luxatio hugans

awakening

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Af meiðyrðamálum

Þegar dæmdur glæpamaður getur farið í meiðyrðamál við einhvern sem segir að hann sé dæmdur glæpamaður, er þá ekki eitthvað að?
Eða reyndar má hver sem er fara í meiðyrðamál, en guð hjálpi okkur ef gaurinn er með case. Því hann ER JÚ DÆMDUR GLÆPAMAÐUR!

sunnudagur, júlí 27, 2008

Þemað er elskulegheit

og árangurinn mældur í brosum!
Hljómgrunnur verslunarmannahelgarinnar á Akureyri í ár. Þráhyggja bæjarbúa varðandi álit landsmanna á ímynd bæjarins er vægast sagt leiðigjörn.

Blokkarlíf

Það er eitthvað lið í blokkinni minni að bora og negla. Mér finnst það voða leiðinlegt og Mói the dog er hræddur. Hvernig ætli það hafi verið að vera nágrannar okkar í þessa 9 mánuði sem endurbætur stóðu yfir? Það kvartaði reyndar aldrei neinn nema dópistinn sem bjó í næsta stigagangi sem kom einu sinni klukkan 10.00 á mánudagsmorgni og snappaði á opinmynntan Jósavin frænda minn því hún gat víst ekki sofið. Jósi leyfði henni að hella úr skálum reiði sinnar og hélt svo áfram að saga. Lærdómurinn er þessi: Ekki dópa á sunnudögum því það gætu einhverjir verið að framkvæma á mánudögum.

p.s Dodda finnst voða gott að sofa undir Siggu Beinteins og Maríu Björk á fullu blasti. Ester hætt að horfa og farin að púsla inni í herbergi en Doddi á pottþétt eftir að vera með einhver hrikaleg leikskólalög á heilanum þegar hann vaknar.

föstudagur, júlí 25, 2008

Kannski er ég bipolar

en ég er allavega miklu hressari í dag og var mestan part kát nema þessar mínútur þar sem ég átti í innri baráttu með hvort ég ætti að fara og skalla mann. Ekki sjúkling þó, svo það sé á hreinu fyrir það fólk sem allt þarf að mauksjóða og brytja smátt ofaní.
Doddi og Snorri áttu leið hjá á deildina mína í þann mund er ég kafrjóð í framan af bræði hugðist fara og standa á rétti mínum. Þeir töldu mig ofan að því. Líklega mjög skynsamlegt þó hitt hefði getað verið skemmtilegra. Kannski ekki til langframa þó, eða ég veit það ekki.

Uppgjör dagsins:
Fjöldi sem óskaðist skallaður: 1
Fjöldi skallaðra: 0

Ef það er ekki framför, þá veit ég ekki hvað!

LOST

Afsakið ég hef ekki horft á Lost í ár, en hvaða andskotans einbýlishús eru þetta allt í einu út um allt?? Rólegir með bókahillurnar og málverkin. Hvaða rugl er þetta?!

fimmtudagur, júlí 24, 2008

Það er ekkert að gerast hérna

En ég spái úrbótum. Ég er nefnilega að verða alveg sullandi geðveik og þá er von á hressum færslum. Í stuttu máli sagt er nýja vinnan mín að valda mér vonbrigðum. Eða það er eiginlega farið fínt í sakirnar. Nýja vinnan mín gerir mig ákaflega, ákaflega óhamingjusama. Svo óhamingjusama að ekki einu sinni tilkynning frá EMMESS um endurkomu Boxara með oreo gæti gert mig glaða á ný. Tilfinningin er eiginlega smækkuð útgáfa af því að fara í bíó með sjúklega miklar væntingar. Þær myndir verða einhvern vegin alltaf slæmar. Einhverjum lúðum sem slysast inn á myndina því það var uppselt á myndina sem þeir ætluðu á, gæti þótt hún skemmtileg, en væntingarnar hjá spenntum áhorfandanum eru kramdar. Setjið nú í samhengi að halda í 7 ár að bíómyndin verði svo góð að tilgangur lífsins muni opinberast manni á henni. Það er ekki að gerast. Kókið er súrt, poppið er of salt og helvítis bíómiðinn kostaði einhverjar milljónir!

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Af nýjum link

Set link á fótboltasögur SiljuSt. Hún á dóttur, Hildi Karitas sem stefnir í að verða næsta Margrét Lára Íslands. Hún var einu sinni kærastan hans Ingvars en er það ekki lengur, sem er kannski eins gott því ég veit ekki hversu gott egó boozt það er að láta kærustuna sína taka sig í bakaríið í boltanum.
En allavega - áfram fótboltastelpur- áfram Ísland á EM!!

laugardagur, júlí 19, 2008

Af öðru

ekki síðra baráttu- og kjaramáli. Ég legg niður störf ef landspítalinn hættir ekki að sauma þessa helvítis læknasloppa með litlu vösunum! Það er nógu pirrandi að þurfa að dröslast með allt þetta drasl utan á sér þó að það bætist ekki ofaná að koma því hvergi fyrir.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Gullkorn dagsins

Þegar sökkið er orðið jafn hátt og hemoglobinið þá vita meira að segja orthopedarnir að það þarf að gera eitthvað!

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Af kjaramálum

Ég ætla að fella kjarasamninginn sem undirritaður var fyrir mína hönd og hækkar grunnlaun mín úr 267.000 kr. í heilar 278.000 kr. Það er góðum 9000 krónum lægra en ríkið bauð í upphafi. Gráðugt hálaunafólk hef ég heyrt. Já já, það er fínt, þá ætla ég bara að vera gráðug áfram. Gott að slefa ekki í 300 þús kallinn á sínu 7. háskólanámsári.
Þessi hækkun dekkar allavega ekki hækkunina á afborgunum af lánunum sem ég tók til að koma mér í gegnum þetta nám. Sem er alveg þokkalega skítt fyrir mig og mitt fólk.
Ríkið er með miklu betri lækna í vinnu en þeir eiga skilið. Þeir kosta okkur jú í gegnum þessi 6 ár í læknadeild. Þeir borga okkur skammarlega lág laun fyrir þegnskylduvinnuna á kandidatsárinu sem á að heita 7. námsárið og svo fara íslenskir læknar út í sérnám á eigin kostnað, auka svolítið skuldahalann sinn og fá hágæðamenntun í öðrum löndum sem íslenska ríkið ber engan kostnað af. Eða þannig horfir þetta fyrir mér.
Annars er ég hress.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Af umkvörtunum

Mér hafa borist kvartanir um bloggleysi. Reyndar bara frá einum manni, Örvari Gunnarssyni og ég held að það sé vegna þess að hann saknar þess að sjá ekki SOAP nótur um sjálfan sig hér á blogginu. Ég er einmitt á teyminu hans Össa þessa dagana og læri betri læknisfræðileg handtök og meiri medicinska nákvæmni undir hans handleiðslu. Það er ákveðin goggunar og virðingarröð í þessu fagi og sá sem heldur öðru fram er með hausinn á kafi í rassgatinu á sér. Kandidatinn reynir að þóknast deildarlækninum og báðir reyna að þóknast sérfræðingunum. Þess vegna sveiflast tilfinningar mínar á daginn á milli þess að segja Örvari, sem ég hef þekkt forever, að halda kjafti eða hlýða og gera eins og mér er sagt. Reyndar langar mig alls ekki oft að segja Örvari að halda kjafti, það er helst þegar hann kemur mér í svona "sýndu mér hvað þú getur" aðstæður. Annars hlýði ég bara og geri það sem mér er sagt. Ég er voða blíð og ljúf, það geta allir vitnað um það. Lítið og viðkvæmt blóm sem gerir aldrei neinum neitt og allir valta yfir. Lítið puntstrá sem titrar af sorg yfir kjörunum sínum.

föstudagur, júlí 04, 2008

FL Group verður Stoðir

Og mér finnst það bara eitthvað sjúklega fyndið. Það veit enginn lengur hverjir heita hvað og hverjir voru hvað og eru hvað núna. Fólk veit ekki einu sinni hjá hvaða banka það er, æi þessum sem var einu sinni Búnaðarbanki eða Íslandsbanki! Það segist enginn vera hjá Byr. "Ég lagði allt mitt fé inn hjá bankanum sem auglýsti svo skemmtilega með flugdrekum og vind í hárið."
En jæja jæja, ef það að endurskíra hlutina bætir rekstrargrundvöll þá ætla ég svo sem ekki að fetta fingur út í það. Ég er bara aumur kandidat með 267.000 í laun á mánuði svo augljóst er að ég veit ekkert hvað það er að þurfa að fjárfesta.  En ég er að hugsa um að sækja um sem ljósmóðir eða fara í verkfall. Ég get ekki ákveðið hvort. 
Þegar ég kom heim af næturvaktinni í morgun hljóp Ingvar á móti mér og kallaði "Mamma, mamma! Það er einhver kall  í Chicago að halda niðri í sér andanum og reyna að slá heimsmet!" Jú viti menn. Gæðasjónvarpsþátturinn Oprah þar á ferð. Ég held að sumir ættu að hætta að grenja yfir Opruh. Nefni engin nöfn. 

þriðjudagur, júlí 01, 2008

HALLÓ!!

Það mætti halda að ég væri æðislega glöð, hamingjusöm og frjáls ef horft er til þess hve lítið ég hef hreytt í menn og málefni á síðustu dögum. Óttist eigi. Ég er jafn úrill og venjulega, jafnvel önugri en þrem dögum fyrir próf en samt bólar ekkert á færslunum. Hvað er það?!
Ég er farin að sakna eina fólksins sem kemur í óvæntar heimsóknir til mín. Þegar dyrabjallan hringir og ég á ekki von á neinum, þá er það annað hvort pósturinn eða Ólöf og Beisi. Ó + B eru búin að vera í löngum Evróputúr, og þykir mér orðið nóg um skortinn á "inndroppinu". 
Þá er ég búin að kvarta undan því. 
Næst langar mig til að kvarta undan launaseðlinum sem forstjóra Landspítalans og Ríkisféhirði datt í hug að misbjóða mér með í gær. Já einmitt. Það er nefnilega þannig að stundum fær maður sig ekki til þess að hætta í vinnunni klukkan 16.00 útaf óleystum vandamálum og hlutum sem þarf að fylgja eftir, þrátt fyrir að ég viti vel að ég fæ enga yfirvinnu borgaða. En einhvern vegin grunar mig að þessi ágæti launaseðill sem ég fékk í gær muni hjálpa mér við að leggja frá mér ókláraðar beiðnir klukkan 16.00 og pilla mig heim til barna minna sem kunna að meta nærveru mína. Jamms.