkur hjónaleysunum hvort okkar hefði fengið þennan málshátt og hvort okkar hinn væmna, sæta málsháttinn. Þá lagði ég náttúrulega Tarja Halonen spilin á borðið og málið var dautt.

Sequence

Æsispennandi sequence mót var haldið hér í gærkvöldi. Æi hvern er ég að reyna að blekkja?? Það var ekkert spennandi við þetta. Við Pétur héldum uppteknum hætti og rústuðum andstæðingum okkar. Fyrst Hildi og Dodda og svo Hildi og Baldri. Pétur fleytti okkur langt á trash talkinu. Það er ótrúlegt hvað þessi dagfarsprúði maður, sem fær önugustu hjúkkur til að elska sig á 5 mínútum, getur verið mean í trash talkinu. En mér líkar það, því ég er með honum í liði.

laugardagur, apríl 22, 2006

Helvíti hressandi........... Vatnsmelónu hressandi

Hildur Guðjóns er kvenna ágætust. Með engri annari myndi ég vilja eyða jafn mikið af vökutíma mínum, því hún vekur sama og engin ofnæmisviðbrögð hjá mér þrátt fyrir mikla samveru. Og það er ótrúlegt þegar jafn pirruð kona og ég á í hlut. Svo bravó Hildur fyrir fæð ofnæmisvaka!! Það, hins vegar, gerir hana ekki stikkfrí fyrir því að gert sé grín af henni. Við lesum saman á Barónstígnum, ásamt fleira fólki, og hún er að fara út í sjoppu áðan og spyr hvort að hún eigi að kaupa eitthvað handa mér í leiðinni. Ég er mjó, og vil ekki borða mikið nammi, en bið hana að kaupa eitthvað sykurlaust handa mér, vitandi að Opal og Tópas fjölskyldurnar fara hamförum í þróun sykurlausra afurða. Hildur mín fór svo í sjoppuna og kemur til baka með Extra drops, sugarfree, dental care product, með VATNSMELÓNUBRAGÐI. Ég lak næstum í gólfið af hlátri og ekki hló ég minna þegar ég smakkaði einn af tannverndandi molunum, því hann var nánast bragðlaus en það bragð, sem þó fannst, var vont. Ég fékk sama klígjuviðbragð eins og af lyktinni af vatnsmelónutússpennanum. Muniði ekki eftir tússpennunum með ávaxtalyktunum?? Ég elskaði að sniffa þá, alla nema helvítis ljósgræna vatnsmelónutússinn. Jæja. Það má vera að engum af lesendunum finnist brandarinn vera á Hildar kostnað og það eina sem lesa megi úr þessari færslu sé vanþakklæti Aðalheiðar gagnvart greiðvikni meðborgara sinna. Ég tek þá áhættu. Þetta er mitt blogg og auk þess þá leyfi ég ekki komment.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Besti vinur skiptinemans

Hrafnhildur frænka mín varð þrítug þann 4. mars síðastliðinn. Þegar hún bauð mér í þrítugsafmælið þá fór ég strax að hugsa hvað ég gæti sagt um hana í afmælinu. Ég var svo á kafi í prófum síðustu tvær vikurnar fyrir afmælið sem ég kláraði sama dag og afmælið var svo ekki gat ég lagst yfir það að semja einhverja ræðu. Þó hugsaði ég alltaf um þetta annað slagið en allt sem kom upp í huga minn var einhvern vegin svo sjúklega óviðeigandi. Mjög fyndið......... en sjúklega óviðeigandi. Eitt var reyndar ekki svo óviðeigandi en erfitt var að setja það í fyndinn búning. Það var það að Hrafnhildur var alltaf besta vinkona skiptinemans. Alveg sama hvaða skiptinemi það var, hvers kyns eða frá hvaða landi, alltaf var Hrafnhildur mætt, boðin og búin að vera skiptinemunum innan handar. Svo endaði hún alltaf á því að vera eini vinur þeirra því það vill enginn vera vinur skiptinemanna. Hún þurfti ekkert að gera þetta til að eignast vini sjálf. Hún hefur alltaf átt heilan haug af vinum. Þetta var bara hreinræktuð skiptnemaphilia. Sit ég svo í sakleysi mínu í gærkvöldi að horfa á Kastljósið. Birtist þá ekki innslag um nemendaverkefni í Háskólanum á Akureyri um útlendinga búsetta í Eyjafirði. Rætt var við forsvarsmann verkefnisins og hver er það önnur en HRAFNHILDUR R. VIGFÚSDÓTTIR! Búin að finna nýjan farveg fyrir skiptinemaphiliuna sína. Vel gert cousin Hab!!

mánudagur, apríl 17, 2006

Snilldar auglýsingamennska

Á hverju er fólkið sem samdi Gevalia kaffiauglýsinguna með fyrrverandi fegurðardrottingunni?? Fyrrum fegurðardrottning, opnar Gevalia kaffipoka inni í skrifstofubyggingu og við það síga þrír "mexicóar" með sombrero á hausnum niður úr loftinu og byrja að spila á gítar í æðislega suðrænni kaffistemningu. Verulega vond hugmynd, við getum öll verið sammála um það en hugsum okkur nú hvernig þetta gerist.

1. Hópur fólks situr og brainstormar á auglýsingaskrifstofunni.
2. Einhver fær þessu ömurlegu hugmynd
3. Allir hinir á fundinum hlusta á ömurlegu hugmyndina og finnst hún góð.
4. Hugmyndin er sögð leikstjóra sem samþykkir að taka þátt í verkefninu
5. Reynt er að fá fyrrum fegurðardrottningu til liðs við verkefnið, sem samþykkir að taka þátt í þessu.
6. Reynt er að fá 3 reykvíska pilta til að leika svífandi, hressa mexicóa. Þeir samþykkja að taka þátt.
7. Upptakan er sýnd forsvarsmönnum Gevalia (gæti reyndar verið kynnt sem liður 4) sem lýst vel á þessa auglýsingu til að koma vörunni þeirra á framfæri.

Ég sé ótal útgönguleiðir þar sem einhver hefði getað kveikt á perunni og sagt: Obbobobb. Þetta er afleit hugmynd. Við skulum ekki framkvæma hana.
En einhverra hluta vegna gerðist það ekki.

Hæ Stína!!

Gaman að finna þig.

Páskahugleiðing af Barónsstíg

Ásthildur: Söl er mjög hollt. Ég er einmitt með söl hér.
Sverrir Ingi: Ha? Ertu með þang hér??!!

laugardagur, apríl 15, 2006

Þegar ég var að reyna að fá Lydiu til að vinna yfirvinnu um páskana, þá sagði hún mér að föstudagurinn langi væri henni ákaflega heilagur og ég sá að það yrði sénslaust að díla nokkuð um hann. En svo fór ég að hugsa. Ætli þær frænkurnar séu nokkuð að bardúsa við að krossfesta hverja aðra nú um helgina? Grunlausir nágrannarnir í Sólheimunum furða sig á framkvæmdagleðinni á sjálfan föstudaginn langa þegar hamarshöggin dynja frá húsinu. Og þá er sko ekkert verið að setja saman IKEA kommóðu, heldur að heiðra minningu Krists á ósérplæginn hátt. Og við þykjumst fórnfús að hafa lokað í nokkrum sjoppum. Þvílík þján.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Þögnin

Ég hef EKKERT um málið að segja.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

b2

Það borgar sig samt að lesa b2 annað slagið því í dag uppgötvaði ég að Simmi í Kastljósinu bloggar. Hann er ákaflega fyndinn og ég smellti honum samstundis í favorites. Það er prinsipp að linka ekki á fólk sem ég þekki ekki, en það veldur því að allir uppáhalds bloggararnir mínir eru í favorites. Synd.

Hver myndi ekki vilja vera ég í dag?

Því ég er einmitt komin með verstu flensu sem ég hef í lífinu fengið. Og eins og það væri ekki nóg, þá vaknaði ég með læstan háls í gærmorgun. Ekki í 1. skipti. Þannig að ekki nóg með að ég hósti viðurstyggilega sársaukafullum hósta, sem er svo særandi fyrir berkjurnar að ég er fegin þegar hrákinn gengur upp úr mér, hann smyr jú berkjurnar ögn að innan, þá er það svo sársaukafullt fyrir læstan hálsinn þegar líkaminn gengur sundur og saman í hóstaköstunum. Frábært. En ég ligg í rúminu með hitapoka við bakið og fartölvuna í fanginu. Opna e-meilið mitt, þar sem mín bíður sú skemmtilega tilkynning að ég gæti verið MÓSA smituð og eigi að koma í ræktun vegna þess. Svoleiðis að ég spyr aftur. Hver myndi ekki vilja vera ég í dag?

sunnudagur, apríl 09, 2006

GCD

Ég heyrði lagið Mýrdalssandur í útvarpinu í gær. Það rifjaði upp minningar. Ég fór í skólaferðalag eftir 8. bekk. Í skólanum sem ég var í þá, var hefð að fara hringinn í kringum landið á þriggja ára fresti með 8., 9. og 10. bekk. Það þarf tæplega að taka fram að þetta var ekki fjölmennasti skóli landsins. Sama vor gáfu Bubbi og Rúnar út GCD sem innihélt slagarana Mýrdalssandur og Kaupmaðurinn á horninu. Diskurinn (eða kannski kassettan, ég man það ekki) var að sjálfsögðu með í för sem og ghettoblaster sem við keyptum batterí í, á hverjum áfangastað. Einu lögin sem við hlustuðum á alla ferðina, voru þessi tvö. Restin af disknum (kassettunni) var ógeðslega leiðinlegur. Að sjálfsögðu kunnum við textana og sungum hástöfum og fengum aldrei leið á lögunum. En einn fékk leið. Það var bílstjórinn okkar hann Felli, Felix Antonsson á Ljósalandi. Hann brjálaðist á Kirkjubæjarklaustri og gerði ghettoblasterinn upptækann. Það sem eftir lifði hringferðar hlustuðum við á Rás 2.

laugardagur, apríl 08, 2006

Síðasti í bili

er af Jónasi Magnússyni sem helmingur lesenda veit að er skurðlæknir, en hinn helmingurinn veit það núna. Við vorum svona 8-10 manns í klínik hjá honum nokkrum dögum fyrir vitjunarprófið í kirugiunni. Menn voru misupptrekktir, ritari þessarar síðu ansi upptrekkt, og Jónas greyjið fékk lítinn frið til að vera með þessa klínik sína, svo upptekin vorum við af yfirvofandi prófi. Loksins fékk Jónas nóg og sagði: "Krakkar, það fyrsta sem þið þurfið að vita um þetta próf er, að það er öllum skítsama um það hvernig ykkur gengur á þessu prófi!! Munið bara að common things happen commonly. Ef þið heyrið hófadyn þá ekki gera ráð fyrir því að þetta sé sebrahestur. Og svo endar þetta próf alltaf eins og velheppnað afmæli með því að einn fer að grenja." Við sátum þarna þögul og pínu móðguð yfir því að öllum væri skítsama um þetta próf sem var að setja veröldina á annan endann hjá okkur (ég allavega). Þangað til að einhver spurði: "Hvað áttu við með að grenja eins og í VELheppnuðum afmælum?" Og Jónas svaraði: "Jú, eftir allar velheppnaðar afmælisveislur, þá endar afmælisbarnið grenjandi í lok dags, bugað af velgengninni."

föstudagur, apríl 07, 2006

Patreksfjarðar Tóti


getur líka verið mjög fyndinn. Mér er efst í huga saga af Tóta þegar við vorum í verklegri kennslu hjá Brynjólfi Jónssyni bæklunarlækni sem er alltaf með handboltalandsliðið. Þá var hann eitthvað að baula um impingement í öxl eða einhvern fjárann og fer að tala um lig. coracoacromiale í því samhengi. Nema að hann spyr allt í einu: "Krakkar af hverju heitir lig. corocoacromiale, ligament?" Tóti var fyrstur til svars eins og svo oft áður: "Af því að það liggur á milli tveggja beina." Og Brynjólfur svarar: "En þetta er sama beinið. Proc. corocideus og acromion eru á sama beininu." Og Tóti svarar á sekúndubroti: "En ligamentið veit það ekkert." Þarna trylltumst við úr hlátri sem þarna vorum og Brynjólfur stóð opinmynntur og sagði ekkert í langan tíma. Enn veit ég ekkert hvað hann átti við um starfsheiti umrædds ligaments sem er svo kannski ekkert ligament eftir allt saman. Meðfylgjandi er mynd af ligamentinu sem klárlega er á milli tveggja beinhluta sama beins, hvort sem það veit það eða ekki.

Ingi Karl

er ansi fyndinn. Hann segir oft brandara sem eru svo langsóttir að maður þarf að staldra við og brjóta heilann. En þegar maður loksins fattar þá, þá eru þeir mjög fyndnir. Hann sagði einn slíkan í dag í fyrirlestri um hjartabilun hjá Karli Andersen, (já óheppin frú Refur). Hann settist í sætið við hliðina á mér og spurði: "Er ég í sætinu hennar Hildar?" Já hann Ingi Karl er fyndinn.
Viðauki settur inn 08.04.06:
Ingi Karl var staddur á deild þar sem Fjölnir, annar tvíburinn, var deildarlæknir. Hjúkkurnar voru eitthvað að leita að Fjölni og spurðu Inga Karl hvort hann hefði eitthvað séð hann. Og Ingi svaraði: "Fjölnir, hann fór í klippingu."

Kryfja til mergjar

Já, hvað finnst mönnum um það að konan ætli að starfa við krufningar í sumar?? Nei reyndar eru krufningar minnsti parturinn þar sem krufningum fer fækkandi, en einhverjar verða þær þó. Þetta verður aðallega eitthvað möndl með líffærasýni og vefi. Ansi mikið fjör. Hreinlega líf og fjör.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Fölt er fagurt

MaggaH skrifar um brúnkumeðferð sem hún undirgekkst. Nú efast ég ekkert um fegurð Margrétar að henni lokinni, hún er eflaust guðdómleg. En hins vegar fattaði ég þegar ég las þetta, að ég hef snúist um 180° í smekk mínum á liftarhafti fólks. Þessu er þó ekki ætlað að vera meiðandi á nokkurn hátt. Fyrir nokkrum árum fannst mér óskaplega fallegt þegar fólk var dökkt yfirlitum á húð og hár. Enda hafa ansi margir spurt mig á síðustu misserum: "Hva?? Varst þú ekki dökkhærð??" Ég hvorki var né er dökkhærð. Ég er ljóshærð en langaði að vera dökkhærð. Nú langar mig það ekki lengur. Ég fór líka í ljós af því að mér fannst svo fallegt að vera brúnn á hörund. Nú finnst mér það ekkert frekar. Mér finnst það ekki endilega ljótt heldur, nema þegar fólk verður blátt af ljósabekkjanotkun. Það er ljótt.
Ég varð fyrir einhverri hugljómun þegar ég horfði á þátt um indverskar konur sem bleikja á sér húðina til að lýsa hana. Þar þykja fegurstu konurnar þær ljósustu og happdrættisvinningur að vera bláeygur. Þá fattaði ég að ca. 5 milljarðar af þessum 6 sem byggja þessa jörð eru dökkir yfirlitum, svarthærðir og brúneygir. Svo fæðist maður við þá lukku að vera æðislega öðruvísi, sem er skemmtilegt fyrir fólk með spesmennsku eins og mig, og maður beitir rándýrum ráðum til að líta út eins og hinir 5 milljarðarnir. Hvaða rugl??!! Og svo leit ég á ljóshærðu, bláeygu börnin mín og fattaði að ég vildi líkjast þeim meira, í stað allra athugasemdanna sem ég fékk eftir að ég átti Ingvar, hvað það væri skrítið að svona dökk kona gæti átt svona ljóst barn. Well secret solved.
Niðurstaða pistilsins er þessi: Fólk er fallegast þegar það leyfir sér að líta út eins og það gerir í raun og veru. Þá er ég að sjálfsögðu ekki að meina að fólk eigi ekki að hafa sig til, heldur reyna bara að draga fram og undirstrika það fallega í fari sínu. Og í dag finnst mér fölt og æðabert bara mjög fallegt. Sem er ótrúlegt ef einhver man eftir að hafa átt við mig samræður um þessi mál fyrir um 5 árum. Andleg vakning?

Án titils

Neikvæðar niðurstöður í læknisfræði eru jákvæðar fréttir.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Ég gleymdi

mikilvægum upplýsingum af skurðlæknaþinginu. Nefnilega því að ég vann páskaegg frá Nóa-Siríus í pílukasti. Svo segir fólk að ég sé blind og illa orienteruð. In your face!!!

mánudagur, apríl 03, 2006

Netleysi

sökkar. Þóroddur skiptir oftar um netfyrirtæki en Gísli á Uppsölum um nærbuxur, svo aðra hverja viku eru símtöl til netfyrirtækja til að plögga einhverjar leiðinda tengingar. Gubb.
Allavega, ég er komin frá Akureyri þar sem ég ávarpaði Skurðlæknaþing Íslands. Tókst að klúðra, og mér er eiginlega alveg sama hvað meðvirkniskórinn syngur, ég er ekki sátt við frammistöðuna. En ég tók ákvörðun í lok helgarinnar að fara að læra á saxófón strax næsta haust. Þá ætti ég að hafa tíma. Vona heitt og innilega að ég verði svo sett í svona blásarasveit sem samanstendur af litlum krökkum og svo mér, sem gnæfi hausi hærri yfir hópinn, þegar við flytjum Tumi fór á fætur, að mestu í réttri tóntegund. Vííííí.