luxatio hugans

awakening

föstudagur, febrúar 29, 2008

29. febrúar

Þetta er tæknilega séð aukadagur.

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Sendibréf

Fékk sendibréf frá Svíþjóð áðan. Á frímerkinu er mynd af tilvonandi tengdamömmu hans Dodda. Þ.e.a.s ef hann ætlar enn að giftast Viktoríu Svíaprinsessu. Held það sé langt í það að prentuð verði frímerki með mynd af Helgu á Fagrahvammi.

Meira af Póker

Í gærkvöldi var hér háð pókermót. Fjórða pókermótið mitt í vikunni. Á ég við vandamál að stríða? En þetta var annað pókermót okkar bekkjarsystranna. Í þetta skipti fór Hildur heim með féþúfuna. Minn tími kemur, það er bara spurning um hvenær. Árdís, sem er nýkomin heim frá Perú, vill að við köllum þetta Póker Tournament of the Doktoritas. Þær voru kallaðar Doktoritas þarna úti í Perú og henni féll það vel í geð. Fannst það eitthvað huggulegt. Endingin -ita, merkir litla. Litlu læknarnir. Ég reyndi að benda Árdísi á að viðurnefnið litlu læknarnir væri ekki nógu kúl. Það er ekki það sem við þurfum þegar við förum og tökum Gunna Geirs og félaga í ósmurt. Það er enginn hræddur um að tapa peningum til litlu læknanna. En maður þrætir ekkert við Árdísi, hún lætur sig hafa það að hlusta á babblið í manni fyrir kurteisissakir, en Doktoritas er það.

Af bakþönkum

Ólafur Sindri Ólafsson er svo grúvilega töff og djúpur að hann ritar bakþanka sem ekki er hægt að skilja. Þetta er rosalega flott form af töffmennsku. Vera bara nógu fokking óskiljanlegur og af því að viðkomandi er í tísku þá þorir engin að spyrja hvað hann sé eiginlega að fara. Allir kinka íbyggnir kolli og muldra: töff!
Ég ætla að færa mig meira yfir á þetta form tjáningar. Er alltof auðlesin þessa dagana.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Nú ef Kastljósið

er þessa vikuna að taka tal af vinsælustu bloggurum landsins..................... af hverju í andskotanum er þá ekki búið að líta við hjá mér?!

Baldur!

Leiðist þér?

Svei Ómar!

Nú má maður ekki trasha neinn lengur á blogginu á gamla góða mátann! Þessi ólundarbloggsíða sem hefur yljað svo mörgum um litlu nöðruhjartaræturnar í gegnum tíðina leggst sjálfsagt niður eins og sjálfdauð rolla nú þegar einungis má lofsyngja fólk í bloggheimum. Ég hræki á þá stefnu! Ég ætti ekki annað eftir en að fara að mala um það hvað heimurinn er fallegur og fullur af skemmtilegur fólki. Mætti ég þá heldur biðja um endursýningu á Sunnudagshugvekjunni, já og því ekki Húsinu á sléttunni í framhaldinu? Nei nú er ég önug.

mánudagur, febrúar 25, 2008

Af slæmum vinum

Ég var að vinna á laugardagskvöldið. Fékk ég þá ekki símhringingu frá konu sem ég kýs að kalla vinkonu mína með fyrirvara. Hún sagði mér að Spaugstofan væri óvenjulega fyndin í kvöld, ég yrði að horfa, og hún vissi að ég hefði ekki horft ef ég yrði ekki látin vita. Ég hnussaði eitthvað og var sem betur fer á leiðinni upp á heilsugæslustöð að hitta sjúkling og var þar sem eftir lifði kvölds. Daginn eftir var þetta helvíti endursýnt og af því að ég er forvitinn einstaklingur þá stóðst ég það ekki að tékka á þessu. Þetta var slæmt. Jafn slæmt og venjulega. Ég tók upp símann og endurgalt vinkonunni símtalið með því að segja henni að vináttu okkar væri lokið. Ég GET EKKI átt svona húmorslausa vini. Það er nú bara þannig! Hún verður að fá sitt Voltaren annars staðar eftirleiðis. Maður tognar heldur ekkert í blaki! Eigum við að ræða það eitthvað?!

föstudagur, febrúar 22, 2008

Af Valtímabilinu

Jesús, ég er að drukkna. Það hefur aldrei verið svona mikið að gera hjá mér náminu áður.

Af pókeriðkun

Hrikalegt að heyra að litla bleiuþingmannsskottið okkar sé spilafíkill í ofanálag. Það væri það ef það yrði honum að falli. En sérstaklega voru fréttirnar truflandi í ljósi þess að á miðvikudagskvöldið síðastliðið var haldið æsilegt pókermót hér í eldhúsinu. Mættar voru nokkrar konur sem eiga það sameiginlegt að ætla að útskrifast úr læknisfræði í vor. En nú er ekki gott að segja hvað verður. Þeir fara varla að veita einhverjum lækningaleyfi sem spilar hið djöfullega pókerspil sér til gamans.
Þórhildur mætti með elsta trix bransans í farteskinu, en það er ekki við hana að sakast, við hinar kolféllum fyrir blöffinu. Hún mætti nefnilega og sagðist aldrei hafa spilað póker, kynni ekki neitt, þóttist vera voðalega lengi að ná þessu, alltaf að spyrja hvað hún ætti nú að gera, og stóð náttúrulega uppi sem sigurvegari með langstærstu hrúguna og þóttist ekkert botna í þessari byrjanda heppni. Right! Það veit ég að hún og Þórður voru búin að æfa leikritið svo dögum eða vikum skiptir. En svona er pókerinn.

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Frúin er nettengd

Hell yeh!
Nú verður hægt að láta gamminn geisa að hætti ráðherra;)
Oft er ég fegin að hafa ekki byrjað að blogga fyrr en eftir 05. jan 2003.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Upphaf nýrrar viku

og ég hef ekkert að segja.
Helgin í bústaðnum var æði. Hálfvitagangur að gera ekki meira af þessu. Pallurinn var á kaf í snjó þegar við komum en erfðaprinsinn tók sig til og mokaði af pallinum í eina myndarhrúgu (pabbinn hjálpaði eitthvað að vísu) og þar var útbúið heljarinnar snjóhús. Win win......... snjóhús og auður pallur. Krakkarnir fóru endalaust oft í pottinn, gufan heillaði foreldrana meira, það var grillað og farið í bíltúra þar sem umhverfið var skoðað. En umfram allt var afslappelsi.
Ef ég ætti að ergja mig eitthvað þá var það að hafa horft á Spaugstofuna og Laugardagslögin á laugardagskvöldinu. Þvílíkur hryllingur. Húmorinn í Spaugsstofunni er svo slæmur að ég varð örg og eirðarlaus og þessi djöfulsins endavitleysa sem Laugardagslögin eru er náttúrulega óskiljanleg. Það voru einu mistök helgarinnar;)
Ég las Þúsund bjartar sólir í einum rykk. Hún er yndisleg og áleitin.
Jamm.

föstudagur, febrúar 15, 2008

Við framkvæmdirnar fór í símasnúran í sundur

og þar af leiðandi hef ég verið síma og netlaus í hálfan mánuð eða eitthvað. Eiginlega hálf notalegt ef ég á að segja alveg eins og er. Auk þess urðum við sjónvarpslaus þegar stofan var parketlögð og það var ennþá meira frelsi. Yndislegt alveg hreint.
Alveg meiriháttar skemmtileg vika að baki. 3 stórveislur á virkum dögum í þessari viku, sem hlýtur að teljast áhugavert.
Doddi á langa helgi og við erum búin að fá bústað á Kirkjubæjarklaustri og erum að fara á eftir. Við höfum verið þar áður og þetta er fáránlega vel búinn sumarbústaður. Pottur, gufa og gasgrill. Ég ætla að fara á kostum í matseldinni................ eða pottinum, ég er ekki búin að ákveða það ennþá.
Langþráð afslöppun verður að segjast.
Bið að heilsa.

laugardagur, febrúar 09, 2008

Villti Tryllti Villi

Nú er þetta náttúrulega bara orðið sársaukafullt fyrir meðvirka manneskju að horfa uppá.
Fyndnasta samt er að Ingvar er blárra en allt blátt og hann lýsti því áhyggjufullur yfir í gærkvöldi að nú væri Vilhjálmur búinn að klúðra svo miklu að nú myndu ábyggilega allir kjósa samfylkinguna og þá yrði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri aftur. Þetta mælti hann myrkur í máli.
Ingvar fylgist betur með en ég þessa dagana. Það var alveg einstaklega fyndið þegar hann var búinn að gefast upp á því að ræða uppgjör bankana í Evrum við mig og réðst því til atlögu við Önnu Maríu sem horfði alveg blankó á drenginn. Ingvar skilur nefnilega ekki af hverju Seðlabankinn vill ekki leyfa bönkunum að gera upp í Evrum, en það fer ennþá meira í taugarnar á honum að mamma hans skilur það ekki heldur, eða réttara sagt.......... veit ekkert um hvað hann er að tala.

föstudagur, febrúar 08, 2008

Af deodoröntum

Á Barótímabilinu ógurlega, vorið 2005, fann ég einhverju sinni ólykt úr armkrika mínum. Sigurður vinur minn var með Neutral deodorant á borði sínu og ég spurði hvort ég mætti ekki fá í sömu andrá og ég fékk mér smá smurningu í handakrikann og taldi mig jafnvel vera gera alheiminum öllum greiða. Sigurður sá það kannski ekki alveg þannig og horfði skringilega á mig og sagði svo að ég mætti bara eiga deodorantinn. Þá varð ég undrandi, því eins klígjugjörn og ég er, þá finnst mér handakrikar bara einhvern vegin ekki ná inn í kaunin á manni, þið vitið, engin hætta á að maður fái neitt upp í sig eða svoleiðis. En allavega. Deodorantinn ágæti var minn. Þetta merki, Neutral, hafði ég aldrei prófað áður, enda bara notað fín merki sem fóru með ilmvötnunum sem ég átti í það og það skiptið. En þetta var án efa sá albesti deodorant ever og þó fengin hálfpartinn ófrjálsri hendi, og ætti því skv. spekinni ekki að vera sætur og gómsætur. Og hver er nú kveikjan að þessari bráðskemmtilegu sögu? Jú staukurinn kláraðist í vikunni, og þurfti ég því að fjárfesta í öðrum. Það góða er að maður fær hann í Bónus. BESTI DEODORANT EVER Í BÓNUS! Hefði eiginlega átt að kaupa tvo og senda Sigurð með annan með sér til Nepal. En það er of seint. Hann er farinn.

Hugmynd að nafni

Ég þekki par sem eru góðir vinir mínir. Hans föðurnafn er Karlsson, hennar er Bjarnadóttir. Því finnst mér eðlilegast að frumburðurinn fá nafn idolstjörnunar föllnu.

Mitt síðasta?

Hélt ég yrði ekki eldri í gær þegar Doddi lét út úr sér: ".................... annars er ég ekki mikið fyrir kökur!"

laugardagur, febrúar 02, 2008

Af æðaleggjum

Ég er með einhverja óstjórnlega löngun til að setja upp bláa venflo í vinstra handabakið á mér. Einhendis með hægri.