luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, maí 31, 2006

Aldrei aftur 4. ár

Þá er þetta dauðans 4. ár búið.
Prófið í dag var fínt.
Og svo byrja ég bara í verkfalli á morgun:)
Þetta er náttúrulega pínu fyndið. Ég hef ekki séð mér fært að vinna síðustu sumur sökum anna, en svo ræð ég mig í vinnu og fer í verkfall. Það er þokkalegt líf og fjör.

Rebel

Alþjóðlegi reyklausi dagurinn er dag.

Þá ætla ég að byrja að reykja.

Afhroð í könnun

Barógengið beið afhroð í prófinu um mig. Enn er þó enginn verri en Ingi Karl. Menn geta enn tekið prófið, því mér finnst það svo gaman. Það má nálgast hér.

Litla dóttir mín

Við höfum aldrei svæft Ester Helgu. Bara lagt hana inn í rúm og sagt góða nótt og allt í góðu. Barnið hefur farið að sofa án vandræða. Svo núna 2 síðustu kvöld höfum við lagt hana inn í rúm og eins og venjulega þá heyrist ekkert í henni. En hún hefur hins vegar farið inn í fataskáp pabba síns sem er við hliðina á rúminu hennar, náð sér í sokka af honum, klætt sig í þá og að því loknu svifið sátt inn í draumalandið.



Þessar myndir eru teknar í fyrrakvöld. Í gærkvöldi sofnaði hún í svörtum sparisokkum af föður sínum:)

þriðjudagur, maí 30, 2006

"Vönduð dagskrárgerð"

varð eiginmanni mínum að orði við morgunverðarborðið áðan. Kveikjan að ummælunum var þáttur kallana.is á X-inu á laugardögum, en í honum stendur leitin að þyngsta pungnum um þessar mundir. Þá koma menn og láta vigta á sér punginn í beinni útsendingu. Lágkúran er að ná nýjum hæðum/lægðum hjá mér. Mér finnst þetta nefnilega sjúklega fyndið.
Síðasti dagurinn í próflestri í dag, og svo fer ég og klúðra þessu á morgun. Og ég er svo þreytt, að mér gæti ekki verið meira sama þó ég klúðri þessu. Kannski get ég fengið vinnu við pungavigtun í sumar á grunni heilbrigðismenntunar minnar og einstaks skilning á uppbyggingu mannslíkamans.

mánudagur, maí 29, 2006

Dofin

Ég er búin að vera að lesa skjölin hans Garðars Guðmundsson fyrir heila og tauga. Garðar Guðmunds er heila og taugaskurðlæknir, og algjör snillingur. Það var aldrei leiðinlegt að vera þar sem hann var, og klíníkurnar hans voru með þeim skemmtilegri. En það er sérstaklega ein lítil lesning í heftinu hans sem er skemmtilegri en önnur, og hér kemur hún:

1. Dofi: Dreifingarsvæði dofans gefur oft nokkuð góða mynd
af því hvaða taug er í klemmu.
Dofi framan á læri niður yfir hnéskel er L4 sdr. Dofi
utanvert/framanvert á kálfa sem sveigir niður á rist jafnvel
fram í stóru tá eða tá við hliðina er L5 sdr. og dofi aftan á
kálfa og fram í jarka/litlu tær er SI sdr.
Sumir sjúklingar tala um “pirring” og nota alls konar óljós
hugtök og þá er mikilvægt að spyrja: ertu að tala um dofa,
líkan því sem maður finnur fyrir eftir að tannlæknir hefur
deyft mann eða er þetta verkur? Ekki sætta sig við annað en að
þetta sé á hreinu. Margir tala um “doða”, en doði er bráða
kalsíum skortur hjá eldri kúm eftir burð og þeim hættulegt,
en er óþekkt hjá mönnum.


Maður vill ekki fara að tala um "doða" í munnlegu prófi hjá Garðari. Neibb.

Kosningar

Við Doddi fórum að kjósa í Hlíðaskjóla á laugardaginn. Ég var í gallabuxum og lopunni minni á leið á Baró að læra. Ég átti hreinlega ekki von á því að það kæmi til þess, að ég færi að skammast mín fyrir útganginn á mér. Menn voru alveg glerfínir að kjósa. Sérstaklega eldra fólk. Þegar ég beið í röðinni þá staulast gleiðspora, glerfínn, aldraður maður framhjá mér sem leiddi konuna sína. Ég klökknaði næstum yfir því hvað þau voru krúttleg, en var fljót að kyngja þeim kekki, þegar gaurinn fer að skammast í einum eftirlitsmanni kosninganna. Kornungri stelpu með ekkert augljóst hlutverk en barmmerki eftirlitsmanns engu að síður. Gamli fer að krefja stelpuna svara við því, hvernig sé hægt að ætlast til þess að sjóndapurt fólk sjái á þessa kosningaseðla. Þegar stelpan svara litlu þá æpir kall: "Þetta eru mannréttindabrot!!"
Kallinn byrjar svo að staulast út með kellu sinni og ég fer inn í klefann og kýs. Þegar ég kem út á planið fyrir framan Hlíðaskóla, þá er kallinn að setjast undir stýrið á glænýjum Subaru Forrester. Það er flott. Of blindur til að kjósa en sér prýðilega frá sér í umferðinni.

laugardagur, maí 27, 2006

Laugardagsmorgunn

Doddi fór frammúr með Ester í morgun. Svo reyndi hann að lúra aðeins í sófanum yfir Leitin af Nemó og rankaði við sér aftur við eitthvað brothljóð í ísskápnum. Svo birtist Ester heldur ófrýnileg á að líta með eggjaskurn í munninum. Þá hafði litla skessan farið í ísskápinn, tekið ósoðið egg og fengið sér bita. En hún lét ekki þar við sitja þó þetta færi heldur illa og allt eggjainnihaldið færi út um allt. Hún ákvað að reyna aftur, og fékk sér annað egg til að bíta í. Með sama góða árangrinum. Enda erum við að færast sífellt frá því að kalla hana skessustelpuna og köllum hana skrímslakrakkann. Samt sætasta og fyndnasta skrímsli sem til er.

föstudagur, maí 26, 2006

Honeymoon

Það þarf náttúrulega vart að taka það fram hvað ég er búin að eiga unaðslega hveitibrauðsdaga. Uhm uhm uhm. Ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af honeymoon cystit. Þið vitið hvað er sagt um eiginmenn kvenna sem fá pyelonephrit. Það eru afar lánsamir eiginmenn. Þeir stunda kynlíf, yfir meðallagi oft, eða alls þrisvar í viku eða oftar. Ohhhhhh ég þarf EINMITT að fá Cipró. Akkúrat núna. Lánsami, lánsami Þóroddur. Hvað standa hveitibrauðsdagar annars lengi? Kannski er ekki loku fyrir það skotið að ég nái mér í almennilegan honeymoon cystit.

Doktor í Medicine

Þá er maður bara það. Doktor í medicine. Próf dauðans að baki. Tilfinningin var ólýsanleg að labba út áðan. Oft hefur maður væntingar til þess hvað það verður æðislegt að klára eitthvað próf, en svo klárar maður prófið, og ekkert gerist. Enginn léttir, engin vellíðan. En sú var ekki raunin áðan. Ég hef aldrei verið eins hamingjusöm að klára nokkuð próf. Því eins og Tinna benti á, í morgun á leiðinni í prófið, þá erum við búin að hugsa um þetta próf í heilt ár. Í heilt ár er þetta próf búið að liggja á okkur eins og mara og við verið hálfvonlítil um að þetta væri vinnandi vegur. En við kláruðum þetta. Líf og fjör. Nú er bara að þrauka 4 daga og skerpa aðeins á skurðlæknisfræðunum. Sem fjórir dagar eru náttúrulega bara skammarlega nóg til að gera. Eins og ég hef bent biturlaust á áður.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Tittlingatog

Ég bjó til nýjan málshátt í gær.
Ég var að ræða við herbergisfélaga mína á Baró um yfirvofandi skriflega medicin prófið, þegar ég sagði að Doddi hefði sagt mér að það hefði ekki verið þetta sama helvítis tittlingatog í spurningunum úr smitinu á prófinu í ár eins og í gömlu spurningum. Svo sat ég í dágóða stund á eftir og japlaði á þessu. Tittlingatog, tittlingaTOG, TITTLINGATOG. Stelpur. Maður segir ekki tittlingatog. Er það??!! Ég sló semsagt saman því að "vera með hártoganir" og því að eitthvað sé "bölvaður tittlingaskítur", og ég trylltist úr hlátri þegar ég fattaði hvað ég er rugluð. Og þessi nýji málsháttur er náttúrulega ferlega subbulegur. Dömulegar læknisfrúr nota ekki subbulega málshætti. En nota samt auðvitað málshætti óspart. Helst í hverri setningu. Og svo hittumst við Þórhildur alltaf á sunnudögum og tölum dönsku á meðan við drekkum kókó úr mávastellinu.

sunnudagur, maí 21, 2006

Finnafjör

Mér fannst það argandi snilld að Finnar skyldu vinna þetta í gærkvöldi. Lagið er líka gott, ég hef enga trú á því að þeir hafi unnið þetta út á skrímslabúningana, þetta er bara drullu melodískt þungarokk. Ég fílaði þá. Svo upplifir maður náttúrulega þessa aumkunarverðu samkennd með þeim að hafa aldrei unnið þessa keppni og finnst þeir eiga það skilið. Ég ítreka þá kröfu mína að senda eitthvað íslenskt grasrótarband, sem við eigum helling af. Auðvitað áttum við að senda Leðjuna til Lettlands. Hvaða rugl! Sendum Trabant, Múm, Ampop, Hjálma, Mugison, uhhh Sigurrós, sénsinn þeir færu aldrei, og ekki Mínus heldur, nema ef vera skyldi að Krummi myndi vilja láta draum pabba gamla rætast. Við eigum svo mikið af töff, töff, töff en samt erum við alltaf með eitthvað MTV atriði. Ljótt er að vita.
Svo fór Balkandramað mitt líka langt, að sjálfsögðu. Og svo spáði ég Litháen góðu gengi. Mér fannst þetta alveg svakalega skemmtilegt lag þegar ég heyrði það í norræna þættinum, en skammaðist mín ógurlega þegar spekingarnir úthúðuðu því. Þetta kennir manni að fylgja hjartanu og skammast sín ekki fyrir eigin smekk. Jesús maður getur næstum því gleymt því að verið er að tala um Júróvisjón en ekki heimsfrið. Skal því hér látið staðar numið um söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og hafist handa við að læra hjartabilun, acut coronary syndrome, a. fib. og kannski meningita ef tími vinnst til í dag. Hvaða rugl? Klukkan er meira en 11. Ég verð að drulla mér út úr húsi. Adios.

föstudagur, maí 19, 2006

Heltannaður eiginmaður

Eiginmaður minn, því ég á jú eiginmann, er heltannaður. Þess vegna giftist ég honum. Ég hefði aldrei getað hugsað mér neitt annað en að eiga heltannaðan eiginmann. Félagarnir kalla hann Dodda tanner, eða bara Tannsterinn þegar þeir eru extra mikið í gírnum. Þá meina ég uber svala, boys chillin´ gírnum. Sumir hlutir í lífinu skipta einfaldlega meira máli en aðrir. Ég er svo lánsöm að sjá það.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Próf um mig

Jæja nú eiga allir að taka þetta próf um mig!
Take my Quiz on QuizYourFriends.com!

miðvikudagur, maí 17, 2006

Af frambjóðendum

Björn Ingi Hrafnsson verður að fara að meika sig minna í þessum auglýsingum sínum.
Og......... svo hélduð þið að ég ætlaði að blogga um Eyþór. Spesmennskan leyfir það ekki. Það eru allir að blogga um hann.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Hví er gremjan ekki að skila sér?

Ég hef aldrei upplifað meiri líkamlega vanlíðan fyrir próf. Líkaminn er í miklu meira fokki en hugurinn, sem er nýjung hjá mér.
Það er samt alltaf gaman á Baró. Það bókstaflega heldur í mér lífinu, í orðsins fyllstu. Margt skemmtilegt hefur drifið á daga okkar þar og má þar helst nefna:
Confrontationina
Myndatöku Dags. B Eggertssonar þar sem við vorum púuð inn af svölunum.
Nutella daginn
Brjóstakastið
Földu myndavélarnar hans Sigurðar
Og að lokum hið óborganlega Bráðamóttökumóment Baldurs.
Nýjar myndir bráðum.
Líf og fjör

laugardagur, maí 13, 2006

Áratugur.......... er þetta djók??!!

13. maí 1996 gerðum við Doddi okkur grein fyrir því að við værum par. Fram að þeim tíma höfðum við svarað forvitnum athugasemdum vina okkar á þann veg að við værum ekki saman, bara ótrúlega góðir vinir. Enda vissum við ekkert hvert við stefndum með þetta. Óendanlega ólíkir einstaklingar og það var engin skynsemi á bak við þá hugmynd að við ættum einhverja samleið. En svona getur sönn ást verið. Óskynsamleg. Enda hefur það verið svo, að þrátt fyrir allt það óveður og 10 vindstig sem stundum hafa geysað, þá hefur alltaf verið logn þar sem við tvö stöndum, í miðri lægðinni.
Ég elska þig Doddi. Og pottþétt allavega tífalt meira í dag en fyrir 10 árum. Þú ert besti vinur minn og betri föður er ekki hægt að hugsa sér fyrir börnin sín. Takk fyrir síðustu 10 ár og ég hlakka ótrúlega til næstu 10 ára.
Hvernig getum við nú haldið upp á daginn..............

fimmtudagur, maí 11, 2006

Leyfist mér að kynna.......

frá og með deginum í dag, læknisfrúna Aðalheiði. Mér finnst fínna að verða læknisfrú en læknir. Ég hugsa að ég setji læknisfrú í staðinn fyrir læknir í símaskrána. Já ég geri það.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Pirringur

Það fer sjúklega í taugarnar á mér, í þessari borg sem er sundurskorin af ljótum umferðaræðum, að af þeim 7 mínútum sem það tekur mig að hjóla heiman að frá mér upp á LSH þá þarf ég að bíða 5 mínútur til að komast yfir Miklubrautina á gatnamótunum við Reykjahlíðina. Hvaða rugl?? Nei svona í alvöru, hvenær á að breyta þessari ömurlegu forgangsröðun sem setur bíla ofar öllu?? Finnst sama fólki og grenjar yfir verðmætu byggingarlandi í Vatnsmýri það virkilega í lagi að setja fleiri hundruð ferkílómetra ofanjarðar undir bílastæði nýs hátæknisjúkrahúss?? Ég öskra eftir heildaryfirsýn þessara blessuðu stjórnmálamanna. Ég kýs ekki í þessum blessuðu borgarstjórnarkosningum nema ég fái svar við því.

Guð í verkfall

Sjúklega fyndin frétt á Baggalút sem ég pikkaði upp hjá Simma:)

Það er eitt málefni ofarlega í huga mínum, nú þegar hallar á seinni hlutann á þessu verknámi. Það er málefni líknardeilda. Það er málaflokkur sem mér finnst að líknarfélög megi fara að huga að. Það eru endalausar safnanir fyrir Barnaspítalann sem er best búna eining LSH, sem er alveg jákvætt útaf fyrir sig. Farsinn í kringum hágæsluherbergið eftir þennan hroðalega Kompásþátt var samt næstum því hlægilegur. Þegar Jóhannes í Bónus beitti 1. Brellu í handbók stjórnmálamannsins. Kæfa neikvæða athygli með jákvæðri.
En snúum okkur þá aftur að líknardeildum. Mér finnst það algjörlega óforsvaranlegt að fólk með lokastigssjúkdóma sé að deyja á bráðadeildum á spítalanum. Það á enginn að þurfa að eyða síðustu andartökunum inni á yfirfullri deild þar sem fólk liggur á göngunum, allt starfsfólkið á harðaspani við að komast yfir dagleg verk og 10-12 læknar ganga stofugang í halarófu. Og nú er ég ekki að segja að deyjandi fólk fái ekki góða þjónustu. Það fær bestu mögulegu þjónustu sem hægt er að veita inni á yfirfullri bráðadeild af fárveiku fólki. Ef þetta væri einhver mér nákominn þá myndi ég ekki vilja láta hann deyja við þessar aðstæður. Ég myndi vilja hafa hann á líknardeild þar sem veitt er fagleg og sérhæfð þjónusta við að auðvelda ferðina að hinu óumflýjanlega. Ekki bara fyrir hinn deyjandi heldur líka fyrir ættingjana. Ég hef átt mín kynni af líknardeildinni og það er yndislegur staður. Mitt í allri sorginni og ömurlegheitunum þá er friðurinn og kærleikurinn á líknardeildinni ómetanlegur.
Það kemst einhvern vegin ekki í tísku að safna pening fyrir málefni sem snýr að dauðanum. Getum við ekki breytt því?

sunnudagur, maí 07, 2006

Lestrargleði


Það var ekkert vit í öðru en að drífa sig út af Barónsstígnum í dag.


Ákaflega glaður og hress hópur


Hildur með ákaflega pro pósur



Heiðrún hélt snilldarfyrirlestur um DIC.

Ohhh það var bara svo mikil snilld að drulla sér út í staðinn fyrir að morkna inni. Svo fengum við skilaboð í bréfaskutlu út um gluggann þar sem við vorum beðnar um að fækka fötum. Sem og við gerðum náttúrulega. En ég tók engar myndir af því.

laugardagur, maí 06, 2006

Staðin að lygum

Mér var bent góðfúslega á það í kvöld að ég laug til um heilan dag í lestur fyrir kirugiuprófið. Þeir eru víst fjórir sem ég hef. Ekki fimm. Ennþá betra. Langaði bara að bæta því við ef það er einhver þarna úti sem langar til að vorkenna mér. Reyndar orðaði Dr. Swing þetta snilldarlega um daginn þegar hann sagði: Þið þurfið ekkert að vorkenna mér. Ég vorkenni mér alveg nóg sjálfur. Já það er ekki laust við að mér líði þannig.

Það bregst ekki

að mér finnst balknesku lögin alltaf best. Hver man ekki eftir hinu ógleymanlega Les Voyagers með Dino og Beatrice 1999. Snilld.

föstudagur, maí 05, 2006

Í fréttum er þetta helst

Það er ekkert að frétta! Próflestur-verknám-próflestur-verknám-próflestur-verknám. Svör mín við öllum spurningum þessa dagana er: "ég get það ekki, ég er að lesa undir próf." Fólk sýnir því fullan skilning, en svo vill það vita hvenær ég er að fara í próf. Þegar svarið er 18. maí, renna tvær grímur á fólk. Þá fer fólk að efast um gæði fjarvistarsönnunnar minnar og telur hana fyrirslátt. Sannleikurinn er hins vegar sá að við erum í verknámi inni á deildum 8-16 til 17. maí og svo mætum við hress í verklegt próf 18. maí. Ég tilheyri reyndar lánsamari helming bekkjarins. Við klárum verknámið 17. maí eða hálfum dag fyrir prófið. Hinn helmingurinn fékk bara frí til að mæta í verklega prófið. Svo ég vitni nú orðrétt í meilið sem við fengum sent: Forsvarsmenn kirurgiuprógramms hafa gefið leyfi fyrir 2 1/2 tíma fjarveru á meðan þið takið prófið. Þið eruð í námi á spítalanum fyrir utan þann tíma. Við fengum náttúrulega óstöðvandi hláturskast þegar við lásum þetta á Barónstígnum. Þetta er náttúrulega ekki í lagi. Að loknu verklega prófinu fæ ég svo nákvæmlega 7 daga til að lesa undir próf sem 6. árið fékk 2 mánuði+ til að lesa undir. Við erum náttúrlega ekki að fara í "sama próf" og 6. árið. Ég nenni ekki að lenda í rifrildi um þetta á morgun við fólk sem viðkvæmt fyrir því að 4. árið sé í 6. árs prógrammi. Svoleiðis að við erum ekki að fara í "sama próf". Við fengum reyndar alla sömu fyrirlestranna og 6. árið og fæstir fyrirlesaranna nenntu að hafa fyrir því að breyta fyrirsögninni úr fyrirlestur fyrir 6. ár í fyrirlestur fyrir 4. ár. En þeir munu náttúrulega án efa setjast niður og semja allt öðru vísi spurningar upp úr sömu fyrirlestrunum fyrir okkur á 4. ári. Einmitt. Bara nokkrum dögum eftir að þeir lögðu próf fyrir 6. ár. Einmitt. Menn sem nenna ekki að breyta fyrirlestrunum sínum ár eftir ár. Einmitt. Og svo eru heilir 5 dagar fyrir munnlegt kirugiupróf 31. maí. Hver þarf meira en 5 daga til að renna yfir bæklunarlækningar, hjarta og lungnaskurðlækningar, æðaskurðlækningar, heila og taugaskurðlækningar, þvagfæraskurðlækningar, almennar skurðlækningar og slysalækningar?? Ekki ég að minnsta kosti.
Jákvæð staðhæfing: Ég hef drullu nógan tíma til að lesa undir þessi próf. Of mikill lestur er fyrir aumingja!!

þriðjudagur, maí 02, 2006

Hressandi

Ég handtók klámstjörnu af því að ég er á sýru.