Það hefur örugglega ekki farið framhjá nokkrum manni að nú á sér stað kosning á
þjóðarblóminu. Ragna S. Sveinsdóttir skrifar af því tilefni
grein í Morgunblaðið, þar sem hún útlistar nákvæmlega, hvers vegna hún telur að fífan eigi skilið að hljóta hinn eftirsótta titil. Ég er svo illa innrætt, eins og margoft hefur komið fram, og bara gat ekki varist hlátri yfir ákafa konunnar.
Hún segir m.a (ath. að hlutir eru slitnir úr samhengi):
Góðir landsmenn, nú styttist sá tími sem þjóðin hefur til þess að íhuga val á þjóðarblómi eða plöntu;
miklu skiptir að vel takist til og að valið verði hvorki
illa grundað né
handahófskennt.
fífa; hana þekkja flestir, hún er sérstök, stílhrein, sterk í formi og
myndrænt séð kjörin sem táknmynd
Fífa er mjög áberandi planta, ekki síst aldinið, sem má telja
eitt fegursta djásn íslenskrar náttúru og skrýðir landið lengur en nokkur önnur tilgreindra plantna Landverndar, eða frá sólstöðum þar til ullin fýkur burt með haustvindum.
Hve einkennandi fífa er fyrir landið sést best á því hvílíka eftirtekt hún vekur meðal erlendra ferðamanna, en hún er
fyrsta og að jafnaði eina plantan sem þeir spyrja hver sé, strax á fyrsta degi ferðar um landið.
Og enn fremur og takið vel eftir:
fífa er þannig undirstaða andlegrar jafnt sem verklegrar menningar landsins og um leið tákn ljóssins í tvöföldum skilningi þar eð hún skrýðir landið einnig umfram aðrar plöntur í nóttlausri voraldarveröld íslensks sumars.
Og lokahnykkurinn í málflutningnum:
Það skal að lokum tekið fram að einstaka aðrar plöntur á lista Landverndar, svo sem birki og hvönn, eiga athygli skilið við val á þjóðarplöntu, en allir gátu lifað án þeirra á meðan enginn komst af án fífu.
Sorry, en ég grét úr hlátri þegar ég las greinina. Nú býð ég spennt eftir næsta mogga til að vita hvort aðdáandi Lambagrassins mun skrifa harðort svar við grein Rögnu, þar sem hann rekur rökvillurnar ofan í hana. Ég vonast eftir sem æsilegastri kosningabaráttu í kjörinu um þjóðarblómið. Já það verður spennandi að sjá.