luxatio hugans

awakening

föstudagur, október 29, 2004

Nýjasti linkurinn

Ég set inn link á nýja barnið mitt. Ég áttaði mig á því að það væri náttúrulega gróf mismunun að linka einungis á annað þeirra. Þetta er eitthvað nýtt sem þarf að lærast. Að mismuna ekki. Það verður sjálfsagt púl. Hún er ekkert lík mér eins og ég taldi mér trú um í upphafi. Hún verður alveg eins og Þóroddur eins og hitt eintakið. En það er bara gaman að því, enda Þóroddur einstaklega geðslegur piltur að sjá, eins og Svanhildur afasystir mín sagði.
Svo er Gyða systir mín komin með hlutverk í Oliver Twist, eftir margar áheyrnarprufur og niðurskurð er skísan komin með hlutverk, vitum ekki enn hvaða, en þetta er bara rosalega skemmtilegt. Maður fer þá sennilegast á frumsýningu um jólin. Jamm.

þriðjudagur, október 26, 2004

Prinsessa fædd

Jæja barnið fæddist loks með látum á sunnudaginn 24. okt. Hún kom með hvell þegar hún loks kom. 3 og hálfur tími frá fyrstu verkjum þar til hún var fædd. Það er bara kúl.
Við köllum hana Grimmhildi Grámann, því hún er svo brúnaþung. Alveg eins og mamma hennar. En við erum ekkert grimmar, við erum bara svo mikið að spekúlera. Ingvar veit ekki alveg hvernig hann á að vera greyið. Hann er enn að finna sinn nýja status. Hann sagði: "Iss, hún er ekkert sætari en ég var þegar ég fæddist"

sunnudagur, október 24, 2004

Sénsinn!!

Ég er ekki að kaupa þetta!! Voru 8 miðar til sölu?

laugardagur, október 23, 2004

Af kennaraverkfalli

Einhverra hluta vegna hefur samúð mín með kennurum ekki verið mikil í þessu verkfalli. Strax þegar ljóst var að stefndi í verkfall þá var samúð mín með kennurum farin. Eftir það hefur það margítrekað gerst í þessum viðræðum, að ég fæ hreinlega andúð á sjónarmiðum kennara, hvort sem lélegum fréttaflutningi eða mannvonsku minni er um að kenna. Fall sáttatillögunnar sem er í öllum fjölmiðlum í dag, gerði svo útslagið. Hvað eru menn að pæla. Það er með öllu óskiljanlegt að í landi þar sem ríkir skólaskylda, sem fyrir mér útleggst að börnin séu hreint og beint skyldug til að mæta í skólann, sé hægt að svipta börnin skólagöngu. Mér finnst að ríkið eigi að koma í veg fyrir að einhver stétt fólks svipti barnið mitt skólagöngu. Með því að setja lög. Það eru alltaf sett lög á sjómenn. Setjum lög á kennara.
Í morgun fékk ég svo ógeð. Ég viðurkenni að ég vakna úrill og pirruð, komin viku framyfir. Ég næ mér í Fréttablaðið og les opnuviðtal við kennara sem hefur það svo skítt að hún selur sig að skóladegi loknum. Þessi kona sem er einstæð með engin börn á framfæri sér enga aðra leið til að framfleyta sér en þá að selja sig. Hvaða ömurlegi djöfulsins áróður er þetta? Á þetta virkilega að sannfæra mann um það að kennarastéttin sé sú stétt í landinu sem hefur það hvað verst?
Úbbs, rosa stress að kúnninn gæti verið pabbi einhvers í bekknum, híhí. Samt er hún svo viðkunnaleg og sakleysisleg að engan gæti grunað að hún sé hóra. Mér varð hugsað til kennara sonar míns, sama munu eflaust margir gera. Ég veit að þetta er bara einn hálfviti sem kemur óorði á marga, en mér er skítsama. Ég er búin að fá nóg. Til fjandans með málstað kennara!!!!

föstudagur, október 22, 2004

Þjóðarblómið III

Þá er þessari æsispennandi kosningu lokið. Sigurvegarinn er Holtasóley sem er vel að sigrinum komin. Jæja, hvað er hægt að kjósa um næst?

Shit maður

ég kom svo sæt heim úr klippingu og litun að ég vildi óska að ég væri Doddi. Nú verð ég alveg svakalega flott í fæðingunni. Nema barnið láti bíða svo lengi eftir sér að ég verði komin með rót aftur.

Sálarstríð

Ég er komin í sálarstríð við ófætt afkvæmi mitt. Ég er svakalega þroskuð og vel til þess fallin að vera einmitt að eignast mitt annað barn. Í gær sagði ég hátt og snjallt: "Jæja, þú þarft að eyðileggja allt fyrir mér. Ég panta mér bara tíma í klippingu og litun á morgun. Þú vilt kannski skemma það líka??!! Þá kannski viltu fæðast??" Og svo glotti ég við tönn, og hugsaði með mér að þarna hefði ég sennilega náð henni. En jæja gott og vel. Ég er á leiðinni í klippingu. Bara núna í hádeginu. Þannig að ég fattaði hvað fór úrskeiðis. Hún sá náttúrulega í gegn um þetta allt saman. Hún er útsmognari en ég. Það sem ég hefði átt að gera, er að fara á hárgreiðslustofuna í gær og fá að borga fyrir klippinguna fyrirfram. Þá hefði hún látið til skarar skríða. Hvað get ég sagt. Ég er bara viðvaningur í því að fást við svona undirförult lið.

miðvikudagur, október 20, 2004

WTF?

Maður veit

að makinn elskar mann, þegar hann kemur heim með ís sem er búið að taka af markaðnum. En það gerði einmitt hann Doddi minn. Ég var brjáluð í Boxara með oreokexi þegar það var selt. Svo framleiddu þeir á tímabili skafís með oreokexi. En ég hef sennilega verið eini Íslendingurinn sem keypti þetta því þetta var tekið af markaðnum:( En hann Doddi minn fór upp í Emmess í gær og kom heim með uhumm....... 5 lítra af Boxara með oreokexi. Hann naut reyndar dyggrar aðstoðar verslunareigandans og forstjórans Ragnars Veigars Guðmundssonar og kann ég honum því þakkir fyrir það. Annars ætti að taka verslunarleyfið af Ragga þar sem hann afgreiddi strokufanga um símkort eftir flóttann úr fangelsinu á Skólavörðustíg. Er það ekki aðstoð við flótta undan réttvísinni? Er hann þá ekki samsekur?

þriðjudagur, október 19, 2004

Þriðji í framyfir

og geðheilsan er merkilega góð.
Var á mjög áhugaverðri samkomu í morgun, þar sem viðstaddir voru við Þóroddur, fæðingarlæknir og ljósmóðir. Samkoman fór þannig fram að ég lá, ber að neðan, með fæturnar í mjög hlýlegum fótístöðum. Fæðingarlæknirinn treður upp í leggöngin á mér, ísköldum speculum, og treðst svo upp á leghálsinn á mér með þurran bómullapinna sem hún snýr í hringi. Á meðan gefur hún ljósmóðurinni fyrirmæli, um að bora fingrunum á sér eins langt og hún kemur þeim ofan í grindina á mér, taka um hausinn á barninu, og hrista hann. Ég veit að ófætt barn mitt hefur vaknað af værum blundi og hugsað: "What the f....?" Eða kannski blótar hún ekki. Ég veit það ekki, ég hef ekki hitt hana.
En þetta var ágætis afþreying í morgunsárið. Síðan var ég send heim með svefntöflu. Það var freistandi að fara á fyllerí skv. læknisráði, en ég gerði það nú samt ekki. Heldur leigði ég mér leiðinlegustu spólu sem ég gat ímyndað mér, nei það er ekki rétt, Doddi ræfillinn var sendur á leigu, og fyrir hádegi á þriðjudegi leigði hann væmna kerlingarmynd. Hann sagði að kúlið hefði ekki verið spes:)
Ástæðan fyrir aðförunum gagnvart líkama mínum, er að hann er að sýna einhverja variantahegðun, sem þeir geta ekki staðfest með prófum og þá fríka þeir. Ég held að þessi krakki sé bara að sýna mér að hann ætlar að vera óþekkur. Það verður tekið á því, og það engum vettlingatökum.

JESS

Ég og allir hinir í félagi enskunema fengum sent geðveikt tilboð á prentun og ljósritun í dag. Af hverju er ég nú aftur meðlimur í félagi enskunema???

sunnudagur, október 17, 2004

Sonur minn

hlýtur að vera gáfaðasta 6 ára barn á landinu. Nei í heiminum. Doddi og Ingvar ætluðu út á Valsvöll í bolta í gær. Doddi sagði að þeir yrðu að vera með klukku og hvort Ingvar gæti farið með sína. Ingvar vissi ekki hvar úrið hans var en sagði við Pabba sinn: "Sko, við tökum með okkur glas og fyllum það af brennandi heitu vatni. Svo þegar vatnið er orðið volgt, þá erum við búnir að vera pínu lengi og þegar vatnið er orðið kalt, þá erum við örugglega búnir að vera alltof lengi."
Þessi heili á eftir að afreka eitthvað ógurlegt. Mamma hans tók krakkalýsi alla meðgönguna. DHA fitusýrurnar. Aha. Enda segja það allir leikskólakennarar og kennarar sem hafa haft með hann að gera. Ingvar á eftir að verða eitthvað mjög merkilegt. Ekkert mont í gangi hér. Bara kalt mat. Blákalt mat.

Áhugavert

er að Hrefna Díana vinkona mín átti barn í morgun. Hún var ekki skrifuð inn fyrr en 29. oktober og þetta gæti kannski sveiflað mér eitthvað ef ég væri ekki í þrusu andlegu jafnvægi. Jamm. Annars klökknaði ég þegar ég fékk sms-ið. Ég hef frétt af þó nokkrum barnsfæðingum upp á síðkastið en hef ekki klökknað fyrr en nú. Annars er gaman að segja frá því að Begga Lee gaf mér og Hrefnu alveg eins peysusett á krílin. Hrefna fékk blátt og ég bleikt. Upphaflega kom Begga með bláa peysusettið til mín. Ég leit ofan í pokann og sá þessa bláu peysu, húfu og sokka, allt voðalega fallegt EN BLÁRRA EN ANDSKOTINN!! Ég hélt andliti, afar elegance, og var að pæla í því hvern andskotann hún væri að plotta, því ég var búin að básúna út um allt land að ég ætti von á stelpu. Þannig að að ég fattaði að Bergþóra var með eitthvað statement. Annað hvort að stelpur væru sætar í bláu eða að Guð hefði sagt henni að ég gengi með strák. Allavega þá kyssti ég hana fyrir gjöfina. Daginn eftir er Kristín Linda hjá Beggu þegar Bergþóra rekur upp öskur. Þá fann hún bleika settið og fattaði að ég hafði fengið bláa. "Nú skil ég svipinn á Allý þegar ég gaf henni gjöfina!" Again. Þá á ég greinilega ekki auðvelt með að fela tilfinningar mínar þó svo ég haldi það. En við Hrefna vorum báðar búnar að ákveða að börnin færu í peysunum heim, þannig að nú þarf ég að koma mér upp á fæðingadeild í dag, með einhverjum ráðum. Þetta væri nefnilega Kodak moment. En allavega. Innilega til hamingju, Hrefna og Hörður, með að hafa átt barn á undan mér, bjánarnir ykkar!!

föstudagur, október 15, 2004

Bæðevei

þá finnst mér Esjan alveg ótrúlega ljótt fjall.
Annars ákvað ég að setja inn þessa mynd af mér, ef ættingjar og vinir fyrir norðan og í útlöndum vilja sjá hvernig meðgangan er að fara með mig.

Vanfærni mín

Ég er að heyra það að fólk sé að fara inn á síðuna oft á dag til að athuga hvort ég sé búin að eignast barn.
Það er ekki svo..... urrrrrrrrr:(
Hér sit ég enn, á stærð við Esjuna, og stemningin er ekkert spes.
Reyndar ætti ég ekki að gleyma að þakka fyrir það, að allt gekk upp í sambandi við prófin mín. Ég kláraði þessa próftörn og gekk vel áður en barnið fæddist og það var alltaf það sem stefnt var að. En nú er liðinn sólarhringur frá því prófin kláruðust og það er nákvæmlega sólarhringur of mikið til að vera ólétt áfram.
Jæja Þá er ég farin að stunda heimaleikfimi og nudda punkta sem ku eiga að vera á ökklunum og eiga að koma af stað fæðingu. Er kannski einhver þarna úti sem er tilbúinn að nudda á mér ökklana á meðan við Þóroddur stundum heimaleikfimi? Mig grunar að það geti verið áhrifaríkt að blanda saman svona góðum húsráðum.

miðvikudagur, október 13, 2004

Áfram Ísland

Vúhú!!!!!!!
4-0 í fyrri hálfleik.
Svona á að gera þetta strákar.

Súrt

Af hverju er síðasti dagurinn fyrir síðasta prófið alltaf svona súr og skrítinn??
Ég er ekki í góðri stemningu.

þriðjudagur, október 12, 2004

Cop killer

Hey, fyrst aðrir blogga um það.......... þá blogga ég um það.
Einn matargesturinn minn frá því á sunnudagskvöldið á sér nefnilega all sérstæða sögu. Henni var nauðgað og misþyrmt af 5 löggum í Bandaríkjunum. Hún borgaði fyrir sig með því að drepa 4 þeirra. Hversu oft gerist það í lífi sérhvers manns að hann setji hvítan dúk á borðstofuborðið sitt og bjóði löggumorðingja í mat?? OG ER BARA ALVEG RÓLEGUR MEÐ ÞAÐ! Bað Dodda bara vinsamlegast að vera ekkert að þukla neitt mikið á henni óumbeðinn. Þessi kona var fyrst meðhöndluð við syfilis þegar hún var 8 ára. Þá var mamma hennar búin að selja aðgang upp á hana síðan hún var 4 ára. Og í dag segir hún að þetta sé ekkert til að vera væla yfir. Svo vildi gellan fá að sjá vögguna sem barnið á að fá, og fór næstum að skæla þegar hún sá Bambasængina. Já svona er þetta. Við eigum öll okkar fortíð en getum samt klökknað yfir Bambasæng. Kannski þarf maður einmitt að eiga fortíð til að klökkna yfir Bambasæng.
Mér er farið að þykja vænt um fortíðina mína í dag. Hlutir sem ég hefði viljað grafa yfir og gleyma áður. Það er nefnilega að renna upp fyrir mér að lífsreynslan gerir okkur að því sem við erum. Og lífsreynslan fæst hvergi keypt og ekki er hægt að lesa sér til um hana. Fólkið sem ég hef kynnst á síðustu tveimur árum sem á sér svarta sögu og hefur unnið sómasamlega úr henni er fólkið sem er að kenna mér hvað mest í dag. Heyrði eitt sinn sagt að mantran "nam jo
ho renge kiyo" þýddi að upp úr mestu drullunni vex fegursta lótusblómið. Það er nokkuð mikið til í því. Sagan mín, gerir mig að því sem ég er í dag. Og ég myndi ekki vilja vera nein önnur.

mánudagur, október 11, 2004

Æsilegt matarboð

Í gærkvöldi hélt ég æsilegt matarboð og komu einar 14-15 konur. Þar af voru 4 bandarískar. Sjálf lagði ég ekkert sérlega mikið af mörkum þar sem það mætti kokkur hér heim í hús um 4 leytið og byrjaði að elda dýrindisrétti, það var ágætt þar sem ég er eiginlega að læra ónæmisfræði þessa dagana. En það voru mikil læti þegar gellurnar mættu á svæðið, sérstaklega í þessum bandarísku sem hlógu hátt og töluðu hátt, og þegar þær svo settust við píanóið og fóru að syngja þá var ég viss um að nágrannarnir héldu að ég væri dottin í það og nýtt partýtímabil væri hafið á 4. hæðinni. Kannski einhverjir lesendur muni eftir party sem haldið var í kringum afmæli Þóroddar, uhhh.... sem laganna verðir þurftu að hreinsa. En allavega. Þær urðu alveg agndofa þegar kokkurinn bar fram skreytta diskana og ein þeirra stundi: "What have we done to deserve all this?" Og sú þeirra sem var hvað mest með munninn fyrir neðan nefið svaraði: "We got drunk and passed out, that's what!" Sú hin sama sagði: "When you're having egg and bacon for braekfast, you know that the hen was involved but the pig is commited!!" Og það fannst mér ansi góður brandari. Annar góður brandari sem gellan sagði var: "Do you know why those Al-anons have sex with their eyes closed? They can't stand to see an alcoholic having fun!"

Ja hérna

Það er greinilegt að þessir vísindamenn, hittu mig aldrei.

fimmtudagur, október 07, 2004

Þjóðarblómið II

Ég er farin að halda að fólkið sem skrifar í blöðin lesi bloggið mitt. Það lét nefnilega ekki á sér standa að menn færu að svara Fífu aðdáandanum. Í dag er einhver gaur að agitera fyrir Holtasóley í þessu kjöri. Hann var náttúrulega ekki nálægt því jafn fyndinn en hann hefði meira til síns máls að mínu mati. Nú er ég í ógurlegri togstreitu varðandi atkvæðið mitt. Því Guð forði mér frá því að val mitt verði illa grundað.

Áfram Viggó!!

Ég er rosalega sátt við að Viggó hafi fengið starf landsliðsþjálfara. Ég er ansi hrædd um að núna hafi nokkrir misst áskriftarsæti sitt í landsliðinu og menn þurfi raunverulega að fara sýna hvað þeir geta. Nefni engin nöfn en mig rennir svona í grun um að D. Sig. hafi leikið sinn síðasta landsleik.

Forræðishyggja mæ es!!

Ég er ekki par sátt við pistil sem Hafsteinn Þór Hauksson skrifar í Fréttablaðið í gær. Sannaði fyrir mér, enn og aftur, að lögfræðinám skilar fólki engu þegar kemur að brjóstvitinu. Þar fárast hann yfir forræðishyggju heilbrigðisráðherra, (sem ég veit að er í samstarfi við Landlækni um málið) sem hann kallar svo, að vilja banna reykingar á opinberum stöðum. FÓLK Á AÐ FÁ AÐ VELJA SJÁLFT. Jejeje jarí jarí jarí jarí. Hann segir að reyklausa fólkið geti þá bara valið sér reyklaus veitingahús og aðra skemmtistaði. Hvar eru þessu reyklausu veitingahús? Jú, Grænn Kostur og Á næstu grösum. En setjum nú málið svo fáránlega upp, að nú sé ég ekki grænmetisæta, ÞRÁTT FYRIR að ég sé reyklaus, og mig langi hreinlega í blóðuga steik með feitri bernaisesósu. Hvert á ég þá að fara? Vissulega er fullt af reyklausum borðum á reykveitingastöðum, en það útaf fyrir sig er svo mikill brandari að ég nenni hreinlega ekki að fara út í þá sálma.
Þetta snýst ekki um forræðishyggju fyrir mér. Forræðishyggja snýst um að vita hvað er reykingarmanninum fyrir bestu og reyna að stýra honum til betri vegar. Ég hef sagt það áður að það er öllum skítsama þó reykingafólkið haldi áfram að drepa sig. Reynið bara að vera fljót að því. Þetta snýst um MINN RÉTT að vera í reyklausu umhverfi. Reykingafólk er eigingjarnasta fólk sem fyrirfinnst. Því finnst það eiga skýlausan rétt til að reykja undir berum himni t.d. En það raðar sér í hálfmána fyrir utan alla útganga, þannig að ég þarf að labba í gegn um það til að komast sjálf út. Ég stóð í röð í Fokking Fjölskyldugarðinum, for crying out loud, þegar konur fyrir framan mig og aftan í röðinni, kveiktu sér í. Þær voru jú undir berum himni, og allt reykingafólk veit að reykurinn fer beint upp og ekki á neinn annan. Reykið yfir börnunum ykkar ef ykkur finnst það viðeigandi, en látið það endilega vera að reykja yfir mínu barni.
Eins þegar ég beið í röð á Damien Rice tónleikana, þá var reykt allt í kringum mig og eins inni á staðnum. En skv. Hafsteini þá á ég bara sjálf að geta valið mér reyklausa viðburði, og hefði því bara átt að sleppa því að fara á tónleikana. Right?
Nei. Ég á að geta farið hvert sem ég vil án þess að það sé reykt ofan í mig. Það á ekki að skerða mín réttindi við það að valda engum skaða, það á að skerða réttindi fólks við að valda skaða. Við erum með ákvæði í Stjórnarskránni sem segir að við megum ekki drepa aðra. Notum það hér líka.
Annars hélt ég að ég hefði verið fúl eftir mökkinn á tónleikunum en það var ekkert miðað við Snorra vin hans Dodda, sem ætlar að labba um og míga utan í fólk, næst þegar hann lendir í svona. Og það besta við það er, að það er skaðlausara að láta míga utan í sig, en reykja ofan í sig. Kannski svolítið ógeðfellt samt.

þriðjudagur, október 05, 2004

Grasalækningar sökka

Í grúppunni á sunnudaginn, var Barbara hóstandi eins og ónýtt púströr allan tímann. Það hefði kannski verið pirrandi ef maður væri ekki í yfirnáttúrulegu andlegu jafnvægi eins og ég. Læt ekki nokkurn hlut sveifla mér. Allavega, doktorinn ákvað að kippa sjúklingnum með sér heim eftir grúppuna þar sem ég sauð handa henni ógurlegt seyði úr engiferrót, hvítlauk, sítrónum og hunangi. Allt á þetta að innihalda bakteríudrepandi og hreinsandi ensím og þetta drukkum við báðar í góðri trú. Það fór ekki betur en svo að Barbara var á Læknavaktinni í gær og þurfti að fara á sýklalyf og sjálf er ég með hausverk og illt í hálsinum. Af þessari sögu má draga þá rökréttu ályktun að grasalækningar sökka. Lifi vestrænar lækningar og sýklalyf.

Kannski þefaði ég helst til of mikið af agarskálunum í verklega sýklafræðiprófinu. Það gekk annars uber vel og skriflega sýklafræðin er á fimmtudag og ekkert því til fyrirstöðu að ég rúlli því upp, þar sem ég kann námsefnið upp á 8 +/- 2. Sýklafræðin er skemmtileg ólíkt mjög mörgu öðru sem troðið hefur verið ofan í kokið á manni í þessari læknadeild. Þetta er svo helvíti praktískt allt saman.

mánudagur, október 04, 2004

Afmælisbörn dagsins

Í dag er Þorleifur Árnason frændi minn 25 ára. Til hamingju með það.
Sponsorinn minn á 20 ára edrúafmæli í dag, sem er náttúrulega bara rugl. Bara uþb. 18 ár í að ég nái þeim áfanga. En kemst þótt hægt fari.
Svo er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sögð 68 ára í dag í Fréttablaðinu. Það finnst mér voðalega fyndið, af því að mér finnst hún svo voðalega leiðinleg. Hún var alveg merkilega lengi í barneign.

Bænheyrð

Það hlaut að koma að því!!!
Það er í raun og veru einhver sem er búin að skrifa greinina "Af hverju er Henry Birgir svona leiðinlegur?"
Hahaha, þetta er bara snilld. Kannski er þetta einhver sem les bloggið mitt og stelur góðum hugmyndum, eða að það er bara svona útbreidd skoðun í samfélaginu að gaurinn sökkar. Það er kannski líklegra.

laugardagur, október 02, 2004

Kosning þjóðarblómsins

Það hefur örugglega ekki farið framhjá nokkrum manni að nú á sér stað kosning á þjóðarblóminu. Ragna S. Sveinsdóttir skrifar af því tilefni grein í Morgunblaðið, þar sem hún útlistar nákvæmlega, hvers vegna hún telur að fífan eigi skilið að hljóta hinn eftirsótta titil. Ég er svo illa innrætt, eins og margoft hefur komið fram, og bara gat ekki varist hlátri yfir ákafa konunnar.

Hún segir m.a (ath. að hlutir eru slitnir úr samhengi):

Góðir landsmenn, nú styttist sá tími sem þjóðin hefur til þess að íhuga val á þjóðarblómi eða plöntu; miklu skiptir að vel takist til og að valið verði hvorki illa grundaðhandahófskennt.

fífa; hana þekkja flestir, hún er sérstök, stílhrein, sterk í formi og myndrænt séð kjörin sem táknmynd

Fífa er mjög áberandi planta, ekki síst aldinið, sem má telja eitt fegursta djásn íslenskrar náttúru og skrýðir landið lengur en nokkur önnur tilgreindra plantna Landverndar, eða frá sólstöðum þar til ullin fýkur burt með haustvindum.

Hve einkennandi fífa er fyrir landið sést best á því hvílíka eftirtekt hún vekur meðal erlendra ferðamanna, en hún er fyrsta og að jafnaði eina plantan sem þeir spyrja hver sé, strax á fyrsta degi ferðar um landið.

Og enn fremur og takið vel eftir:

fífa er þannig undirstaða andlegrar jafnt sem verklegrar menningar landsins og um leið tákn ljóssins í tvöföldum skilningi þar eð hún skrýðir landið einnig umfram aðrar plöntur í nóttlausri voraldarveröld íslensks sumars.

Og lokahnykkurinn í málflutningnum:

Það skal að lokum tekið fram að einstaka aðrar plöntur á lista Landverndar, svo sem birki og hvönn, eiga athygli skilið við val á þjóðarplöntu, en allir gátu lifað án þeirra á meðan enginn komst af án fífu.

Sorry, en ég grét úr hlátri þegar ég las greinina. Nú býð ég spennt eftir næsta mogga til að vita hvort aðdáandi Lambagrassins mun skrifa harðort svar við grein Rögnu, þar sem hann rekur rökvillurnar ofan í hana. Ég vonast eftir sem æsilegastri kosningabaráttu í kjörinu um þjóðarblómið. Já það verður spennandi að sjá.


föstudagur, október 01, 2004

Stolinn brandari

Það að segja að matarlystin sé ekki upp á marga fiska er annars brandari sem Páll Vilhjálmsson sagði þegar mamma hans ætlaði að bjóða honum upp á soðna ýsu.
Hahahahahaha

Helgartilboðin

Ég elska ömurlega léleg tilboð sem stórmarkaðir reyna að láta líta út fyrir að séu guðsgjöf til almennings. Í dag auglýsir Hagkaup frosnar, innfluttar, danskar kjúklingabringur á 1399 kr. pakkann í stað 1499 kr. áður. Vei, nú get ég loksins gert allt sem mig hefur dreymt um fyrir 100 kallinn minn. Er þetta virkilega að breyta einhverju fyrir nokkurn mann?? Mun salan á bringunum rjúka upp úr öllu valdi?? Hvað er annars málið með verð á kjúklingabringum? Það var nýtt fólk að flytja á 1. hæðina hjá mér. Þau voru að flytja heim frá Danmörku og keyptu íbúðina á verði sem gladdi mitt gráðuga hjarta, en það er önnur saga. Nema hvað að Doddi rakst á þau í Nóatúni ekki alls fyrir löngu. Þar stóðu þau við kælinn og héldu á bakka af kjúklingabringum sem þau störðu á í örvæntingu. Doddi sagðist hafa hálfvorkennt þeim og var að hugsa um að splæsa á þau bringunum á meðan þau væru að komast yfir mesta áfallið.
Annars þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af kvöldmat í kvöld, held ég. Ég er að fara í síðasta verklega sýklafræðitímann minn á eftir og við eigum að hitta snýkjudýr í dag. Efast um að lystin verði upp á marga fiska eftir viðveru með njálgum og lúsum og alls kyns öðrum viðbjóði.