luxatio hugans

awakening

sunnudagur, desember 31, 2006

Áramótablogg

Mikil spilajól hafa verið þessi jólin. Í fyrrakvöld áttust við brotabrot af Þotuliðinu. Tjokkóinn leit þó við rétt eftir lendingu frá Kanarí. Sagði hann okkur ofbeldissögur sem áttu lítið skylt við þann kærleiksanda sem ríkti í spilamennskunni, en svo brast hópurinn í söng og enn á ný var sunginn þjóðsöngur Kanaríeyja og allur ofbeldisandi gleymdist. Ég spilaði með jólagjöfina frá Örvari á höfðinu og voila........... inn í r...minni Örvars rataði ég. Örvar vissi alveg hvað hann var að gera þegar hann keypti þessa gjöf. Þessar riverdance gellur selja!
Í gærkvöldi voru svo hér nokkur "læknishjón" úr Hlíðunum. Aðein ein geta með sanni kallað sig hjón, hin eru bersyndug og flagga því og kunna ekki að skammast sín. Við gömlu nágrannarnir úr Bólstaðarhlíð 64 fylktum liði og stóðum okkur vel. Það er liðin sú tíð er ég hljóp í skólann til að þurfa ekki að labba samferða honum. Í dag er bara gaman að vera samferða Beisa. Reglulega gaman bara og við erum sammála um það að verða ekki samferða til Svíþjóðar. Maður lætur ekki bjóða sér þetta rugl!
Í dag er svo búið að laga sveppasúpu ala Helga Snorra með Árna frænda, saxa í Waldorf og allt er að verða klárt fyrir þetta blessaða gamlárskvöld. Klárlega ofmetnasta kvöld ársins, en jæja jæja. Ekki bætti úr skák að frétta að Kortararnir eru að plana að leggja undir sig jarðkúluna. Þetta sprettur upp eins og gorkúlur. Nei ég er að djóka. Við fögnum fleiri Korturum. Því fleiri því betra.
Gleðilegt nýtt ár!

laugardagur, desember 30, 2006

Villimennska

Ég fæ ekki séð að sá sem hengir morðingja sé göfugri morðingi. Hann er bara morðingi engu betri en sá fyrri. Voðalega ætlar fólk að vera lengi að skilja að villimennska leiðir ekki til friðar. Það verða alltaf einhverjir sem finnast að brotið sé á þeim og þó þeir verði til friðs í einhvern tíma þá kemur að því að þeir hefna. Þá verður svo langt um liðið að enginn man hvers þeir eru að hefna. Æi þetta er meira dauðans bullið. Sagan hefur sýnt okkur að hvar sem Bandaríkjamenn fara og koma einhverri stjórn sem þeim þykja ásættanleg til valda, þá hefur það orðið enn eitt bölvað klúðrið. En það verður ábyggilega öðruvísi í þetta skiptið. Nú verða allir frjálsu Írakarnir ferlega hressir. Það er ég viss um.

föstudagur, desember 29, 2006

Jólablogg

Verður maður ekki að uptodate-a á þetta?
Á Þollák hittist þotuliðið á Kaffi Karólínu eins og hefð er orðin fyrir. Reyndar var aðal tjokkóinn á Kanarí og var hans sárt saknað. Sungum við meðal annars þjóðsöng Kanaríeyja honum til heiðurs þá um kvöldið og gekk það vel.
Aðfangadagskvöld var líka ljómandi fínt þrátt fyrir að frúin hafi þjáðst af ofsaþreytu. Yngra barnið mitt var ofsalega stillt og rólegt allt kvöldið en eldra barnið var tryllt. Fyrir þá sem þekkja Ingvar þá vita þeir að það er ekki hans eðlilega ástand að vera trylltur, svo það var heví spenna í gangi sem olli meiri vanlíðan en gleði. Ég kenni Mammon og hans hyski um. Reyndar er Mommon líka ábyrgur fyrir nýja unaðslega Gorgio Armani úrinu mínu, svo hann er ekki alslæmur.
Jóladagur var svona líka prýðilegur. Brunað á Dalvík þar sem stórfjölskyldan hittist. Um þrjúleitið klæddi frúin sig í nýju frostheldu spandexbuxurnar frá hennar heittelskaða og spókaði sig, teygði á og stundi í eldhúsinu svo það færi örugglega ekki framhjá neinum viðstöddum hvað stæði til. Þetta fólk sem þarf alltaf að passa að allir viti að þeir séu að hlaupa er svo yfirþyrmandi óþolandi, að það var magnað að fá að vera þessi ergjandi týpa. Pabbi hennar Álfheiðar keyrði okkur svo 10 km inn í Svarfaðardalinn ljúfa, dalinn þar sem ég fæddist á háaloftinu á Völlum í brjáluðu veðri ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum. Rosalega er það samt meira töff heldur en að hafa fæðst á sterilu sjúkrahúsi. Ég var töff strax daginn sem ég fæddist. Formúlan getur ekki klikkað. Við Álfheiður hlupum svo á undraverðum tíma í bæinn, eða á 55 mín. Óþarft er að eyða orðum í þann örlitla meðvind sem var í hlaupinu. Það var svona varla að maður fyndi fyrir honum í bakið, nema í hviðunum. Að loknu hlaupi var lagst í pottinn á pallinum og horft á stjörnurnar sem maður sér ekki í Reykjavík. Magnað. Kalkúnn var étinn með góðri samvisku og svo rústaði ég litlu systur minni og nýju sænsku mágkonunni í Sequence með einhverjum meðspilara sem greinilega var í aukahlutverki samt. Reyndar tapaði ég svo seinna í Hrútaspilinu fyrir Birni bróður en það er ekkert merkilegt spil, svo það telur ekki. Reyndar er ég ekkert tapsár. Ég er minnst tapsár allra sem ég þekki. Atli frændi hagaði sér almennilega, sem er óvenjulegt, svo allt var eins og best verður á kosið. Ester og Embla voru óaðskiljanlegar, m.ö.o vék Ester ekki frá Emblu, hvert sem Embla reyndi þó að lauma sér. Fyndinn svipurinn á Emblu þegar hún er að kvarta undan Ester og greinilegt að henni finnst þetta barn ekkert minna óþolandi heldur en í fyrrasumar. Hins vegar leit Ester ekkert við hvolpunum hennar Emblu sem voru niðri í kjallara, 7 talsins. Henni fannst þessi gamla tík miklu flottari.
Á annan í jólum var svo jólaboð hjá stórfjölskyldunni hans Dodda. Þar var étið enn á ný og svo keyrðum við til Reykjavíkur og með okkur í för Þorleifur nokkur Árnason Snorrasonar. Umræddur Árni var víst viðstaddur óveðursnóttina miklu þegar undirrituð lét sjá sig í þennan heim og fannst ekki mikið um. Hvorki um atburðinn né afraksturinn. Ég spurði eitt sinn Árna þegar Ester var nýfædd hvort hún minnti ekki á mig þegar ég var nýfædd?
Hvað á ég að vita um það? svaraði Árni. Nú, varstu ekki þarna? spurði ég. Jú, svaraði Árni, en ég nennti ekkert að horfa á þig. Mér fannst þú bæði ljót og leiðinleg!
En Árna þessum hlýtur að finnast ég sæt og skemmtileg í dag, því bæði gaf hann mér að éta þegar ég var búin að skila syninum og ætlar hann einnig að snæða með mér á gamlárskvöld. Svo lengi getur vont batnað, og ljótt fríkkað.
27. des buðu Begga, Benni og Benni (mér finnst þetta fyndið) okkur í humar og læri. Ekki var laust við að kokkanám Benónýs kæmi að gagni. Gaman að fá matinn framreiddan á diskunum eins á veitingahúsi. Það vantar ekki klassann þar á bæ.
28. des buðum við svo kjaftforum Lundúnabúa sem er afar fær með myndavélar, og fylgiliði hans í ítalskar kjötbollur ala Allý. Eða ala Guðrún Narfa svo maður sé ekki að ljúga hér á opnum vef. En það getur verið erfitt að fylgja uppskriftum!!! Allavega, þar ákvað ég að hætta þessu læknarugli fyrir skítakaup og opna heldur ítalskan veitingastað. Það er meira vit í því. Kjaftfori Lundúnabúinn er auk þess afar fyndinn og orðheppinn. Ohh ég elska að þekkja fyndinn Breta. Það er ákveðinn status í því. Æi fyndi breski vinur minn kom í mat í gær. Það er töff.
Og þá er það bara dagurinn í dag. Sem er ágætur so far.
Líkur þá þessari skemmtilegu dagbókarfærslu.
Gleðileg Jól.

miðvikudagur, desember 27, 2006

Bloggóeirðir

Ég skammast mín fyrir að kalla mig dægurmálabloggara og vera ekki búin að blogga um Dóminós-sms-ið ógurlega. Hér skal nú sagt frá minni reynslu af því máli.
Á aðfangadag, ég man ekki hvað klukkan var, en það var vel fyrir 6, heyrðist með tilgerðarlegum breskum hreim: "Computer says nooooooooo" frá símanum mínum, en það heyrist einmitt þegar mér berast textaskilaboð í farsímann minn. Ég opnaði skilaboðin full eftirvæntingar enda bjóst ég við því að einhver vinur eða kunningi væri að athuga hvort ég væri laus þá um kvöldið í gott glens. Þegar ég las skilaboðin og sá að þau voru frá Dómínós að óska mér gleðilegra jóla og velfarnaðar á nýju ári með þökk fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða, þá fylltist ég skömm og viðbjóði. Ekki á fyrirtækinu, heldur á sjálfri mér. Ég fylltist skömm að vera svo dyggur viðskiptavinur hjá þessu auma flatbökufyrirtæki að ég fengi frá þeim jólakveðju. Ég valdi því möguleikann eyða skilaboðum og ákvað með sjálfri mér að þessu fengi sko enginn að vita af. En viti menn. Hneykslið skók samfélagið og af einskæru tilfinningarúnki verð ég að láta lesendur mína vita og ég "lenti" líka í þessu. Ég "varð" fyrir Dómínós-sms árásinni 2006.

sunnudagur, desember 24, 2006

Jólagjöfin fyrir hann/hana

Gleðilegan aðfangadagsmorgun. Mig langar að vera andleg í dag og koma með fallega jólahugleiðingu á vefsíðu þessari. Ég get það samt ekki. Ástæðan er auglýsing í norðlenska auglýsingapésanum, Dagskránni, sem ég hef ekki geta gleymt og ætla að blogga mig frá. Í heilsíðuJÓLAauglýsingu frá Adam og Evu er sagt frá afsteypusetti einu ágætu. Tilgangur þess er að gera nákvæma afsteypu af kærastanum/eiginmanninum svo tími aðskilnaðar verði ekki jafn óbærilegur, maður er jú með nákvæma afsteypu við höndina. Klárlega jólagjöfin í ár. Kærleiksrík jólagjöf. Já hressandi.
Jólakveðjur úr rokinu á Akureyri.

mánudagur, desember 18, 2006

Jólasveinablogg

Frá hnakkabælinu Selfossi, hefur veflók þessum borist sú beiðni að segja frá jólasveinaupplifunum Ingvars í ár. Ég held að Ingvar lesi ekki bloggið mitt og hef ég því ákeðið að verða við því.
Þetta byrjaði allt hálf klaufalega í ár. Ingvar fann einhvern DVD disk sem heitir Fyrstu Jólin og var sjálfsagt keyptur til styrktar einhverjum fjandanum. Ég sagði honum að vera ekki að rífa hann upp, það mætti gefa Ester hann í skóinn. Algjört hugsunarleysi af minni hálfu, ég bara trúði því ekki að krakkinn tryði enn á jólasveininn. Ingvar horfði á mig eins og ég hefði leikið mér að því að snúa labrador hvolp úr hálsliðnum og veinaði: JÓLASVEINARNIR GEFA Í SKÓINN!! HVAÐ ERTU AÐ SEGJA MAMMA?! Ég bakkaði út úr þessu með gamla góða mismælgis klassikeranum, en næstu daga á eftir horfði Ingvar önugur á mig og spurði reglulega: Af hverju sagðiru að þú myndir setja DVD diskinn í skóinn??!
Ég ruglaðist bara, sagði ég.
Já þú ruglaðist svo sannarlega mamma! Jólasveinarnir setja í skóinn!!
Ég fann fyrir hótunarbrodd í yfirlýsingu þessari. Þér er hollara að þegja kelling!!
Þarna leitaði ég til mér vitrari kvenna. MaggaVaff varð fyrir valinu, en hún á einmitt líka dóttur í 8 ára bekk. Ég spurði hana hvort það gæti verið að Ingvar tryði enn, eða hvort það væri verið að fokka í okkur af kapitalisma markmiðum. Dóttir Möggu hætti að trúa í fyrra, en stelpur eru bráðþroska svo enn sat ég eftir með óvissuna.
Næstu dagar hjá Ingvari fóru í það að klippa út myndir af jólasveinum af mjólkurfernum því allir áttu sveinarnir að fá myndina af sér.
Rann þá upp sá dagur er Stekkjastaur myndi birtast. Við Doddi vorum búin að birgja okkur upp af Tiger drasli og fyrsta kvöldið var látið til skarar skríða. Í glugganum voru mandarínur, mjólkurkex, mjólkurfernumynd af Stekkjastaur og eftirfarandi bréf:
Elsku besti Stekkjastaur. Hérna gef ég þér noggrar gjafir. Taktu myndina af þér, fáðu þér kex og mandarínu. Þetta eru gjafir til að þakka þer fyrir hvað þú ert búinn að vera góður við mig í fyrra og í hittífyrra og hitthittífyrra og hitthitthittífyrra og hitthitthitthittífyrra og ofboðslega yrði ég glaður ef þú myndir gefa mér dóddabyssu og dóddahandjárn saman í pakka. (Sænskt þroskasjokk, innsk. höfundar) Mér þykir svo vænt um þig, Ingvar.
Svona birtust bréfin næstu kvöld nema í stað byssu og handjárna kom beiðni um spæaradódd, því drengnum var sagt að jólasveinar væru boðberar ljóss og friðar og gæfu ekki morðvopn. En drengurinn var greinilega enn tortrygginn því einn morguninn sagði hann: Humm, skrítið. Ég taldi mjólkurkexin fyrir nokkrum dögum og þá var ekki nóg til fyrir alla jólasveinana en nú er allt í einu nóg til handa þeim öllum.
Okei barnið er að telja mjólkurkex. Hann er augljóslega ekki sannfærður, en ofboðslega langar hann til að trúa. Og hvað er athugavert við það. Hann mun vita næstu 80 ár ævinnar að jólasveinarnir eru ekki til, svo hvað sakar eitt ár í viðbót sem hann trúir?

Já aðventukveðjur til ykkar allra þarna úti sem trúið á jólasveina.

Aðventugremja

Aðventugröm móðir: "Ingvar! Hættu að spyrja mig endalausra spurninga sem ég get ekki svarað!"
Ingvar: "Ég veit ekkert hvaða spurningum þú getur ekki svarað"

laugardagur, desember 16, 2006

Blogglífið

Frá því ég byrjaði að blogga hef ég oft staðið mig að því að hugsa líf mitt í bloggfærslum. Ég er kannski að brasa eitthvað og er í leiðinni að semja bloggfærsluna um atvikið í huganum. Í nótt dreymdi mig sérstæðan draum. Mig dreymdi að ég færi á almenningssalerni í skólanum mínum. Á salerninu voru svona skilrúm úr harðplasti sem hvorki ná niður í gólf né upp í loft. Þar sit ég og er að gera númer 2, sem er sérstakt, því slíkt kýs ég að gera ekki á almenningssalernum. En allavega sit ég við þá iðju, þegar allt í einu ryðjast inn nemar úr hagsmunaráði með forsvarsmönnum deildarinnar og eru nemarnir að sýna þeim aðstæðurnar sem þeir kalla hörmulegar. Allt í einu er engin framhlið á skilrúminu mínu og ég sit þarna og hægi mér fyrir framan allt þetta fólk. Sem er svosem alveg nógu vandræðalegt per se, en þá bætast allt í einu í hópinn fulltrúar fjölmiðlanna sem hafa komið að kynna sér þetta hörmulega salernismál læknanema og með þeim í för eru myndatökumenn sjónvarpsins. Þarna sit ég á klósettinu við afar niðurlægjandi aðstæður og hugsa með mér: "Vá hvað þetta er efni í góða bloggfærslu!" Svo þegar ég vaknaði í morgun og fattaði að þetta var draumur varð ég hálfsvekkt yfir því að eiga ekki í alvörunni efni í góða bloggfærslu. Hálfsvekkt yfir því að hafa ekki í raun og veru setið fyrir framan samnemendur mína, kennara og fjölmiðlamenn við að skíta. ÞVÍ ÞAÐ HEFÐI VERIÐ SVO GÓÐ BLOGGFÆRSLA!!! Já líf mitt er ef til vill orðið full bloggmiðað. Eða ég veit það ekki annars.

föstudagur, desember 15, 2006

Powerrade-desember

Ójá. Powerrade var hlaupið í gærkvöldi. Aðstæður voru fullkomnar. Gott veður og gott færi. Ég bætti mig um 6 mínútur frá því í hlaupinu í nóv sem er ekki slæmt. Heill kílómeter í viðbót. Hins vegar náði ég ekki 55 mínútna markmiði mínu heldur fór ég á 57 mín. Reyndar sagði gps græjan mín 56 mín en ég ætla ekkert að þræta fyrir þennan tíma. Stefni á 52 mín í janúarhlaupinu. Maður getur svo auðveldlega orðið háður þessu.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Í bloggheimum

er glatað að kópera, en þegar um dægurmál er að ræða er hætt við að margir séu að fjalla um það sama. Skemmtilegasti spjallþáttarstjórnandi sem Ísland hefur alið og jafnframt sá sem minnst fór fyrir, Gummi Steingríms, ritar nákvæmlega það ég vildi sagt hafa.
Ein af svívirðilegustu setningum Björns Inga í Kastljósinu í gær var: “Ég veit að það er áfall fyrir Samfylkinguna að geta ekki lengur raðað fólki inn í stjórnsýsluna en það verður að viðurkennast að þannig urðu úrslit kosninganna.”
Eigum við að ræða úrslit kosninganna Björn Ingi??
Allavega........ ég jáa þetta allt saman. Það þýðir samt ekki að ég sé neitt æðislega hrifin af Degi B. eða Samfylkingunni.
Hvar í andskotanum raðast ég eiginlega í pólitík? Er ekki hægt að taka svona próf eins og áhugasviðsprófin forðum?
Jæja ég er farin í Powerrade!

miðvikudagur, desember 13, 2006

Í kjölfar síðustu bloggfærslu

og að loknu Kastljósi kvöldsins liggur mér jafnframt það á hjarta, hvað mér finnst Framsóknarflokkurinn og allt sem honum viðkemur, viðurstyggilegur. Það er algjörlega óásættanlegt að maður með ómælanlegt fylgi hafi töglin og haldirnar í borgarstjórn og að minnsti flokkur landsins sitji á helming ráðherrastólanna. Mér ofbýður þessi skortur á lýðræði.
Annars er ég nokkuð hress bara. Ég var sveitt að baka sörur í dag því ég fékk eftirfarandi skilaboð frá frú Auðbjörgu sem búsett er í USA en er stödd hér á landi: "Bjóddu mér í kaffi og sörur eða ég lem þig." Engar átti ég sörurnar og hófst því óðara handa við baksturinn enda þekki ég fortíð Auðbjargar og tek enga sénsa. Vertu velkomin í kaffi og sörur bakaðar í ótta, Auðbjörg.

Uppgjörið

Ég er skráð í Heimdall. Ég er búin að vera skráð í Heimdall lengi, ég man ekki alveg hvernig það kom til né hvenær það var. En verandi fátækur námsmaður að mennta mig í heilbrigðisgeiranum þá get ég ekki varist því að heillast af Vinstri grænum. Mér finnst þeir hafa fallega stefnuskrá. Og rosalega var ég líka heilluð þegar ég sá prófkjörsuppgjörin þeirra. Sokkabuxur og kaffibaukar voru stærstu útgjaldaliðirnir í prófkjörsbaráttunni. Engar milljónir í atkvæðaveiðar þar. Já þetta finnst mér fallegt.
Annars á ég mér nýtt slagorð: Sif í badmintonið!

mánudagur, desember 11, 2006

Mér er illa við að úthúða

nafngreindum einstaklingum hér á blogginu. En nú get ég ekki orða bundist. Hæstvirtur heilbrigðisráðherra virðist bara vera í þeirri herferð að rústa mannorði sínu upp á eigin spýtur. Þá hlýtur henni að vera sama um það að ég hjálpi henni aðeins við það. The more, the merrier eins og sagt er. Annars skil ég ekki hvernig það er með þetta ráðuneyti. Það hefði verið fínt að fá Þorvald Ingvarsson í það en Norðlendingar gerðu út um það. Flott hjá þeim.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Hehe

snillingur!

Tíðindi

Já það hefur sko heldur betur dregið til tíðinda hér í Eskihlíðinni frá því síðast. Ég er búin með tvö próf frá því ég ritaði síðast á veflók þennan. Nú er ég sprenglærð í taugalæknisfræði og geðlæknisfræði og mun búa vel og lengi að visku þessari. Jamm.
Við Heiðrún beiluðum á 13 k í gær að loknu prófi. Það var kalt og við vorum þreyttar, svangar og okkur var illt. Allsstaðar. En 13 k verða farnir á eftir. Með góðu eða illu.
Lárus fór í leikhús í gær. Við fórum að sjá Blóðbrúðkaup, en þar steig á stokk..... okkar stórglæsilega.......... límíð í Lárusi, Kristín Þóra. Þetta var stórskemmtilegt verk. Gagnrýnendur eru fífl. Það bregst ekki að ef ég hef farið á einhvern viðburð þá er ég ósammála gagnrýnendum. Þetta eru bara bitur svarthol upp til hópa. Næst ætlar Lárus á jólamynd með Ben Stiller og svo ætlum við norður á AK City í leikhúsferð. Það verður snilld.
Jæja nú þarf ég að undirbúa mig andlega undir 13 k. Karakter!!!!!!!!

laugardagur, desember 02, 2006

Sagan af Hildusi

Mér er gersamlega um megn að skilja hví ég hef ekki sagt söguna af Hildusi hér á blogginu. Í vor þegar við vorum í verknáminu á medicine, þá fór Hildur Guðjóns á einhverja guðsvolaða medicine deildina, breytir í raun engu hverja þeirra, þær eru allar eins. Nema hvað að fyrsta daginn spyr deildarlæknirinn læknanemana hvað þeir heita. Hildur segist náttúrulega heita Hildur eins og lög gera ráð fyrir, nema um pathologiska lygara sé að ræða. Og deildarlæknirinn endurtekur eftir henni: "Hildus, það er óvenjulegt nafn."
En af því að Hildi fannst svo ólíklegt að manninum hefði misheyrst þetta, þá hélt hún að hann væri svona spaugari að spauga, og var ekkert að leiðrétta hann. Nema hvað að næstu daga segir deildarlæknirinn alltaf Hildus þegar hann ávarpar hana og var þetta orðið hið pínlegasta. En vandræðagangurinn náði hámarki þegar sérfræðingurinn mætti á svæðið og deildarlæknirinn sagði við sérfræðinginn: "Já og svo er þetta læknaneminn okkar, hún Hildus."
Ha? sagði sérfræðingurinn, "heitir hún ekki Hildur?"
"Nei, nei" sagði þá deildarlæknirinn, "hún heitir Hildus."
Og þá varð Hildur ræfilinn að leiðrétta þetta leiðindamál, og sagði að hún héti reyndar Hildur, þó hún hefði svarað Hildusar nafninu í heila viku.
En þessi saga barst Pétri, deildarlækninum á meinafræðideildinni, til eyrna og honum fannst þetta ákaflega sniðug saga. Svo sniðug að alltaf þegar ég hitti hann þá spyr hann mig hvað sé að frétta af Hildusi.
Og við hin sem elskum Hildi mest segjum alltaf að Hildus sé að sinna múslimskum uppruna sínum þegar við vitum ekki hvar hún er.

föstudagur, desember 01, 2006

Tvíeðli

ANDSKOTINN HAFI ÞAÐ!! DRULLASTU TIL AÐ VERA Í JÓLASKAPI!!
Ef þetta dugar ekki til að blása glæðum ljóss og friðar í brjóstin á flestum börnum guðs þá veit ég ekki hvað gerir það.
Þetta minnir mig á eina andlega konu sem var að stunda hugleiðslu og maðurinn hennar truflaði hana eitthvað við það. Þá öskraði hún á hann: "Fjandinn hafi það! Viltu hafa lægra! ÉG ER AÐ HUGLEIÐA MIG INN Í KÆRLEIKANN!!!!"